Fyrst þarf að prédika fagnaðarerindið
„Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ — MARKÚS 13:10.
1, 2. Hvert er vörumerki votta Jehóva og hvers vegna?
AF HVERJU halda vottar Jehóva ótrauðir áfram að prédika? Vissulega erum við þekktir um heim allan fyrir opinbera þjónustu okkar, jafnt þjónustu hús úr húsi, á götum úti sem óformlega prédikun. Við kynnum okkur sem votta við sérhvert viðeigandi tækifæri og reynum með háttvísi að koma fagnaðarerindinu, sem er okkur svo dýrmætt, á framfæri. Við gætum reyndar sagt að þessi þjónusta sé vörumerki okkar. — Kólossubréfið 4:6.
2 Ef þú hugsar málið, hvað dettur fólki fyrst í hug þegar það sér hóp snyrtilega klæddra karla, kvenna og barna með skjalatöskur í hverfinu sínu? Segja menn: ‚Nú, þarna eru þjóðkirkjumenn (eða kaþólskir) á ferðinni aftur!‘ eða ‚Þarna eru hvítasunnumenn komnir eina ferðina enn‘? Nei. Fólk veit að hjá þessum trúfélögum ganga ekki heilu fjölskyldurnar í hús til að boða trúna. Sum trúfélög senda kannski einhverja „trúboða“ til tveggja ára þjónustu á vissum svæðum, en óbreyttir safnaðarmenn taka ekki þátt í neinni slíkri þjónustu. Aðeins vottar Jehóva eru þekktir um heim allan fyrir brennandi áhuga sinn á því að koma boðskap sínum til annarra við hvert viðeigandi tækifæri. Þeir eru líka þekktir fyrir tímaritin sín, Varðturninn og Vaknið! — Jesaja 43:10-12; Postulasagan 1:8.
Ólíkir klerkum kristna heimsins
3, 4. Hvernig er klerkum kristna heimsins oft lýst í fjölmiðlum?
3 Fréttir fjölmiðla hafa dregið upp gerólíka mynd af klerkum sumra landa með því að afhjúpa aftur og aftur hvernig þeir hafa misnotað sér drengi kynferðislega og reynst vera siðlausir svindlarar og svikahrappar. Verk holdsins, sem þeir vinna, og óhófsamt líferni þeirra blasir við öllum. Vinsæll lagahöfundur lýsti þessu vel í lagi sínu sem hét „Myndi Jesús bera Rolex-úr [fokdýrt gullúr] í sjónvarpsþættinum sínum?“ Hann spyr: „Myndi Jesús vera stjórnmálamaður ef hann kæmi aftur til jarðar? Eiga sér annað heimili í Palm Springs [auðmannabæ í Kaliforníu] og reyna að leyna ríkidæmi sínu?“ Orð Jakobs eru sannarlega vel við hæfi: „Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.“ — Jakobsbréfið 5:5; Galatabréfið 5:19-21.
4 Vinfengi klerka við stjórnmálamenn og jafnvel þátttaka í kosningum sem frambjóðendur, afhjúpar þá sem fræðimenn og farísea nútímans. Á sama tíma hafa kirkjur í löndum svo sem Bandaríkjunum og Kanada þurft að seilast djúpt í sjóði sína vegna mikils málskostnaðar og dóma yfir klerkum fyrir kynferðislega misnotkun barna og fullorðinna skjólstæðinga sinna. — Matteus 23:1-3.
5. Af hverju hafa klerkar kristna heimsins ekki reynst vera hinn „trúi og hyggni þjónn“?
5 Jesús gat réttilega sagt klerkum sinnar samtíðar: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.“ Guð hefur því ekki gefið klerkum kristna heimsins umboð til að prédika fagnaðarerindið, hvorki kaþólskra, mótmælenda, rétttrúnaðarmanna né sértrúarsafnaða. Þeir hafa ekki reynst vera hinn „trúi og hyggni þjónn“ sem spáð var um. — Matteus 23:27, 28; 24:45-47.
Hvers vegna að prédika fagnaðarerindið fyrst?
6. Hvaða atburðir eiga sér bráðlega stað?
6 Í stuttorðri frásögn sinni af fyrirmælum Jesú um að prédika fagnaðarerindið öllum þjóðum notar Markús einn orðið „fyrst.“ (Markús 13:10; samanber Matteus 24:14.) Þýðing J. B. Phillips hljóðar svo: „Því að áður en endirinn kemur verður að boða öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ Notkun atviksorðsins „fyrst“ gefur til kynna að aðrir atburðir fylgi í kjölfar trúboðsins um allan heim. Þessir atburðir fela meðal annars í sér hina fyrirheitnu miklu þrengingu og réttláta stjórn Krists yfir nýja heiminum. — Matteus 24:21-31; Opinberunarbókin 16:14-16; 21:1-4.
7. Hvers vegna vill Guð að fagnaðarerindið sé prédikað fyrst?
7 Af hverju vill Guð þá að fagnaðarerindið sé prédikað fyrst? Ein af ástæðunum er sú að hann er Guð kærleika, réttvísi, visku og máttar. Við getum séð þessa eiginleika Jehóva birtast með hrífandi hætti í uppfyllingu orða Jesú í Matteusi 24:14 og Markúsi 13:10. Við skulum skoða þá stuttlega hvern fyrir sig og sjá hvernig þeir tengjast prédikun fagnaðarerindisins.
Fagnaðarerindið og kærleikur Jehóva
8. Hvernig er prédikun fagnaðarerindisins merki um kærleika Guðs? (1. Jóhannesarbréf 4:7-16)
8 Hvernig endurspeglar prédikunarstarfið kærleika Jehóva? Í fyrsta lagi þannig að það er ekki boðskapur ætlaður aðeins einum kynþætti eða hópi. Þetta er fagnaðarboðskapur handa „öllum þjóðum.“ Guð elskar mannkynið svo heitt að hann sendi eingetinn son sinn til jarðar til að vera lausnargjald fyrir syndir alls mannkyns, ekki bara eins kynþáttar. Jóhannes postuli skrifaði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.“ (Jóhannes 3:16, 17) Svo sannarlega er fagnaðarerindið merki um kærleika Guðs, boðskapur sem lofar okkur nýjum heimi friðar, samlyndis og réttvísi. — 2. Pétursbréf 3:13.
Fagnaðarerindið og máttur Jehóva
9. Af hverju hefur Jehóva ekki notað hin voldugu trúfélög kristna heimsins til að prédika fagnaðarerindið?
9 Hvernig birtist máttur Jehóva í prédikun fagnaðarerindisins? Hugleiðum hverja hann hefur notað til að vinna þetta verk. Eru það voldugustu trúfélög kristna heimsins, svo sem rómversk-kaþólska kirkjan eða þekktar trúardeildir mótmælenda? Nei, afskipti þeirra af stjórnmálum gerir þær óhæfar til þessa verks. (Jóhannes 15:19; 17:14; Jakobsbréfið 4:4) Auður þeirra, sambönd og áhrif hjá hinum háu valdastéttum hafa ekki snortið Jehóva Guð, og hið sama gildir um guðfræði þeirra sem svo mjög byggist á erfikenningum. Ekki hefur þurft mannlegan mátt til að gera vilja Guðs. — Sakaría 4:6.
10. Hverja hefur Guð valið til að prédika?
10 Það er eins og Páll postuli sagði í bréfi sínu til safnaðarins í Korintu: „Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir. En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða. Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er, til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði.“ — 1. Korintubréf 1:26-29.
11. Hvað gerir vottana einstaka?
11 Vottar Jehóva hafa mjög fáa auðmenn innan sinna raða og vissulega enga volduga stjórnmálamenn. Algert hlutleysi þeirra í stjórnmálum þýðir að þeir geta ekki farið með nein pólitísk áhrif. Þvert á móti hafa þeir oft verið skotspónn svívirðilegra ofsókna að undirlagi trúar- og stjórnmálaleiðtoga núna á 20. öldinni. En þrátt fyrir grimmilega andstöðu lærisveina nasista, fasista, kommúnista, þjóðernissinna og falstrúarbragða, prédika vottar Jehóva ekki aðeins fagnaðarerindið um heim allan heldur hefur þeim meira að segja fjölgað ótrúlega. — Jesaja 60:22.
12. Hvers vegna hefur vottunum vegnað vel?
12 Hverju þakka vottarnir velgengni sína? Jesús hét lærisveinum sínum: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ Hver átti þá að vera undirrót velgengni þeirra? Jesús sagði: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður.“ Eins er það núna að það er kraftur frá Guði, ekki mannleg hæfni, sem hefur verið lykillinn að velgengni vottanna í þjónustu þeirra um heim allan. Guð notar þá sem virðast minnst mega sín til að vinna mesta fræðslustarf sögunnar. — Postulasagan 1:8; Jesaja 54:13.
Fagnaðarerindið og viska Jehóva
13. (a) Af hverju þjóna vottarnir sjálfboða og án endurgjalds? (b) Hvernig hefur Jehóva svarað ögrunum Satans?
13 Það eru sjálfboðaliðar sem boða fagnaðarerindið. Jesús sagði: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ (Matteus 10:8) Þess vegna fær enginn vottur Jehóva laun fyrir að þjóna Guði og sækjast ekki heldur eftir því. Þeir hafa ekki einu sinni samskot á samkomum sínum. Þeim er gleðiefni að geta með óeigingjarnri og dyggri þjónustu sinni gefið Guði svar við ákæranda sínum, Satan djöflinum. Þessi andavera og andstæðingur Guðs hefur í reynd sagt að menn þjóni ekki Guði nema af eigingjörnu tilefni. Í visku sinni hefur Jehóva gefið óumdeilanlegt svar við ögrunum Satans — milljónir drottinhollra kristinna votta sem prédika fagnaðarerindið hús úr húsi, á götum út og óformlega. — Jobsbók 1:8-11; 2:3-5; Orðskviðirnir 27:11.
14. Hver er hin „leynda speki“ sem Páll minnist á?
14 Annað merki um visku Guðs í því að láta prédika fagnaðarerindið er það, að fyrirheitið um Guðsríki er sjálft merki um visku hans. Páll postuli skrifaði: „Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða, heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar.“ Þessi „leynda speki“ á við visku Guðs í því hvernig hann bindur enda á uppreisnina sem hófst í Eden. Viska þessa heilaga leyndardóms opinberaðist í Jesú Kristi sem er aðalpersóna fagnaðarerindisins um Guðsríki.a — 1. Korintubréf 2:6, 7; Kólossubréfið 1:26-28.
Fagnaðarerindið og réttvísi Guðs
15. Hvernig vitum við að Jehóva er Guð réttvísi? (5. Mósebók 32:4; Sálmur 33:5)
15 Við sjáum mikilvægi orðsins „fyrst“ í Markúsi 13:10 sérstaklega í sambandi við réttvísi. Jehóva er Guð réttvísi sem er tempruð ástríkri góðvild. Hann segir fyrir milligöngu spámannsins Jeremía: „Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, [Jehóva], sem auðsýni miskunnsemi [„ástríka góðvild,“ NW], rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun — segir [Jehóva].“ — Jeremía 9:24.
16. Hvernig má lýsa því með dæmi að réttvísi útheimti að fyrst sé varað við?
16 Hvernig birtist réttvísi Jehóva í sambandi við prédikun fagnaðarerindisins? Við skulum lýsa því með dæmi. Setjum sem svo að móðir hafi bakað ljúffenga súkkulaðitertu sem á að borða þegar gestir koma síðar um daginn. Hvernig ætli börnunum sé eiginlegt að bregðast við ef hún skilur tertuna eftir á eldhúsborðinu án þess að segja orð við þau um það hvenær hún verði borðuð? Öll vorum við einu sinni börn! Fyrr eða síðar á lítill fingur eftir að pota í tertuna til að smakka! Hafi móðirin ekki sagt börnunum að það mætti ekki snerta tertuna á hún erfitt með að aga barnið fyrir að gera það. Ef hún segir hins vegar skýrt að tertan verði borðuð síðar þegar gestirnir komi og að þess vegna megi ekki snerta hana, þá hefur hún greinilega varað börnin við. Ef henni er ekki hlýtt hefur hún rétt á að beita aga. — Orðskviðirnir 29:15.
17. Hvernig hefur Jehóva sýnt réttvísi á sérstakan hátt frá 1919?
17 Jehóva ætlar í réttvísi sinni ekki að fullnægja dómi á þessu illa heimskerfi án þess að vara vel við því fyrst. Þess vegna hefur Jehóva, sérstaklega frá árinu 1919 eftir hinar miklu þjáningarhríðir fyrri heimsstyrjaldarinnar, látið votta sína fara út um jörðina til að boða fagnaðarerindið kappsamlega. (Matteus 24:7, 8, 14) Þjóðirnar geta ekki með réttu borið því við að þær hafi ekki vitað af þessari einstæðu viðvörun.
Hve víða hefur prédikunin náð?
18. (a) Hvaða merki sjást um starf vottanna á afskekktum slóðum? (b) Hvaða önnur dæmi veist þú um?
18 Bókin Last Places — A Journey in the North gefur vísbendingu um hve áhrifaríkt þetta vitnisburðarstarf um heim allan hefur verið. Höfundur hennar segir svo frá að þegar hann skoðaði sjókort af hinni einangruðu ey Foula, sem er í Hjaltlandseyjaklasanum norður af Skotlandi, hafi kortin gefið til kynna að „allt umhverfis eyna væru flök, sker, grynningar og hindranir.“ Með því voru „væntanlegir sjófarendur varaðir við að leggja leið sína þangað. Það var eins og sjórinn umhverfis Foula væri þakinn jarðsprengjum sem gerðu eyna einkar óaðlaðandi fyrir sportsiglingamenn, ferðamenn og jafnvel opinbera starfsmenn hennar hátignar, en ekki þó votta Jehóva eins og ég komst að fáeinum dögum síðar.“ Hann heldur áfram: „Á sama hátt og þeir fínkemba fátækrahverfi stórborganna og þriðja heiminn í leit að trúskiptingum, hafa þeir líka reynt að snúa fólki til trúar sinnar á hinni afskekktu ey Foula.“ Hann nefnir að Varðturninn hafi verið skilinn eftir við dyrnar hjá Andrew, eins af eyjarskeggjum, nokkrum mánuðum áður. Síðan bætti hann við: „Viku seinna sá ég eintak af [Vaknið! á dönsku] í Færeyjum og tveim mánuðum síðar eintak af [Varðturninum á dönsku] í Nuuk á Grænlandi.“ Þetta er talandi vitnisburður um ötult starf votta Jehóva á þessum norðlægu breiddargráðum!
Hvað heldur vottunum gangandi?
19, 20. (a) Hvað knýr votta Jehóva til að halda áfram að prédika? (b) Hvaða spurningum verður svarað næst?
19 Það er að sjálfsögðu ekkert auðvelt að prédika fyrir ókunnugum hús úr húsi, og gildir þá einu hve mörg ár maður hefur verið vottur. Hvað heldur þessum kristnu mönnum þá gangandi? Kristin vígsla þeirra og ábyrgðartilfinning. Páll skrifaði: „Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ Sannkristnir menn hafa boðskap að bera sem hefur líf í för með sér, þannig að það er óhugsandi fyrir þá að sitja einir að honum. Sú meginregla að menn baki sér blóðskuld ef þeir vara fólk ekki við á hættutímum er sterk hvatning til að prédika fagnaðarerindið. — 1. Korintubréf 9:16; Esekíel 3:17-21.
20 En hvernig er fagnaðarerindið þá prédikað? Hver er lykillinn að velgengni vottanna? Hvaða þættir í starfi þeirra og skipulagi hjálpa fólki að bera kennsl á trú þeirra sem hina sönnu? Greinin á eftir svarar því.
[Neðanmáls]
a Nánari skýringar á visku Guðs og hinum ‚heilaga leyndardómi‘ er að finna í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 1190, útgefið af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manst þú?
◻ Hvað greinir milli votta Jehóva og klerkanna?
◻ Hvernig endurspeglar prédikunin kærleika Guðs, mátt og visku?
◻ Hvernig endurspeglar prédikun fagnaðarerindisins réttvísi Guðs?
◻ Hvað heldur vottum Jehóva gangandi í þjónustu þeirra?
[Myndir á blaðsíðu 24]
Vottar Jehóva vilja ná til fólks og gildir þá einu hve afskekkt það býr.