-
‚Fyrst á að prédika fagnaðarerindið‘Varðturninn – 1988 | 1. mars
-
-
Prédika á fagnaðarerindið nú á tímum
7. Hvað sagði Jesús um prédikunarstarf við ‚endalok veraldar‘?
7 Í spádómi sínum um atburði, sem ættu að gerast ‚við endalok veraldar,‘ sagði Jesús: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:3, 14) Eða, eins og segir í Markúsi 13:10: „En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ — Sjá einnig Opinberunarbókina 14:6, 7.
8. (a) Hvað fólst í fagnaðarerindinu á dögum postulanna? (b) Hvað felst í fagnaðarboðskapnum nú á tímum?
8 Á „síðustu dögum“ felur fagnaðarerindið um ríkið meira í sér en þegar Jesús var á jörðinni. Jesús prédikaði að Guðsríki væri í nánd og beindi athyglinni að því að hann, Messías og konungurinn, væri á meðal manna. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Matteus 4:17; Lúkas 17:21) Fagnaðarerindið, sem frumkristnir menn prédikuðu, fól meðal annars í sér upprisu Jesú og uppstigningu til himna, og það hvatti auðmjúka menn til að setja trú sína á hið komandi Guðsríki. (Postulasagan 2:22-24, 32; 3:19-21; 17:2, 3; 26:23; 28:23, 31) Núna, þegar komið er fram á ‚endalok veraldar,‘ felst í prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki sá boðskapur að Guðsríki sé stofnsett á himnum. — Opinberunarbókin 11:15-18; 12:10.
Hverjir prédika fagnaðarerindið?
9. (a) Hvaða rök færa sumir fyrir þeirri skoðun að kristnum nútímamönnum sé ekki öllum skylt að prédika fagnaðarerindið? (b) Hverja notaði Jehóva forðum daga til að prédika orð sitt og hvað þýðir það fyrir okkur núna?
9 Hverjir ættu nú á tímum að taka þátt í prédikunarstarfinu? Bersýnilega telur kristni heimurinn það ekki skyldu sérhvers manns, og reyndar lét Jesús þess ekki getið hverjir ættu að vinna verkið þegar hann sagði að fagnaðarerindið yrði prédikað. En hverja aðra ætti Jehóva að nota til slíks starfs en þá sem hafa sett trú sína á orð hans og byrjað að fylgja því í lífi sínu? Þegar Jehóva ákvað á dögum Nóa að vara hinn illa mannheim við yfirvofandi tortímingu notaði hann til þess mann sem „gekk með Guði.“ (1. Mósebók 6:9, 13, 14; 2. Pétursbréf 2:5) Þegar hann þurfti að senda Ísraelsþjóðinni spádómsboðskap sendi hann til hennar ‚þjóna sína,‘ spámennina. (Jeremía 7:25; Amos 3:7, 8) Hin vígða Ísraelsþjóð var þjóð votta hans. (2. Mósebók 19:5, 6; Jesaja 43:10-12) Já, Jehóva notar vígða þjóna sína sem votta.
10. Hvernig má sjá af orðalagi Matteusar 28:19, 20 að boðið um að gera menn að lærisveinum nær til allra kristinna manna?
10 Sumir halda því fram að boðið um að gera menn að lærisveinum, gefið í Matteusi 28:19, 20, hafi aðeins verið gefið postulunum og eigi því ekki við kristna menn í heild. En taktu eftir hvað Jesús sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ Fylgjendur Jesú áttu að kenna nýjum lærisveinum að halda allt sem Jesús hafði boðið. Og eitt af því sem hann bauð var að þeir skyldu ‚fara og gera menn að lærisveinum.‘ Því átti að kenna öllum nýjum lærisveinum að halda þetta sérstaka boð líka.
11. (a) Hvaða skyldukvöð hvíldi á kristna söfnuðinum á fyrstu öld? (b) Hvað er nauðsynlegt til að bjargast og hvað felur það í sér?
11 Kristni söfnuður fyrstu aldar var kallaður ‚eignarlýður Guðs er skyldi víðfrægja dáðir hans sem kallaði hann frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.‘ (1. Pétursbréf 2:9) Þeir sem mynduðu söfnuðinn báru kostgæfir vitni um ríki Guðs. (Postulasagan 8:4, 12) Öllum ‚hinum heilögu‘ í Róm, smurðum kristnum mönnum, var sagt að ‚með munninum væri játað til hjálpræðis‘ og að ‚hver sem ákallaði nafn Jehóva myndi hólpinn verða.‘ (Rómverjabréfið 1:7; 10:9, 10, 13) Þessi opinbera játning til hjálpræðis, gerð við skírnina, tekur einnig til opinberrar prédikunar fagnaðarerindisins um ríki Jehóva.
12, 13. (a) Hvað felst í ‚játningu vonar okkar‘ sem nefnd er í Hebreabréfinu 10:23? (b) Hvernig sýnir Sálmur 96 fram á að nauðsynlegt sé að prédika opinberlega utan safnaðarins og hvernig styður Opinberunarbókin 7:9, 10 það?
12 Páll postuli skrifaði kristnum Hebreum: „Höldum fast við játningu vonar vorrar, án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.“ (Hebreabréfið 10:23) Þessi opinbera játning takmarkast ekki við samkomur safnaðarins. (Sálmur 40:10, 11) Í Sálmi 96:2, 3, 10 sjáum við greinilega spádómlegt boð um að prédika utan safnaðarins, meðal þjóðanna. Þar segir: „Kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag. Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða. Segið meðal þjóðanna: [Jehóva] er konungur orðinn!“ Sannarlega var Jesús í Matteusi 28:19, 20 og Postulasögunni 1:8 að bjóða kristnum mönnum að prédika fyrir þjóðunum.
13 Páll postuli minnist á þessa opinberu prédikun í bréfi sínu til smurðra, kristinna Hebrea: „Með hjálp Jesú munum við enn bera lofgjörðarfórn fram fyrir Guð með því að játa nafn hans meðal fólksins.“ (Hebreabréfið 13:15, Lifandi orð) Í Opinberunarbókinni er lýst ‚miklum múgi‘ af öllum þjóðum sem hrópar hárri röddu: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10) Núna við endalok heimskerfisins prédika vígðir vottar Jehóva fagnaðarerindið, bæði leifar hinna andlegu bræðra Krists og sauðumlíkir félagar þeirra sem mynda ‚mikinn múg.‘ En hvernig ættu þeir að bera sig að við þetta starf?
„Opinberlega og í heimahúsum“
14. Hvar prédikaði Jesús og hvað má læra af því?
14 Jesús prédikaði beint fyrir fólkinu. Við lesum til dæmis að hann hafi prédikað í samkunduhúsunum. Hvers vegna þar? Vegna þess að þar kom fólk saman á hvíldardeginum og hlýddi á upplestur úr Ritningunni og umræður um hana. (Matteus 4:23; Lúkas 4:15-21) Jesús prédikaði líka fyrir fólki við veginn, við vatnið, í fjallshlíðinni, við brunn utan borgarinnar og inni á heimilum manna. Jesús prédikaði fyrir fólki hvar sem það var að finna. — Matteus 5:1, 2; Markús 1:29-34; 2:1-4, 13; 3:19; 4:1, 2; Lúkas 5:1-3; 9:57-60; Jóhannes 4:4-26.
15. (a) Hvaða fyrirmæli gaf Jesús lærisveinum sínum þegar hann sendi þá út að prédika? (b) Hvernig hafa sumir biblíuskýrendur útskýrt þau?
15 Þegar Jesús sendi lærisveina sína út til að prédika sendi hann þá beint til fólksins. Það má sjá af fyrirmælum hans í Matteusi 10:1-15, 40-42. Í 11. versi sagði hann: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. Jerúsalem-biblían orðar versið þannig: „Spyrjið um einhvern sem hægt er að treysta,“ rétt eins og lærisveinarnir ættu að biðja einhvern framámann eða einhvern sem væri vel að sér í þorpinu að kanna hver hefði gott orð á sér og væri þar með verður boðskaparins. (Sjá einnig Weymouth og King James Version.) Og þetta er skýringin sem sumir biblíuskýrendur gefa á 11. versi.
16. Hvað sýnir málefnalegri athugun á orðum Jesú í Matteusi 10:11 um það hvernig postularnir ættu að leita uppi verðuga einstaklinga?
16 Þó ber að hafa í huga að guðfræðingar kristna heimsins prédika fæstir hús úr húsi og margir biblíuskýrendur hafa tilhneigingu til að túlka Ritninguna í samhengi við sína eigin lífsreynslu. Hlutlægari athugun á fyrirmælum Jesú skilar þeirri niðurstöðu að hann hafi verið að tala um að lærisveinar hans skyldu leita menn uppi, einn og einn, annaðhvort hús úr húsi eða opinberlega, og kynna fyrir þeim boðskapinn um Guðsríki. (Matteus 10:7) Viðbrögð þeirra gæfu síðan til kynna hvort þeir væru verðugir eða ekki. — Matteus 10:12-15.
17. Hvað sannar að lærisveinar Jesú áttu ekki bara að heimsækja verðuga menn eftir ábendingum eða pöntun?
17 Þetta má sjá af orðum Jesú í Matteusi 10:14: „Taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.“ Jesús var að tala um það að lærisveinar hans færu óboðnir til fólks til að prédika fyrir því. Þeir myndu að vísu einnig þiggja húsaskjól á þeim heimilum þar sem tekið yrði við boðskapnum. (Matteus 10:11) Aðalatriðið var þó prédikunarstarfið. Í Lúkasi 9:6 segir: „Þeir lögðu af stað og fóru um þorpin, fluttu fagnaðarerindið og læknuðu hvarvetna.“ (Sjá einnig Lúkas 10:8, 9.) Verðugir einstaklingar, sem buðu lærisveinunum inn á heimili sín sem spámönnum, og gáfu þeim ef til vill „svaladrykk“ eða jafnvel húsaskjól, myndu ekki fara á mis við laun sín. Þeir myndu heyra boðskapinn um Guðsríki. — Matteus 10:40-42.
18, 19. (a) Hvernig báru frumkristnir menn sig að við prédikunarstarfið samkvæmt Postulasögunni 5:42? (b) Hvernig sýna orð Páls í Postulasögunni 20:20, 21 að hann var að tala um prédikun fyrir þeim sem ekki trúðu, ekki hirðastarf innan safnaðarins?
18 Eftir að kristni söfnuðurinn var stofnsettur lesum við um postulana: „Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ (Postulasagan 5:42) Það eru grísku orðin kat oikon sem hér eru þýdd „í heimahúsum.“ Orðið kata stendur hér í dreifimerkingu og því mætti segja að lærisveinarnir hafi verið að prédika dreift hús úr húsi. Þeir fóru ekki bara í fyrirfram ákveðnar heimsóknir. Orðið kata er notað með svipuðum hætti í Lúkasi 8:1 þar sem talað er um „borg úr borg og þorp úr þorpi.“
19 Páll postuli notaði sama orðatiltæki í fleirtölu, kat oikous, í Postulasögunni 20:20. Þar sagði hann: „Ég dró ekkert undan . . . heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum.“ Sumir biblíuskýrendur kristna heimsins túlka þessi orð svo að Páll hafi verið að tala um hirðisheimsóknir til þeirra sem voru í trúnni, og biblíuþýðingar þeirra bera þess oft merki. En í næstu málsgrein kemur fram hjá Páli að hann var að tala um boðun trúarinnar til þeirra sem ekki voru í trúnni, því að hann segir: „Og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.“ — Postulasagan 20:21.
20. (a) Í hvaða mæli hafa vottar Jehóva prédikað fagnaðarerindið um ríkið á okkar tímum? (b) Hvernig kunna sumir að líta á það að halda áfram prédikuninni?
20 Því ætti að nota þessa aðferð til að ná til fólks nú á tímum þegar prédika þarf ‚fagnaðarerindið um ríkið‘ um „alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14) Í meira en 65 ár hafa vottar Jehóva prédikað fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs opinberlega og hús úr húsi — núna í 210 löndum. Það er stórkostlegur vitnisburður sem veittur er, þrátt fyrir það að fæstir sýni einhver viðbrögð við boðskapnum og sumir bregðist jafnvel illa við. (Matteus 13:15) Hvers vegna halda vottar Jehóva áfram að prédika þar sem fólk neitar að hlusta eða jafnvel snýst gegn þeim? Þessi spurning verður tekin til athugunar í greininni sem fylgir.
-
-
Haltu áfram að prédika GuðsríkiVarðturninn – 1988 | 1. mars
-
-
Haltu áfram að prédika Guðsríki
„Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma. — MATTEUS 24:14.
1, 2. (a) Hvert er þýðingarmesta starf þessarar aldar og í hvaða mæli er það unnið? (b) Hvernig sjást merki þess að Jehóva blessi það?
PRÉDIKUN fagnaðarerindisins um Guðsríki er þýðingarmesta starf okkar aldar. Það er það sem hinn alvaldi Guð vill láta gera núna og það er gert til uppfyllingar á spádómsorði hans. Viðbrögð þín við því ráða eilífum örlögum þínum. — 1. Korintubréf 9:16, 23.
2 Það er hrífandi að sjá hversu þeim fjölgar sem eiga hlutdeild í þessu prédikunarstarfi. Núna eru yfir þrjár milljónir starfandi. Fleiri en nokkru sinni fyrr þjóna í fullu starfi. Fleira áhugasamt fólk þiggur biblíunám og leggur sig fram um að læra að gera vilja Guðs.
3. Hvað getur sumum fundist um nauðsyn þess að halda áfram að prédika fagnaðarerindið?
3 Stundum getur það þó gerst að einhverjir verði uppgefnir að „gjöra það sem gott er“ og „þreytist“ á prédikunarstarfinu. (Galatabréfið 6:9; Hebreabréfið 12:3) Þeir segja kannski að búið sé að prédika fagnaðarerindið rækilega á þeirra svæði og að fólk hafi tekið afstöðu og finnist nú heimsóknir vottanna til ama. Þeim finnst lítill sem enginn árangur af starfi þeirra sem prédika þar og telja kannski að starfið sé svo gott sem fullgert þar og þurfi ekki að halda áfram. Hvað er rangt við þennan hugsunarhátt?
Hvers vegna að halda áfram?
4. Hver ætti að vera hvöt okkar til að halda áfram að prédika, jafnvel á svæðum þar sem lítið er um jákvæð viðbrögð?
4 Í fyrsta lagi ætti trúfesti okkar og úthald í prédikunarstarfinu ekki að velta á því hvort fólk hlustar á okkur eða ekki. Jeremía prédikaði í 40 ár í Jerúsalem þótt fáir leggðu eyrun við og margir væru hatrammir mótstöðumenn hans. Hvers vegna hélt hann áfram? Vegna þess að hann var að vinna verk sem Jehóva hafði boðið honum og þekking hans á því, sem átti eftir að koma fyrir Jerúsalem, neyddi hann til að halda áfram að tala. (Jeremía 1:17-19) Hann sagði: „Þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.“ (Jeremía 20:7-10) Við erum í svipaðri aðstöðu. Það er Jehóva sem hefur fyrir milligöngu Jesú Krists fyrirskipað að ‚fagnaðarerindið‘ skuli prédikað allri heimsbyggðinni. (Matteus 24:14) Þegar fólk vill ekki hlusta gefur það okkur tækifæri til að sýna hve djúpt kærleikur okkar og hollusta við Jehóva ristir, með því að halda áfram að gera það sem rétt er. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Og hvað getur haldið aftur af okkur að reyna að aðvara náunga okkar þegar við hugleiðum hvað nánasta framtíð ber í skauti sér fyrir mannkynið? — 2. Tímóteusarbréf 4:2.
5. (a) Af hvaða annarri ástæðu ættum við að sýna úthald í prédikunarstarfinu? (b) Hvernig er prédikunarstarfið grundvöllur að dómi?
5 Auk þess var Jeremía með prédikun sinni í rauninni að boða dóm. Árið 607 f.o.t. gat enginn þeirra sem týndi lífi eða var hnepptur í þrælkun, þegar Jerúsalem féll, haldið því fram að hann vissi ekki hvers vegna þetta kæmi yfir hann. Í 40 ár hafði Jeremía varað þá við að þannig myndi fara ef þeir héldu áfram uppreisn sinni gegn Jehóva. (Samanber Esekíel 2:5.) Eins er það nú að prédikun fagnaðarerindisins „til vitnisburðar öllum þjóðum“ er grundvöllur til að fullnægja dómi. Páll postuli sýnir greinilega fram á það þegar hann segir að Kristur Jesús muni láta hegningu koma yfir „þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn, Jesú.“ (2. Þessaloníkubréf 1:8, 9) Fólk verður dæmt eftir viðbrögðum sínum við fagnaðarerindinu. Prédikunarstarfið þarf því að halda áfram af fullum krafti allt til endalokanna. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Ekkert ætti að koma í veg fyrir að þessi lífsnauðsynlegi boðskapur sé borinn til manna eins oft og mögulegt er. Það leggur mikla ábyrgð á herðar vígðum þjónum Jehóva.
6. Hvers vegna þurfum við að halda áfram að prédika enda þótt boðskapur okkar sé víðkunnur?
6 Að vísu hefur fagnaðarerindið verið prédikað mjög rækilega sums staðar í heiminum. Hins vegar er svo margt að gerast í heiminum að jafnvel þótt margir hafi heyrt boðskap okkar myndu þeir fljótt gleyma honum ef við hættum að prédika. Hugsaðu um byltingarnar, hryðjuverkin, verkföllin, hneykslismálin og hina atburðina sem eru á hvers manns vörum. Og þá er að nefna hið margbreytilega skemmtanalíf og annað sem dregur að sér athygli fólks. Við verðum að halda áfram að prédika til að halda boðskap okkar fyrir sjónum manna, þrátt fyrir allt hitt sem dregur að sér athygli þeirra.
7. Hvað er líkt með viðbrögðum margra nútímamanna og Ísraelsmanna sem Jesaja spáði fyrir, en hvers vegna ætti það ekki að draga úr prédikun okkar?
7 Ef margir reyna að hunsa okkur ættum við að muna hvers konar fólki spámaðurinn Jesaja þurfti að prédika fyrir. Jehóva sagði honum: „Því að þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu [Jehóva]. Þau segja við sjáendur: ‚Þér skuluð eigi sjá sýnir,‘ og við vitranamenn: ‚Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar. Farið út af veginum, beygið út af brautinni, komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru.‘“ Þrátt fyrir það var Jesaja trúfastur og sagði þjóðinni: „Því að [Jehóva] er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.“ (Jesaja 30:9-11, 18) Við ættum að gera það líka. Svo lengi sem við höldum áfram mun boðskapur okkar hafa áhrif. Sumir munu fara eftir honum, aðrir ekki, en allir munu hafa tækifæri til að heyra.
„Hvernig eiga þeir að heyra?“
8. Hvað gæti breytt viðhorfum sumra sem virðast hafa tekið afstöðu gegn sannleikanum?
8 Vera má að okkur finnist að fólk á vissu starfssvæði hafi tekið skýra afstöðu og sé ráðið í að hafna boðskap okkar eða jafnvel að rísa gegn honum. En hafðu hugfast að kringumstæður fólks eru síbreytilegar. Það getur staðið frammi fyrir nýjum vandamálum og kringumstæðum á morgun, í næstu viku eða í næsta mánuði sem gerir það móttækilegt fyrir sannleikanum. Það heyrir kannski fregnir af uggvænlegum atburðum í heiminum, verður fyrir fjárhagstjóni, veikindum eða ástvinamissi. Slíkir atburðir geta vakið það og komið því til að vilja fræðast um ástæðuna fyrir erfiðleikum sínum. Ef við höldum áfram að prédika veit það hvert það á að snúa sér.
9. Hvernig má líkja prédikun okkar við starf hjálpar- og björgunarsveita þar sem náttúruhamfarir hafa orðið?
9 Við erum í líkri aðstöðu og björgunarmenn þar sem hamfarir hafa orðið, til dæmis jarðskjálfti. Sumir leita fólks á svæði þar sem fáir hafa lifað af hamfarirnar, en þrátt fyrir það að samstarfsmenn þeirra finni fleiri á lífi á öðrum stað slaka þeir ekki á leitinni eða gefast upp. Allir björgunarmenn vinna þrotlaust að því að leita að fólki, jafnvel þótt þeir telji ólíklegt að nokkur sé eftir á lífi á þeim skika þar sem þeim er ætlað að leita. En svo finna þeir stundum einhvern á lífi. Leitinni er ekki aflýst fyrr en öll von er talin úti um að nokkur sé eftir á lífi í rústunum. Leit okkar hefur enn ekki verið aflýst og við erum enn að finna þúsundir og aftur þúsundir manna sem vilja láta bjarga sér úr þessum gamla heimi og vilja lifa af ‚þrenginguna miklu.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 14) Jafnvel á svæðum, þar sem starfað hefur verið rækilega og fæstir eru móttækilegir, næst enn einhver árangur. Og ástæðurnar til að halda áfram að prédika eru fleiri.
10. Hver er eina leiðin til að fólk geti vitað hvert það eigi að snúa sér til að finna sannleikann, að því er segir í Rómverjabréfinu 10:13, 14?
10 Nauðsynlegt er að minna fólk stöðugt á að „hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.“ En eins og Páll segir í framhaldinu í bréfi sínu til Rómverja, „hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ (Rómverjabréfið 10:13, 14) Þessi orð ættu að innprenta sérhverju okkar nauðsyn þess að við höldum ótrauð áfram að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki.
11. Hvaða ábyrgð höfum við gagnvart ungu fólki sem er að ná fullorðinsaldri?
11 Meðan endalokatímabilið hefur verið að líða hafa fæðst börn sem hafa komist til vits og ára. Oft hefur þetta unga fólk ekki gefið sannleikanum nokkurn gaum. Foreldrar þess hafa kannski hafnað boðskapnum eða jafnvel andmælt honum. En svo kemur að því að þetta unga fólk er orðið nógu þroskað til að hugsa sjálfstætt um ástand heimsmála, framtíðina og tilgang lífsins. Það þarf líka að ákalla nafn Jehóva ef það vill bjargast. „En hvernig eiga þeir að ákalla þann . . . sem þeir hafa ekki heyrt um?“ (Rómverjabréfið 10:14) Í mörgum tilvikum eru þessir táningar og ungmenni móttækileg fyrir sannleikanum, þannig að við þurfum að leita þau uppi og prédika fyrir þeim.
12. Hvernig er áframhaldandi prédikun merki um miskunn Jehóva?
12 Sú staðreynd að leiðin er enn opin til að prédika er merki um miskunn Jehóva. Pétur postuli skrifar: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar. Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði.“ (2. Pétursbréf 3:9, 15) Löngun Jehóva til að alls konar menn bjargist birtist ekki aðeins í því að hann leyfir þolinmóður að nokkur tími líði áður en hann fullnægir dómi, heldur einnig því að hann höfðar stöðugt til manna og hvetur þá að snúa sér til sín og bjargast. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Þegar við höldum áfram að prédika fagnaðarerindið erum við að leggja áherslu á miskunn Guðs og það er ein leið til að lofsyngja hann.
Forðast blóðskuld
13, 14. (a) Hvernig má líkja prédikunarstarfi okkar við starf varðmanns, samanber spádóm Esekíels? (b) Hvernig gat Páll sagt að hann væri „hreinn af blóði allra“ og hvernig aðeins geta vottar Jehóva sagt það nú á dögum?
13 Líkja mætti ábyrgð vígðra votta Jehóva, að vara fólk við komandi dómi Guðs, við ábyrgð Esekíels á sínum tíma. Hann var skipaður varðmaður fyrir Ísraelshús. Hlutverk hans var að vara Ísraelsmenn við þeirri aftöku, sem biði þeirra, ef þeir sneru ekki frá sínum vondu vegum. Ef hann, varðmaðurinn, gæfi ekki þá aðvörun sem honum bar myndi aftöku óguðlegra manna vera fullnægt eftir sem áður, en blóð þeirra myndi koma yfir höfuð hins hirðulausa varðmanns. Í þessu sýnir Jehóva viðhorf sitt til þess að fullnægja dómi sínum. „Ég [hef] ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?“ — Esekíel 33:1-11.
14 Páll postuli viðurkenndi ábyrgð sína sem varðmaður og sagði öldungunum frá Efesus: „Þess vegna vitna eg fyrir yður, daginn þennan í dag, að eg er hreinn af blóði allra.“ Hvers vegna gat hann sagt það? Hann heldur áfram: „Því að eigi hlífðist eg við að boða yður alt Guðs ráð.“ (Postulasagan 20:26, 27, Ísl. bi. 1912) Eins er það með varðmannahópinn núna, leifar hinna smurðu fylgjenda Jesú Krists. Allir þeir, ásamt rúmlega þrem milljónum félaga sinna sem hafa von um að lifa af endalok þessa heimskerfis og hljóta eilíft líf á jörð, verða að halda ótrauðir áfram að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki og aldrei að slá slöku við að vara við því að dómi Guðs verði fullnægt. Með þeim hætti forðast þeir blóðskuld.
15. Hverjir fengu merki samkvæmt 9. kafla Esekíelsbókar og hver merkti þá?
15 Prédikunarstarfi nútímans er lýst á spádómlegu máli í 9. kafla Esekíelsbókar. Þar fellir Jehóva dóm yfir Jerúsalemborg. Áður en dóminum er fullnægt er línklæddum manni með skriffæri við síðu sér sagt að ganga í gegnum borgina og setja merki á enni allra sem andvarpa og kveina yfir svívirðingum sem þar fara fram. Þegar starfi hans er lokið átti að taka af lífi alla borgarbúa nema þá sem merktir voru til björgunar. Þegar línklæddi maðurinn hafði lokið merkingarstarfi sínu tilkynnti hann: „Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér.“ (Esekíel 9:11) Hann fullnaði trúfastur það verkefni sem honum hafði verið falið.
16. (a) Hvern nú á tímum táknar línklæddi maðurinn? (b) Hvernig er réttlæting drottinvalds Jehóva okkur hvöt til að halda áfram að prédika?
16 Línklæddi maðurinn táknar smurðar leifar fylgjenda Krists, og þeir eiga sem félaga ‚mikinn múg‘ af ‚öðrum sauðum.‘ Mál málanna er núna, eins og var á tímum Esekíels, það að upphefja drottinvald Jehóva. Jehóva segir um endalok hins núverandi illa heimskerfis og stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda: „ . . . til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16; Esekíel 39:7) Til þess að þjóðirnar megi vita það er bráðnauðsynlegt að þjónar Jehóva á jörðinni haldi áfram að prédika nafn hans og tilgang til vitnisburðar öllum þjóðum.
17, 18. (a) Hvernig er áframhaldandi prédikun okkur hjálp til að halda vöku okkar? (b) Hvað viljum við öll geta tilkynnt Jehóva þegar hann leiðir prédikunarstarfið til lykta, og hver er eina leiðin til að við getum gert það?
17 Með því að halda áfram að prédika fagnaðarerindið um ríkið höldum við árvekni okkar. Við höldum okkur vakandi fyrir mikilvægi nafns Jehóva og tilgangs. Ef við slægjum slöku við gæti von okkar um Guðsríki veiklast og ‚áhyggjur, auðæfi og nautnir lífsins‘ borið okkur afleiðis þannig að við ‚bærum ekki þroskaðan ávöxt.‘ (Lúkas 8:14) Með því að halda þrautseigir og kappsamir áfram að boða ‚fagnaðarerindið‘ erum við trúir boði meistara okkar, Jesú Krist: „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ — Markús 13:10, 33, 37.
18 Við skulum því öll halda ótrauð áfram að leita uppi ‚þá sem andvarpa,‘ svo lengi sem Jehóva gefur okkur tíma til. Megum við öll, hvort sem við erum af hópi hinna smurðu leifa eða hinna ‚annarra sauða,‘ vera trúföst í því að vinna að því verkefni okkar að prédika fagnaðarerindið um ríkið um alla heimsbyggðina til vitnisburðar öllum þjóðum. (Matteus 24:14) Þegar Jehóva sjálfur lætur þessu starfi ljúka með því að hefja ‚þrenginguna miklu,‘ megi þá eitt og sérhvert okkar geta sagt við Jehóva: „Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér.“
-