Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.7. bls. 27-32
  • Dómar Guðs verða að vera boðaðir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Dómar Guðs verða að vera boðaðir
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Tilefni og viðbrögð
  • Jeremía nútímans afhjúpar kristna heiminn
  • Hinn sundraði kristni heimur aðvaraður
  • Flett ofan af kristna heiminum
  • Jeremíastarfinu lýkur
  • Kristni heimurinn afhjúpaður sem frumkvöðull falskrar guðsdýrkunar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Jeremía — óvinsæll boðberi dóma Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Höfuðþættir Jeremíabókar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Verum hugrökk eins og Jeremía
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.7. bls. 27-32

Dómar Guðs verða að vera boðaðir

„Statt upp og tala til þeirra allt, sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá.“ — JEREMÍA 1:17.

1. Hvernig létu vottar Jehóva ‚ljós sitt skína‘ í Þýskalandi á tímum nasista?

„OFSÓKNIRNAR á hendur vottum Jehóva í Þýskalandi á tímum nasista skipa sinn sess meðal annarra þrengingatíma í sögu þeirra.“ (Holocaust Studies Annual, Vol. II — The Churches’ Response to the Holocaust) Suður-afríska blaðið Daily News sagði einnig um þýska votta þann 15. júlí 1939: „Líkt og ljós sem aldrei flöktir stendur þessi litli hópur kristinna karla og kvenna stöðugur í trú sinni, þyrnir í augum einvaldsins í München [Adolfs Hitlers] og lifandi vitnisburður þess að hann sé dauðlegur.“ Þessi orð minna okkur á að Jesús sagði að fylgjendur hans myndu verða „ljós heimsins“ og yrðu að láta ljós sitt skína frammi fyrir heiminum hvað sem það kostaði. — Matteus 5:11, 12, 14-16.

2, 3. Hvernig prédikaði ungur maður óttalaust á Sri Lanka?

2 Önnur frétt kemur frá Sri Lanka þar sem hryðjuverk hafa verið tíð. Hún segir frá ungum votti af þjóðflokki Tamíla, David Gunaratnam, sem prédikaði óttalaust fyrir hernaðaryfirvöldum í sönnum Jeremíastíl. Hann hafði verið tekinn til yfirheyrslu ásamt öðrum ungum mönnum. Frásagan segir: „Yfirmennirnir og aðrir voru mjög snortnir af kunnáttu mannsins og enn snortnari af augljósri einlægni hans, einkum þegar hann sagði: ‚Og ef ég hitti einhverja svonefnda hryðjuverkamenn myndi ég prédika hið sama fyrir þeim líka.‘“

3 Þessa sömu nótt var hann numinn á brott frá heimili sínu af hryðjuverkamönnum sem sökuðu hann um að aðstoða herinn. Hann hélt stöðugt fram hlutleysi sínu og sagðist einungis prédika boðskap Guðsríkis. „Ég er að vinna verk Guðs og mun halda áfram að gera það. Ég prédika fyrir hverjum sem vill hlusta, óháð því hver hann er.“ Hryðjuverkamennirnir skutu þennan djarfa vott til bana og skildu eftir unga ekkju með smábarn. — Samanber Postulasöguna 7:51-60.

4. Hvaða ofsókn á hendur vottum Jehóva í Rómönsku-Ameríku lögðu klerkar blessun sína yfir?

4 Þessi fregn kemur frá landi í Rómönsku-Ameríku þar sem sumir klerkar kaþólskra og öldungakirkjumanna hafa annaðhvort lagt blessun sína yfir eða látið sér vel líka ofsóknir á hendur vottum Jehóva: „Það voru fimm vottar Jehóva í virkinu . . . Þeir voru oft barðir og settir í einangrun án matar. Hinn pólitíski foringi, sem sá um innrætinguna í okkar hópi, refsaði þeim vegna þess að þeir prédikuðu fyrir öðrum hermönnum. Hann sagði að vottar Jehóva væru langhættulegastir af öllum trúarlegum andófsmönnum.“

Tilefni og viðbrögð

5. Hvað býr oft að baki ofsókn á hendur vottunum, eins og var á dögum Jeremía?

5 Já, líkt og trúarleg og pólitísk yfirvöld þess tíma ofsóttu Jeremía mæta vottar Jehóva um allan heim andstöðu sömu afla. Hvert er tilefni slíks? Jafnvel þótt vottarnir séu friðsamasti og löghlýðnasti hópur hvers samfélags telja óvinir þeirra orð Guðs hættulegt, því að þeir bregðast ókvæða við boðskap þess um ríki Guðs og hafna honum. Ósveigjanleg fastheldni vottanna við prédikun sína og meginreglur afhjúpar eigingirni og tvöfeldni hinna stjórnmálalegu, viðskiptalegu og trúarlegu afla í heimi Satans. — Jóhannes 15:18, 19; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

6. Hvernig hafa vottar Jehóva brugðist við ofsóknum?

6 En þrátt fyrir fangavist, barsmíð og jafnvel dauða hafa vottar Jehóva um allan heim brugðist við líkt og Jeremía til forna. Þótt þeir séu kærleiksríkir og háttvísir halda þeir áfram að prédika óvinsæla dóma Guðs fyrir þjóðunum. (2. Tímóteusarbréf 2:23-26) Þeir vita að þeir verða að hlýða Guði framar en mönnum. (Postulasagan 4:19, 20; 5:29) Þeir hafa í huga leiðbeiningar Páls til kristinna Hebrea þess efnis að sýna úthald í að gera vilja Guðs. Þá munu þeir sjá fyrirheitið fullnast, hið eilífa líf. Við ættum því að geta sagt líkt og Páll og Jeremía: „Vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.“ — Hebreabréfið 10:35-39.

Jeremía nútímans afhjúpar kristna heiminn

7. Hvernig hafa vottarnir á 20. öldinni fylgt fordæmi trúfastra spámanna sem Jehóva sendi til Ísraels og Júda?

7 Líkt og Jehóva hélt áfram að senda spámenn sína til Ísraels- og Júdamanna hefur hann sent votta sína til að hamra á boðskapnum um komandi dóm. (Jeremía 7:25, 26; 25:4, 8, 9) Einkum frá hinu andlega lífgandi ári 1919 hafa smurðar leifar bræðra Krists óttalaust boðað kristna heiminum dóma Guðs, kröftugan boðskap um ógæfu. (Samanber Jeremía 11:9-13.) Það ár hóf göngu sína tímaritið Gullöldin. Í gegnum árin og undir nýjum titlum, Hughreysting (1937) og Vaknið! (1946), hefur það þjónað því hlutverki að afhjúpa trúarlegar lygar kristna heimsins og gervikristni hans.

8, 9. (a) Hvers vegna voru kirkjurnar fordæmdar árið 1922? (b) Hvaða ógæfu var þeim spáð?

8 Til dæmis fordæmdi Gullöldin þann 11. október 1922 falstrúarbrögð með þessum orðum: „Allar tilraunir hinna mörgu kirkjudeilda og klerkastéttar þeirra, leiðtoga og bandamanna til að bjarga og endurskipuleggja heimsskipan jarðarinnar . . . hljóta óhjákvæmilega að mistakast því að þær eru ekki hluti af ríki Messíasar. Í [fyrri] heimsstyrjöldinni sýndu klerkar hinna ýmsu kirkjudeilda Drottni Jesú Kristi óhollustu í þessu efni, þar eð þær voru auðvaldi og stjórnmálamönnum innan handar í að ýta undir heimsstyrjöldina.“

9 Fordæmingunni var haldið áfram: „Þær höfnuðu Drottni og ríki hans og sýndu óhollustu sína enn fremur með því að sameinast af frjálsum vilja skipulagi Satans og lýsa djarflega yfir að Þjóðabandalagið væri pólitísk ímynd Guðsríkis á jörð.“ Að lokum kom boðskapur um „ógæfu“ eða dóm: „Samkvæmt orðum Krists Jesú er núna yfirvofandi og í þann mund að skella yfir þjóðir jarðar ‚þrenging sem engin slík hefur verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.‘“

10. Hvaða fordæming kom fram árið 1926?

10 Smurðu leifarnar gegndu Jeremíahlutverki sínu enn fremur með notkun annarra rita, svo sem tímaritsins Varðturninn, bæklinga og bóka. Árið 1926 var til dæmis að finna vægðarlausa afhjúpun á villukenningum kristna heimsins í bókinni Frelsun. Á blaðsíðu 193 segir: „Falskenningar voru innleiddar [í fráhvarfskristnina] sem komu í stað sannleikans. Þar á meðal er hin svonefnda þrenningarkenning, ódauðleiki sálna, eilíf tortíming, og guðleg náð klerka og konunga til að stjórna. María móðir barnsins Jesú, varð guðleg vera, og fólki kent að tilbiðja hana sem móður Guðs sonar.“

Hinn sundraði kristni heimur aðvaraður

11, 12. (a) Hvernig voru afskipti klerka af styrjöldum afhjúpuð? (b) Hvaða aðvörun gaf Jeremíahópurinn?

11 Þessi sama bók afhjúpaði samsekt klerkastéttarinnar í styrjöldum og sagði: „Klerkastéttir hinna ýmsu kirkna ljá blessun sína hernaði öllum, sem hrint er af stokkum frá hálfu auðvalds og stjórna, og sú blessun á í eilífu barhöggi, því hún er látin ná til andstæðra hersveita þeirra þjóða er í stríðum eiga.“ (Samanber Jeremía 7:31.) Síðan var bent á hinn yfirvofandi dóm: „Öll þau öfl er mynda hið sýnilega skipulag Satans eru að sameinast til þátttöku í hinni miklu Harmagedón orustu.“ — Opinberunarbókin 16:14-16.

12 Alveg eins og á dögum Jeremía, þegar leiðtogarnir sögðust vera óhultir og eiga frið við Guð, „þannig telja klerkastéttirnar sér trú um að þær séu óhultar, er þær leika sér að eldi hins illa. Þær blinda með feluleik þeim eigin augu engu síður en augu fylgjenda sinna.“ (Frelsun, bls. 250-51) Vottar Jehóva, sem þá voru þekktir undir nafninu Biblíunemendur, afhjúpuðu kostgæfir sjálfsblekkingu þeirra. — Matteus 7:21-23.

13. Hvaða atburður gerðist árið 1931 og hvers vegna var hann við hæfi?

13 Þegar tímar liðu varð enn ljósara hve mikið biblíunemendurnir áttu skylt við Jeremía, þegar tilkynnt var árið 1931 á móti í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum að hið biblíulega nafn þessa hugrakka hóps kristinna manna skyldi vera „vottar Jehóva.“ (Jesaja 43:10-12) Athyglin hafði verið vakin á því nafni á áttundu öld f.o.t. þegar Jehóva notaði það um Ísrael. Þegar Jeremía þjónaði sem spámaður um hundrað árum síðar var hann því einnig vottur um Jehóva. (Jeremía 16:21) Þegar Jesús kom til jarðar sem Gyðingur var hann á sama hátt vottur um föður sinn, Jehóva. (Jóhannes 17:25, 26; Opinberunarbókin 1:5; 3:14) Þess vegna var það viðeigandi að á tilsettum tíma Guðs skyldu þjónar hans verða hæfir til að bera þetta nafn frá Guði — „vottar Jehóva.“ — Jóhannes 17:6, 11, 12.

Flett ofan af kristna heiminum

14. Hvernig hefur kristni heimurinn verið afhjúpaður síðastliðin 70 ár?

14 Síðastliðna sjö áratugi hafa vottar Jehóva, samhliða því að boða hina dýrlegu von um ríki Jehóva, látið frá sér fara þungan straum fordæmingar og dóms. Með hundruðum milljóna harðskeyttra, opinskárra biblíurita hafa þeir afhjúpað kristna heiminn sem valdamesta afl hinnar trúarlegu vændiskonu, ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ sem fordæmd er í 17. og 18. kafla Opinberunarbókinarinnar. (Sjá bókina „Babylon the Great Has Fallen!“ God’s Kingdom Rules!, bls. 576-615, útgefin árið 1963 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.)

15. Hvernig var kristni heimurinn afhjúpaður árið 1955?

15 Árið 1955 dreifðu vottar Jehóva milljónum eintaka af bæklingnum Kristni heimurinn eða kristnin — hvort er „ljós heimsins“? Klerkum kristna heimsins voru afhentar þúsundir eintaka. Og hvað sagði þessi bæklingur þeim? Í ósviknum Jeremíastíl sagði hann: „Þrátt fyrir allan sinn aðstöðumun, sem hefur hleypt kristna heiminum fram á sviði efnahags, menntunar og hernaðar, hefur hann ekki sýnt sig vera ‚ljós heimsins.‘ Hvers vegna? . . . Hann hvorki prédikar né iðkar kristni [Biblíunnar].“ Síðan var varpað fram þessari spurningu: „Er afhjúpun falskra trúarbragða ofsókn á hendur fylgismönnum þeirra? Er hún ókristilegt ofstæki?“

16. Var það ofstæki af hálfu vottanna að afhjúpa kristna heiminn? Rökstyddu svarið.

16 „Nei, nema því aðeins að Jesús Kristur hafi verið ofstækisfullur ofsækjandi Gyðinga . . . og allir spámenn Jehóva til forna [meðal annarra Jeremía] fyrir daga Jesú hafi verið ofsóknarmenn og ofstækismenn, því að allir afhjúpuðu þeir falstrú fráhverfra Gyðinga og heiðinna þjóða.“ Ef sannkristnir menn eiga að vera „ljós heimsins“ þá hlýtur að þurfa að afhjúpa hið andlega „myrkur.“ (2. Korintubréf 6:14-17) Með þessu er ekki átt við að ráðist sé á einstaklinga heldur það kerfi sem þrælkar þá. Jehóva gaf því Jeremía þetta boð: „Gyrð þú lendar þínar, statt upp og tala til þeirra, allt sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá . . . Og þótt þeir berjist gegn þér þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig — [Jehóva] segir það.“ — Jeremía 1:17, 19.

Jeremíastarfinu lýkur

17, 18. (a) Hvernig hafa vottar Jehóva haldið áfram Jeremíastarfi sínu á síðustu árum? (b) Hvað hefur hjartahreinum mönnum verið ráðlagt?

17 Hafa vottar Jehóva með einhverjum hætti mildað dóm Guðs? Við lifum að vísu þá tíma þegar ekki er talið rétt að gagnrýna trú annarra, en þrátt fyrir það flytja rit votta Jehóva kristna heiminum sama dómsboðskap og þeir hafa alltaf gert. Síðastliðin fjögur ár hafa vottar Jehóva til dæmis prentað 32 milljónir eintaka af bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð á 76 tungumálum. Þessi bók svarar mörgum spurningum sem brenna á vörum manna, svo sem „Hvers vegna hefur Guð leyft tilvist illskunnar?“ og „Hvernig er hægt að þekkja hina sönnu trú.“ En hún gefur líka skýra aðvörun varðandi heimsveldi falskra trúarbragða.

18 Í 25. kaflanum, sem nefnist „Velur þú heim Satans eða nýja skipan Guðs?“, segir: „Í Biblíunni er fölskum trúarbrögðum líkt við ‚skækju mikla,‘ vændiskonu, sem ber nafnið ‚Babýlon hin mikla.‘ . . . Og alkunna er að í gegnum alla sögu mannkynsins hafa trúarbrögðin skipt sér af stjórnmálum og oft sagt valdhöfum fyrir verkum.“ Hvaða stefnu hvetur bókin fólk til að taka? Hún spyr: „Vilt þú vera hluti af heimi Satans eða ert þú hlynntur nýrri skipan Guðs? Kjósir þú nýja skipan Guðs munt þú aðgreina þig frá heiminum, þar á meðal falstrúarbrögðum hans. Þú munt hlýða kallinu: ‚Gangið út, mitt fólk, út úr henni [Babýlon hinni miklu].‘ (Opinberunarbókin 18:4)“

19. Hvernig getur þú sýnt fram á að rödd Jeremía nútímans sé ekki þögnuð núna?

19 Þessi sami öflugi boðskapur um aðgreiningu og dóm hljómar skýrt og greinilega í bókinni Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans sem gefin var út árið 1986 [upplag nemur nú 6 milljónum eintaka á 25 tungumálum]. Hún afhjúpar hvernig klerkar kristna heimsins ‚prédikuðu unga menn út á stríðsvöll‘ fyrri heimsstyrjaldarinnar. Bókin heldur áfram: „Kristni heimurinn gengur því enn þann dag í dag fram sem óvinur hins hæsta Guðs. Víst er að hann nýtur ekki verndar Guðs og stendur þar af leiðandi mjög svo ótraustum fótum.“ (Sjá bls. 30-2.) Rödd Jeremía nútímans hefur ekki hljóðnað! Enda þótt klerkar og stjórnmálamenn reyni að þagga niður prédikun um dóma Guðs halda trúfastir vottar hans áfram, staðráðnir í að ljúka því starfi að vara heiminn við. — Jeremía 18:18.

20. Hvers vegna munu vottar Jehóva halda áfram að boða þjóðunum dóma Jehóva?

20 Og hvers vegna verður að ljúka þessu starfi? Vegna þess að Jehóva, hinn lifandi drottinvaldur alheimsins, þarf að gera upp reikning við þjóðirnar og trúarbrögð þeirra. Sú spurning, sem Jehóva spurði Júda og Jerúsalem forðum daga, á jafnmikið við kristna heim nútímans: „Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum?—segir [Jehóva]—, eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?“ Þess vegna munu vottar Jehóva halda áfram að heimsækja fólk og flytja því boðskap sem er óvinsæll dómur fyrir flesta en gleðilegt fagnaðarerindi fyrir minnihlutann — fagnaðarerindið um Guðsríki. — Jeremía 5:9, 29; 9:9; Postulasagan 8:4, 12.

21. Hvaða stórfengleg von blasir við þeim sem gefa Jeremíastarfinu gaum, þrátt fyrir ógæfuna sem boðuð er? (Sálmur 37:9, 11, 18, 19, 28, 29)

21 Enda þótt Jeremía hafi oft verið kallaður ógæfuspámaður má ekki gleyma að boðskapur hans vakti vonarglætu með Gyðingum. (Jeremía 23:5, 6; 31:16, 17) Það er líkt með votta Jehóva núna. Þeir boða yfirvofandi ‚mikla þrengingu‘ í Harmagedóndómi Guðs en einnig blessun ‚nýs himins og nýrrar jarðar‘ sem verður til við endurreisn réttlætis og paradísar hér á jörð, ásamt eilífu lífi. (Matteus 24:21, 22; Opinberunarbókin 16:16; 21:1-4) Þess vegna er núna rétti tíminn til að taka eftir dómsboðskap Guðs og styðja lokaátak hins mikla Jeremíastarfs. — Samanber Jeremía 38:7-13.

Manst þú?

◻ Hvernig eru vottar Jehóva ofsóttir líkt og Jeremía?

◻ Hvers vegna halda vottar Jehóva áfram að prédika?

◻ Hvernig hefur Jeremíastarfið vaxið?

◻ Hvaða nýleg dæmi sýna að ekki hefur verið hætt að fordæma það sem rangt er?

◻ Hvaða von er bent á samhliða ógæfuboðskapnum?

[Mynd á blaðsíðu 29]

Þegar fram liðu stundir var María gerð Guði lík og fólk hvatt til að dýrka hana sem „Guðsmóður.“

[Mynd á blaðsíðu 30]

Árið 1931 tóku Biblíunemendurnir sér nafnið „vottar Jehóva“ á móti sínu í Columbus í Ohio.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Um allan heim fylgja vottar Jehóva fordæmi Jeremía.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila