Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.10. bls. 19-24
  • Loksins friður! – þegar Guð talar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Loksins friður! – þegar Guð talar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Gestir utan úr geimnum‘
  • ‚Eilífur fagnaðarboðskapur‘
  • Himneskur her sækir fram
  • Það sem tímar og tíðir Jehóva þýða fyrir okkar daga
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Guðsríki og framkvæmdir þess
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Hver er sannleikurinn um engla?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
  • Hvernig geta englar hjálpað okkur?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.10. bls. 19-24

Loksins friður! – þegar Guð talar

„Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ — JESAJA 9:7.

1. Hvernig hefur mannkynssagan verið þótt veraldarleiðtogar séu stöðugt að tala um frið?

ÞJÓÐALEIÐTOGAR eru sífellt að tala um frið og almenningur segist þrá hann. En óneitanlega minnir núverandi ástand okkur á það sem spámaðurinn Jeremía sagði endur fyrir löngu: „Menn vænta friðar, en ekkert gott kemur, vænta lækningatíma, en sjá, skelfing!“ (Jeremía 8:15, NW) Allar götur síðan Kain myrti Abel hefur heimurinn í raun séð lítinn frið og verið þjakaður ofbeldi. Og 20. öldin er langsamlega mestu ofbeldistímar sem verið hafa. Á henni hafa um hundrað milljónir manna fallið í styrjöldum. Á okkar tímum hafa 97 af hundraði jarðarbúa komist í snertingu við í það minnsta eina styrjöld. Veraldarleiðtogar hafa leitt heiminn úr einni stórhörmung í aðra, þótt þeir tali einatt um frið.

2. Hvaða annað ofbeldi er útbreitt í öllum heimshornum?

2 Við allt þetta ofbeldi þarf svo að bæta hinum daglegu ofbeldisglæpum. Til dæmis eru um 20.000 manna myrtar ár hvert í Bandaríkjunum. Yfir 80.000 konum er nauðgað og enn fleiri nauðganir aldrei kærðar. Nálega tvær milljónir kvenna sæta alvarlegu ofbeldi af hendi mannanna sem þær búa með. Og um fjórðungur allra heimila er fórnarlömb einhvers konar glæpa. Í frétt nokkurri sagði: „Við erum orðin hræðilega ofbeldisfullt þjóðfélag.“ Svipað er uppi á teningnum í flestum öðrum löndum.

3. Hvaða enn meiri ofbeldisverk er hægt að vinna á mannkyninu núna?

3 Allt þetta er þó sem ekkert í samanburði við það ofbeldi sem hægt væri að fremja með núverandi kjarnorkuvopnum. Þau myndu duga til að drepa hvern einasta jarðarbúa tólf sinnum! Læknir sagði: „Nútímalæknavísindin munu ekkert hafa til að bjóða fórnarlömbum kjarnorkustyrjaldar.“ Hvers vegna? Annar svaraði: „Flestir læknar, hjúkrunarfræðingar og tæknimenn létu lífið . . . Sjúkrahús eyðilegðust. Fáir yrðu eftir sem byggju yfir nægri þekkingu og búnaði til að bjarga nokkrum.“

4, 5. (a) Hvað sagði bók ein um friðarleysið á okkar tímum? (b) Hvaða svipuð orð lét fyrrverandi embættismaður falla?

4 Aðalgreinin í nýlegri árbók Encyclopædia Britannica fjallaði um það hve lítill friður hefði verið á okkar tímum, og bar yfirskriftina: „Okkar sundraði heimur — ógnun stjórnleysis á alþjóðavettvangi.“ Þar sagði: „Eftir 1945 var gengið að því sem gefnum hlut að ‚framfarir‘ væru á einhvern hátt óhjákvæmilegar og að framtíðin bæri í skauti sér samheldni og eindrægni.“ En báðar þessar hugmyndir „reyndust jafnfjarri sanni sem hugsast getur,“ sagði þar. Síðan var bætt við: „Í staðinn . . . hefur heimurinn hægt og bítandi verið að sundrast. Margar þjóðir, þar sem eining var talin sjálfsagður hlutur, hafa verið að klofna . . . í ættbálka, öfgasamtök, sértrúarhópa, . . . óaldarflokka, dauðasveitir, hryðjuverkahreyfingar, skæruliðahreyfingar og þrönga, ofstopafulla hagsmunahópa.“

5 Fyrrum háttsettur embættismaður Bandaríkjastjórnar tók í svipaðan streng: „Þau öfl, sem valda óstöðugleika á alþjóðavettvangi, eru að ná yfirhöndinni yfir þeim öflum sem stuðla að skipulegri samvinnu. Það er óhjákvæmileg niðurstaða sérhverrar hlutlausrar rannsóknar á þróuninni í heiminum, að þjóðfélagsólga, pólitísk ókyrrð, efnahagsöngþveiti og árekstrar þjóða í milli muni líklega færast í aukana það sem eftir lifir þessarar aldar.“ Hann lauk máli sínu svo: „Sú ógnun, sem blasir við mannkyninu, er í stuttu máli . . . alþjóðastjórnleysi.“

‚Gestir utan úr geimnum‘

6. Hvernig lýsti ritstjóri dagblaðs hugmyndum ‚gesta utan úr geimnum‘ um heim nútímans?

6 Með allt þetta í huga sagði ritstjóri dagblaðs í Cleveland: „Ef gestir kæmu í næstu viku frá fjarlægri vetrarbraut, gætum við þá sagt þeim að við yrðum að drepa okkur til að sýna fram á að annaðhvort kommúnismi eða kapítalismi sé hinum fremri? Gætum við útskýrt fyrir þeim að við værum tegund sem skiptir sér í þjóðir, og að þessar þjóðir hefðu strengt þess heit að myrða hver aðra í reglubundnum, trylltum blóðsúthellingum? Hvernig gætum við útskýrt fyrir þeim að við létum suma af okkar tegund svelta og aðra híma í niðurlægingu og fáfræði, vegna þess að okkur fyndist mikilvægara að finna upp aðferðir til fjöldaútrýmingar? Gestirnir frá þessari fjarlægu vetrarbraut myndu áreiðanlega lýsa okkur sem barbörum. . . . Við gætum mótmælt á þeim forsendum að við létum okkur mjög annt um listir og tryðum á réttvísi. En þeir myndu brosa dapurlega og kveðja áður en sprengingarnar hæfust.“

7, 8. (a) Hvaða voldugir gestir eru nú í eftirlitsferð meðal mannkynsins? (b) Hvers vegna eru þeir hér?

7 ‚En auðvitað koma engir gestir utan úr geimnum í slíka kynnisferð,‘ segir kannski einhver. Nei, ekki frá annarri vetrarbraut, en í vissum skilningi hafa mjög voldugar verur á háu vitsmunastigi um árabil verið að rannsaka rækilega það sem mannkynið hefur verið að gera sjálfu sér og jörðinni. Auk þess sjá þær nú um að heiminum sé fluttur skýr boðskapur ‚áður en sprengingarnar hefjast.‘

8 Hverjir eru þessir voldugu gestir sem hafa verið að rannsaka mannkynið? Orð Guðs segir okkur að það séu fulltrúar Guðs á andlegu tilverusviði, trúfastir englar sem hann hefur sent til jarðar til eftirlits. Um þessar andaverur segir Sálmur 103:20: „Lofið [Jehóva], þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.“ Þessir voldugu englar eru oft nefndir í Biblíunni. Til dæmis segir Matteus 25. kafli í spádómi um þá tíma sem við lifum, í 31. og 32. versi: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“

9. Hvaða hlutverki gegnir Kristur Jesús í tengslum við þessa athugun á mannkyninu?

9 Þessi ‚Mannssonur‘ er aðalfulltrúi Guðs, Jesús Kristur. Eftir upprisu sína til himna hefur hann beðið þess að Jehóva fæli honum þetta sérstaka verkefni. Eins og Sálmur 110:1 lýsir því sagði Jehóva við hann: „Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.“ Uppfylling biblíuspádómanna sýnir að árið 1914 rann upp tími Guðs til að láta þessa voldugu andaveru taka til starfa.

10. Hve margir englar gætu aðstoðað Krist við aðgreininguna?

10 En hann átti ekki að koma einn. Eins og Matteus 25:31 sagði áttu ‚allir englarnir‘ að vera með honum. Hve margir gætu þeir verið? Opinberunarbókin 5:11 segir: „Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið [Guðs] . . . og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda.“ Tíu þúsund sinnum tíu þúsund eru hundrað milljónir! Þó talar Biblían í fleirtölu um „tíu þúsundir tíu þúsunda“ engla sem þjóna Guði. Það gætu verið mörg hundruð milljónir engla, kannski jafnvel milljarðar eða fleiri. Undir forystu Krists aðstoða þessar andaverur fulltrúa Guðs á jörðinni við að aðgreina mannkynið í tvo hópa. Annar fer „til eilífrar refsingar“ eða eyðingar en hinn „til eilífs lífs.“ — Matteus 25:46; sjá einnig Matteus 13:41, 42.

‚Eilífur fagnaðarboðskapur‘

11. Hver er hinn ‚eilífi fagnaðarboðskapur‘ sem englasveitir boða?

11 Hver er kjarni þess boðskapar sem englarnir eiga hlut í að flytja á jörðinni nú á tímum? Opinberunarbókin 14:6 segir okkur: „Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ Hver er þessi ‚eilífi fagnaðarboðskapur‘? Hann tengist því sem Jesús sagði myndu vera eitt hinna mörgu merkja þess að við lifðum hina síðustu daga. Í Matteusi 24:14 sagði hann: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“

12, 13. (a) Hvað er Guðsríki? (b) Hvers vegna er boðskapurinn um Guðsríki bestu hugsanlegu fréttirnar?

12 Guðsríki er hin himneska stjórn sem mun fara með völd yfir jörðinni eftir að núverandi stjórn manna hefur verið rutt úr vegi. (Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10) Konungur hennar er Kristur Jesús og hann á sér meðstjórnendur. (Opinberunarbókin 14:1-4; 20:4) Talað er um konung þessa ríkis í Daníel 7:14 með þessum orðum: „Honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.“

13 Hvers vegna er boðskapurinn um Guðsríki fagnaðarboðskapur, langbestu fréttirnar sem hugsast geta? Vegna þess að það mun hafa í för með sér nýjan heim, nýja uppbyggingu mannlegs samfélags. Undir stjórn Guðsríkis mun mannkynið hljóta svo undursamlega blessun að Sálmur 37:11 segir um þá sem þá munu lifa: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ Já, „[Jehóva] blessar lýð sinn með friði.“ (Sálmur 29:11) Núna, áður en ríkið tekur full völd yfir öllu sem gerist á jörðinni, er fagnaðarboðskapurinn um hina varanlegu, friðsömu stjórn í höndum ‚Friðarhöfðingjans‘ prédikaður öllum þjóðum. Það gera jarðneskir þjónar Guðs undir handleiðslu Krists og englanna. — Jesaja 9:6, 7.

14. (a) Nefndu leið til að bera örugglega kennsl á jarðneska þjóna Guðs. (b) Hvernig hefur Guð blessað þá?

14 Hverjir eru þessir jarðnesku þjónar Guðs? Nú, hverjir knýja reglulega dyra hjá fólki til að flytja því fagnaðarboðskapinn um Guðsríki? Jafnvel mótstöðumenn þeirra viðurkenna að það séu vottar Jehóva. Þessir boðberar Guðsríkis eru nú yfir þrjár milljónir talsins og fer ört fjölgandi. Síðastliðið ár tóku 225.868 nýir þjónar fagnaðarerindisins vígslu. Og á því eina ári var stofnaður 2.461 nýr söfnuður votta Jehóva í heiminum, að meðaltali liðlega sex á dag, þannig að tala safnaða varð alls 52.177 í 208 löndum. Sannarlega er að rætast spádómurinn í Jesaja 60:22. Þar heitir Jehóva því að hraða prédikun sinni og samansöfnun þegar að því kæmi. Og núna er að því komið!

15. Á hvaða grundvelli eru menn dæmdir núna?

15 Viðbrögð manna við fregnunum af stjórn Guðsríkis ráða úrslitum um hvort þeir fara „til eilífrar refsingar“ eða „til eilífs lífs“ í nýjum heimi. Viðbrögð margra eru líkt og lýst er í 2. Kroníkubók 36:15, 16: „[Jehóva] . . . sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum . . . en þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði [Jehóva] við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.“ En viðbrögð annarra eru jákvæð og þeir afla sér verndar Jehóva. „En sá sem á mig [sanna visku] hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.“ — Orðskviðirnir 1:20, 33; Matteus 25:34-46.

Himneskur her sækir fram

16. Hvernig mun Guð brátt tala til óhlýðins mannkyns?

16 Innan tíðar verður prédikunarstarfi votta Jehóva lokið að því marki sem hann hefur ákveðið. Þolinmæði Guðs gagnvart óhlýðnu mannkyni tekur þá enda. Hinn friðsami boðskapur, sem hann hefur boðað þessari kynslóð, mun breytast. Þá „talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni.“ (Sálmur 2:5) Eins og Jehóva sjálfur segir: „Í ákefð minni, í minni brennandi heift, tala ég það.“ (Esekíel 38:19) Þá mun hann gefa Jesú Kristi merki um að tefla fram himneskum her sínum gegn þessum uppreisnargjarna og löglausa heimi.

17. Hvað sýnir hversu máttugur einn engill er?

17 Það sem þessir herir munu áorka má sjá af því sem henti Assýringa þegar tími Guðs kom til að láta til sín taka. Önnur Konungabók 19:35 segir svo frá: „Þessa sömu nótt fór engill [Jehóva] og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa . . . þeir [voru] allir liðin lík!“ Til að gera þetta þurfti aðeins einn engil! Það sem þúsundir þúsunda engla munu gera innan skamms verður stórkostlegt.

18. Hve umfangsmikil verður tortímingin við endalok þessa heimskerfis?

18 Jeremía 25:31-33 lýsir með þessum orðum því sem gerast mun: „[Jehóva] þreytir deilu við þjóðirnar, hann gengur í dóm við allt hold. Hina óguðlegu ofurselur hann sverðinu! — segir [Jehóva]. Svo segir [Jehóva] allsherjar: Sjá, ógæfa fer frá einni þjóð til annarrar, og ákafur stormur rís á útjaðri jarðar. Þeir sem [Jehóva] hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum.“

19. Hvaða upplýsingum bætir 19. kafli Opinberunarbókarinnar við?

19 Opinberunarbókin 19. kafli lýsir því hvernig Jehóva mun gera allt þetta. Hann mun láta konunginn Jesú Krist ganga fram, og í fylgd með honum eru „hersveitirnar, sem á himni eru,“ eins og 14. versið segir. Síðan er sagt í 17. og 18. versi: „Og ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið. ‚Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra.‘⁠“ Og 19. til 21. vers lýsa gereyðingu allra mannlegra stofnana, vegna þess að þær hafa neitað að hlusta þegar Guð hefur talað fyrir munn jarðneskra boðbera sinna.

20. Hvernig vitum við að þessi heimur líður ekki undir lok í kjarnorkustyrjöld?

20 Því er brátt upp runninn tími Guðs til að binda enda á þetta ofbeldisfulla og sundraða heimskerfi. Sá endir verður þó ekki sjálfstortíming þjóðanna í kjarnorkustyrjöld. Ef svo færi myndu hinir réttlátu farast með hinum óguðlegu. En ‚sprengingar‘ Guðs gegn þessum heimi verða ekki þannig heldur beinast gegn sumum en öðrum ekki. Menn munu lifa af inn í nýjan heim. Orðskviðirnir 2:21, 22 segja: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“

21. Hvaða fleiri spurningar verða skoðaðar í næstu grein?

21 Hvers vegna er heimurinn kominn á það stig að slík heimseyðing er yfirvofandi? Er ekki hugsanlegt að núverandi friðarviðleitni þjóðaleiðtoga beri ávöxt, þannig að bjarga megi þessu kerfi? Og ef við viljum vera í hópi hinna ‚hreinskilnu‘ og „grandvöru,“ sem munu lifa af inn í nýjan heim og halda áfram að lifa, hvernig eigum við þá að hegða okkur á þessum mestu örlagatímum mannkynssögunnar? Greinin sem á eftir fer fjallar um það.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig hefur friðarleysið verið sérstaklega áberandi á okkar tímum?

◻ Hvaða hlutverki gegna englarnir í að aðgreina mannkynið núna?

◻ Hvers vegna er boðskapurinn um Guðsríki ‚eilífur fagnaðarboðskapur‘?

◻ Á hvaða grundvelli verða menn dæmdir til lífs eða dauða?

[Mynd á blaðsíðu 22]

Englasveitir styðja starf votta Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila