Óverðskulduð náð Guðs — farðu ekki á mis við tilgang hennar!
„ÞAÐ er í rauninni hlutverk prestsins . . . að tala um trúmál,“ sagði meðlimur einnar kirkjudeildar. (Leturbreyting okkar.) Aðrir hafa viðurkennt: „Tiltölulega fáir kristnir menn gera sér far um að segja öðrum frá trú sinni.“ (Leturbreyting okkar.) Slík orð gefa það greinilega til kynna að fyrir þorra kirkjurækinna nútímamanna er kristnin lítið annað en óvirk trú á Guð og Krist sem Messías.
Hvert er þitt viðhorf? Lærisveinar Jesú sögðu öðrum frá trú sinni. (Lúkas 8:1) Ættu kristnir nútímamenn að gera slíkt hið sama? Ef Guð krefst þess ekki lengur af þeim sem játa kristna trú að þeir boði hana hvers væntir hann þá af þeim? Hefur Guð einhvern tilgang með kristna menn nú á dögum? Já! Af þeirri ástæðu hefur aðvörun Páls postula til kristinna manna í Korintu þýðingu fyrir okkur, en hún er á þá leið að við ‚megum ekki til einskis meðtaka náð Guðs,‘ við megum ekki fara á mis við tilgang hennar. (2. Korintubréf 6:1) Við skulum sjá hvers vegna.
Komið auga á tilgang Guðs
Eins og Páll höfðu kristnir menn í Korintu viðurkennt lausnarfórn Jesú Krists. Sökum trúar sinnar á þá ráðstöfun hafði Jehóva lýst þá réttláta. Það að taka við sannleikanum um Messías, sem prédikun Páls kom til skila, frelsaði þá úr fjötrum falskra, heiðinna og siðlausra athafna sem Korinta til forna var alræmd fyrir. Óverðskulduð náð Jehóva hafði frelsun í för með sér fyrir þá. En þjónaði slík frelsun einhverjum ákveðnum tilgangi?
Já. Tilgangur Jehóva með því að frelsa þá var sá hinn sami og tilgangur hans með því að frelsa Pál frá óbiblíulegum erfðavenjum forfeðra hans. Páll lætur sjálfur skýrt í ljós hver tilgangurinn var: „Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar . . . að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists.“ (Efesusbréið 3:7, 8; samanber Galatabréfið 1:15, 16.) Já, tilgangurinn með óverðskuldaðri náð Guðs var sá að þjónar hans tækju upp sanna guðsdýrkun — upphæfu nafn hans, Jehóva, og kunngerðu það í hinni kristnu þjónustu, alveg eins og Páll gerði. — Rómverjabréfið 10:10.
Þegar Páll skrifaði Korintumönnum fyrra bréfið sitt var þó ljóst að margir þeirra höfðu misst sjónar á tilganginum með óverðskuldaðri náð Guðs. Hvernig þá? Þeir höfðu leyft siðlausum áhrifum Korintumanna að sljóvga skilningarvit sín í stað þess að halda sér fast við þá tilbeiðslu sem var hrein og velþóknanleg í augum Guðs. Fregnir höfðu borist bæði um sundrung og siðleysi á meðal þeirra. (1. Korintubréf 1:11; 5:1, 2) Flestir þeirra, sem höfðu félag við söfnuðinn, létu leiðbeiningar Páls leiðrétta sig. Páll vildi þó ekki að þeir létu eitthvað annað draga til sín athygli þeirra á ný frá hinni kristnu þjónustu. Þess vegna minnti hann þá síðar á að ‚láta ekki náð Guðs, sem þeir höfðu þegið, verða til einskis.‘ — 2. Korintubréf 6:1.
Dæmi úr fortíðinni
Svipað ástand hafði komið upp nokkrum öldum fyrr. Vorið 537 f.o.t. leysti Jehóva Guð útvalda þjóð sína, Ísrael, úr fjötrum Babýlonar og notaði til þess Kýrus Persakonung. Tilgangurinn með frelsun þeirra kom fram í tilskipuninni sem Kýrus sjálfur gaf: „Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri [Jehóva], Ísraels Guðs.“ — Esra 1:1-3.
Já, nú var runninn upp tilsettur tími Jehóva til að endurreisa sanna guðsdýrkun í Júda. Sökum óverðskuldaðrar náðar Jehóva nutu hinir endurreistu Gyðingar þeirra sérréttinda að endurreisa musteri hans í Jerúsalem. Hinir útlægu tóku þessari áskorun, settust aftur að í heimalandi sínu og hófu endurreisn musterisins. — Esra 1:5-11.
Ekki var liðinn nema skammur tími þegar hinir heimkomnu Gyðingar leyfðu utan að komandi andstöðu að trufla sig í því starfi. Í stað þess að hafa skýrt og greinilega í huga tilganginn með frelsun sinni fóru þeir að segja: „Enn er ekki tími kominn til að endurreisa hús [Jehóva].“ (Haggaí 1:2) Af því leiddi að endurreisnarstarfið lá algerlega niðri í um það bil 16 ár.
Á meðan voru þeir uppteknir af eigingjörnum hugðarefnum og lögðu meiri áherslu á efnislega hluti og veraldleg þægindi en endurreisn hins heilaga tilbeiðsluhúss Jehóva. (Haggaí 1:3-9) Í Haggaí 1:4 lesum við: „Er þá tími fyrir yður að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús liggur í rústum?“ Tilbeiðsluhús Jehóva lá „í rústum“ með grundvöllinn einn lagðan meðan Gyðingarnir bjuggu í húsum með góðu þaki og fallegum, þiljuðum veggjum.
Jehóva notaði spámenn sína, Haggaí og Sakaría, til að minna Gyðinga á tilganginn með frelsun þeirra og að síðustu var endurreisnarstarfinu lokið. Þeir sem héldu áfram að taka efnislegar eigur sínar fram yfir þau sérréttindi að sjá heilaga guðsdýrkun endurreista í Jerúsalem höfðu hins vegar greinilega misst sjónar á tilganginum með óverðskuldaðri náð Guðs.
Tilganginn með frelsun okkar
Hvað getum við nútímamenn lært af því sem hinir endurleystu Gyðingar árið 537 f.o.t. fengu að reyna og kristnir Korintumenn á dögum Páls? Sem vígðir þjónar Guðs höfum við einnig verið frelsaðir. Vegna óverðskuldaðrar náðar hans erum við ekki lengur í fjötrum falskra trúarkenninga og erfðavenja Babýlonar hinnar miklu eða illsku þessa gamla heimskerfis. (Jóhannes 8:32; 2. Korintubréf 4:4-6) Slík frelsun og það frelsi sem hún veitir okkur, býður okkur upp á tækifæri til að sýna Guði að við kunnum að meta kærleika hans til okkar. (1. Jóhannesarbréf 4:9) Hvernig þá?
Með því að fara ekki á mis við tilganginn með óverðskuldaðri náð Guðs. Hann er sá sami fyrir okkur núna og hann var fyrir þjóna Guðs í fortíðinni, það er að segja að við iðkum sanna guðsdýrkun. Núna, eins og á dögum Páls, merkir það að ‚boða þjóðunum fagnaðarerindið um Krist.‘ (Efesusbréfið 3:8) Allir sem taka við óverðskuldaðri náð Guðs verða því að taka þátt í hinni kristnu þjónustu. Það merkir að við sem vígðir þjónar Jehóva Guðs berum þá ábyrgð að boða öðrum sannleikann, mikla og lofa nafn Jehóva og þjóna honum með guðsdýkun sem er hrein og heilög. — Matteus 28:19, 20; Hebreabréfið 13:15; Jakobsbréfið 1:27.
‚Farðu ekki á mis við tilgang hennar‘
Getur hugsast að hver okkar sem er, líkt og þessir frumkristnu menn, eigi á hættu að ‚fara á mis við tilganginn‘ með óverðskuldaðri náð Guðs? Já. Líkt og þeir verða mörg okkar að umgangast í vinnu eða skóla einstaklinga sem stunda siðleysi, þjófnað, lygar og svik, svo og ýmislegt annað sem er viðurstyggilegt í augum Guðs. (1. Korintubréf 6:9, 10; Galatabréfið 5:19-21) Okkur er því lífsnauðsyn að forðast félagsskap við slíka einstaklinga til að okkur fari ekki að langa til að gera það sem er illt. (1. Korintubréf 15:33) Slíkur félagsskapur getur einungis haft skaðleg áhrif á trú okkar. Því var við hæfi að Páll skyldi skrifa Títusi: „Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum.“ — Títusarbréfið 2:11. 12.
Sumir eru kannski þeirrar skoðunar að þeir ræki þjónustu sína vel ef þeir sækja samkomur í Ríkissalnum, taka reglulega þátt í boðun fagnaðarerindisins um ríki Guðs og gera sig ekki seka um siðleysi af nokkru tagi. En það er annað atriði sem taka ber með í reikninginn. Jesús sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum.“ (Matteus 6:24) Hvað átti hann við? Það að enda þótt við notum hluta af tíma okkar til framdráttar fagnaðarerindinu þá gæti hugsast að aðaláhugamál okkar í lífinu væri að keppa eftir sífellt meiri efnislegum þægindum. Hin nýja heimsskipan undir stjórn Jesú Krists gæti að vísu höfðað mjög sterkt til okkar, en samtímis gæti okkur langað mjög til að hafa eins mikið út úr þessari heimsskipan og við getum meðan hún endist. Slíkt viðhorf getur einungis dregið athygli okkar frá hinum raunverulega tilgangi með frelsun okkar. Var það ekki svipað viðhorf til efnislegra gæða sem dró athygli hinna endurleystu Gyðinga frá tilganginum með frelsun sinni?
Sýna verk okkar að við höfum farið á mis við tilganginn með frelsun okkar frá þessu gamla heimskerfi og falstrúarbrögðum þess? Páll sagði Korintumönnu að ‚núna væri mjög hagkvæm tíð‘ til að hjálpa öðrum að öðlast hjálpræði. (2. Korintubréf 6:2) Núna, þegar eyðing þessa illa heimskerfis er svona nálæg, hafa orð Páls langt um meira vægi. Þótt ljóst sé að þorri þeirra sem sækja kirkju nú til dags kjósi ekki að segja öðrum frá trú sinni munu kristnir menn, sem bera ósvikinn kærleika til Jehóva Guðs, líta á það sem sérréttindi að vera uppteknir af hinni kristnu þjónustu sem hann hefur falið þeim. Allir sem boða fagnaðarerindið trúfastir núna á þessum ‚hagkvæma tíma‘ og þjóna Jehóva með hreinni og heilagri guðsdýrkun mega vera vissir um að þeir hafa ‚þegið náð Guðs og ekki farið á mis við tilgang hennar.‘ — 2. Korintubréf 6:1.