Dómur guðs yfir ‚lögleysingjanum‘
„Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“ — MATTEUS 7:19.
1, 2. Hvað er lögleysinginn og hvernig þróaðist hann?
ER PÁLL postuli fékk innblástur frá Guði um að segja fyrir tilkomu ‚lögleysingjans‘ gat hann þess að hann var byrjaður að sýna sig jafnvel þá. Eins og kom fram í greininni á undan var Páll að tala um stétt manna er tæki forystuna í fráhvarfi frá sannri kristni. Þetta fráhvarf frá sannleikanum hófst seint á fyrstu öld, einkum eftir dauða síðustu postulanna. Þessi löglausi hópur manna kom fram með kenningar og athafnir sem gengu í berhögg við orð Guðs. — 2. Þessaloníkubréf 2:3, 7; Postulasagan 20:29, 30; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; 4:3, 4.
2 Með tíð og tíma þróaðist þessi löglausi hópur manna í klerkastétt kristna heimsins. Kontantínus Rómarkeisari treysti völd hennar á fjórðu öld er hinar fráhverfu kirkjudeildir gengu í eina sæng með hinu heiðna ríki. Kristni heimurinn hélt áfram að klofna í fjölmarga sértrúarflokka og klerkarnir héldu áfram að upphefja sig yfir leikmennina og oft yfir veraldlega valdhafa einnig. — 2. Þessaloníkubréf 2:4.
3. Hvaða örlög bíða lögleysingjans?
3 Hver áttu að verða örlög þessa lögleysingja? Páll sagði fyrir: „Þá mun lögleysinginn opinberast — og honum mun Drottinn Jesús tortíma . . . og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína.“ (2. Þessaloníkubréf 2:8) Þetta merkir að klerkastéttinni verður eytt um leið og Guð bindur enda á allt kerfi Satans. Guð notar himneskan konung sinn, Krist Jesú, til að leiða hinar himnesku aftökusveitir. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9; Opinberunarbókin 19:11-21) Þessi örlög bíða klerkastéttarinnar vegna þess að hún hefur svívirt Guð og Krist og leitt milljónir manna frá sannri guðsdýrkun.
4. Eftir hvaða meginreglu verður lögleysinginn dæmdur?
4 Jesús sagði eftir hvaða reglu lögleysinginn yrði dæmdur: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. . . . Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ — Matteus 7:15-21; sjá einnig Títusarbréfið 1:16; 1. Jóhannesarbréf 2:17.
Góðir kristnir ávextir
5. Hver er grundvöllur góðs, kristins ávaxtar og hvert er eitt fremsta boðið?
5 Grundvöllur góðra, kristinna ávaxta er nefndur í 1. Jóhannesarbréfi 5:3 þar sem stendur: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ Eitt af fremstu boðorðunum er þetta: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:39) Sannir þjónar Guðs verða því að elska náunga sinn óháð kynþætti eða þjóðerni. — Matteus 5:43-48; Rómverjabréfið 12:17-21.
6. Hverjum verða kristnir menn sérstaklega að sýna kærleika?
6 Einkum verða þjónar Guðs þó að elska andlega bræður sína. „Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20, 21) Jesús sagði að þessi kærleikur ætti að vera kennimerki sannkristinna manna: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35; sjá einnig Rómverjabréfið 14:19; Galatabréfið 6:10; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.
7. Hvaða bönd tengja kristna menn um víða veröld?
7 Bróðurkærleikur er það afl sem bindur þjóna Guðs saman í einingu. „Íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ (Kólossubréfið 3:14) Og sannkristnir menn verða að vera einhuga með bræðrum sínum um víða veröld því að orð Guðs býður að ‚þeir séu allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal þeirra heldur séu þeir fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.‘ (1. Korintubréf 1:10) Til að viðhalda þessum kærleika og einingu um allan heim verða þjónar Guðs að verða hlutlausir í stjórnmálum þessa heims. Jesús sagði: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ — Jóhannes 17:16.
8. Hvernig sýndi Jesús fram á hvað kristnir menn verða að gera?
8 Jesús sýndi fram á hvað hann hafði í huga þegar Pétur brá sverði og sneið af eyra eins þeirra sem komið hafði til að handtaka Jesú. Hvatti Jesús til slíkrar valdbeitingar, til dæmis til að verja son Guðs fyrir andstæðingum sínum? Nei, hann sagði við Pétur: „Slíðra sverð þitt!“ (Matteus 26:52) Sannkristnir menn taka því ekki þátt í styrjöldum þjóða í milli eða öðrum blóðsúthellingum, jafnvel þótt hlutleysi þeirra kunni að kalla yfir þá píslarvætti eins og orðið hefur hlutskipti margra í aldanna rás, meira að segja á okkar dögum. Þeir vita að einungis Guðsríki í höndum Krists mun stöðva styrjaldir og blóðsúthellingar að eilífu. — Sálmur 46:10; Matteus 6:9, 10; 2. Pétursbréf 3:11-13.
9. (a) Hvað segir sagan okkur um frumkristna menn? (b) Hvernig er það ólíkt trúarbrögðum kristna heimsins?
9 Mannkynssagan staðfestir að kristnir menn á fyrstu öld vildu ekki úthella mannsblóði. Fyrrum guðfræðiprófessor frá Englandi, Peter De Rosa, segir: „Blóðsúthelling var alvarleg synd. Þess vegna voru kristnir menn mótfallnir skylmingaleikjum. . . . Þótt stríð og valdbeiting væru nauðsynleg Róm til verndar töldu kristnir menn sig ekki geta tekið þátt í slíku. . . . Líkt og Jesús álitu kristnir menn sig boðbera friðar; þeir gátu undir engum kringumstæðum verið afl dauðans.“ Hin sundurlyndu trúfélög kristna heimsins hafa á hinn bóginn þverbrotið boðorð kærleikans og úthellt gríðarlega miklu blóði. Þau hafa ekki verið boðberar friðarins heldur æ ofan í æ verið afl dauðans.
Hin blóðseka Babýlon hin mikla
10. Hvað er Babýlon hin mikla og hvers vegna er hún kölluð því nafni?
10 Satan er ‚höfðingi þessa heims,‘ „guð þessarar aldar.“ (Jóhannes 12:31; 2. Korintubréf 4:4) Einn hluti af heimi Satans er trúkerfi falstrúarbragðanna sem teygir sig um allan hnöttinn og hann hefur verið að byggja upp á margra alda tímabili. Kristni heimurinn og klerkastéttin er hluti af því. Biblían kallar þetta falstrúarveldi ‚Babýlon hina miklu, móður [andlegra] hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.‘ (Opinberunarbókin 17:5) Rætur falstrúarbragða nútímans teygja sig allt aftur til hinnar fornu Babýlonborgar sem var gagnsýrð falstrúarbrögðum, kenningum og athöfnum sem svívirtu Guð. Þess vegna er heimskerfi falstrúarbragðanna nefnt Babýlon hin mikla enda svarar það vel til hennar.
11. Hvað segir Biblían um Babýlon hina miklu og hvers vegna?
11 Orð Guðs segir um Babýlon: „Í henni fannst blóð spámannanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.“ (Opinberunarbókin 18:24) Hvernig eru trúarbrögð þessa heims sek um allt það blóð sem úthellt hefur verið? Á þann hátt að öll þessi trúarbrögð — jafnt kirkjudeildir kristna heimsins sem ókristin trúarbrögð — hafa látið afskiptalausar, stutt eða jafnvel tekið forystuna í styrjöldum þjóðanna; þau hafa einnig ofsótt og drepið guðhrædda menn sem hafa verið á öndverðum meiði við þau.
Saga svívirðingar á Guði
12. Hvers vegna eru klerkar kristna heimsins ámælisverðari en aðrir trúarleiðtogar?
12 Klerkar kristna heimsins eru ámælisverðari fyrir blóðsúthellingar sínar en nokkrir aðrir trúarleiðtogar. Hvers vegna? Vegna þess að bæði ganga þeir fram undir nafni Guðs og eins undir nafni Krists. Þar með hafa þeir skuldbundið sjálfa sig til að fylgja kenningum Jesú. (Jóhannes 15:10-14) Þeir hafa hins vegar ekki fylgt kenningum hans og þar með hafa þeir svívirt bæði Guð og Krist. Ábyrgð klerkastéttarinnar á blóðsúthellingum hefur bæði verið bein, svo sem í krossferðunum, öðrum trúarstyrjöldum, rannsóknarréttinum og ofsóknum, og óbein, svo sem með því að leggja blessun sína yfir styrjaldir þar sem kirkjumeðlimir hafa drepið náunga sinn af öðrum þjóðum.
13. Hverju bar klerkastéttin ábyrgð á frá 11. til 13. öld?
13 Til dæmis má nefna krossferðirnar sem klerkar kristna heimsins beittu sér fyrir á 11. til 13. öld. Þær leiddu til skelfilegra blóðsúthellinga, rána og gripdeilda í nafni Guðs og Krists. Hundruð þúsundir manna féllu. Má þar nefna meðal annars að börn voru brytjuð niður þúsundum saman er þau voru tæld til að taka þátt í krossferð barnanna árið 1212.
14, 15. Hvað segir kaþólskur rithöfundur um það sem kaþólska kirkjan kom fram með á 13. öld?
14 Á 13. öld lagði rómversk-kaþólska kirkjan opinberlega blessun sína yfir annan hrylling sem svívirti Guð — rannsóknarréttinn. Hann tók fyrst til starfa í Evrópu og síðar einnig í Ameríku og starfaði í meira en sex aldir. Hugmyndin var frá páfadæminu komin og naut stuðnings þess. Rannsóknarrétturinn var glæpsamleg tilraun til að pynda og útrýma öllum sem voru ósammála kirkjunni. Kirkjan hafði að vísu áður ofsótt þá sem ekki voru kaþólskrar trúar en rannsóknarrétturinn gekk langtum lengra.
15 Peter De Rosa, sem kallar sig „þjóðrækinn kaþólikka,“ segir í bók sinni Vicars of Christ — The Dark Side of the Papacy sem kom út nýlega: „Kirkjan bar ábyrgð á ofsóknum á hendur Gyðingum, rannsóknarréttinum, því að brytja niður trúvillinga í þúsundatali, því að taka upp pyndingar í Evrópu á nýjan leik sem hluta dómsmeðferðar. . . . Páfar skipuðu og ráku úr embætti jafnvel keisara og kröfðust þess að þeir þvinguðu þegna sína til að taka kristni með hótunum um pyndingar og dauða. . . . Það var boðskap fagnaðarerindisins hrikalega dýrkeypt.“ Eini „glæpur“ sumra, sem voru myrtir, var sá að þeir áttu biblíu.
16, 17. Hvað er sagt um rannsóknarréttinn?
16 De Rosa segir um Innocentius III sem var páfi snemma á 13. öld: „Talið er að í síðustu og villimannlegustu ofsóknum Díókletíans [Rómarkeisara á 3. öld] hafi um 2000 kristnir menn týnt lífi um allan heim. Í fyrstu lotu hinnar grimmilegu krossferðar Innocentiusar páfa [gegn „trúvillingum“ í Frakklandi] voru tífalt fleiri brytjaðir niður. . . . Það er áfall að uppgötva að páfi skuli í einu höggi hafa drepið langtum fleiri kristna menn en Díókletíanus. . . . [Innocentius] hikaði ekki við að nota í nafni Krists allt það sem Kristur var á móti.“
17 De Rosa nefnir að meðlimir rannsóknarréttarins hafi, „í nafni páfa, verið sekir um grimmilegustu og langdregnustu árásir á mannlega reisn í sögu mannkynsins.“ Hann segir um dóminíkanska rannsóknardómarann Torquemada á Spáni: „Hann var skipaður árið 1483 og harðstjórn hans stóð í 15 ár. Fórnarlömb hans voru yfir 114.000 og þar af voru 10.220 brennd.“
18. Hvernig lýsir rithöfundur rannsóknarréttinum og hverja segir hann ástæðuna fyrir því að hann stóð í meira en sex aldir?
18 Þessi rithöfundur segir að lokum: „Saga rannsóknarréttarins væri smánarleg fyrir hvaða samtök sem er; fyrir kaþólsku kirkjuna er hún skelfileg. . . . Mannkynssagan sýnir að í meira en sex aldir samfleytt var páfastóllinn svarinn fjandmaður grundvallarréttarfars. Af áttatíu páfum samfleytt frá 13. öld andmælti ekki einn einasti guðfræði og stjórnkerfi rannsóknarréttarins. Þess í stað bætti hver á fætur öðrum sínum eigin, grimmilegu aðferðum við þessa vítisvél. Það er ráðgáta hvernig páfarnir gátu haldið áfram þessari trúvillu kynslóð eftir kynslóð. Hvernig gátu þeir afneitað guðspjalli Jesú við hvert fótmál?“ Hann svarar: „Páfar kusu frekar að vera á móti guðspjallinu en ‚óskeikulum‘ forvera sínum, því það hefði kollvarpað sjálfu páfadæminu.“
19. Hvaða annað lögleysi létu flestir klerkar óátalið?
19 Hlutdeild klerkastéttarinnar í tilkomu þrælahalds, og því ofbeldi sem var því samfara, er einnig löglaus. Um aldaraðir stunduðu þjóðir kristna heimsins það að ræna Afríkubúum í þúsundatali, flytja þá fjarri heimalandi sínu og misþyrma bæði andlega og líkamlega sem þrælum. Tiltölulega fáir prestar beittu sér að nokkru marki gegn þrælahaldi. Sumir sögðu það jafnvel vilja Guðs. — Sjá Matteus 7:12.
Blóðsekt á 20. öld
20. Hvernig hefur blóðskuld lögleysingjans náð hámarki á þessari öld?
20 Blóðsekt lögleysingjans hefur náð hámarki núna á 20. öld. Prestar hafa stutt styrjaldir sem hafa kostað tugir milljóna manna lífið, verstu styrjaldir mannkynssögunnar. Þeir studdu báða stríðsaðila í tveim heimsstyrjöldum þar sem menn sömu trúar, „bræður,“ drápu hver annan. Í síðari heimsstyrjöldinni drápu til dæmis franskir og bandarískir kaþólikkar þýska og ítalska kaþólikka; breskir og bandarískir mótmælendur drápu þýska mótmælendur. Stundum drápu þeir aðra sem bæði voru sömu trúar og ættaðir af sömu þjóð. Heimsstyrjaldirnar tvær brutust út í hjarta kristna heimsins og aldrei hefði verið hægt að heyja þær ef klerkastéttin hefði fylgt boðorði kærleikans og kennt fylgjendum sínum að gera slíkt hið sama.
21. Hvað segja veraldlegar heimildir um þátttöku klerka í styrjöldum?
21 Dagblaðið The New York Times tók undir þetta: „Áður fyrr studdi klerkaveldi kaþólskra í hverju landi svo til alltaf styrjaldir sinnar þjóðar, blessaði hersveitir og bað fyrir sigri, meðan annar hópur biskupa hinum megin víglínunnar bað opinberlega fyrir gagnstæðum málalokum. . . . Andstæðurnar milli anda kristninnar og hernaðar . . . verður sífellt ljósari eftir því sem vopnin verða hættulegri.“ Og U.S. News & World Report sagði: „Orðstír kristninnar í heiminum hefur beðið mikinn hnekki vegna þess hve oft svonefndar kristnar þjóðir hafa beitt ofbeldi.“
22. Hvað annað eru klerkar sekir um á okkar tímum?
22 Þótt enginn opinber rannsóknarréttur sé starfandi nú á dögum hefur klerkastéttin notað ríkisvaldið til að ofsækja ‚spámenn‘ og ‚heilaga‘ sem eru ekki á sama máli og þeir. Þeir hafa þrýst á stjórnmálaleiðtoga að ‚búa öðrum tjón undir yfirskini réttarins.‘ Þannig hafa þeir valdið eða lagt blessun sína yfir bönn, fangelsanir, misþyrmingar, pyndingar og jafnvel dauða guðhræddra manna á okkar öld. — Opinberunarbókin 17:6; Sálmur 94:20.
Reikningsskil
23. Hvers vegna mun Guð láta lögleysingjann svara til saka?
23 Svo sannarlega er að finna í falstrúarbrögðunum blóð spámanna, heilagra og allra þeirra sem hafa verið drepnir á jörðinni. (Opinberunarbókin 18:24) Þar eð verstu blóðsúthellingarnar hafa átt sér stað í löndum kristna heimsins er sekt klerkastéttarinnar mest. Það er sannarlega við hæfi að Biblían skuli nefna þá ‚lögleysingja‘! En orð Guðs segir líka: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Guð mun því láta hina löglausu klerkastétt standa reikningsskap gerða sinna.
24. Hvaða stórviðburðir munu eiga sér stað innan tíðar?
24 Jesús sagði: „Farið frá mér, illgjörðamenn.“ (Matteus 7:23) Hann lýsti einnig yfir að „hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“ (Matteus 7:19) Sá tími nálgast óðfluga að lögleysinginn mun líða undir lok í eldi ásamt öllum falstrúarbrögðum, þegar stjórnmálaöflin, sem þau hafa lifað skækjulífi með, munu snúast gegn þeim: „[Þau] munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:16) Úr því að slíkir stórviðburðir eru framundan verða þjónar Guðs að láta aðra vita af þeim. Næsta grein fjallar um hvernig þeir hafa gert það.
Upprifjun
◻ Hvað er lögleysinginn og hvernig þróaðist hann?
◻ Hvaða góðan ávöxt verða sannkristnir menn að bera?
◻ Hver er Babýlon hin mikla og hve mikil er blóðskuld hennar?
◻ Hvernig hefur lögleysinginn svívirt Guð?
◻ Hvernig mun Guð láta lögleysingjann standa reikningsskap gerða sinna?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Krossferðirnar höfðu í för með sér óhugnanlegar blóðsúthellingar í nafni Guðs og Krists.
[Rétthafi]
Birt með leyfi The British Library.
[Mynd á blaðsíðu 16]
‚Klerkaveldi kaþólskra í hverju landi hefur svo til alltaf stutt styrjaldir sinnar þjóðar.‘
[Rétthafi]
Ljósmynd: Bandaríkjaher