Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w21 janúar bls. 2-7
  • Verum þolinmóð og treystum Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Verum þolinmóð og treystum Jehóva
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVAÐ GETUR VALDIÐ OKKUR ÁHYGGJUM?
  • SEX RÁÐ SEM HJÁLPA OKKUR AÐ HALDA RÓ OKKAR
  • Varpið allri áhyggju ykkar á Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • „Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Hvernig get ég tekist á við áhyggjur og kvíða?
    Ungt fólk spyr
  • Varpaðu allri áhyggju þinni á Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
w21 janúar bls. 2-7

NÁMSGREIN 1

Verum þolinmóð og treystum Jehóva

ÁRSTEXTINN 2021 ER: „Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ – JES. 30:15.

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

YFIRLITa

1. Um hvað gætu sum okkar spurt líkt og Davíð konungur?

ÖLL viljum við lifa friðsælu lífi. Enginn vill hafa áhyggjur. En stundum sækja samt að okkur áhyggjur. Sumir þjónar Jehóva gætu því spurt eins og Davíð konungur: „Hve lengi á ég að hafa beyg í brjósti, sorg í hjarta dag frá degi?“ – Sálm. 13:3.

2. Um hvað ræðum við í þessari grein?

2 Þótt við getum ekki verið algerlega laus við áhyggjur getum við gert margt til að hafa hemil á slíkum tilfinningum. Í þessari grein ræðum við fyrst um sumt af því sem veldur áhyggjum. Síðan ræðum við um sex ráð sem geta hjálpað okkur að halda ró okkar þegar við tökumst á við áhyggjur.

HVAÐ GETUR VALDIÐ OKKUR ÁHYGGJUM?

3. Hvaða aðstæður valda okkur ef til vill áhyggjum og í hvaða mæli höfum við stjórn á aðstæðunum?

3 Margt af því sem getur valdið okkur áhyggjum höfum við litla sem enga stjórn á. Við getum til dæmis ekki haft stjórn á því hversu mikið verðlag á mat, fötum og húsnæði hækkar á hverju ári. Við getum ekki heldur stjórnað viðhorfi vinnufélaga eða skólafélaga sem reyna kannski að fá okkur til að vera óheiðarleg eða siðlaus. Og við getum ekki komið í veg fyrir glæpi á svæðinu þar sem við eigum heima. Við þurfum að takast á við þessi vandamál vegna þess að við búum í heimi þar sem fæstir taka mið af ráðum Biblíunnar í lífi sínu. Satan, guð þessa heims, veit að sumir leyfa ,áhyggjum daglegs lífs‘ að hindra sig í að þjóna Jehóva. (Matt. 13:22; 1. Jóh. 5:19) Það er ekki að undra að heimurinn skuli vera fullur af vandamálum sem valda fólki áhyggjum.

4. Hvaða áhrif gæti það haft að hafa miklar áhyggjur?

4 Vandamálin geta valdið okkur svo miklum áhyggjum að við getum ekki hugsað um neitt annað. Við gætum til dæmis haft áhyggjur af því að hafa ekki nægar tekjur til að sjá fyrir þörfum okkar eða að verða veik og geta ekki unnið eða missa jafnvel vinnuna. Við gætum líka haft áhyggjur af því að bregðast Jehóva með því að láta undan freistingu og brjóta lög hans. Bráðlega fær Satan þá sem eru á valdi hans til að ráðast á fólk Guðs. Við höfum kannski áhyggjur af því hvernig við bregðumst við þessari árás. Við gætum velt fyrir okkur hvort það sé rangt að hafa slíkar áhyggjur.

5. Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Hættið að hafa áhyggjur“?

5 Við vitum að Jesús sagði fylgjendum sínum: „Hættið að hafa áhyggjur.“ (Matt. 6:25) Þýðir þetta að Jesús vænti þess að við höfum engar áhyggjur? Alls ekki! Sumir þjónar Jehóva til forna höfðu áhyggjur en þeir misstu ekki velþóknun hans.b (1. Kon. 19:4; Sálm. 6:4) Jesús var í raun að hughreysta okkur. Hann vildi ekki að við yrðum svo áhyggjufull út af nauðsynjum að það hefði neikvæð áhrif á þjónustu okkar við Guð. Hvað getum við gert þegar við höfum áhyggjur? – Sjá rammann „Hvernig ferðu að?“

SEX RÁÐ SEM HJÁLPA OKKUR AÐ HALDA RÓ OKKAR

Klippimynd: Systir fer með bæn á mismunandi tímum dagsins. 1. Áður en hún borðar. 2. Þegar hún situr á bekk í garði. 3. Áður en hún rannsakar Biblíuna.

Sjá 6. grein.c

6. Hvað getur sefað áhyggjur okkar samkvæmt Filippíbréfinu 4:6, 7?

6 (1) Biddu oft til Guðs. Þegar þjónar Guðs eru undir álagi geta þeir fundið til léttis með því að leita til Jehóva í einlægri bæn. (1. Pét. 5:7) Jehóva getur svarað bænum þínum með því að gefa þér frið sinn sem er æðri öllum mannlegum skilningi. (Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.) Jehóva sefar áhyggjur okkar með sínum kraftmikla heilaga anda. – Gal. 5:22.

7. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við biðjum til Guðs?

7 Opnaðu hjarta þitt fyrir Jehóva þegar þú talar við hann í bæn. Vertu nákvæmur. Segðu honum hvert vandamálið er og hvernig þér líður. Ef það er hægt að leysa vandamálið skaltu biðja hann um visku til að sjá lausnina og styrk til að vinna að henni. Ef það er ekki á þínu færi að leysa vandamálið skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að hafa ekki of miklar áhyggjur af því. Þegar þú ert nákvæmur í bænum þínum sérðu með tímanum betur hvernig Jehóva hefur svarað þeim. Gefstu ekki upp þótt þú fáir ekki svar við bæn þinni strax. Jehóva vill ekki bara að við séum nákvæm í bænum okkar heldur líka að við gefumst ekki upp á að biðja. – Lúk. 11:8–10.

8. Hvað ættum við að nefna í bænum okkar?

8 Þegar þú varpar áhyggjum þínum á Jehóva í bæn skaltu muna að þakka honum. Það er gott fyrir okkur að rifja upp allt það góða sem við höfum þótt við glímum við mörg vandamál. Ef þú átt stundum erfitt með að finna réttu orðin til að tjá yfirþyrmandi tilfinningar skaltu muna að Jehóva svarar einföldum bænum eins og: „Hjálpaðu mér!“ – 2. Kron. 18:31; Rómv. 8:26.

Sama systirin með spjaldtölvu í sjálfsnámi í matartímanum í vinnunni.

Sjá 9. grein.d

9. Hvernig er hægt að finna ósvikið öryggi?

9 (2) Reiddu þig á visku Jehóva en ekki þína eigin visku. Á dögum Jesaja var Júdamönnum ógnað af Assýringum. Í örvæntingu sinni leituðu þeir til hinna heiðnu Egypta til að komast hjá því að lenda undir oki Assýringa. (Jes. 30:1, 2) Jehóva sagði þeim að þessi ranga ákvörðun myndi enda með ósköpum. (Jes. 30:7, 12, 13) Fyrir munn Jesaja sagði hann fólki sínu hvernig það gæti fundið ósvikið öryggi. Hann sagði: „Í þolinmæði og trausti [á Jehóva] skal styrkur yðar vera.“ – Jes. 30:15b.

10. Við hvaða aðstæður getum við sýnt að við treystum Jehóva?

10 Við hvaða aðstæður getum við sýnt að við treystum Jehóva? Skoðum fáein dæmi. Segjum að þér sé boðið betur launað starf sem tekur talsvert meira af tíma þínum og raskar andlegri dagskrá þinni. Eða segjum að einhver í vinnunni sýni þér rómantískan áhuga en er ekki skírður þjónn Jehóva. Eða þá að einhver í fjölskyldunni sem þér þykir vænt um setji þér þessa úrslitakosti: „Það er annaðhvort ég eða Guð.“ Í öllum tilvikum þarftu að taka erfiða ákvörðun en um leið gefur Jehóva þér þá leiðsögn sem þú þarft. (Matt. 6:33; 10:37; 1. Kor. 7:39) Spurningin er: Treystirðu leiðsögninni nægilega vel til að fara eftir henni?

Systirin les í Biblíunni og biblíutengdum ritum.

Sjá 11. grein.e

11. Hvaða biblíufrásögur getum við skoðað til að halda ró okkar þegar við verðum fyrir andstöðu?

11 (3) Lærðu af góðum fordæmum og slæmum. Í Biblíunni er að finna margar frásögur sem sýna hversu mikilvægt er að halda ró sinni og treysta á Jehóva. Þegar þú skoðar þessar frásögur skaltu taka eftir hvað hjálpaði þjónum Guðs að halda ró sinni andspænis gríðarlegri andstöðu. Þegar Gyðingar í Æðstaráðinu skipuðu postulunum til dæmis að hætta að boða trúna misstu þeir ekki kjarkinn. Þess í stað svöruðu þeir hugrakkir: „Við verðum að hlýða Guði frekar en mönnum.“ (Post. 5:29) Jafnvel eftir að þeir höfðu verið hýddir fylltust þeir ekki örvæntingu. Hvers vegna? Þeir vissu að Jehóva studdi þá. Hann var ánægður með þá. Þeir héldu því áfram að boða fagnaðarboðskapinn. (Post. 5:40–42) Og þegar Stefán lærisveinn stóð andspænis dauðanum var hann svo rólegur og æðrulaus að andlit hans var „eins og andlit engils“. (Post. 6:12–15) Hvers vegna? Vegna þess að hann vissi að Jehóva hafði velþóknun á honum.

12. Hvernig getum við verið glöð þrátt fyrir ofsóknir, samanber 1. Pétursbréf 3:14 og 4:14?

12 Postularnir höfðu augljósar sannanir fyrir því að Jehóva væri með þeim. Hann hafði gefið þeim mátt til að gera kraftaverk. (Post. 5:12–16; 6:8) Þannig er það ekki nú á dögum. En Jehóva segir okkur í orði sínu að hann hafi velþóknun á okkur og að andi hans sé með okkur þegar við þjáumst fyrir að gera rétt. (Lestu 1. Pétursbréf 3:14; 4:14.) Frekar en að dvelja við það hvernig við gætum brugðist við miklum ofsóknum í framtíðinni þurfum við að einbeita okkur að því sem við getum gert núna til að styrkja traust okkar á getu Jehóva til styðja okkur og frelsa. Rétt eins og lærisveinarnir á fyrstu öld verðum við að treysta loforði Jesú: „Ég gef ykkur orð og visku sem allir andstæðingar ykkar samanlagt geta hvorki andmælt né hrakið.“ Og við getum treyst Jesú þegar hann segir: „Ef þið eruð þolgóðir varðveitið þið líf ykkar.“ (Lúk. 21:12–19) Og gleymum aldrei að Jehóva man í smæstu atriðum eftir þjónum sínum sem hafa dáið trúfastir. Hann notar þá vitneskju þegar hann reisir þá til lífs á ný.

13. Hvernig getur það komið okkur að gagni að skoða sögu þeirra sem héldu ekki ró sinni og treystu ekki á Jehóva?

13 Við getum líka lært af reynslu þeirra sem héldu ekki ró sinni og treystu ekki á Jehóva. Þegar við skoðum þessi slæmu fordæmi hjálpar það okkur að forðast að gera sömu mistök. Snemma á valdatíma sínum treysti Asa, konungur í Júda, á Jehóva þegar hann stóð andspænis gríðarstórum her og Jehóva blessaði hann með sigri. (2. Kron. 14:8–11) Síðar kom Basa konungur Ísraels á móti honum með mun minni her. En í þetta skipti reiddi Asa sig ekki á Jehóva eins og hann hafði gert áður heldur borgaði Sýrlendingum fyrir hernaðaraðstoð. (2. Kron. 16:1–3) Og þegar hann átti stutt eftir ólifað og var mjög veikur treysti hann ekki á Jehóva til að fá hjálp. – 2. Kron. 16:12.

14. Hvað getum við lært af mistökum Asa?

14 Í byrjun leitaði Asa til Jehóva þegar vandamál urðu á vegi hans. En síðar leitaði hann ekki til Guðs um hjálp en reyndi að leysa málin með eigin aðferðum. Í fyrstu gæti áætlun Asa um að leita til Sýrlendinga um stuðning til að fara gegn Ísrael hafa virst gagnleg. En þetta reyndist skammgóður vermir. Jehóva sagði honum fyrir munn spámanns: „Þar sem þú hefur stutt þig við konung Aramea en ekki við Drottin, Guð þinn, þá hefur her Ísraelskonungs gengið þér úr greipum.“ (2. Kron. 16:7) Við þurfum að varast þá hugsun að við getum leyst vandamál okkar án þess að leita leiðsagnar Guðs í Biblíunni. Jafnvel þegar við þurfum að taka ákvörðun skyndilega ættum við að halda ró okkar og treysta Jehóva. Ef við gerum það hjálpar hann okkur.

Systirin setur miða með Jesaja 30:15 á ísskápinn.

Sjá 15. grein.f

15. Hvað gætum við gert þegar við lesum í Biblíunni?

15 (4) Leggðu biblíuvers á minnið. Þegar þú rekst á biblíuvers sem sýna hversu mikilvægt er að halda ró sinni og treysta á Jehóva skaltu reyna að festa þau í minni. Þér gæti þótt gagnlegt að lesa þau upphátt eða skrifa þau á blað og líta oft á þau. Jehóva sagði Jósúa að lesa reglulega í lögbókinni lágum rómi til að honum farnaðist vel. Það sem hann las í lögbókinni myndi hjálpa honum að vera óhræddur og gefa honum hugrekki til að leiða þjóð Guðs. (Jós. 1:8, 9, NW) Mörg biblíuvers geta veitt þér hugarfrið við aðstæður sem venjulega myndu valda þér kvíða eða ótta. – Sálm. 27:1–3; Orðskv. 3:25, 26.

Systirin talar við aðra systur í boðuninni.

Sjá 16. grein.g

16. Hvernig notar Jehóva söfnuðinn til að hjálpa okkur að halda ró okkar og treysta á sig?

16 (5) Vertu í samskiptum við fólk Guðs. Jehóva notar bræður okkar og systur til að hjálpa okkur að halda ró okkar og treysta á sig. Á samkomum okkar njótum við góðs af þeim leiðbeiningum sem við fáum frá sviðinu, svörum áheyrenda og hvetjandi samræðum við bræður okkar og systur. (Hebr. 10:24, 25) Við getum líka fengið mikla uppörvun þegar við treystum nánum vinum í söfnuðinum fyrir áhyggjum okkar. „Vingjarnlegt orð“ frá vini getur skipt miklu máli til að draga úr áhyggjum okkar. – Orðskv. 12:25.

Systirin hugleiðir blessun Guðsríkis í framtíðinni.

Sjá 17. grein.h

17. Hvernig getur vonin um Guðsríki hjálpað okkur að halda ró okkar á erfiðum tímum samkvæmt Hebreabréfinu 6:19?

17 (6) Haltu voninni sterkri. Vonin um Guðsríki er „eins og akkeri fyrir sálina“ og gefur okkur stöðugleika þrátt fyrir erfiðar kringumstæður eða áhyggjur. (Lestu Hebreabréfið 6:19.) Hugsaðu um loforð Jehóva um framtíðina þegar allar neikvæðar hugsanir verða á bak og burt. (Jes. 65:17) Sjáðu sjálfan þig fyrir þér í friðsömum nýjum heimi þar sem íþyngjandi aðstæður heyra sögunni til. (Míka 4:4) Þú styrkir einnig von þína þegar þú segir öðrum frá henni. Taktu eins mikinn þátt og þú getur í að boða trúna og gera fólk að lærisveinum. Þegar þú gerir það geturðu ,verið algerlega öruggur allt til enda um að vonin rætist‘. – Hebr. 6:11.

„Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ – JES. 30:15

Klippimynd: Sex ráð sem hjálpa systur að halda ró sinni. Aðstæður sem kalla á ráð eru ræddar fyrr í greininni.

HVERNIG FERÐU AÐ?

  1. 1. Biddu oft til Guðs.

  2. 2. Reiddu þig á visku Jehóva.

  3. 3. Lærðu af fordæmum til forna.

  4. 4. Leggðu biblíuvers á minnið.

  5. 5. Vertu í samskiptum við fólk Guðs.

  6. 6. Haltu voninni sterkri.

18. Hverju megum við búast við í framtíðinni og hvernig getum við brugðist við?

18 Eftir því sem líður að endi þessa heimskerfis munu erfiðleikar fara vaxandi sem gætu valdið okkur áhyggjum. Árstextinn árið 2021 getur hjálpað okkur að takast á við þessa erfiðleika og halda ró okkar. Við gerum það ekki í okkar eigin mætti heldur með því að treysta á Jehóva. Sýnum með verkum okkar á árinu að við treystum loforði Jehóva: „Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ – Jes. 30:15.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna er ekki rangt að hafa stundum áhyggjur?

  • Hvaða sex ráð geta hjálpað okkur að halda ró okkar?

  • Hvers vegna er árstextinn 2021 tímabær?

SÖNGUR 8 Jehóva er hæli okkar

a Árstextinn okkar fyrir árið 2021 undirstrikar mikilvægi þess að treysta á Jehóva nú og í framtíðinni þegar við tökumst á við vandamál sem valda okkur áhyggjum. Í þessari grein er fjallað um það hvernig við getum fylgt hvatningunni í árstextanum.

b Sumir trúfastir bræður og systur glíma við alvarlegan kvíða. Slík kvíðaröskun er alvarlegt heilsuvandamál og henni ætti ekki að rugla saman við þær áhyggjur sem Jesús talaði um.

c MYND: (1) Systir talar oft yfir daginn við Jehóva um áhyggjur sínar í innilegri bæn.

d MYND: (2) Í matartímanum í vinnunni les hún í orði Guðs til að afla sér visku.

e MYND: (3) Hún skoðar góð og slæm fordæmi sem hún finnur í Biblíunni.

f MYND: (4) Hún setur á ísskápinn uppörvandi biblíuvers sem hún vill leggja á minnið.

g MYND: (5) Hún nýtur þess að vera með vinum í boðuninni.

h MYND: (6) Hún styrkir von sína með því að hugsa um framtíðina.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila