Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.10. bls. 24-29
  • Hlustað á Jehóva þegar endirinn nálgast

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hlustað á Jehóva þegar endirinn nálgast
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna viðleitni manna skilar ekki árangri
  • Enn meiri þörf að hlusta núna
  • Þegar menn hrópa „Friður og engin hætta“
  • Örugg von um björgun
  • ‚Hlaupið‘ til Jehóva
  • Megi „friður Guðs“ varðveita hjarta þitt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Friður frá Guði — hvenær?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Sannur friður — hvaðan?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Friður frá Guði fyrir þá sem Jehóva kennir
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.10. bls. 24-29

Hlustað á Jehóva þegar endirinn nálgast

„Sæll er sá maður, sem hlýðir mér, . . . því að sá sem mig finnur, finnur lífið.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 8:34, 35.

1, 2. (a) Hvað segja sumir núna þrátt fyrir að aldrei hefur verið sannur friður í sögu mannkynsins? (b) Hvers vegna er mönnum ómögulegt að koma á sönnum friði?

ÞRÁTT fyrir friðarleysið út í gegnum sögu mannkynsins, einkum nú á 20. öldinni, segja sumir að þjóðirnar séu núna að stíga markviss skref til að jafna ágreiningsmál sín. Þeir benda á að stórveldin haldi leiðtogafundi til að ræða um frið og undirrita ýmsa samninga. Meira að segja lýstu Sameinuðu þjóðirnar síðasta ár „Alþjóðlegt friðarár“! Menn bundu vonir við að þjóðirnar myndu leggja sig sérstaklega fram um að vinna að friði sem hugsanlegt væri að skilaði árangri í náinni framtíð.

2 En hefur viðleitni af þessu tagi einhvern tíma í sögu mannkynsins komið á varanlegum friði? Ef mannleg viðleitni gæti áorkað slíku hefði verið búið að koma á friði fyrir langa löngu — löngu áður en jarðarbúar voru orðnir fimm milljarðar, sundraðir í liðlega 160 þjóðir með þúsundum tilbrigða af pólitískum, efnahagslegum og trúarlegum hugmyndastefnum. En það hefur aldrei verið friður, og viðleitni forystumanna þessa heims mun aldrei koma á friði. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að vandamál mannkynsins eru nú orðin svo alvarleg að menn ráða ekki við að leysa þau hjálparlaust. Eins og Jeremía 10:23 réttilega segir: „[Það er ekki] á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“

Hvers vegna viðleitni manna skilar ekki árangri

3. Af hvaða annarri ástæðu geta menn og þjóðir aldrei komið á sönnum friði?

3 En það er önnur ástæða fyrir því að viðleitni manna og þjóða getur aldrei komið á sönnum friði. Biblían nefnir hana í 1. Jóhannesarbréfi 5:19 þar sem segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ Opinberunarbókin 12:9 segir ‚hinn vonda‘ vera þann ‚sem heitir djöfull og Satan, hann sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina.‘ Síðara Korintubréf 4:4 nefnir hann „guð þessarar aldar.“ Allt hið núverandi heimskerfi stjórnmála, efnahags- og trúmála, sem hefur valdið svo miklu ofbeldi, er því afsprengi yfirráða Satans, ekki Guðs. Þess vegna kemst 1. Korintubréf 2:8 svo að orði þegar það talar um viskuna sem kemur frá Guði: „Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana.“ — Lúkas 4:5, 6.

4. Hvaða afleiðingar hafði það þegar fyrstu foreldrar okkar hættu að hlusta á Jehóva?

4 Þegar Satan gerði uppreisn gegn Guði kom hann okkar fyrstu foreldrum til að hlusta á sig í stað Guðs. Það varð til þess að þau viku frá hlýðni við Guð og leiddu yfir mannkynið 6000 ára þjáningu og kvöl. Biblían segir greinilega að Satan hafi komið mönnum til að trúa að þeir gætu bjargað sér betur með því að hlusta ekki á skapara sinn. (1. Mósebók 3:1-5) Í visku sinni hefur Jehóva Guð leyft mannkyninu í heild að fara sínu fram, óháð leiðsögn hans, allt til okkar daga. Í gegnum allar þessar aldir hefur sannast berlega að stjórn manna hefur mistekist hrikalega. — 5. Mósebók 32:5; Prédikarinn 8:9.

5. Hvaða vandamál myndu menn ekki geta leyst jafnvel þótt þeim tækist að koma á friði?

5 Þegar Adam og Eva hættu að hlusta á Jehóva, uppsprettu fullkomins lífs, urðu þau auk þess ófullkomin og dóu að síðustu. Því fæddust allir afkomendur þeirra ófullkomnir. Sjúkdómar, ellihrörnun og dauði urðu hlutskipti mannkyns. (Rómverjabréfið 5:12) Þess vegna, jafnvel þótt mönnum tækist að koma á friði, myndu þeir samt ekki geta læknað arfgengan ófullkomleika. Við myndum eftir sem áður veikjast, hrörna og deyja. Og þar eð Satan bar ábyrgð á því sagði Jesús um hann: „Hann var manndrápari [morðingi] frá upphafi og aldrei í sannleikanum.“ (Jóhannes 8:44) Þegar þú leiðir hugann að öllum þeim milljörðum manna, sem hafa lifað og dáið í fortíðinni, er það í rauninni eins og Satan hafi myrt allt þetta fólk.

6. Hverjum er það að kenna að ekki er friður og hvað verður um þá?

6 Satan fékk líka aðrar andaverur til að ganga í lið með sér í uppreisninni, og allar þessar illu andaverur neituðu að hlusta þegar Jehóva talaði. Það eru því Satan, illir andar hans og uppreisnargjarnir menn sem hafa leitt heiminn út í sitt núverandi ástand. Þess vegna verða þeir allir að hverfa og endi bundinn á þessa ömurlegu, 6000 ára tilraun til sjálfstæðis frá Guði. Rómverjabréfið 16:20 fullvissar okkur um að „Guð friðarins [muni] bráðlega sundurmola Satan,“ svo og illa anda hans og alla menn sem neita að hlusta þegar Guð talar. — Matteus 25:41.

Enn meiri þörf að hlusta núna

7. Hvers vegna ættum við að efla viðleitni okkar til að þjóna Jehóva núna?

7 Nú er mjög langt liðið á lokahluta hinna ‚síðustu daga.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þar af leiðandi er brýnna en nokkru sinni fyrr að hlusta á það sem Jehóva segir okkur. Eins er nauðsynlegt að efla vilja okkar til að færa fórnir til að þjóna honum. Hvers vegna þurfum við að leggja enn meira á okkur? Vegna þess að Satan veit að hann hefur aðeins „nauman tíma“ til umráða. (Opinberunarbókin 12:12) Hann mun því örugglega auka viðleitni sína til að spilla og eyðileggja.

8. (a) Hvers vegna geta óvinir prédikunarstarfsins ekki stöðvað það? (b) Hvað verðum við að gera til að tryggja okkur stuðning Guðs?

8 Satan vill sérstaklega reyna að koma í veg fyrir að vottar Jehóva prédiki fagnaðarerindið um Guðsríki. En það getur hann ekki því að Jehóva hefur heitið þeim: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg.“ (Jesaja 54:17) Þeir sem veita þjónum hans mótstöðu ‚berjast við sjálfan Guð.‘ (Postulasagan 5:38, 39) Með öflugum stuðningi anda Jehóva, Krists Jesú og máttugra englasveita verður starf Guðsríkis enn þróttmeira með ári hverju. Til að tryggja sér stuðning Guðs gæta þjónar Jehóva þess að hlýða því sem ráðlagt er í Jakobsbréfinu 4:7, 8: „Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður. Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“

9. Hvers vegna megum við ekki vanmeta Satan?

9 Við megum aldrei vanmeta getu Satans til að blekkja og vinna tjón. Orð Guðs aðvarar: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni.“ (1. Pétursbréf 5:8, 9) Ef þú vissir að tryllt ljón léki lausum hala í grennd við heimili þitt myndir þú gera allt sem í þínu valdi stæði til að vernda þig og fjölskyldu þína. Þegar Satan á í hlut verðum við að vera enn betur á varðbergi, því að hann getur unnið okkur eilíft tjón. Því miður eru flestir varnarlausir því að þeir vita ekki einu sinni að Satan er til. Hvers vegna? Vegna þess að þeir vilja ekki hlusta á orð Jehóva. Og hvaða afleiðingu hefur þessi ranga ákvörðun? „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ — Galatabréfið 6:7.

Þegar menn hrópa „Friður og engin hætta“

10, 11. (a) Hvað ættum við að hafa í huga ef þjóðunum skyldi verða eitthvað ágengt í að koma á friði? (b) Hvaða biblíuspádómur er tengdur viðleitni þjóðanna til að koma á friði á okkar dögum? (c) Hve varanlegur verður slíkur friður?

10 Láttu ekki einhverja stundlega velgengni þjóðanna í að koma á friði villa þér sýn. Hafðu alltaf hugfast að Jehóva notar engar af stofnunum þessa heims til að koma á friði. Jehóva hefur sína eigin leið til að koma á sönnum friði, og það er aðeins í gegnum ríki hans í höndum Krists. Hvað sem þjóðunum virðist verða ágengt í að koma á friði er það stundlegt og aðeins á yfirborðinu. Ekkert mun hafa breyst í raun. Glæpir, ofbeldi, styrjaldir, hungur, fátækt, sundruð heimili, siðleysi, sjúkdómar, dauðinn og Satan og illir andar hans verða enn á meðal okkar þar til Jehóva þurrkar það allt út. „Ef [Jehóva] byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis.“ — Sálmur 127:1.

11 Spádómar Biblíunnar sýna okkur að þjóðirnar munu verða samtaka um að reyna að koma á friði á okkar tímum. Þar segir: „Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ (1. Þessaloníkubréf 5:2, 3) Þessi yfirlýsing um frið og öryggi mun ekki þýða að hnignun þessa heims hafi verið snúið við. Síðara Tímóteusarbréf 3:13 segir að ‚vondir menn og svikarar muni magnast í vonskunni.‘ Veruleikinn verður enn sem fyrr sá sem forseti umhverfisverndarsamtaka sagði: „Meginvandinn, sem blasir við þjóðfélaginu, er sá að það er ekki hægt að stjórna því lengur.“

12. Hvaða þýðingu hefur tilkynningin um ‚frið og enga hættu‘?

12 Margir í heiminum munu láta blekkjast af þeim fölsku vonum sem felast í yfirlýsingunni um ‚frið og enga hættu.‘ En þjónar Jehóva munu ekki gera það, því að þeir hlusta þegar Guð talar. Því vita þeir frá orði hans að slík yfirlýsing mun ekki hafa í för með sér sannan frið og öryggi. Þeir vita að það er í reyndinni lokamerkið um ‚snögglega tortímingu‘ óguðlegs heims. Það verður merki þess að ‚þrengingin mikla,‘ sem Jesús sagði fyrir um okkar tíma, skelli á. Hann sagði: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ — Matteus 24:21.

13. Hvernig lýsir Biblían endalokum mannastjórna?

13 Í hinni komandi ‚miklu þrengingu‘ mun stjórn manna líða undir lok. Sálmur 2:2-6 segir: „Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn [Jehóva] og hans smurða: ‚Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra.‘ Hann sem situr á himni hlær. [Jehóva] gjörir gys að þeim. Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni: ‚Ég hefi skipað konung minn á Síon [á himnum], fjallið mitt helga.‘⁠“ Sálmur 110:5, 6 bætir við: „[Jehóva] . . . knosar konunga á degi reiði sinnar. Hann heldur dóm meðal þjóðanna.“ Öll pólitísk áform verða að engu því að Jesaja 8:9, 10 lýsir yfir: „Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Takið saman ráð yðar, þau skulu að engu verða. Mælið málum yðar, þau skulu engan framgang fá, því að Guð er með oss!“

Örugg von um björgun

14. Hvers vegna treystum við að sumir munu lifa af endalok þessa heims?

14 Við treystum að Jehóva muni veita fólki sínu nægar upplýsingar til að það geti stigið viðeigandi skref til björgunar úr ‚þrengingunni miklu.‘ Hvers vegna getum við verið svo viss um það? Vegna þess að spádómurinn í Opinberunarbókinni 7:9, 14 sýnir okkur að „mikill múgur“ lifir hana af. Og hvers vegna bjargast hann? Vegna þess að hann hlustar þegar Jehóva talar og er rétt uppfræddur. Á þann hátt getur ‚múgurinn mikli‘ gert það sem Opinberunarbókin 7:15 segir: „Þeir . . . þjóna honum dag og nótt.“ Þeir gera þannig vilja Guðs, njóta velþóknunar hans og hljóta vernd í gegnum endalok þessa heims. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

15. Hvernig lýsir Jóel því er þetta heimskerfi verður kramið, og hvað hefur það í för með sér fyrir þjóna Guðs?

15 Jóel 3:18-21 talar líka um hvernig þjónar Guðs bjargast þegar þetta heimskerfi er kramið eins og vínber í vínþröng. Þar segir: „Bregðið sigðinni, því að kornið er fullþroskað, . . . vínlagarþróin er full, það flóir út af lagarkerunum, því að illska þeirra er mikil. Flokkarnir þyrpast saman í dómsdalnum, því að dagur [Jehóva] er nálægur í dómsdalnum. Sól og tungl eru myrk orðin, og stjörnurnar hafa misst birtu sína. En [Jehóva] þrumar frá Síon [á himnum] . . . svo að himinn og jörð nötra. En [Jehóva] er athvarf sínum lýð.“

16. Hvaða aðrir spádómar sýna að Jehóva mun vernda þjóna sína í gegnum heimseyðinguna?

16 Á líkan hátt segir Jehóva um þennan tíma í Jesaja 26:20, 21: „Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá. Því sjá, [Jehóva] gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra.“ Þess vegna hvetur Sefanía 2:2, 3: „Áður en reiðidagur [Jehóva] kemur yfir yður. Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þé verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“

‚Hlaupið‘ til Jehóva

17. (a) Hvað þarf að gera til að hljóta vernd Jehóva? (b) Hvers vegna hlutu fæstir, sem voru uppi fyrir flóðið, velþóknun Jehóva?

17 Orðskviðirnir 18:10 segja: „Nafn [Jehóva] er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.“ „Hleypur“ þú til Jehóva? Mundu hvað Jesús sagði um fólkið á dögum Nóa. Það ‚át, drakk, kvæntist og giftist allt til þess dags er Nói gekk í örkina, og það vissi ekki, fyrr en flóðið kom og hreif það allt burt.‘ (Matteus 24:38, 39) Hið ranga, sem þetta fólk gerði, var að vera svo upptekið af öllu öðru að það hlustaði ekki á Guð þegar hann talaði í gegnum þjón sinn Nóa, sem Biblían nefnir „prédikara réttlætisins.“ (2. Pétursbréf 2:5) Úr því að menn hlustuðu ekki ‚hreif flóðið þá alla burt‘ til tortímingar.

18. Hvers vegna var ekki nóg að vera „góðar manneskjur“ til að lifa af flóðið?

18 Margir sem dóu í flóðinu héldu sig vafalaust vera ágætis fólk, og tóku ekki þátt í ofbeldinu sem gagnsýrði þjóðfélagið á þeim tíma. En það eitt að vera „gott fólk“ bjargaði því ekki. Með sinnuleysi sínu lét það sér illsku samtíðarinnar í léttu rúmi liggja. Það sem skipti sköpum var að það ‚hljóp‘ ekki til Jehóva; það hlustaði ekki þegar þjónn Guðs talaði. Þess vegna gerði það ekki viðeigandi ráðstafanir til björgunar. Þeir sem hlustuðu lifðu hins vegar af.

19. Hvaða blessunar njóta þjónar Jehóva nú þegar og hvers vegna?

19 Núna er Guð líka að flytja friðarboðskap sinn þeim sem hlusta. Hvaða afleiðingar mun það hafa fyrir þá? Jesaja 54:13 segir: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ Já, „[Jehóva] blessar lýð sinn með friði.“ (Sálmur 29:11) Það er þess vegna sem vottar Jehóva njóta ósvikins, órjúfanlegs friðar um allan heim sín á meðal, mitt í heimi sem er þjakaður hatri og ofbeldi. Þeirra á meðal ríkir alþjóðlegt, kærleiksríkt bræðralag sem leiðtogar heims, þjóðir þeirra og trúarbrögð geta ekki líkt eftir. Hvers vegna? Vegna þess að þeir hlusta ekki þegar Guð talar. Þess vegna gera þeir ekki það sem hann segir. En vottar Jehóva hlusta á Guð. Þeir taka alvarlega orðin í Prédikaranum 12:13: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“

20. Hvað þarf hver einstakur maður að gera til að lifa af inn í nýjan heim Guðs?

20 Það er þetta sem sérhver maður — já, allir sem vilja lifa í nýjum heimi Guðs — verða að gera. Þeir verða að ‚hlaupa‘ til Jehóva án tafar. Þeir verða að láta visku frá Guði leiða sig eins og Orðskviðirnir 8:32-35 segja: „Hlýðið mér, því að sælir eru þeir, sem varðveita vegu mína. Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir, og látið hann eigi sem vind um eyrun þjóta. Sæll er sá maður, sem hlýðir mér, . . . því að sá sem mig finnur, finnur lífið.“

Hvert er svar þitt?

◻ Hvers vegna mun mönnum aldrei takast að koma á friði?

◻ Hvers vegna er meiri þörf en nokkru sinni fyrr að hlusta á Jehóva?

◻ Hvað mun hin væntanlega yfirlýsing um ‚frið og öryggi‘ í raun merkja?

◻ Hvað verðum við að gera ef við viljum lifa af inn í nýja skipan Guðs?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Eins og öskrandi ljón reynir Satan að auka spillandi áhrif sín.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Þegar þetta heimsskipulag er kramið eins og vínber í vínþröng verður „[Jehóva] athvarf lýð sínum.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila