Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.7. bls. 30-31
  • Gimsteinar úr Matteusarguðspjalli

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gimsteinar úr Matteusarguðspjalli
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fæðing og upphaf þjónustu
  • Jesús, áhrifamikill kennari
  • Hlýddu ráðum frá syni Guðs
  • Hin ráðvanda fyrirmynd okkar
  • Hvert er fagnaðarerindið í raun og veru?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Gimsteinar úr Lúkasarguðspjalli
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.7. bls. 30-31

Gimsteinar úr Matteusarguðspjalli

JEHÓVA GUÐ innblés fyrrverandi skattheimtumanni, Matteusi, að setja á blað hrífandi frásögu af fæðingu, ævi, dauða og upprisu Jesú Krists. Mörg handrit frá því eftir tíundu öld segja að þetta guðspjall hafi verið ritað um átta árum eftir uppstigningu Jesú (um 41). Það stangast ekki á við efni guðspjallsins, því að frásögunni lýkur með því er Jesús felur lærisveinunum árið 33 að prédika, kenna og skíra, en minnist ekki á eyðingu Jerúsalem fyrir hendi Rómverja árið 70.

Í riti sínu Historia Ecclesiastica (Kirkjusaga) frá fjórðu öld vitnar sagnaritarinn Evsebíus í Papías og Íreneus frá annarri öld og Origenes frá þriðju öld sem allir eigna Matteusi guðspjallið og segja hann hafa skrifað það á hebresku. Var það í reyndinni arameíska? Ekki ef marka má gögn sem George Howard, prófessor í trúfræðum við University of Georgia í Bandaríkjunum, nefnir. Hann segir: „Sú getgáta kemur fyrst og fremst til af þeirri skoðun að hebreska hafi ekki lengur verið töluð í Palestínu á dögum Jesú heldur verið vikin fyrir arameísku. Fundur Dauðahafshandritanna, sem mörg hver eru samin á hebresku, svo og fundur annarra hebreskra skjala frá Palestínu frá tímum Jesú, sýna okkur nú að hebreska var lifandi og vel á sig komin á fyrstu öld.“ Matteus skrifaði guðspjall sitt greinilega fyrir kristna Hebrea en kann svo að hafa þýtt það yfir á grísku.

Við hvetjum þig til að lesa Matteusarguðspjall. Er þú virðir fyrir þér fáeina af þeim gimsteinum, sem það geymir, skalt þú veita athygli viðbótarupplýsingum sem varpa ljósi á frásöguna.

Fæðing og upphaf þjónustu

Matteusarguðspjall hefst á ættartölu og fæðingu Jesú. Er María reyndist vera þunguð hugðist unnusti hennar, Jósef, „skilja við hana í kyrrþey.“ (1:19) En hvernig gat hann gert það úr því að þau voru aðeins trúlofuð? Hjá Gyðingum hvíldu sömu skyldur á herðum heitbundinnar konu og giftrar. Ef hún átti kynmök við einhvern var hægt að grýta hana sem hórkonu. (5. Mósebók 22:23-29) Sökum þess hve bindandi trúlofun var ætlaði Jósef sér að skilja við Maríu, enda þótt þau hefðu enn ekki gengið í hjónaband við formlega athöfn.

Fyrstu kaflar Matteusarguðspjalls geyma fjallræðu Jesú. Í henni varaði Kristur við því að sá yrði sekur „fyrir ráðinu“ sem ‚hrakyrti‘ bróður sinn. (5:22) Slíkt tal jafngilti því að kalla bróður sinn heimskingja og þöngulhaus.

En hvað var „ráðið“? Það var æðstaráðið í Jerúsalem sem 71 maður átti sæti í. Hvað þurfti til að vera hæfur til setu í ráðinu? Cyclopedia eftir McClintock og Strong segir: „Umsækjandi þurfti að vera siðferðilega og líkamlega gallalaus. Hann átti að vera miðaldra, hávaxinn, myndarlegur, auðugur og menntaður . . . Hann þurfti að kunna nokkur tungumál . . . mjög aldraðir menn, trúskiptingar, geldingar og musterisþjónar voru óhæfir sökum sérkenna sinna; og ekki mátti velja barnlausa menn til setu í ráðinu, því að þeir gátu ekki haft skilning á fjölskyldumálum . . . né heldur þá sem gátu ekki sannað að þeir væru skilgetnir afkomendur prests, levíta eða Ísraelsmanns. . . . Tilvonandi meðlimur æðstaráðsins þurfti í fyrsta lagi að hafa verið dómari í heimabæ sínum; að hafa flust þaðan til undirráðsins . . . og hafa síðan flust þaðan til annars undirráðs . . . áður en hægt var að taka við honum í sjötíuogeinsmannsráðið.“

Jesús átti því við að „sá sem hrakyrðir bróður sinn“ beri ámóta sekt og sá sem fundinn var sekur fyrir hæstarétti Gyðinga og dæmdur til dauða. Hvílík aðvörun gegn því að baknaga bræður okkar! Við skulum beisla tungu okkar þannig að við verðskuldum aldrei fordæmingu fyrir hæstarétti, frammi fyrir Jehóva, ‚dómara alls jarðríkis.‘ — 1. Mósebók 18:25; Jakobsbréfið 3:2-12.

Jesús, áhrifamikill kennari

Guðspjallið lýsir Jesú einnig sem kennara er kunni að svara spurningum. Til dæmis útskýrði hann, til svars við fyrirspurn, hvers vegna lærisveinar hans föstuðu ekki. (9:14-17) Þeir höfðu enga ástæðu til að fasta meðan hann var á lífi. En eins og hann sagði fyrir föstuðu þeir og syrgðu þegar hann dó, vegna þess að þeir vissu ekki hvers vegna leyft hafði verið að hann dæi. Eftir að þeir höfðu fengið heilagan anda á hvítasunnunni fengu þeir hins vegar upplýsingu um það og hættu þá að fasta hryggir í bragði.

Jesús var enn að fjalla um sama efni er hann bætti við að enginn léti bót af óþæfðum dúk á gamla flík því að þá rifi bótin út frá sér og úr yrði enn verri rifa. Hann sagði einnig að nýtt vín væri ekki sett á gamla belgi. Vínbelgur var gerður úr sútuðu skinni sem saumað var saman þannig að aðeins var hægt að opna fótleggjarop eða annað slíkt. Við gerjun nýs víns myndast koldíoxíð sem veldur nægum þrýstingi til að sprengja gamlan og uppþornaðan vínbelg. Sannleikurinn, sem Kristur kenndi, var of kröftugur fyrir hinn gamla og ósveigjanlega gyðingdóm. Hann var ekki að reyna að bæta eða viðhalda útjöskuðu trúkerfi með fastmótuðum föstusiðum og venjum. Guð notaði Jesú til að setja á laggirnar nýtt tilbeiðslukerfi. Við ættum því ekki að gera neitt til að styðja samkirkjuhreyfingar eða viðhalda falstrúarbrögðum.

Hlýddu ráðum frá syni Guðs

Samkvæmt frásögn Matteusar af ummynduninni kallaði Guð Jesú son sinn er hann hefði velþóknun á og sagði að við skyldum hlýða á hann. (17:5) Við eigum því að hlýða öllum heilræðum Krists, svo sem þeirri viðvörun hans að þeim sem hneykslaði einhvern, er iðkaði trú á hann, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með myllustein hengdan um háls. (18:6) Hvers konar steinn var það? Það var enginn smásteinn því hann gat verið einn til einn og hálfur metri í þvermál. Sterkt dráttardýr þurfti til að snúa honum á neðri myllusteininum. Enginn gæti bjargað sér frá drukknun með slík þyngsli um hálsinn. Jesús var þannig að hvetja okkur til að forðast þá sekt er væri því samfara að hneyksla einhvern af fylgjendum hans. Páll postuli skrifaði í svipuðum tilgangi: „Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á.“ — Rómverjabréfið 14:21.

Sonur Guðs gaf óbein heilræði þegar hann atyrti hina skriftlærðu og Faríseana og sagði að þeir líktust hvítkölkuðum gröfum. (23:27, 28) Sú var venja að hvítkalka grafir í því skyni að forða fólki frá því að snerta þær óviljandi og verða við það óhreint. Með því að vísa til þessarar siðvenju sýndi Jesús fram á að hinir skriftlærðu og Farísearnir væru út á við réttlátir að sjá en hið innra „fullir hræsni og ranglætis.“ Ef við hlýðum þeim heilræðum, sem felast í orðum hans, munum við forðast undirferli og sýna ‚hræsnislausa trú.‘ — 1. Tímóteusarbréf 1:5; Orðskviðirnir 3:32; 2. Tímóteusarbréf 1:5.

Hin ráðvanda fyrirmynd okkar

Eftir að Matteus hefur greint frá spádómi Jesú um ‚tákn komu sinnar‘ skýrir hann frá því hvernig Kristur var svikinn, handtekinn, leiddur fyrir rétt, líflátinn og reistur upp. Á kvalastaurnum afþakkaði Jesús gallblandað vín er hefði haft sljóvgandi áhrif á hann. (27:34) Konur voru vanar að gefa afbrotamönnum slíkt vín til að stilla kvalir þeirra á aftökustaurnum. Markús 15:23 segir að vínið hafi verið „blandað myrru“ til bragðbætis. Vínið, sem Kristur afþakkaði, var því greinilega bæði blandað galli og myrru. Á hápunkti jarðvistar sinnar vildi hann ekki láta sljóvga skilningarvit sín með deyfilyfjum. Jesús vildi hafa fulla stjórn á vitund sinni til að geta verið trúfastur allt til dauða. Eins og fyrirmynd okkar ættum við alltaf að láta okkur umhugað um að varðveita ráðvendni við Jehóva Guð. — Sálmur 26:1, 11.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila