Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.7. bls. 13-16
  • Síðustu dagar — Hvað gerist næst?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Síðustu dagar — Hvað gerist næst?
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hve lengi getur kynslóð lifað?
  • „Friður og engin hætta“ innan skamms
  • Riddarinn á hvíta hestinum lætur til sín taka
  • Tími til að vaka
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Leyndardómur riddaranna ráðinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Riddararnir fjórir – hverjir eru þeir?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
  • Bjargað frá vondri kynslóð‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
Sjá meira
Vaknið! – 1988
g88 8.7. bls. 13-16

Síðustu dagar — Hvað gerist næst?

„Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ — Jesús Kristur í Matteusi 24:34.

ÞEGAR Jesús greindi furðu lostnum lærisveinum sínum frá ‚tákninu um endalok veraldar‘ sagði hann meðal annars orðin hér að ofan. (Matteus 24:3) Hvað átti Jesús við með orðinu „kynslóð“? Hvaða atburðir myndu leiða til endaloka þessarar heimsskipanar? Með öðrum orðum, hvaða atburðum náinnar framtíðar ættum við að hafa augun opin fyrir?

Hve lengi getur kynslóð lifað?

Tímaritið The American Legion Magazine greinir frá því að 4.743.826 bandarískir karlar og konur hafi tekið þátt í fyrri heimsstyrjöldinni. Árið 1984 voru aðeins 272.000 eftir á lífi og af þeim létust að meðaltali 9 á klukkustund. Merkir það að kynslóðin frá 1914 sé þegar horfin?

Matteus, Markús og Lúkas notuðu gríska orðið geneá í merkingunni kynslóð í frásögum sínum af orðum Jesú. Það getur haft mismunandi merkingu eftir samhengi. En orðabókin The New International Dictionary of New Testament Theology skilgreinir það þannig: „Þeir sem fæddir eru á sama tíma . . . tengd því er merkingin hópur samtíðarmanna, ættliður.“ A Greek-English Lexicon of the New Testament segir: „Allir sem fæddir eru um svipað leyti, í víðari skilningi allir sem eru á lífi á gefnum tíma; kynslóð, samtíðarmenn.“ Þessi skilgreining nær til bæði þeirra sem fæddir eru nálægt sögufrægum atburði og allra sem eru á lífi á þeim tíma.

J. A. Bengel segir í verki sínu New Testament Word Studies: „Hebrear . . . reikna 75 ár sem eina kynslóð og orðin mun ekki líða undir lok gefa í skyn að stærstur hluti þeirrar kynslóðar [á dögum Jesú], en þó ekki öll kynslóðin, myndi verða liðinn undir lok áður en allt yrði uppfyllt. Það sýndi sig vera rétt árið 70 þegar Jerúsalem var lögð í rúst.“

Svipað er ástatt núna: Stærstur hluti kynslóðarinnar frá 1914 er liðinn. Þó eru enn milljónir manna á lífi sem fæddust það ár eða fyrr. Og þótt þeim fari fækkandi munu orð Jesú rætast, „þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ En það er enn önnur ástæða til að trúa að dagur Jehóva, er skal koma eins og þjófur, sé yfirvofandi. Hvaða atburðum ættu vökulir kristnir menn að gefa gaum?

„Friður og engin hætta“ innan skamms

„Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3.

Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945 hefur mannkynið rambað á barmi styrjaldar milli tveggja stórvelda, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, sem hafa átt í stöðugum erjum. Í deilunni um eldflaugarnar á Kúbu árið 1962 lá við sjálft að til átaka kæmi. En Sovétríkin fjarlægðu eldflaugarnar frá Kúbu og Bandaríkin fjarlægðu hljóðlega eldflaugar sínar frá Tyrklandi. Þetta var aðeins eitt dæmi um árekstra kalda stríðsins.

Afvopnun hefur verið þrætuefni um áratuga skeið og umræðum um hana hefur venjulega lyktað með áróðursæfingu beggja stórveldanna. Núna, á síðustu mánuðum Reagans í forsetastóli og slökunarstefnu Gorbachevs flokksleiðtoga, nefnd glasnost, virðist komin alvara í umræðuna um útrýmingu kjarnorkuvopna. Við getum með engri vissu sagt fyrir hvort það sé undanfari þess að lýst verði yfir friði og engri hættu fyrir heiminn í heild. Í samræmi við spádóma Biblíunnar er það þó það sem kristnir menn hafa augun opin fyrir. En hvað gerist þá?

Þeir sem rannsaka Biblíuna af nákvæmni láta ekki blekkjast „þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘,“ — hvort heldur sú yfirlýsing kemur frá Sameinuðu þjóðunum eða frá stórveldunum. Biblían sýnir berlega að sannur friður og öryggi getur aðeins komið í gegnum réttláta stjórn Guðs, ríki Guðs í höndum Krists.

Af þeirri ástæðu mun greinileg yfirlýsing veraldarleiðtoga á alþjóðavettvangi um frið og öryggi vera það merki sem Guð bíður eftir áður en hann grípur í taumana „sem þjófur á nóttu,“ þeim heimi, sem ekki trúir, að óvörum. Þá mun ‚snöggleg tortíming‘ koma yfir hin kirkjulegu og stjórnmálalegu öfl sem hafa smánað Jehóva og votta hans. Hvernig vitum við það?

Riddarinn á hvíta hestinum lætur til sín taka

Víkjum aftur að sýninni í Opinberunarbókinni. Við höfum ekkert minnst á fyrsta riddarann af þeim fjórum, þann sem situr á hvíta hestinum. Biblíuritarinn lýsir honum svo: „Ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ Honum er einnig lýst í 19. kafla Opinberunarbókarinnar: „Sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi. . . . Af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota.“ Og hver er þetta? Sama frásögn segir að hann hafi ritað nafn sitt: „Konungur konunga og Drottinn drottna.“ Þetta er hinn upprisni sonur Guðs, Kristur Jesús. — Opinberunarbókin 6:2; 19:11-16.

Hvað fær þá þennan ‚konung konunga‘ til að láta til sín taka? ‚Konungurinn norður frá‘ (hinar andkapítalísku þjóðir) og ‚konungurinn suður frá‘ (hinar kapítalísku þjóðir undir verndarvæng Bandaríkjanna), sem lýst er í 11. kafla Daníelsbókar, komast í sjálfheldu. (Eins og Daníel 11:40 sagði fyrir hefur „konungurinn norður frá“ þegar vaðið yfir fjölmörg lönd, einkum frá 1945.“a

Hvað annað á að gerast áður en Guð skerst í leikinn og lætur núverandi heimsskipan líða undir lok?

Spádómar Biblíunnar gefa til kynna að koma muni að því að hin róttæku öfl innan vébanda Sameinuðu þjóðanna rísi gegn hinum íhlutunarsömu trúarbrögðum heims, afhjúpi þau og svipti völdum sínum yfir hinu hjátrúarfulla mannfólki. — Opinberunarbókin 17:16, 17.b

Þessari eyðingu falstrúarbragða heims verður vafalaust fylgt eftir með árás á votta Jehóva. Það mun síðan hleypa af stað mótárás konungs Jehóva, riddarans á hvíta hestinum. (Esekíel 38:10-12, 21-23) Og hvað segir Daníel 2:44 um úrslitin? „Á dögum þessara konunga [hinna núverandi stjórnmálaafla] mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga. . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ Já, stríð Guðs við Harmagedón gegn sýnilegum stjórnmálaöflum Satans á jörð mun enda með algerum sigri Jehóva og konungs konunganna. — Opinberunarbókin 16:14-16; 19:17-21.

Hvað fylgir svo í kjölfarið? Hin aldalanga þrá friðelskandi, guðhræddra kristinna manna mun rætast — þúsund ára stjórn ríkis Guðs yfir hlýðnu mannkyni! Þá mun rætast hið dýrlega fyrirheit Opinberunarbókarinnar 21:3, 4: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna, og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“

Ef þú gætir hugsað þér að fræðast nánar um þessa athyglisverðu biblíuspádóma og þýðingu þeirra fyrir okkur sem einstaklinga hvetjum við þig til að hafa samband við votta Jehóva í þínu byggðarlagi eða skrifa útgefendum þessa tímarits.

[Neðanmáls]

a Fjallað er ítarlega um deilu þeirra í bókinni Your Will Be Done on Earth, 11. kafla, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

b Nánari skýringar á þessum spádómi er að finna í bókinni „Babylon the Great Has Fallen! God’s Kingdom Rules!, 26. kafla. Kaflinn nefnist „Dómurinn yfir skækjunni miklu“ og er þessi bók einnig gefin út af biblíufélaginu Varðturninn.

[Innskot á blaðsíðu 14]

Kynslóð — „Allir sem fæddir eru um svipað leyti, í víðari skilningi allir sem eru á lífi á gefnum tíma.“ — „A Greek-English Lexicon of the New Testament.“

[Innskot á blaðsíðu 16]

Biblíuspádómarnir gefa til kynna að róttæk öfl innan Sameinuðu þjóðanna muni snúa sér gegn trúarbrögðum heimsins.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Í nýjum heimi friðar og réttlætis eftir Harmagedón verður ‚hið fyrra farið.‘ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila