Virk forystu Krists nú á tímum
„Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — MATTEUS 28:20.
1. Í hvaða skilningi fól Kristur lærisveinum sínum eigur sínar til umsjónar?
ÞEGAR Kristur var í þann mund að yfirgefa lærisveina sína og snúa aftur til himna árið 33 ‚fól hann þeim eigur sínar.‘ Í því fólst að vera „erindrekar Krists“ og halda áfram þeirri prédikun, sem hann hafði komið af stað, og láta hana teygja sig út til „endimarka jarðarinnar.“ Áður en hann yfirgaf þá hafði hann gefið þeim fyrirmæli um að ‚gera menn allra þjóða að lærisveinum.‘ Sjáum við merki þess að hann hafi sýnt því áhuga hvernig þeir sinntu því verkefni? Svo sannarlega! — Matteus 25:14; 2. Korintubréf 5:20; Postulasagan 1:8; Matteus 28:19.
2. Hvað sýnir að Kristur fylgdist náið með starfi safnaðarins á fyrstu öld?
2 Meira en 60 árum eftir að Kristur steig upp til himna sýndi hann að hann hefði fylgst af athygli með starfi kristna safnaðarins á jörðinni. Í opinberun, sem gefin var Jóhannesi postula, en hann var meðlimur hins stjórnandi ráðs á fyrstu öld, sendi Jesús Kristur sjö söfnuðum í Litlu-Asíu boðskap. Við fimm þeirra sagði hann: „Ég þekki verkin þín.“ Fram kom að honum var mjög vel kunnugt hvað var að gerast í hinum tveim, í Smýrnu og Pergamos. Hver söfnuður fékk sína ákveðnu hvatningu og heilræði. Þeir gátu ekki verið í neinum vafa um hver væri leiðtogi þeirra. — Opinberunarbókin 1:11; 2:1-3:22.
3. Til hverra var skilaboðunum sjö í raun beint og hvað sannar að svo er?
3 Boðskapurinn til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu átti þó erindi til fleiri en þeirra einna. Hin góðu ráð og aðvaranir, sem í boðskapnum felst, átti erindi til allra safnaða, allt frá fyrstu öld fram til ‚Drottins dags‘ sem nú stendur yfir.a Augu Krists, líkt við eldsloga, hafa fylgst návæmlega með því sem hefur verið að gerast í ‚öllum söfnuðunum.‘ — Opinberunarbókin 1:10; 2:18, 23.
Húsbóndinn og þjónn hans
4. Hvernig fór Kristur „úr landi“ og kom síðan aftur „löngu síðar“?
4 Eftir að hafa líkt sjálfum sér við ‚mann, er ætlaði úr landi, og kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar,‘ bætti Kristur við: „Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.“ (Matteus 25:14, 19) Árið 33 hafði Kristur ‚stigið upp til himna‘ þar sem hann settist „Guði á hægri hönd.“ (1. Pétursbréf 3:22) „Löngu síðar,“ eftir krýningu sína árið 1914, byrjaði Kristur að ‚drottna mitt á meðal óvina sinna‘ með því að úthýsa Satan og illum öndum hans af himnum og varpa niður til jarðar. (Sálmur 110:1, 2; Opinberunarbókin 12:7-9) Síðan beindi hann athyglinni að þjónum sínum. Nú var kominn tími til að gera upp reikninga við þá. Hann var starfandi leiðtogi þeirra í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr.
5. Hvenær rann reikningsskilatíminn upp og hvernig var hinum trúföstu umbunað?
5 Nútímasaga þjóna Guðs sýnir að þessi reikningsskilatími rann upp á árabilinu 1918-19. Dæmisagan um talenturnar sýnir hvernig húsbóndinn myndi gera upp reikninga við þá sem eftir væru af smurðum þjónum hans. Þeir yrðu hver um sig að gera honum skil á því hvernig þeir hefðu notað eigur hans, ‚hver eftir hæfni‘ eða andlegum tækifærum og möguleikum. Þeir sem höfðu ávaxtað eigur húsbóndans gengu inn til fagnaðar hans, og hann sagði við þá: „Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig.“ — Matteus 25:15, 20-23.
6. Hvað mynduðu hinir trúföstu smurðu kristnir menn til samans og hvað fól húsbóndinn þeim til umsjónar?
6 Hinir einstöku smurðu kristnu menn, sem reyndust trúfastir erindrekar hins ríkjandi konungs, fúsir til að gera menn að lærisveinum húsbónda síns, hlutu slík laun. Sem hópur mynduðu þeir þann ‚þjón‘ sem húsbóndinn sagði við: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ — Matteus 24:45-47.
7. (a) Hvernig hafa „eigur Krists“ aukist frá 1914? (b) Hvað sýnir að Kristur er líka leiðtogi hinna ‚annarra sauða‘?
7 ‚Eigur‘ Krists hafa aukist frá 1914. Hann hefur tekið við „konungdómi“ sem felur í sér aukið vald og meiri ábyrgð. (Lúkas 19:11, 12) Fyrst safnaði hann þeim sem eftir voru af ‚sonum ríkisins,‘ hinum 144.000 smurðu kristnu mönnum sem „út eru leystir frá jörðunni“ til að vera konungar og prestar með honum á himnum. (Matteus 13:38; Opinberunarbókin 14:1-4; 5:9, 10) Og eins og sagan sýnir hefur hann frá 1935 verið að safna ‚miklum múgi‘ ‚annarra sauða‘ sem hann sagði um: „Þá ber mér einnig að leiða.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10; Jóhannes 10:16) Já, hann er sá sem leiðir þessa ‚sauði,‘ hann er starfandi leiðtogi þeirra. Athyglisvert er að gríski textinn merkir bókstaflega: „Það er nauðsynlegt fyrir mig að leiða þá.“ Hvernig leiðir hann alla „sauði“ sína nú á tímum?
Umsjónarmenn í hægri hendi Krists
8, 9. (a) Hvaða sýn fékk Jóhannes postuli? (b) Hvað táknuðu ljósastikurnar sjö og stjörnurnar sjö?
8 Jóhannes postuli, sem tilheyrði hinu stjórnandi ráði frumkristna safnaðarins, sá í sýn „sjö gullljósastikur, og á milli ljósastikanna einhvern líkan mannssyni, . . . Hann hafði í hægri hendi sér sjö stjörnur.“ Jesús Kristur sagði við Jóhannes til skýringar: „Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.“ — Opinberunarbókin 1:12-20.
9 Bókin „Then Is Finished the Mystery of God“ segir um þessa ritningargrein: „Eru þessir ‚englar‘ ósýnilegir? Nei, Jóhannes postuli fékk alla opinberunina frá Jesú Kristi fyrir milligöngu engils á himnum, og það hefði verið óeðlilegt að láta hann skrifa hana og senda aftur englum á ósýnilegu tilverusviði. Þeir þurfa ekki að fá þann boðskap sem skrifaður var til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu. Grunnmerking orðsins ‚engill‘ er ‚boðberi, sendiboði.‘ . . . Það að þessar sjö táknrænu stjörnur skulu vera í hægri hendi Jesú merkir að hann gætir þeirra, annast og leiðir, og ‚hægri hönd‘ máttar hans er fær um að leiðbeina þeim og vernda. . . . Á sama hátt og ‚ljósastikurnar sjö‘ í sýninni um ‚Drottins dag‘ táknuðu alla sannkristna söfnuði, sem nú eru á hinum sanna ‚Drottins degi‘ frá 1914, eins tákna ‚stjörnurnar sjö‘ alla andagetna, smurða umsjónarmenn þessara safnaða núna.“b — Bls. 102-4.
10. Hvaða auknar „eigur“ hafa þjóninum verið faldar til umsjónar?
10 Þessir smurðu umsjónarmenn í hægri hendi Krists eru allir hluti hins samanlagða ‚þjóns‘ sem hann hefur sett ‚yfir allar eigur sínar.‘ Þar eð húsbóndi þjónsins hefur sjálfur tekið á sig aukna ábyrgð frá 1914 hljóta ‚allar eigur hans‘ að vera langtum umfangsmeiri en áður. Sem „erindrekar Krists“ eru leifarnar nú erindrekar eða sendiherrar ríkjandi konungs ríkis sem þegar er komið á fót. (2. Korintubréf 5:20) Þeim hefur verið falin umsjón með öllum andlegum eigum húsbóndans á jörð. Með þjónustu sinni verða þeir að stuðla að uppfyllingu spádómanna sem eiga við tímabilið eftir stofnsetningu Guðsríkis. Það felur í sér að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14) Þeir verða í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr að ‚gera menn allra þjóða að lærisveinum‘ og safna þannig saman ótölulegum ‚miklum múgi.‘ (Matteus 28:19, 20; Opinberunarbókin 7:9) Já, þessar „gersemar allra þjóða“ eru hluti hinna auknu ‚eigna‘ Krists á jörðinni. — Haggaí 2:7.
11. (a) Fyrir hvað skapa þessar auknu „eigur“ þörf? (b) Hver stýrir starfinu og hvernig?
11 Allt þetta hefur í för með sér meiri vinnu fyrir ‚þjóninn,‘ stærri starfsakur sem bókstaflega teygir sig um „alla heimsbyggðina.“ Það þarf mikinn húsakost og tækjabúnað til að hafa umsjón með og prenta og dreifa ritum sem notuð eru við prédikun og einkanám í Biblíunni. Eins og á fyrstu öldinni fer þetta starf fram undir handleiðslu Jesú Krists sem í táknrænni merkingu stendur „milli ljósastikanna“ eða safnaðanna. Hann leiðbeinir þeim fyrir milligöngu smurðra umsjónarmanna sem hann í táknrænum skilningi hefur „í hægri hendi sér.“ (Opinberunarbókin 1:13, 16) Eins og á tímum frumkristna safnaðarins myndar hópur þessara smurðu umsjónarmanna hið sýnilega stjórnandi ráð safnaðar Krists á jörð. Hin máttuga „hægri hendi“ hans leiðir þessa trúföstu menn í umsjón sinni með starfi Guðsríkis.
Heilagur andi
12, 13. (a) Hvaða spurning vaknar í ljósi hins mikla vaxtar? (b) Hvernig notar Kristur anda sinn til að fullnægja þörfinni fyrir umsjónarmenn meðal lærisveina sinna á jörðinni?
12 Þar eð hinir ‚aðrir sauðir‘ telja nú yfir þrjár milljónir, sem skiptast í um 52.000 söfnuði, er augljóst að hinar smurðu leifar þurfa hjálp við að annast jarðneskar eigur húsbóndans. Innan við 9000, þeirra á meðal margar systur, neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni, þannig að ekki er einu sinni einn smurður umsjónarmaður fyrir hvern söfnuð. Þýðir það að Jesús Kristur hafi ekki umsjón með söfnuðum þar sem er enginn andagetinn ‚engill‘ eða ‚stjarna‘?
13 Því fer fjarri. Eins og við höfum séð í greininni á undan leiddi Kristur söfnuð sinn á fyrstu öld fyrir milligöngu heilags anda. Nú á dögum notar hann andagetna meðlimi hins stjórnandi ráðs til að skipa umsjónarmenn úr hópi hinna ‚annarra sauða.‘ Þeir þurfa að uppfylla sömu kröfur og smurðir öldungar sem greint er frá meðal annars í 1. Tímóteusarbréfi 3:1-7 og Títusarbréfinu 1:5-9. Þessar kröfur Ritningarinnar voru færðar í letur undir leiðsögn heilags anda. Meðmæli og útnefningar öldunga fara fram eftir að leitað hefur verið til Guðs í bæn og undir handleiðslu heilags anda. Ráð Páls í Postulasögunni 20:28 eiga jafnmikið við öldunga, sem ekki eru smurðir, og hina: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar.“ — Postulasagan 20:28.
14. (a) Hvernig uppfyllist nú þegar spádómurinn í Jesaja 32:1, 2? (b) Hvernig verða allir öldungar að lúta „hægri hendi“ Krists?
14 Í tugþúsundum safnaða notar hinn réttláti og ríkjandi konungur Jesús Kristur „aðra sauði“ sem ‚höfðingja‘ til að vernda „sauði“ sína fyrir andlegum vindi, regni og þurrkum. (Jesaja 32:1, 2) Eins og Davíð til forna biðja öldungar, bæði af hinum smurðu og hinum ‚öðrum sauðum,‘ til Jehóva: „Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.“ (Sálmur 143:10) Og Jehóva heyrir bæn þeirra. Fyrir milligöngu sonar síns gefur hann þeim heilagan anda sinn, og Jesús notar hann til að leiða lærisveina sína á jörðinni. Að sjálfsögðu verða allir öldungar að lúta „hægri hendi“ Krist, yfirvaldi hans, leiðsögn og fyrirmælum sem hann kemur á framfæri fyrir milligöngu heilags anda og andagetinna meðlima hins stjórnandi ráðs.
Englarnir
15. Hvaða aðra aðferð hefur Kristur til að leiða lærisveina sína á jörðinni?
15 Í greininni á undan var þess getið að englar hefðu verið notaðir á fyrstu öld til að leiðbeina frumkristnum mönnum og hjálpa í prédikun þeirra og frelsa þá. Er rökrétt að ætla að okkar ríkjandi konungur Jesús Kristur sé hættur að nota engla í að veita lærisveinum sínum forystu nú á dögum? Bæði væri það órökrétt og auk þess óbiblíulegt.
16, 17. Hvaða sönnun höfum við fyrir því að Kristur noti englana til að uppskera „börn ríkisins“ og að safna saman ‚öðrum sauðum‘?
16 Samkvæmt dæmisögu Jesú um hveitið og illgresið myndi uppskerutíminn renna upp við ‚endi veraldar‘ sem hófst árið 1914. Á uppskerutímanum yrðu „börn ríkisins“ aðgreind frá ‚börnum hins vonda.‘ Hverja ætlaði húsbóndinn að nota sem uppskerumenn? „Kornskurðarmennirnir [eru] englar.“ Kristur bætti við: „Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja.“ (Matteus 13:37-41) Kristur notar englana til að vernda bræður sína á jörðinni.
17 En hvað um hina ‚aðra sauði‘? Notar Kristur englana til að safna þeim saman? Já, tvímælalaust! Dæmisagan um sauðina og hafrana segir: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ (Matteus 25:31, 32) Kristur notar engla sína við þessa aðgreiningu. Alveg eins og engill stýrði fótum Filippusar til eþíópska hirðmannsins, eins eru fjölmörg dæmi þess nú á dögum að Kristur noti englana til að beina vottum sínum til sauðumlíkra manna. Margir hafa borið því vitni að þeir hafi beðið Guð um hjálp rétt áður en vottur barði dyra hjá þeim. — Postulasagan 8:26, 27.
Fullt traust til forystu Krists
18, 19. Hverju treystum við með hliðsjón af því sem gerðist á fyrstu öldinni?
18 Á fyrstu öldinni leyfðu kringumstæður ekki alltaf að Kristur notaði hið stjórnandi ráð í Jerúsalem til að leysa ákveðið vandamál. Þegar Páll var einangraður í norðurhluta Litlu-Asíu og þurfti að vita hvaða svæði hann ætti að beina athygli sinni að næst leiðbeindi Kristur honum með hjálp heilags anda. (Postulasagan 16:6-10) Vottar Jehóva treysta því að séu einhverjir bræðra þeirra um stund einangraðir frá hinu stjórnandi ráði sökum ofsókna, þá muni Kristur áfram leiða þá með hjálp heilags anda og englanna.
19 Sumar ákvarðanir hins stjórnandi ráðs á bernskuskeiði kristna safnaðarins kunna að hafa verið torskildar á þeim tíma. Svo var vafalaust um það þegar Páll var sendur aftur til Tarsus eða til musterisins eftir þriðju trúboðsferð sína. (Postulasagan 9:30; 21:23-25) Samt sem áður stóð Kristur í raun að baki slíkum ákvörðunum. (Postulasagan 22:17-21; 23:11) Við getum treyst því að hvað sem Kristur leyfir að gerist meðal lærisveina sinna á jörðinni eigi sér verðugan tilgang að baki, alveg eins og var á fyrstu öld.
20. Um hvað erum við sannfærð og hverju erum við staðráðin í?
20 Þegar við lesum í Biblíunni að Kristur sé „höfuð líkama síns, safnaðarins,“ erum við sannfærð um að hann sé það ekki aðeins að nafninu til. (Kólossubréfið 1:18, ísl. bi. 1912) Við vitum af reynslunni að hann er raunverulegt og virkt höfuð safnaðarins. Þegar við lesum Postulasöguna og sjáum hvernig Kristur stýrði málum meðal frumkristinna manna, þá sjáum við að hann notar sömu aðferðir nú á dögum. Við sjáum merki um að Kristur noti heilagan anda, englana og ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ og hið stjórnandi ráð hans, til að útnefna andlega hæfa öldunga. Með fullu trausti til hinnar virku forystu Krists erum við staðráðin í að halda áfram að „ástunda sannleikann“ og tala hann, og vaxa í kærleika „í öllu upp til hans, sem er höfuðið, — Kristur.“ — Efesusbréfið 4:15.
[Neðanmáls]
a Ítarlega skýringu á boðskapnum til safnaðanna sjö er að finna í bókinni „Then Is Finished the Mystery of God“, 7. til 14. kafla, útg. af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Þann 1. júní 1972 skýrði Varðturninn þetta atriði nánar og sagði: „Það, sem hinn dýrlega gerði Drottinn, Jesús Kristur, kallaði ‚safnaðarengil‘ og sem var táknað með stjörnu á himni, var eflaust ekki einstakur öldungur, umsjónarmaður eða hirðir, heldur allt ‚öldungaráð‘ safnaðarins. . . . ‚Öldungaráðið‘ þar í Efesus varð að skína eins og stjarna, með því að varpa himnesku, andlegu ljósi á söfnuðinn, þar sem heilagur andi hafði sett þá umsjónarmenn.“ — Bls. 132 og 133.
Aðalatriði
◻ Hvaða sönnun höfum við fyrir því að Kristur hafi fylgst gaumgæfilega með starfi safnaðanna á fyrstu öld?
◻ Hverja setti Kristur yfir allar „eigur“ sínar og hvað er í þeim fólgið?
◻ Hverjar eru stjörnurnar sjö í hægri hendi Krists?
◻ Hvernig notar Kristur heilagan anda, engla og hið smurða stjórnandi ráð til að leiða söfnuð sinn nú á tímum?
◻ Hvers vegna getum við treyst fullkomlega á forystu Krists nú á tímum?
[Rammagrein á blaðsíðu 29]
Prófraunir geta komið vegna styrjalda, byltinga eða beinna ofsókna og opinberra banna. Það getur gert kristnum mönnum ómögulegt að iðka guðsdýrkun sína með fullkomlega skipulegum hætti. Ógerlegt getur orðið að halda fjölmennar safnaðarsamkomur. Tengslin við deildarskrifstofuna geta rofnað um tíma. Heimsóknir farandumsjónarmanna geta orðið óreglulegar. Ný rit geta hætt að berast. Hvað ættir þú að gera ef eitthvað slíkt hendir þig?
Svarið er þetta: Gerðu allt sem þú getur miðað við aðstæður til að ástunda hreina guðsdýrkun. Einkanám ætti að vera mögulegt. Oftast geta fáeinir hópar bræðra komið saman til biblíunáms á einkaheimilum. Hægt er að nota áður numin rit og Biblíuna sjálfa sem námsefni. Varðveittu jafnaðargeð þitt. Yfirleitt tekst fljótlega aftur að koma á einhvers konar sambandi við ábyrga bræður. Hið stjórnandi ráð leitar leiða til að komast í samband við bræðurna.
En jafnvel þótt þú værir einangraður frá öllum kristnum bræðrum þínum skaltu hafa í huga að þú ert ekki einangraður frá Jehóva og syni hans, Jesú Kristi. — Organized To Accomplish Our Ministry, bls. 168.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Í táknrænum skilningi stendur Kristur milli safnaðanna og heldur á umsjónarmönnunum í hægri hendi sér.