Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.9. bls. 28-31
  • Hvernig setur þú niður deilur?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig setur þú niður deilur?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Minni háttar missætti
  • Tekið á alvarlegum ágreiningi
  • Gætir þú bara fyrirgefið?
  • Að jafna ágreining í kærleika
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Þú getur unnið bróður þinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • „Fyrirgefið hver öðrum“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Fyrirgefðu af hjarta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.9. bls. 28-31

Hvernig setur þú niður deilur?

Klunnaleg hreyfing — og sá þriðji í röð fimm postulínsfíla dettur af hillunni. Það verður að gera við hann. Annars er ekki lengur samræmi í settinu. En það er vandaverk sem þér finnst þú ekki ráða við. Þú verður að leita ráða eða jafnvel fá sérfræðing til verksins.

SAMLYNDI milli andlegra bræðra og systra er miklu dýrmætara en samræmi einhverra skrautgripa. Söngur sálmaritarans var vel við hæfi: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman [„í einingu,“ NW].“ (Sálmur 133:1) Það getur stundum verið vandasamt að setja niður deilur við annan kristinn mann. Þar að auki fara sumir ekki rétt að því. Oft er „viðgerðin“ sársaukafyllri en nauðsyn krefur eða hún heppnast ekki vel og skilur eftir sig óásjáleg merki.

Sumir kristnir menn reyna að þarflausu að blanda útnefndum öldungum í mál sem þeir gætu sjálfir útkljáð. Hugsanlega er það vegna þess að þeir eru ekki vissir um hvað þeir eiga að gera. Bróðir, sem er reyndur í að gefa ráð frá Biblíunni, segir: „Margir bræðra okkar vita ekki hvernig þeir eigi að nýta sér ráðleggingar Biblíunnar til að jafna ágreining sinn. Mjög oft taka þeir ekki á málunum samkvæmt því sem Jesús lagði til.“ Hvað sagði Jesús eiginlega um það hvernig kristinn maður ætti að setja niður deilur við bróður sinn? Hvers vegna er bráðnauðsynlegt að kynna sér þessar leiðbeiningar vel og læra hvernig á að nota þær?

Minni háttar missætti

„Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ — Matteus 5:23, 24.

Þegar Jesús mælti þessi orð voru Gyðingar vanir að færa fórnir, eða bera fram gjafir, við musterisaltarið í Jerúsalem. Ef Gyðingur hafði gert öðrum Ísraelsmanni rangt til gat sá sem braut af sér fært heila brennifórn eða syndafórn. Dæmið, sem Jesús tekur, gerist á þýðingarmesta augnablikinu. Þegar maður er við altarið og er um það bil að færa Guði fórn sína man hann eftir að bróðir hans hefur eitthvað á móti honum. Já, Ísraelsmenn þurftu að skilja að sættir milli bræðra ættu að koma á undan því að sinna slíkri trúarskyldu.

Þó að Móselögmálið krefðist slíkra fórna höfðu þær í sjálfu sér ekki mesta gildið í augum Guðs. Samúel spámaður sagði við ótrúfasta konunginn Sál: „Hefir þá [Jehóva] eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“ — 1. Samúelsbók 15:22.

Í fjallræðunni endurtók Jesú þessa forgangsröð og sýndi lærisveinum sínum að þeir yrðu að setja niður deilur sínar áður en þeir bæru fram fórnirnar. Fórnirnar, sem krafist er af kristnum mönnum nú á tímum, eru andlegs eðlis. Þeir eiga að bera fram „lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebreabréfið 13:15) Engu að síður er frumreglan enn í fullu gildi. Jóhannes postuli sýnir á sama hátt að það væri gagnslaust fyrir einhvern að segjast elska Guð ef hann hataði bróður sinn. — 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.

Það er athyglisvert að sá sem minnist þess að bróðir hans hafi eitthvað á móti honum á að stíga fyrsta skrefið. Lítillætið, sem hann sýnir með því, leiðir sjálfsagt gott af sér. Líklega neitar einstaklingur, sem brotið hefur verið gegn, ekki að vera samvinnufús við þann sem kemur til hans og viðurkennir mistök sín. Móselögin kváðu svo á að ef eitthvað hefði verið tekið ófrjálsri hendi þyrfti að bæta það að fullu og þar að auki fimmtungi meira. (3. Mósebók 6:5) Á sama hátt er auðveldara að endurvekja friðsæl og góð samskipti ef sá sem braut af sér sýnir löngun sína til að ganga lengra en krafist er, í strangasta skilningi þess orðs, til að lagfæra hvern þann skaða sem hann kann að hafa valdið.

Tilraunir til að koma aftur á friðsælu sambandi bera á hinn bóginn ekki alltaf árangur. Orðskviðirnir minna okkur á að vandasamt sé að setja niður deilu við þann sem á erfitt með að koma til móts við hinn aðilann. Orðskviðirnir 18:19 segja: „Erfiðara er að ávinna svikinn bróður en að vinna rammbyggða borg, og deilur slíkra manna eru sem slagbrandar fyrir hallardyrum.“ Með tímanum er hins vegar líklegt að einlæg og auðmjúk viðleitni beri árangur þegar í hlut eiga trúbræður sem þrá að þóknast Guði. En þegar um meinta, alvarlega synd er að ræða verður að beita ráðleggingum Jesú sem skráðar eru í 18. kafla Matteusar.

Tekið á alvarlegum ágreiningi

„Ef bróðir þinn syndgar, skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ‚hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.‘ Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ — Matteus 18:15-17.

Hvað ef Gyðingur (eða seinna meir kristinn maður) lenti í alvarlegum útistöðum við annan tilbiðjanda Jehóva? Sá sem áleit að hinn aðilinn hefði syndgað gegn sér skyldi stíga fyrsta skrefið. Hann yrði að ræða málið einslega við hinn brotlega. Með því að láta ógert að afla sér stuðnings annarra við sína hlið á málinu væru sannarlega meiri líkur á að hann gæti unnið bróður sinn, sér í lagi ef aðeins hefði verið misskilningur á ferðinni sem leiðrétta mætti með hraði. Auðveldara væri að afgreiða allt málið ef þeir sem beint tengdust því væru þeir einu sem vissu um það.

En ef til vill nægir fyrsta skrefið ekki. Jesús sagði hvernig þá skyldi tekið á málunum: „Skaltu taka með þér einn eða tvo.“ Þetta gætu vel verið vitni sem þekktu málið frá fyrstu hendi. Ef til vill hefðu þeir heyrt annan baktala hinn, eða þeir sem koma með hafa verið vottar að skriflegu samkomulagi sem aðilana tvo greinir núna á um. Á hinn bóginn gætu þeir sem teknir eru með orðið vitni að málinu þegar einhverjir þættir koma fram, eins og skriflegur eða munnlegur vitnisburður, í því skyni að sýna glögglega ástæðu ágreiningsins. Hér skyldu sem fyrr eins fáir og mögulegt er — ‚einn eða tveir‘ — í viðbót vita um málið. Það kemur í veg fyrir að ástandið versni ef aðeins hefur verið um misskilning að ræða.

Hvað ætti þeim sem var órétti beittur að ganga til? Ætti hann að reyna að lítillækka trúbróður sinn og vilja að hann skríði í auðmýkt? Í ljósi ráðlegginga Jesú ættu kristnir menn ekki að vera fljótir til að fordæma bræður sína. Ef seki aðilinn viðurkennir mistök sín, biðst afsökunar og reynir að leiðrétta þau, hefur sá sem syndgað var gegn‚ unnið bróður sinn.‘ — Matteus 18:15.

Ef ekki væri hægt að útkljá málið skyldi leggja það fyrir söfnuðinn. Í upphafi merkti það öldungana hjá Gyðingum en síðar öldungana í kristna söfnuðinum. Það gæti reynst nauðsynlegt að reka iðrunarlausa misgerðarmanninn úr söfnuðinum. Það er það sem felst í orðunum að hann sé okkur „sem heiðingi eða tollheimtumaður,“ það er að segja einstaklingar sem Gyðingar umgengust ekki. Enginn einstakur kristinn maður gæti gripið til svo alvarlegra aðgerða. Útnefndir öldungar, sem eru fulltrúar safnaðarins, eru þeir einu sem hafa heimild til að gera slíkt. — Samanber 1. Korintubréf 5:13.

Sá möguleiki að iðrunarlausum misgerðarmanni yrði vikið úr söfnuðinum sýnir að Matteus 18:15-17 á ekki við minni háttar missætti. Jesús hafði í huga alvarlegt brot en þó þess eðlis að einstaklingarnir tveir, sem ættu hlut að málinu, gætu útkljáð það sín á milli. Brotið gæti til dæmis verið rógburður sem hefði alvarleg áhrif á mannorð þolandans. Eða það gæti snert fjármál, en í næstu versum er að finna dæmisögu Jesú um miskunnarlausa þjóninn sem hafði verið gefin upp stór skuld. (Matteus 18:23-25) Lán, sem ekki er endurgreitt á tilsettum tíma, gæti valdið tímabundnum vanda sem þessir tveir aðilar gætu auðveldlega leyst án afskipta annarra. En það gæti orðið alvarleg synd, nefnilega þjófnaður, ef lántakinn neitaði þrákelknislega að endurgreiða það sem hann skuldaði.

Til eru aðrar syndir sem ekki verða einfaldlega afgreiddar milli tveggja kristinna manna. Undir Móselögunum varð að skýra frá alvarlegum syndum. (3. Mósebók 5:1; Orðskviðirnir 29:24) Á sama hátt verður að skýra kristnum öldungum frá alvarlegum syndum sem varða hreinleika safnaðarins.

Hins vegar kallar ósamlyndi milli kristinna manna í flestum tilvikum ekki á þessa málsmeðferð.

Gætir þú bara fyrirgefið?

Strax eftir að Jesús hafði útskýrt hvernig setja ætti niður alvarlegan ágreining kenndi hann lærisveinum sínum aðra mikilvæga lexíu. Við lesum: „Þá gekk Pétur til hans og spurði: ‚Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?‘ Jesús svaraði: ‚Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.‘ (Matteus 18:21, 22) Við annað tækifæri sagði Jesús lærisveinum sínum að fyrirgefa „sjö sinnum á dag.“ (Lúkas 17:3, 4) Vissulega er því farið fram á að fylgjendur Krists setji niður deilur með því að fyrirgefa hver öðrum fúslega.

Á þessu sviði þurfum við að leggja okkur verulega fram. „Sumir bræður kunna einfaldlega ekki að fyrirgefa,“ sagði bróðirinn sem vitnað var í hér í upphafi. Hann bætti við: „Þeir virðast hissa þegar einhver útskýrir fyrir þeim að þeir geti valið að fyrirgefa, til þess fyrst og fremst að varðveita friðinn í kristna söfnuðinum.“

Páll postuli skrifaði: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ (Kólossubréfið 3:13) Áður en við förum til bróður sem kann að hafa brotið gegn okkur væri þess vegna gott að íhuga vandlega eftirfarandi spurningar: Er það sem hann gerði mér þess virði að tala við hann um það? Er mér hreinlega ógerlegt að láta hið liðna vera gleymt og grafið í sönnum anda kristninnar? Vildi ég ekki að mér yrði fyrirgefið ef ég væri í hans sporum? Og ef ég tek þann kost að fyrirgefa ekki get ég þá vænst þess að Guð svari bænum mínum og fyrirgefi mér? (Matteus 6:12, 14, 15) Slíkar spurningar geta hjálpa okkur að fyrirgefa.

Ein af mikilvægustu skyldum okkar sem kristinna manna er að varðveita friðinn í söfnuði fólks Jehóva. Við skulum þess vegna fara eftir leiðbeiningum Jesú. Það hjálpar okkur að fyrirgefa fúslega. Svo sáttfús andi stuðlar að þeim bróðurkærleika sem er einkennismerki lærisveina Jesú. — Jóhannes 13:34, 35.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Kristnir menn geta sett niður deilur sínar með því að fylgja leiðbeiningum Jesú.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila