Daníelsbók — ósvikin spádómsbók
Í FRÁSÖGN Biblíunnar segir: „Á fyrsta ríkisári Belsasars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum, og sýnir bar fyrir hann í rekkju hans. Síðan skrásetti hann drauminn og sagði frá aðalatriðunum.“ — Daníel 7:1.
Það var á síðari helmingi sjöttu aldar f.o.t. sem Daníel færði í letur þessa og aðra drauma og sýnir sem varða okkur nútímamenn. Við höfum ítarlega frásögn af þeim í spádómsbók Daníels.
Sannur spámaður
Kristur bar því vitni að Daníel væri spámaður. Athygli vekur að hann skyldi gera það í sínum eigin spádómi um tákn ‚komu sinnar og enda veraldar.‘ Þar með lét hann í ljós að spádómar Daníels ættu að uppfyllast á okkar dögum þegar við sæjum rætast hina ýmsu þætti táknsins, svo sem styrjaldir á alþjóðavettvangi, matvælaskort, jarðskjálfta og alls kyns örðugleika um allan heim. — Matteus 24:3-8, 15.
Jesús sagði: „‚Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. . . . Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma. Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað,‘ — lesandinn athugi það — ‘þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. . . . Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.‘ “ — Matteus 25:11-34.
Sú staðreynd að Jesús varaði við falsspámönnum augnabliki áður en hann vakti athygli lærisveinanna á ‚Daníel spámanni,‘ sannar að hann leit á Daníel sem sannan spámann Guðs. Við sáum í greininni á undan að sumar af spám Daníels, svo sem sú er hann sagði fyrir tímabundna vitfirringu Nebúkadnesars og fall Babýlonar, rættust á dögum Daníels sjálfs. En Daníel sagði líka fyrir hluti sem myndu gerast öldum síðar. Hvaða langtímaspádóma geymir Daníelsbók?
Koma Messíasar og dauði
Einn sá spádómur, sem sýnir greinilega að Daníel er sannur spámaður, er kenndur við hinar sjötíu sjöundir. Í honum segir meðal annars: „Sjötíu sjöundir eru ákveðnar lýð þínum og þinni heilögu borg til þess að drýgja glæpinn til fulls og fylla mæli syndanna og til þess að friðþægja fyrir misgjörðina . . . Vit því og hygg að: Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja, eru sjö sjöundir, og . . . sextíu og tvær sjöundir [alls 69 sjöundir] . . . Og eftir þær sextíu og tvær sjöundir [það er að segja 7 + 62 eða eftir 69. sjöundina] mun hinn smurði afmáður verða . . . Og hann mun gjöra fastan sáttmála við marga um eina sjöund [þá 70.], og um miðja sjöundina mun hann afnema sláturfórn og matfórn.“ — Daníel 9:24-27.
Margir biblíufræðingar Gyðinga, kaþólskra manna og mótmælenda eru á einu máli um að ‚sjöundirnar‘ í þessum spádómi séu sjöundir ára. Í íslensku biblíunni frá 1859 segir: „Sjötygi sjöundir (ára) eru ákveðnar þínu fólki.“ Þessi 490 ár hófust árið 455 f.o.t. þegar Ataxerxes Persakonungur gaf Nehemía umboð til að ‚endurreisa Jerúsalem.‘ (Nehemía 2:1-8) Sextíu og níu sjöundum ára síðar, það er að segja árið 29 e.o.t., var Jesús skírður og smurður heilögum anda. Þar með varð hann Kristur eða hinn smurði, Messías. „Um miðja sjöundina,“ þá sjötugustu árið 33, var hann „afmáður.“ Fórnardauði hans friðþægði fyrir syndir mannkynsins svo að dýrafórnir samkvæmt lögmáli Móse voru ‚afnumdar.‘a
Út af þessum áreiðanlega spádómi vissu Gyðingar fyrstu aldar „að hinar sjötíu sjöundir ára, sem Daníel hafði tilgreint, voru að taka enda. Það kom engum á óvart að heyra Jóhannes skírara kunngera að Guðsríki væri í nánd.“ — Manuel Biblique eftir Bacuez og Vigouroux.
Heimsveldi lík villidýrum
Annar langtímaspádómur, sem hefur geysimikla þýðingu fyrir nútímamenn, lýsti röð heimsvelda, táknuð með hinum ægilegustu villidýrum, sem myndu verða að víkja fyrir Guðsríki.
Daníel segir frá: „Ég sá í sýn minni á næturþeli, . . . Og fjögur stór dýr stigu upp af hafinu, hvert öðru ólíkt. Fyrsta dýrið líktist ljóni . . . Og sjá, þá kom annað dýr, hið annað í röðinni. Það var líkt bjarndýri. . . . Eftir þetta sá ég enn dýr, líkt pardusdýri, . . . Eftir þetta sá ég í nætursýnum fjórða dýrið. Það var hræðilegt, ógurlegt og yfirtaks öflugt. . . . Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja það, að fjórir konungar munu hefjast á jörðinni, en hinir heilögu Hins hæsta munu eignast ríkið, og þeir munu halda ríkinu ævinlega og um aldir alda.“ — Daníel 7:2-18.
Að þessi dýr skuli tákna heimsveldi er ljóst af annarri sýn sem Daníel sá. Í útlistun sinni á henni skrifar hann: „Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu, og hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung.“ — Daníel 8:20, 21.
Dýrin fjögur í 7. kafla Daníelsbókar tákna með sama hætti fjögur heimsveldi allt frá dögum Daníels og áfram, fram til þess tíma er Guðsríki yrði stofnsett. Daníel lifði fall babýlonska heimsveldisins (ljónsins) og upphaf arftaka þess, Medíu-Persíu (bjarnarins). Langtímaspádómur Daníels sagði fyrir að Medía-Persía myndi falla fyrir Grikklandi (pardusdýrinu) sem síðan yrði að víkja fyrir ‚fjórða dýrinu,‘ Rómaveldi og því sem spratt út af því, ensk-ameríska heimsveldinu.b
Daníel sagði nákvæmlega fyrir röð heimsveldanna sem öll úthelltu blóði eins og villidýr til að seðja drottnunargirni sína. Eins mun hið réttláta ríki, sem hann sagði fyrir, bráðlega ryðja úr vegi núverandi stjórnmálaöflum. Í sýn sá Daníel ‚hinn aldraða,‘ Jehóva Guð, gefa ‚Mannssyninum,‘ Jesú Kristi, „vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur.“ Verður það varanleg lausn á vandamálum mannkynsins? Já, því að stjórn Jesú er hér lýst sem ‚eilífu valdi sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.‘ — Daníel 7:13, 14; samanber Matteus 16:27, 28; 25:31.
Þeir skammtíma- og langtímaspádómar, sem við höfum skoðað lítillega í þessum tveim greinum, eru einungis örlítil dæmi um þá drauma, sýnir og spádóma, sem Daníelsbók geymir. Þau sýna glögglega að Daníelsbók er ósvikin spádómsbók — mannkynssaga rituð fyrirfram. Uppfylling þessara spádóma heldur áfram nú á 20. öldinni og er okkur uppspretta stórfenglegrar vonar eins og næstu tölublöð þessa tímarits munu fjalla um.
[Neðanmáls]
a Ítarlegri upplýsingar um þennan spádóm er að finna í 7. kafla bókarinnar „Let Your Kingdom Come,“ gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Nánari skýringu á þessum spádómi er að finna í 6. og 7. kafla bókarinnar Our Incoming World Government — God’s Kingdom, gefin út af Watch Tower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Var hún skrifuð síðar?
BIBLÍAN tilgreinir Daníel sem ritara bókarinnar er ber nafn hans. Það tímasetur ritun bókarinnar á sjöttu öld f.o.t. (Daníel 7:1) Spádómarnir, sem hún geymir, eru svo stórfurðulegir að margir hafa véfengt að þeir hafi verið skrifaðir áður en atburðirnir gerðust. Sumir biblíuskýrendur, sem ekki kalla sig kristna, og jafnvel margir sem nefna sig kristna hafa véfengt áreiðanleika Daníelsbókar. Þeir aðhyllast þá kenningu að bókin hafi verið skrifuð síðar, á tímum Makkabeastyrjaldanna, en sú kenning kom fyrst fram á þriðju öld okkar tímatals, runnin undan rifjum heimspekings að nafni Porfýríos sem var andstæðingur kristninnar. Hvaða rök eru færð fyrir þessari kenningu og hversu mikið mark er á þeim takandi?
Porfýríos gaf sér þá forsendu að spádómar væru óhugsandi og fullyrti að óþekktur Gyðingur á Makkabeatímabilinu á annarri öld f.o.t., það er að segja eftir að margir af atburðum þeim, sem Daníelsbók segir fyrir, höfðu gerst, hefði skrifað þá bók sem kennd er við Daníel. Hann sló því fram að svikahrappurinn hefði skrifað bókina í nafni Daníels til að efla siðferðisþrek Gyðinga á annarri öld f.o.t. þegar Makkabeauppreisnin gegn Selevkíum var gerð. En er með nokkru skynsamlegu móti hægt að nota hið friðsama fordæmi Daníels og félaga hans þriggja í Babýlon, sem sýndu yfirvöldum þar fulla virðingu, sem hvatningu til vopnaðrar uppreisnar? Hvergi nærri. (Daníel 1:8; 2:49; 3:16-18, 30) Að hinn ‚smurði höfðingi,‘ Messías, skyldi koma fram nákvæmlega árið 29, þegar lauk hinum 69 ‚sjöundum‘ ára í Daníel 9:25, lætur fullyrðingar Porfýríosar á annarri öld virðast kjánalegar.
Að því er Gyðingurinn Jósefus, sem var sagnfræðingur, segir var helgiritasafn Hebresku ritninganna, sem geymir meðal annars Daníelsbók, fullfrágengið á dögum Esra á fimmtu öld f.o.t. Hvernig má þá halda því fram að Daníelsbók hafi ekki verið skrifuð fyrr en á annarri öld f.o.t.? Því má bæta við að Dauðahafshandritin sýna að Daníelsbók naut víðtækrar viðurkenningar meðal Gyðinga sem hluti Ritningarinnar á annarri öld f.o.t. Hefði það verið líklegt ef bókin hefði verið samtíðarverk?
Önnur röksemd Porfýríosar og margra æðri biblíugagnrýnenda er á þá lund að Daníelsbók sé sögulega ónákvæm. Þeir halda því fram að Daníelsbók hafi verið skrifuð á annarri öld f.o.t. Um það leyti voru Gyðingar hins vegar að hafna fyrri Makkabeabók sem óhæfri í helgiritasafni Biblíunnar, jafnvel þótt þeir álitu hana sögulega nákvæma. Menntaðir Gyðingar, sem höfðu aðgang að ritum veraldlegra sagnfræðinga svo sem Heródótusar, hefðu örugglega hafnað Daníelsbók ef hún hefði verið sögulega ónákvæm. Fornleifafundir hafa auk þess staðfest tilvist Belsasars og fleiri smáatriði í Daníelsbók sem Porfýríos og margir aðrir biblíugagnrýnendur álitu ónákvæm.
Hvað varðar þá fullyrðingu Porfýríosar að spádómar Daníels hafi verið skrifaðir eftir að atburðirnir gerðust, segir Philip R. Davies við biblíurannsóknadeild Sheffield-háskóla á Englandi: „Það er sorglegt að margir skuli dæma Daníelsbók tilraun til að blekkja (að því er talið er) auðtrúa fólk í jákvæðum tilgangi en með óheiðarlegum aðferðum. . . . Ég á erfitt með að ætla fyrstu lesendum bókarinnar slíka trúgirni. Ef einhvers staðar er trúgirni í þessu máli er líklegra að hana sé að finna hjá hinum skynsemistrúuðu gagnrýnendum.“ — Journal for the Study of the Old Testament, 17. tbl., 1980.
Það vekur tæpst nokkra furðu að nýplatonskur heimspekingur skyldi mótmæla því að biblíuritari hafi fengið innblástur frá Guði til að spá um ókomna atburði. Að biblíuskýrendur, sem þykjast kristnir, skuli reyna að grafa undan trúnaði fólks til mikilvægrar spádómsbókar í Ritningunni er hins vegar sorglegt. Það ber merki um skort á trú á hann sem sagði: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ — Jesaja 46:10.
[Tafla á blaðsíðu 5]
[Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
70 sjöundir (490 ár)
69 sjöundir (483 ár) 1 sjöund (sjö ár)
455 f.o.t. 29 e.o.t. 33 e.o.t 36 e.o.t
„Frá því, er „til hins „mun hinn „og hann mun
orðið um endur- smurða smurði afmáður gjöra fastan
reisn Jerúsalem höfðingja verða . . . “ sáttmála . . .
út gekk . . .“ . . .“ um eina sjöund.“
[Myndir á blaðsíðu 7]
Babýlon
Medía-Persía
Grikkland
Róm/Bretland og Bandaríkin