Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.4. bls. 23-27
  • Öldungar — meðhöndlið hjörð Guðs mildilega

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Öldungar — meðhöndlið hjörð Guðs mildilega
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Drottnið ekki yfir hjörðinni
  • Öldungar sem hjálpa og uppbyggja
  • Með réttlæti og réttvísi
  • Haltu áfram að sýna umhyggju og ástúð
  • „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Öldungar, dæmið með réttvísi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Hirðar, líkið eftir hirðunum miklu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Hlýðið þeim sem með forystuna fara
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.4. bls. 23-27

Öldungar — meðhöndlið hjörð Guðs mildilega

„Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 2:7.

1. Hvers vegna getur sérhver drottinhollur vottur Jehóva fundið til öryggiskenndar?

JEHÓVA er hirðirinn mikli. Hann gefur sauðumlíkum þjónum sínum allt sem þeir þurfa og leiðir þá „um rétta vegu“ sakir síns heilaga nafns. Þeir sem gera vilja hans óttast því ekkert illt og geta leitað hughreystingar hjá sínum líknsama Guði. Sérhver drottinhollur vottur Jehóva hefur fulla ástæðu til að finnast hann öruggur undir verndarhendi Guðs. — Sálmur 23:1-4.

2. Hvernig endurspeglar Jesús dýrð Guðs?

2 Jesús Kristur er „ljómi dýrðar [Guðs] og ímynd veru hans.“ (Hebreabréfið 1:1-4) Jesús, góði hirðirinn, lætur einnig í ljós kærleika og hluttekningu. (Jóhannes 10:14, 15) Einhverju sinni, til dæmis, „sá hann mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.“ — Markús 6:34.

3. (a) Hvaða eiginleika ættu kristnir undirhirðar að láta í ljós, líkt og Jehóva Guð og Jesús Kristur? (b) Hvaða heilræði og aðvaranir gaf Páll postuli umsjónarmönnum?

3 Allir kristnir menn ættu að ‚líkja eftir Guði og lifa í kærleika eins og Kristur elskaði þá.“ (Efesusbréfið 5:1, 2) Þeir ættu því að vera kærleiksríkir og hluttekningarsamir. Einkum ættu undirhirðar hjarðar Guðs að gæta þess. Páll postuli sagði: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði. Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ — Postulasagan 20:28-30.

4. (a) Hvernig fór með tíð og tíma, í samræmi við aðvörun Páls í Postulasögunni 20:29, 30? (b) Hvaða spurningar verða nú skoðaðar?

4 Þegar fram liðu stundir komu fram „skæðir vargar“ í mynd fráhvarfsmanna og ‚þyrmdu ekki hjörðinni.‘ En það er okkur mikið gleðiefni að öldungar meðal votta Jehóva iðka ekki slíka harðstjórn! Hver konar meðferðar geta söfnuðirnir vænst að fá hjá þeim sem heilagur andi hefur útnefnt umsjónarmenn? Hvernig geta öldungarnir sýnt að þeir beri kærleiksríka umhyggju fyrir sauðum Jehóva?

Drottnið ekki yfir hjörðinni

5. (a) Hvernig fara veraldlegir leiðtogar oft með þegna sína? (b) Hvernig sýndi Jesús fram á að harðstjórn eigi ekki heima meðal fylgjenda hans?

5 Við getum réttilega ætlast til þess að kristnir öldungar séu kærleiksríkir í framkomu við okkur. Þeir eru ekki eins og veraldlegir valdhafar sem drottna oft með harðri hendi yfir þegnum sínum. Til dæmis er sagt um Karl mikla konung Franka (sem ríkti á árunum 768-814) að hann hafi „þvingað Saxa til að taka skírn, eða týna lífi ella, dæmt þá sem ekki héldu föstuna til harðrar refsingar og alltaf beitt valdi en ekki fortölum.“ (The History of the Christian Church eftir William Jones) Harðstjórn á hvergi heima meðal fylgjenda Jesú því hann sagði: „Þér vitið, að þeir, sem ráða yfir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ — Matteus 20:25-28.

6. (a) Hvaða undirstöðuatriði skera sig úr í kröfunum til öldunga? (b) Hvers getur söfnuðurinn réttilega vænst af öldungum og hvernig ættu þeir að líta á sjálfa sig?

6 Kristinn maður, sem ‚sækist eftir umsjónarmannsstarfi, girnist fagurt hlutverk.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:1) Í ljósi þess og með tilliti til heilræða Jesú, sem vitnað var í hér á undan, skera eftirfarandi meginatriði sig úr: (1) Kristinn öldungur má ekki kúga aðra, (2) þeir sem bera ábyrgð meðal fylgjenda Jesú verða að vera þjónar þeirra, ekki húsbændur og (3) þeir sem sækjast eftir starfi umsjónarmanns ættu að líta á það sem „fagurt hlutverk,“ ekki stöðu og upphefð. (Orðskviðirnir 25:27; 1. Korintubréf 1:31) Orðið „öldungur“ upphefur engan mann yfir aðra tilbiðjendur Jehóva. Þess í stað hefur söfnuðurinn ástæðu til að vænta þess að allir öldungar séu andlega þroskaðir, reyndir og auðmjúkir menn sem taka forystuna í hinni heilögu þjónustu. Öldungarnir eiga því að líta á sig sem auðmjúka þjóna Jehóva Guðs, Jesú Krists og trúbræðra sinna. — Rómverjabréfið 12:11; Galatabréfið 5:13; Kólossubréfið 3:24.

7. (a) Hvernig ættu öldungarnir að fylgja 2. Korintubréfi 1:24 í samskiptum sínum við aðra? (b) Hvað ættu öldungarnir að gera er þeir fá leiðbeiningar frá hinu stjórnandi ráði?

7 Auðmjúk þjónusta í þágu annarra kemur að sjálfsögðu í veg fyrir að öldungur reyni að „drottna“ yfir þeim. Það er gott þegar umsjónarmenn okkar láta í ljós sama viðhorf og Páll! Hann sagði kristnum mönnum í Korintu: ‚Við drottnum ekki yfir trú ykkar heldur erum samverkamenn að gleði ykkar.‘ (2. Korintubréf 1:24) Þeir sem fara með kærleiksríka umsjón íþyngja ekki trúbræðrum sínum með óþörfum mannasetningum. Umsjónarmenn meðal votta Jehóva láta þess í stað stjórnast af meginreglum Biblíunnar og veita hjálp af kærleika og vinsemd. Þeir bera einnig djúpa umhyggju fyrir hjörð Guðs með því að framfylgja skjótlega þeim leiðbeiningum sem þeir fá frá stjórnandi ráði votta Jehóva. — Postulasagan 15. kafli.

8. Hver voru viðhorf Páls til trúbræðra sinna og hvernig ætti þetta að hafa áhrif á öldunga nútímans?

8 Vegna þess hve Páli var innilega annt um hjörð Guðs gat hann sagt kristnum mönnum í Þessaloníku: „Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8) Páll kom fram við söfnuðinn eins og móðir við brjóstabarn sem elskar það svo heitt að hún lætur hag þess ganga fyrir sínum eigin og sýnir því blíðu og umhyggju. Þetta fordæmi ætti að hvetja öldunga okkar tíma til að meðhöndla hjörð Guðs mildilega.

Öldungar sem hjálpa og uppbyggja

9. Hvaða aðstæður nútímaþjóna Jehóva voru sagðar fyrir í Jesaja 32:1, 2?

9 Jesaja horfði fram til okkar tíma er Jesús Kristur stjórnar í ríki sínu og sagði fyrir að konungur myndi ‚ríkja með réttlæti og höfðingjar stjórna með réttvísi.‘ Öldungar í guðræðisskipulagi okkar tíma gæta því hagsmuna hins stofnsetta ríkis á himnum sem er sannarlega höfðingleg þjónusta. Orð Jesaja í framhaldinu eiga við þessa menn: „Þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ — Jesaja 32:1, 2.

10. Að hverju ættu öldungar meðal votta Jehóva að stuðla?

10 Ólíkt kúgunargjörnum trúarleiðtogum kristna heimsins eru öldungar meðal votta Jehóva bræðrum sínum til hjálpar og uppbyggingar. Sem öldungaráð stuðla þeir að friði, ró og öryggi meðal þjóna Jehóva. Hver einstakur öldungur getur stuðlað að því með því að koma mildilega fram við hjörð Guðs.

Með réttlæti og réttvísi

11. (a) Hvaða ástand, sem ríkti meðal kristinna manna á fyrstu öld, ríkir einnig í flestum söfnuðum votta Jehóva nú á tímum? (b) Hver er ábyrgð umsjónarmanna gagnvart söfnuðinum og hvers vegna?

11 Enda þótt vandamál hafi komið upp í sumum kristnu safnaðanna á fyrstu öld ríkti almennt talað friður, eining og gleði í þeim. (1. Korintubréf 1:10-12; 3:5-9; Efesusbréfið 1:2; Jakobsbréfið 2:1-9; 3:2-12; 4:11, 12; 1. Jóhannesarbréf 1:3, 4) Gott andlegt ástand ríkir einnig í flestum söfnuðum votta Jehóva nú á dögum vegna blessunar Guðs, forystu Krists og trúfastrar þjónustu hinna útnefndu öldunga. Til að tryggja frið safnaðarins, einingu og gleði leita þessir menn hjálpar Guðs og leggja sig fram um að halda skipulagi Guðs hreinu, bæði siðferðilega og andlega. (Jesaja 52:11) Óhreint skipulag gæti aldrei verið friðsamt eða gleðiríkt og það myndi tvímælalaust ekki hafa velþóknun Guðs og blessun. Augu Guðs „eru of hrein til að líta hið illa,“ til að umbera ranga breytni. (Habakkuk 1:13) Öldungar þurfa því meðal annars að taka heiðarlega og biblíulega á því ef einhver gerist sekur um ranga breytni. En hvers þarf að gæta þegar fjallað er um slík mál?

12. Hvað þurfa öldungar að gera í ljósi Galatabréfsins 6:1, þótt ekki sé til þess ætlast að þeir blandi sér í persónuleg ágreiningsmál?

12 Í fyrsta lagi er oft hægt að leysa persónuleg ágreiningsatriði í einrúmi. (Matteus 18:15-17) Þar eð öldungar ‚drottna ekki yfir trú okkar‘ er ekki ætlast til þess að þeir blandi sér í persónuleg mál sem fela ekki í sér alvarleg brot á lögum eða meginreglum Biblíunnar. Ef ætla má að einhver hafi óafvitandi stigið víxlspor ættu þeir sem andlegir eru auðvitað að ‚leiðrétta þann mann með hógværð.‘ — Galatabréfið 6:1.

13. Hvernig kemur fram í Ritningunni að öldungum ber að fara eftir sönnunargögnum um ranga breytni, ekki aðeins hviksögum?

13 Öldungar eiga að þjóna „með réttvísi“ og alltaf vera óhlutdrægir. Þeir eiga því að byggja á sönnunum fyrir rangri breytni, ekki aðeins hviksögum. Páll ráðlagði: „Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri.“ (1. Tímóteusarbréf 5:19) Samkvæmt staðli Jehóva átti að lífláta þann mann í Forn-Ísrael, sem sakaður var um dauðasynd, ‚eftir framburði tveggja eða þriggja vitna, ekki eins vitnis.‘ Hinn ákærði hafði auk þess tækifæri til að standa frammi fyrir ákærendum sínum, og væru sönnunargögnin fullnægjandi áttu ‚vitnin fyrst að reiða hönd gegn honum til þess að deyða hann.‘ — 5. Mósebók 17:6, 7.

14. (a) Hvað reyndi Díótrefes að gera? (b) Til hvers ætlast Guð af öldungum þegar þeir fjalla um dómsmál?

14 Sérhver dómsúrskurður þarf að byggjast á traustum, biblíulegum grunni. Við getum glaðst yfir því að öldungar safnaðarins eru ekki eins og hinn rembiláti Díótrefes á fyrstu öld okkar tímatals. Hann reyndi á röngum forsendum að ‚reka úr söfnuðinum‘ þá sem vildu sýna gestkomandi bræðrum gestrisni. Jóhannes postuli leit ekki mildum augum á þetta ranga verk eða önnur heldur aðvaraði: „Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur.“ (3. Jóhannesarbréf 9, 10) Dómnefndir nú á tímum verða því að ganga úr skugga um að það sé á biblíulegum rökum reist ef gripið er til brottrekstrar.a Að sjálfsögðu ætlast Guð til þess að kristnir öldungar sýni réttvísi í samskiptum við aðra. Þeir sem fara með forystuna í skipulagi Jehóva á jörð verða að vera ‚dugandi menn, guðhræddir og áreiðanlegir.‘ — 2. Mósebók 18:21.

15. Hvert er hlutverk bænarinnar á dómnefndarfundum?

15 Sérhver dómnefnd innan kristna safnaðarins ætti að leita leiðsagnar Jehóva í einlægri bæn. Fundur með bróður eða systur, sem sökuð er um alvarlega rangsleitni, ætti að hefjast með bæn. Reyndar væri rétt að biðja til Jehóva hvenær sem er á fundinum ef sérstök ástæða er til að leita hjálpar Guðs. — Jakobsbréfið 5:13-18.

16. Hvernig ber öldungum að stýra dómnefndarfundum og hvers vegna?

16 Öldungarnir vita að trúbræður þeirra, sem sakaðir eru um rangsleitni, eru „sauðir“ í hjörð Guðs og ber því að sýna þeim mildi. (Samanber Esekíel 34:7-14.) Bókstaflegir sauðir í Miðausturlöndum þörfnuðust umhyggjusamrar gæslu hirðisins og verndar. Hvað þá um hina táknrænu sauði í söfnuðinum? Þeir finna vafalaust til öryggis undir verndarhendi hirðisins mikla, Jehóva Guðs, og góða hirðisins, Jesú Krists. En undirhirðar hjarðarinnar verða að haga sér þannig að þeir stuðli að innri friði og öryggiskennd hinna sauðumlíku þjóna Jehóva. Finna bræður og systur í þinni umsjón til öryggiskenndar og rósemi? Öldungar verða að vísu að standa vörð um lög Biblíunnar og meginreglur en Ritningin gerir þá kröfu til þeirra að þeir sýni sauðunum umhyggju og stýri dómnefndarfundum með ró, vinsemd og tillitssemi.

17. Hvaða biblíuleg atriði ættu öldungar að hafa í huga, einkanlega á dómnefndarfundum?

17 Við erum öll ófullkomin og ‚hrösum margvíslega‘ í því sem við segjum. (Jakobsbréfið 3:2) Eitt og sérhvert okkar þarfnast miskunnar Guðs og ‚friðþægingarfórnar‘ Krists. (1. Jóhannesarbréf 1:8-2:2; Sálmur 130:3) Kristinn undirhirðir ætti því að vera auðmjúkur í viðhorfum til sjálfs sín. Hann ætti alltaf að hafa í huga orð Jesú: „Svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.“ (Lúkas 6:31) Þessum leiðbeiningum ætti að fylgja ekki síst á fundum dómnefnda. Andlega hæfir karlmenn ættu að reyna að leiðrétta villuráfandi kristinn mann ‚með hógværð og hafa gát á sjálfum sér að þeir freistist ekki líka.‘ — Galatabréfið 6:1; 1. Korintubréf 10:12.

18. (a) Hvaða afleiðingar gæti það haft ef öldungar væru hranalegir við aðra á dómnefndarfundum? (b) Hvað ber öldungum og öðrum kristnum mönnum að varast með hliðsjón af Markúsi 9:42?

18 Ef öldungarnir væru hranalegir við aðra á dómnefndarfundum gæti það verið slíkum einstaklingum til tjóns. En jafnvel þótt það yrði ekki til tilfinningalegs eða líkamlegs tjóns myndi það vera til mikils andlegs tjóns, auk þess sem hægt væri að draga í efa hæfni umsjónarmannanna. (Samanber Jakobsbréfið 2:13.) Öldungarnir ættu því alltaf, bæði á dómnefndarfundum og við önnur tækifæri, að gæta þess að hneyksla ekki aðra. Að sjálfsögðu þurfa allir kristnir menn að sýna aðgát í þessu efni því að Jesús sagði: „Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.“ (Markús 9:42) Efri myllusteinninn gat verið svo stór að dráttardýr þyrfti til að snúa honum, og sá sem kastað var í sjóinn með slíkan þunga um hálsinn var dauðadæmdur. Öldungur ætti því að gæta þess vandlega að hneyksla ekki aðra. Það gæti orðið honum og hverjum þeim einstaklingi, sem hneykslaðist, til varanlegs, andlegs tjóns. — Filippíbréfið 1:9-11.

Haltu áfram að sýna umhyggju og ástúð

19. Hvaða leiðbeiningar gaf Pétur samöldungum sínum og hvaða áhrif hefur það á framtíðarhorfur þeirra að fylgja þeim?

19 Pétur postuli benti á hvernig umsjónarmenn ættu að gæta hjarðarinnar er hann skrifaði: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar.“ (1. Pétursbréf 5:2-4) Einungis með því að fylgja slíkum ráðum og meðhöndla hjörð Guðs mildilega geta smurðir umsjónarmenn hlotið hin himnesku laun sem ódauðlegar andaverur, og öldungar með jarðneska von hlotið eilíft líf í hinni komandi paradís um alla jörðina.

20. (a) Hvernig verða kristnir undirhirðar að koma fram við trúbræður sína? (b) Hvað finnst þér um fordæmi og þjónustu kærleiksríkra öldunga?

20 Bæði Jehóva Guð og Jesús Kristur eru ástríkir, umhyggjusamir hirðar. Samhliða því að kristnir undirhirðar verða að standa vörð um staðla Guðs verða þeir að sýna kærleika og hluttekningu í samskiptum við sauðumlíka trúbræður sína. Allir drottinhollir vottar Jehóva meta mikils fordæmi og fórnfýsi öldunga sem gæta þess sem þeim er trúað fyrir og meðhöndla hjörð Guðs mildilega. Hægt er að sýna þakklæti sitt og tilhlýðilega virðingu með því að vera hlýðnir þeim sem með forystuna fara á meðal okkar.

[Neðanmáls]

a Sá sem dæmdur er brottrækur úr söfnuðinum getur áfrýjað þeim úrskurði ef hann telur um alvarleg mistök í dómi að ræða.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig sýndi Jesús fram á að harðstjórn ætti ekki heima meðal fylgjenda hans?

◻ Hvað ættu öldungar að gera er þeim berast fyrirmæli frá hinu stjórnandi ráði?

◻ Hvernig ættu öldungar að þjóna bræðrum sínum í samræmi við Jesaja 32:1, 2?

◻ Hvernig kemur fram í Ritningunni að öldungar megi ekki byggja á hviksögum einum?

◻ Hvernig ættu kristnir undirhirðar að meðhöndla hjörð Guðs?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Innileg bæn er nauðsynleg þegar dómnefnd fundar með trúbróður sínum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila