Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w96 1.2. bls. 13-18
  • Hvaða framtíð bíður sauðanna og hafranna?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvaða framtíð bíður sauðanna og hafranna?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Persónur dæmisögunnar
  • Hverjir eru sauðirnir og hafrarnir?
  • Hvaða framtíð bíður hópanna beggja?
  • Hvað þýðir það fyrir okkur?
  • TÖKUM EFTIR HLIÐSTÆÐUNUM
  • Breyttu tafarlaust í samræmi við „táknið“!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Mikill múgur sannra tilbiðjenda — hvaðan eru þeir komnir?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Styðjum bræður Krists dyggilega
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Hvernig mun þér reiða af frammi fyrir dómstólnum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
w96 1.2. bls. 13-18

Hvaða framtíð bíður sauðanna og hafranna?

„Hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ — MATTEUS 25:32.

1, 2. Af hverju ætti dæmisagan um sauðina og hafrana að vekja áhuga okkar?

JESÚS KRISTUR var vissulega mesti kennari sem verið hefur á jörðinni. (Jóhannes 7:46) Ein kennsluaðferð hans var dæmisögur eða líkingar. (Matteus 13:34, 35) Þær voru einfaldar en komu þó djúpum andlegum og spádómlegum sannindum vel til skila.

2 Í dæmisögunni um sauðina og hafrana talaði Jesús um ákveðinn tíma er hann kæmi fram í sérstöku hlutverki: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og . . .“ (Matteus 25:31) Þetta ætti að vekja áhuga okkar af því að það var með þessari dæmisögu sem Jesús lauk svari sínu við spurningunni: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) En hvað þýðir þetta fyrir okkur?

3. Hvað sagði Jesús fyrr í ræðu sinni að myndi gerast strax eftir að þrengingin mikla hæfist?

3 Jesús spáði eftirtektarverðri atburðarás „þegar eftir“ að mikil þrenging hæfist, atburðarás sem við bíðum óþreyjufull eftir. Hann sagði að þá myndi „tákn Mannssonarins“ birtast. Það mun hafa veruleg áhrif á „allar kynkvíslir jarðarinnar“ sem „sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.“ Mannssonurinn mun hafa „engla sína“ með í för. (Matteus 24:21, 29-31)a Hvað um dæmisöguna um sauðina og hafrana? Í nútímabiblíum er hún í 25. kafla, en hún er hluti af svari Jesú og gefur nánari upplýsingar um komu hans í dýrð og beinir athyglinni að því er hann dæmir „allar þjóðir.“ — Matteus 25:32.

Persónur dæmisögunnar

4. Hvað er sagt um Jesú í upphafi dæmisögunnar um sauðina og hafrana, og hverjir aðrir koma við sögu?

4 Jesús byrjar dæmisöguna með orðunum: „Þegar Mannssonurinn kemur.“ Þú veist trúlega hver „Mannssonurinn“ er. Guðspjallamennirnir kölluðu Jesú oft þessu nafni. Jesús gerði það jafnvel sjálfur og hafði þá eflaust í huga sýn Daníels af ‚einhverjum sem mannssyni líktist‘ er gekk fyrir hinn aldraða til að fá „vald, heiður og ríki.“ (Daníel 7:13, 14; Matteus 26:63, 64; Markús 14:61, 62) Þótt Jesús sé aðalpersóna dæmisögunnar er hann ekki einn. Fyrr í ræðu sinni sagði hann, eins og fram kemur í Matteusi 24:30, 31, að þegar Mannssonurinn ‚kæmi með mætti og mikilli dýrð‘ myndu englar hans gegna mikilvægu hlutverki. Dæmisagan um sauðina og hafrana sýnir englana einnig með Jesú er hann ‚sest í dýrðarhásæti sitt‘ til að dæma. (Samanber Matteus 16:27.) En dómarinn og englar hans eru á himnum. Er þá líka rætt um menn í dæmisögunni?

5. Hvernig getum við borið kennsl á ‚bræður‘ Krists?

5 Með því að renna yfir dæmisöguna sjáum við að um er að ræða þrjá hópa sem við þurfum að bera kennsl á.. Auk sauðanna og hafranna nefnir Mannssonurinn þriðja hópinn til sögunnar sem er nauðsynlegt að bera kennsl á til að vita hverjir sauðirnir og hafrarnir eru. Jesús kallar þennan þriðja hóp andlega bræður sína. (Matteus 25:40, 45) Þeir hljóta að vera sannir guðsdýrkendur því að Jesús sagði: „Hver sem gjörir vilja föður míns, . . . sá er bróðir minn, systir og móðir.“ (Matteus 12:50; Jóhannes 20:17) Páll komst beint að orði er hann skrifaði um kristna menn sem eru „niðjar Abrahams“ og synir Guðs. Hann kallaði þá „bræður“ Jesú og ‚hluttaka himneskrar köllunar.‘ — Hebreabréfið 2:9–3:1; Galatabréfið 3:26, 29.

6. Hverjir eru hinir „minnstu“ meðal bræðra Jesú?

6 Af hverju nefndi Jesús hina „minnstu“ bræður sína? Þessi orð enduróma það sem postularnir heyrðu hann segja fyrr. Þegar Jesús gerði samanburð á Jóhannesi skírara, sem dó á undan Jesú og hafði því jarðneska von, og þeim sem öðlast líf á himnum sagði hann: „Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.“ (Matteus 11:11) Sumir, sem fara til himna, hafa kannski verið áberandi í söfnuðinum líkt og postularnir en aðrir minna áberandi, en þeir eru allir andlegir bræður Jesú. (Lúkas 16:10; 1. Korintubréf 15:9; Efesusbréfið 3:8; Hebreabréfið 8:11) Jafnvel þótt lítið bæri á sumum þeirra á jörðinni voru þeir bræður hans og það átti að koma fram við þá samkvæmt því.

Hverjir eru sauðirnir og hafrarnir?

7, 8. Hvað sagði Jesús um sauðina og hvað getum við ályktað um þá?

7 Við lesum um dóminn yfir sauðunum: „Þá mun [Jesús] segja við þá til hægri: ‚Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.‘ Þá munu þeir réttlátu segja: ‚Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?‘ Konungurinn mun þá svara þeim: ‚Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.‘“ — Matteus 25:34-40.

8 Augljóst er að sauðirnir, sem eru dæmdir verðugir þess að vera á hægri hönd Jesú til tákns um heiður og hylli, tákna hóp manna. (Efesusbréfið 1:20; Hebreabréfið 1:3) Hvað gerðu þeir og hvenær? Jesús segir að þeir hafi sýnt honum vinsemd, virðingu og örlæti með því að gefa honum mat og drykk og klæða hann er hann var sjúkur eða í fangelsi. Þegar sauðirnir segjast ekki hafa gert neitt af þessu fyrir Jesú persónulega bendir hann á að þeir hafi stutt andlega bræður hans, leifar smurðra kristinna manna, þannig að í þeim skilningi hafi þeir gert það fyrir hann.

9. Hvernig sjáum við að dæmisagan á ekki við um þúsundáraríkið?

9 Dæmisagan fjallar ekki um þúsundáraríkið því að þá verða hinir smurðu ekki lengur menn sem líða hungur, þorsta, veikindi eða fangavist. En margir þeirra hafa orðið fyrir slíku á endalokatíma þessa heimskerfis. Allt frá því að Satan var varpað niður til jarðar hafa leifarnar verið sérstakur skotspónn reiði hans og mátt þola háð, pyndingar og dauða. — Opinberunarbókin 12:17.

10, 11, (a) Hvers vegna er órökrétt að allir sem sýna bræðrum Jesú góðvildarvott séu sauðir? (b) Hverja tákna sauðirnir?

10 Er Jesús að segja að allir, sem sýna einum bræðra hans ofurlitla góðvild, svo sem að bjóða honum brauðbita eða vatnsglas, séu í þessum sauðahópi? Vissulega geta slík góðverk endurspeglað mannlega góðvild, en það virðist vera miku meira fólgið í því sem sauðirnir í dæmisögunni gera. Jesús var til dæmis greinilega ekki að tala um guðleysingja eða presta sem af hendingu sýna bræðrum hans góðvild. Þvert á móti kallaði Jesús sauðina tvívegis ‚hina réttlátu.‘ (Matteus 25:37, 46) Sauðirnir hljóta því að vera þeir sem hafa um einhvern tíma komið bræðrum Krists til hjálpar — stutt þá með ráðum og dáð — og hafa sýnt slíka trú að þeir standa réttlátir frammi fyrir Guði.

11 Í aldanna rás hafa margir verið réttlátir í augum Guðs líkt og Abraham. (Jakobsbréfið 2:21-23) Nói, Abraham og aðrir trúfastir menn teljast með hinum ‚öðrum sauðum‘ sem hljóta líf í paradís undir stjórn Guðsríkis. Á síðustu árum hafa milljónir manna í viðbót gerst sannir tilbiðjendur, og eru orðnir aðrir sauðir og „ein hjörð“ með hinum smurðu. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9) Þeir hafa jarðneska von og viðurkenna bræður Jesú sem erindreka Guðsríkis og hafa þess vegna aðstoðað þá — bókstaflega og andlega. Jesús lítur svo á að það sem hinir aðrir sauðir gera fyrir bræður hans á jörðinni sé gert fyrir hann. Slíkt fólk, sem er á lífi þegar hann kemur til að dæma þjóðirnar, verður dæmt sauðir.

12. Af hverju kunna sauðirnir að spyrja hvernig þeir hafi gert Jesú gott?

12 Ef hinir aðrir sauðir eru núna að prédika fagnaðarerindið með hinum smurðu og hjálpa þeim, af hverju ætli þeir spyrji þá: „Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?“ (Matteus 25:37) Ástæðurnar geta verið margar. Þetta er dæmisaga. Jesús segir hana til að lýsa djúpri umhyggju sinni fyrir andlegum bræðrum sínum; hann finnur til með þeim, þjáist með þeim. Jesús hafði áður sagt: „Sá sem tekur við yður, tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig.“ (Matteus 10:40) Í þessari dæmisögu útvíkkar Jesús meginregluna og sýnir að það sem gert er bræðrum hans (gott eða illt) nær jafnvel til himna; það er eins og það sé gert fyrir hann á himnum. Og Jesús leggur líka áherslu hér á það sem Jehóva dæmir eftir, þannig að ljóst er að dómur Jehóva er lögmætur og réttvís, hvort sem hann er mönnum í hag eða óhag. Hafrarnir geta ekki afsakað sig: ‚Ja, ef við hefðum bara getað séð þig með berum augum.‘

13. Hvers vegna gætu menn, sem líkjast höfrum, átt til að ávarpa Jesú „herra“?

13 Þegar við skiljum hvenær dómurinn í þessari dæmisögu er felldur, þá fáum við skýrari mynd af því hverjir hafrarnir eru. Dæmisagan uppfyllist þegar ‚tákn Mannssonarins birtist á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma með mætti og mikilli dýrð.‘ (Matteus 24:29, 30) Þeir sem lifa af þrenginguna yfir Babýlon hinni miklu og hafa verið illgjarnir í garð bræðra konungsins reyna kannski núna í örvæntingu sinni að ávarpa dómarann „herra“ í von um að bjarga eigin skinni. — Matteus 7:22, 23; samanber Opinberunarbókin 6:15-17.

14. Á hvaða forsendum dæmir Jesús sauðina og hafrana?

14 En dómur Jesú verður ekki byggður á staðhæfingum og örvæntingarópum fyrrverandi kirkjugesta, guðleysingja eða annarra. (2. Þessaloníkubréf 1:8) Dómarinn lítur á hjartalag fólks og skoðar hvernig það kom fram jafnvel við ‚einn hinna minnstu bræðra hans.‘ Vissulega fer smurðum kristnum mönnum á jörðinni fækkandi. En svo lengi sem hinir smurðu, er mynda ‚hinn trúa og hyggna þjón,‘ halda áfram að láta í té andlega fæðu og leiðsögn hafa væntanlegir sauðir tækifæri til að gera þessum þjónshópi gott, alveg eins og ‚múgurinn mikli af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum‘ hefur gert. — Opinberunarbókin 7:9, 14.

15. (a) Hvernig hafa margir sýnt sig vera eins og hafra? (b) Af hverju ættum við að forðast að fullyrða að einhver sé sauður eða hafur?

15 Hvernig hefur verið farið með bræður Krists og þær milljónir annarra sauða sem hafa sameinast þeim í einni hjörð? Margir hafa kannski ekki ráðist persónulega á fulltrúa Krists, en þeir hafa ekki heldur sýnt fólki hans neina vinsemd. Þeir sem líkjast höfrum velja hinn illa heim og hafna boðskapnum um Guðsríki, hvort sem þeir heyra hann beint eða óbeint. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) En þegar öllu er á botninn hvolft er það Jesús sem er skipaður til að fella dóm. Það er ekki okkar að ákveða hverjir eru sauðir og hverjir hafrar. — Markús 2:8; Lúkas 5:22; Jóhannes 2:24, 25; Rómverjabréfið 14:10-12; 1. Korintubréf 4:5.

Hvaða framtíð bíður hópanna beggja?

16, 17. Hvaða framtíð bíður sauðanna?

16 Jesús felldi dóm sinn yfir sauðunum: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ Þetta er hlýlegt boð — „komið“! Hvert? Til eilífs lífs eins og hann sagði í samantekt sinni: „Hinir réttlátu [munu fara] til eilífs lífs.“ — Matteus 25:34, 46.

17 Í dæmisögunni um talenturnar sýndi Jesús fram á hvers væri krafist af þeim sem stjórna með honum á himnum, en í þessari dæmisögu bendir hann á hvers sé vænst af þegnum Guðsríkis. (Matteus 25:14-23) Í stuttu máli er það hugheill stuðningur sauðanna við bræður Krists sem veldur því að þeir erfa stað á jarðneskum vettvangi ríkis hans. Þeir fá að lifa í paradís á jörð — en það er von sem Guð bjó þeim „frá grundvöllun“ þess mannheims sem hægt var að endurleysa. — Lúkas 11:50, 51.

18, 19. (a) Hvaða dóm fellir Jesús yfir höfrunum? (b) Hvernig getum við verið viss um að hafrarnir eiga ekki eilífar kvalir í vændum?

18 En það er allt annar dómur sem hafrarnir fá! „Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ‚Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.‘ Þá munu þeir svara: ‚Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?‘ Hann mun þá svara þeim: ‚Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.‘“ — Matteus 25:41-45.

19 Biblíunemendur vita að þetta getur ekki merkt að ódauðlegar sálir manna, sem líkjast höfrum, þjáist í eilífum eldi. Nei, því að menn hafa ekki ódauðlega sál heldur eru sálir. (1. Mósebók 2:7; Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4) Með því að dæma hafrana í ‚eilífan eld‘ á dómarinn við eyðingu þar sem enga framtíðarvon er að finna, sömu endanlegu eyðinguna og djöfullinn og illir andar fá. (Opinberunarbókin 20:10, 14) Dómari Jehóva fellir þannig andstæða dóma. Hann segir sauðunum að ‚koma‘ en höfrunum að ‚fara frá sér.‘ Sauðirnir taka ‚eilíft líf‘ að erfð. Hafrarnir hljóta ‚eilíft afnám.‘ — Matteus 25:46, NW.b

Hvað þýðir það fyrir okkur?

20, 21. (a) Hvaða mikilvægt verk hafa kristnir menn að vinna? (b) Hvaða aðgreining á sér stað núna? (c) Í hvaða aðstöðu verður fólk þegar dæmisagan um sauðina og hafrana tekur að uppfyllast?

20 Postularnir fjórir, sem heyrðu Jesú svara spurningunni um tákn nærveru sinnar og endaloka heimskerfisins, höfðu um margt að hugsa. Þeir þurftu að vaka og vera á varðbergi. (Matteus 24:42) Þeir þurftu líka að bera vitni eins og nefnt er í Markúsi 13:10. Vottar Jehóva vinna kappsamlega að því nú á dögum.

21 En hvað þýðir þessi nýi skilningur á dæmisögunni um sauðina og hafrana fyrir okkur? Fólk er nú þegar byrjað að taka afstöðu. Sumir eru á ‚breiða veginum sem liggur til glötunar‘ en aðrir reyna að halda sig á ‚mjóa veginum er liggur til lífsins.‘ (Matteus 7:13, 14) En tíminn, þegar Jesús fellir lokadóm yfir sauðunum og höfrunum í dæmisögunni, er enn framundan. Þegar Mannssonurinn kemur í dómarahlutverki úrskurðar hann að margir sannkristnir menn — raunar „mikill múgur“ vígðra sauða — séu hæfir til að komast gegnum lokakafla ‚þrengingarinnar miklu‘ inn í nýja heiminn. Sá möguleiki ætti að vera mikið gleðiefni núna. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Á hinn bóginn verður mikill fjöldi af ‚öllum þjóðum‘ búinn að sýna sig eins og þrjóska hafra. Þeir munu ‚fara til eilífs afnáms.‘ Hvílíkur léttir fyrir jörðina!

22, 23. Af hverju er prédikunarstarf okkar núna mjög mikilvægt þótt uppfylling dæmisögunnar bíði enn síns tíma?

22 Enda þótt dómurinn, sem lýst er í dæmisögunni, sé enn ókominn er mikilvægt starf í gangi núna. Við kristnir menn vinnum björgunarstarf með því að boða boðskap sem skiptir fólki í tvo hópa. (Matteus 10:32-39) Páll skrifaði: „Því að ‚hver sem ákallar nafn [Jehóva] mun hólpinn verða.‘ En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ (Rómverjabréfið 10:13, 14) Boðunarstarf okkar meðal almennings kemur nafni Guðs og hjálpræðisboðskap til fólks í yfir 230 löndum. Smurðir bræður Krists eru enn í fylkingarbrjósti í þessu starfi. Yfir fimm milljónir annarra sauða hafa nú gengið til liðs við þá. Og fólk um heim allan tekur við boðskapnum sem bræður Jesú flytja.

23 Margir komast í snertingu við boðskap okkar er við prédikum hús úr húsi eða óformlega. Aðrir kynnast kannski vottum Jehóva og því sem við erum talsmenn fyrir eftir öðrum leiðum sem við vitum ekki af. Að hvaða marki tekur Jesús mið af samfélagsábyrgð og fjölskylduábyrgð þegar dómstíminn rennur upp? Um það getum við ekkert sagt og það er tilgangslaust að velta vöngum yfir því. (Samanber 1. Korintubréf 7:14.) Margir látast ekki heyra, gera gys að eða taka þátt í beinum ofsóknum á hendur fólki Guðs. Þetta eru því örlagatímar og þeir sem hegða sér þannig eru kannski að verða þess konar menn sem Jesús mun dæma hafra. — Matteus 10:22; Jóhannes 15:20; 16:2, 3; Rómverjabréfið 2:5, 6.

24. (a) Hvers vegna er mikilvægt fyrir einstaklinga að bregðast vel við prédikun okkar? (b) Hvaða afstöðu til prédikunarstarfsins hefur þetta námsefni hjálpað þér að hafa?

24 Sem betur fer bregðast margir vel við, nema orð Guðs og verða vottar Jehóva. Sumir, sem virðast nú um stundir líkjast höfrunum, geta breyst og orðið eins og sauðir. Kjarni málsins er sá að þeir sem taka við og styðja leifar bræðra Krists með ráðum og dáð eru með verkum sínum að skapa forsendu fyrir því að þeim verði skipað Jesú á hægri hönd er hann sest í hásæti sitt í náinni framtíð til að fella dóm. Þeir njóta blessunar bæði núna og í framtíðinni. Dæmisagan ætti þannig að hvetja okkur til enn meiri kostgæfni í hinni kristnu þjónustu. Áður en það er um seinan viljum við gera allt sem við getum til að boða fagnaðarerindið um ríkið og gefa öðrum þar með tækifæri til að taka við því. Þá er það undir Jesú komið að fella dóm, hverju og einum í hag eða óhag. — Matteus 25:46, NW.

[Neðanmáls]

a Sjá Varðturninn 1. júlí 1994, bls. 16-21.

b Bókin El Evangelio de Mateo segir: „Eilíft líf er varanlegt líf; andstæða þess er varanleg refsing. Gríska lýsingarorðið aionios lýsir frekar eðli en tímalengd. Hin varanlega refsing er eilífur dauði.“ — Prófessor Juan Mateos (Biblíustofnun Páfagarðs, Róm) og prófessor Fernando Camacho (Guðfræðistofnun, Sevilla), Madríd, Spáni, 1981.

Manstu?

◻ Hvaða hliðstæður milli Matteusar 24:29-31 og Matteusar 25:31-33 sýna að dæmisagan um sauðina og hafrana uppfyllist í framtíðinni, og hvenær verður það?

◻ Hverjir eru ‚minnstir‘ bræðra Jesú?

◻ Hvernig hjálpar það, að Jesús skuli tala um ‚réttláta,‘ okkur að bera kennsl á hverja þeir tákna og hverja ekki?

◻ Af hverju er prédikun okkar núna mikilvæg og áríðandi enda þótt dæmisagan uppfyllist í framtíðinni?

[Box, mynd á blaðsíðu 15]

TÖKUM EFTIR HLIÐSTÆÐUNUM

Matteus 24:29-31 Matteus 25:31-33

Mannssonurinn kemur eftir Mannssonurinn kemur að þrengingin mikla hefst

Kemur með mikilli dýrð Kemur í dýrð og sest í dýrðarhásæti sitt

Englar eru með honum Englar koma með honum

Allar kynkvíslir jarðar sjá hann Öllum þjóðum safnað saman; hafrarnir dæmdir endanlega (þrengingin mikla endar)

[Rétthafi]

Garo Nalbandian

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila