Ástundaðu frið Guðs í fjölskyldulífinu
„Tjáið [Jehóva] lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið [Jehóva] vegsemd og vald.“ — SÁLMUR 96:7.
1. Hvers konar byrjun gaf Jehóva fjölskyldunni?
JEHÓVA veitti fjölskyldunni friðsæla og hamingjuríka byrjun þegar hann leiddi fyrsta manninn og fyrstu konuna saman í hjónaband. Svo sæll var Adam að hann tjáði gleði sína í fyrsta ljóðinu sem skráð er: „Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin.“ — 1. Mósebók 2:22, 23.
2. Hvað fleira en hamingju mennskra barna sinna hafði Guð í huga í sambandi við hjónaband?
2 Þegar Guð stofnaði hjónabandið og fjölskyldufyrirkomulagið hafði hann fleira í huga en hamingju mennskra barna sinna. Hann vildi líka að þau gerðu vilja hans. Hann sagði fyrstu mannhjónunum: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:28) Þetta var sannarlega gefandi verkefni. Adam, Eva og börn þeirra, sem síðar fæddust, hefðu verið virkilega hamingjusöm ef hjónin hefðu hlýtt vilja Jehóva!
3. Hvað þurfa fjölskyldur að gera til að lifa í guðrækni?
3 Enn þann dag í dag eru fjölskyldur þó hamingjusamastar þegar þær vinna saman að því að gera vilja Guðs. Og framtíðarhorfur hlýðinna fjölskyldna eru stórkostlegar! Páll postuli skrifaði: „Guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Fjölskyldur, sem lifa í sannri guðrækni, fylgja meginreglum orðs Jehóva og gera vilja hans. Þær ástunda frið Guðs og eru því hamingjusamar í ‚þessu lífi.‘
Fjölskyldan er í hættu
4, 5. Af hverju má segja að fjölskyldan sé í hættu um heim allan?
4 Það ríkir auðvitað ekki friður og hamingja í sérhverri fjölskyldu. Dagblaðið The New York Times vitnaði í rannsókn lýðfræðistofnunar sem kallast Population Council og sagði: „Fjölskyldulíf er að taka gífurlegum breytingum jafnt í auðugum ríkjum sem fátækum.“ Haft er eftir einum höfundi rannsóknarskýrslunnar: „Það er hrein ímyndun að fjölskyldan sé traust og samheldin eining þar sem faðirinn er fyrirvinna og móðirin fullnægir tilfinningaþörfunum. Veruleikinn er sá að ógiftum mæðrum, hjónaskilnuðum [og] fámennum heimilum . . . fer fjölgandi um heim allan.“ Þessi þróun veldur því að milljónir fjölskyldna skortir stöðugleika, frið og hamingju, og margar eru að leysast upp. Í byrjun þessa áratugar endaði áttunda hvert hjónaband á Spáni með skilnaði — og það er stórt stökk frá einu hjónabandi af hverjum hundrað sem endaði með skilnaði 25 árum áður. Á Englandi mun vera einhver hæsta skilnaðatíðni í Evrópu — þar má búast við að fern hjón af hverjum tíu skilji. Þar í landi hefur einstæðum foreldrum einnig fjölgað gríðarlega.
5 Sums staðar virðist fólk bíða óþreyjufullt eftir því að fá skilnað. Menn streyma hópum saman til „Skilnaðarmusterisins“ í Tókíó í Japan. Þetta sjintómusteri tekur við beiðnum um hjónaskilnaði og slit annarra sambanda sem menn vilja losna úr. Hver dýrkandi skrifar beiðni sína á þunna fjöl, hengir hana upp á musterissvæðinu og biður síðan fyrir svari. Dagblað í Tókíó segir að þegar musterið var reist fyrir um einni öld hafi „eiginkonur ríkra kaupmanna skrifað þar bænir um að eiginmenn þeirra yfirgæfu ástkonur sínar og kæmu aftur til sín.“ En núna eru flestar bænirnar um skilnaði en ekki sættir. Enginn vafi leikur á að fjölskyldan er í hættu um heim allan. Ætti það að koma kristnum mönnum á óvart? Nei, því að Biblían skýrir hvers vegna það kreppir svona að fjölskyldunni nú á dögum.
Hvers vegna kreppir að fjölskyldunni?
6. Hvernig tengist 1. Jóhannesarbréf 5:19 þeirri kreppu sem fjölskyldan er í?
6 Ein ástæðan fyrir því að það kreppir að fjölskyldunni er sú að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hverju megum við búast við af hinum vonda, Satan djöflinum? Hann er illur og siðlaus lygari. (Jóhannes 8:44) Það er engin furða að heimur hans skuli vera á bólakafi í svikum og siðleysi sem er hvort tveggja stórskaðlegt fjölskyldulífi! Utan skipulags Guðs liggur við að áhrif Satans séu að eyðileggja hjónabandsfyrirkomulagið og binda enda á friðsælt fjölskyldulíf.
7. Hvernig geta fjölskyldur orðið fyrir áhrifum af því sem einkennir marga núna á síðustu dögum?
7 Önnur ástæða fyrir vandamálum fjölskyldunnar, sem þjaka mannkynið núna, kemur fram í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5. Spádómur Páls, sem þar er skráður, sýnir að við lifum á „síðustu dögum.“ Fjölskyldur geta ekki notið friðar og hamingju þar sem menn eru „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð [eða] hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ Þótt ekki sé nema einn í fjölskyldunni ótrúr eða kærleikslaus kemur það í veg fyrir að hún sé fyllilega hamingjusöm. Hve friðsælt getur fjölskyldulífið verið ef einhver á heimilinu er grimmur og ósáttfús? Og það sem verra er, hvernig getur ríkt friður og hamingja í fjölskyldu þar sem menn elska munaðarlífið meira en Guð? Þetta eru einkenni manna í þessum heimi sem er undir stjórn Satans. Það er engin furða að mönnum skuli ganga erfiðlega að höndla hamingju innan fjölskyldunnar núna á síðustu dögum!
8, 9. Hvaða áhrif getur hegðun barna haft á hamingju fjölskyldunnar?
8 Slæm hegðun barna er önnur ástæða fyrir því að margar fjölskyldur njóta ekki friðar og hamingju. Þegar Páll sagði fyrir hvaða ástand myndi ríkja á síðustu dögum benti hann á að óhlýðni við foreldra yrði algeng. Ef þú ert barn eða unglingur, stuðlar þá hegðun þín að friði og hamingju í fjölskyldunni?
9 Hegðun sumra barna er ekki til fyrirmyndar. Til dæmis skrifaði ungur piltur föður sínum þetta ótuktarlega bréf: „Ef þú ferð ekki með mig til Alexandríu ætla ég ekki að skrifa þér, tala við þig eða kveðja þig, og ef þú ferð til Alexandríu ætla ég aldrei aftur að halda í höndina á þér eða heilsa þér. Þannig verður það ef þú tekur mig ekki með . . . en sendu mér [hörpu], gerðu það. Ef þú gerir það ekki ætla ég hvorki að borða né drekka. Og hananú!“ Lætur þetta nútímalega í eyrum? Þetta bréf drengs til föður síns var reyndar skrifað í Forn-Egyptalandi fyrir liðlega 2000 árum.
10. Hvernig geta börn og unglingar hjálpað fjölskyldunni að ástunda frið Guðs?
10 Þessi egypski piltur hefur ekki stuðlað að friði fjölskyldunnar með viðhorfum sínum. Núna á síðustu dögum eru auðvitað að gerast langtum alvarlegri atburðir en þetta innan fjölskyldunnar. Engu að síður getið þið börn og unglingar okkar á meðal hjálpað fjölskyldunni að ástunda frið Guðs. Hvernig? Með því að fylgja þessu ráði Biblíunnar: „Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.“ — Kólossubréfið 3:20.
11. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að verða trúfastir þjónar Jehóva?
11 Hvað um ykkur foreldrana? Hjálpið börnum ykkar ástúðlega að verða trúfastir þjónar Jehóva. „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda,“ segja Orðskviðirnir 22:6, „og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ Góð biblíukennsla og gott fordæmi foreldranna hefur í för með sér að margir drengir og stúlkur víkja ekki af réttum vegi þegar þau eldast. En mikið ræðst af því hve góð og hve mikil biblíukennslan er og einnig af hjartalagi barnsins.
12. Af hverju ætti kristið heimili að vera friðsamt?
12 Ef allir í fjölskyldunni eru að reyna að gera vilja Jehóva ættum við að njóta friðar hans. Kristið heimili ætti að vera fullt af ‚friðar sonum.‘ Lúkas 10:1-6 sýnir að Jesús hafði slíkt fólk í huga þegar hann sendi lærisveinana 70 út sem boðbera og sagði þeim: „Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ‚Friður sé með þessu húsi.‘ Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum.“ Þegar þjónar Jehóva fara friðsamlega hús úr húsi með „fagnaðarboðin um frið“ eru þeir að leita ‚friðar sona.‘ (Postulasagan 10:34-36; Efesusbréfið 2:13-18) Vissulega ætti kristið heimili friðar sona að vera friðsamt.
13, 14. (a) Hvers óskaði Naomí þeim Rut og Orpu? (b) Hvers konar bústaður ætti kristið heimili að vera?
13 Heimilið ætti að veita mönnum frið og hvíld. Aldraða ekkjan Naomí vonaðist til að Guð veitti ungum tengdadætrum hennar, ekkjunum Rut og Orpu, þá hvíld og huggun sem fylgdi því að eignast góða eiginmenn og heimili. Naomí sagði: „[Jehóva] gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns.“ (Rutarbók 1:9) Fræðimaður nokkur sagði um ósk Naomí að á slíku heimili myndu Rut og Orpa „öðlast frið frá óróa og áhyggjum. Þær myndu öðlast hvíld. Það væri staður þar sem þær gætu verið um kyrrt, staður þar sem innilegustu tilfinningum þeirra og heiðvirðustu hvötum væri fullnægt og þær fyndu ró. Hinn sérstaki kraftur hebreska orðsins . . . birtist vel í eðli skyldra orða í [Jesaja 32:17, 18].“
14 Tökum eftir þessari tilvísun í Jesaja 32:17, 18. Þar lesum við: „Ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum.“ Kristið heimili ætti að vera bústaður réttlætis, rósemi, öryggis og guðrækilegs friðar. En hvað nú ef prófraunir, ágreiningur eða önnur vandamál skjóta upp kollinum? Þá er sérstaklega mikilvægt að þekkja lykilinn að hamingjusömu fjölskyldulífi.
Fjórar mikilvægar meginreglur
15. Hvernig skilgreinir þú lykilinn að hamingjusömu fjölskyldulífi?
15 Sérhver fjölskylda á jörðinni á nafn sitt að þakka Jehóva Guði, skapara fjölskyldunnar. (Efesusbréfið 3:14, 15) Þeir sem þrá hamingjusamt fjölskyldulíf ættu því að leita leiðsagnar hans og lofa hann eins og sálmaritarinn: „Tjáið [Jehóva] lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið [Jehóva] vegsemd og vald.“ (Sálmur 96:7) Lykilinn að hamingjusömu fjölskyldulífi er að finna á blöðum Biblíunnar og í því að fara eftir meginreglum hennar. Fjölskylda, sem fer eftir þessum meginreglum, er hamingjusöm og nýtur friðar Guðs. Við skulum því líta á fjórar af þessum mikilvægu meginreglum.
16. Hvaða hlutverki ætti sjálfstjórn að gegna í fjölskyldulífinu?
16 Ein meginreglan byggist á því að sjálfstjórn sé nauðsynleg til að friður Guðs ríki í fjölskyldunni. Salómon konungur sagði: „Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.“ (Orðskviðirnir 25:28) Að hafa stjórn á skapsmunum sínum — sýna sjálfstjórn — er nauðsynlegt til að fjölskyldulífið sé friðsælt og hamingjusamt. Þótt við séum ófullkomin þurfum við að sýna sjálfstjórn sem er ávöxtur heilags anda Guðs. (Rómverjabréfið 7:21, 22; Galatabréfið 5:22, 23) Andinn stuðlar að sjálfstjórn í lífi okkar ef við biðjum um hana, förum eftir ráðleggingum Biblíunnar um hana og umgöngumst aðra sem sýna sjálfstjórn. Þessi stefna hjálpar okkur að ‚flýja saurlifnaðinn.‘ (1. Korintubréf 6:18) Sjálfstjórn hjálpar okkur líka að hafna ofbeldi, forðast eða sigrast á drykkjusýki og taka stillilegar á erfiðum aðstæðum.
17, 18. (a) Hvernig á 1. Korintubréf 11:3 við í kristnu fjölskyldulífi? (b) Hvernig stuðlar það að friði Guðs í fjölskyldunni að viðurkenna yfirráð?
17 Lýsa má annarri mikilvægri meginreglu þannig: Að viðurkenna yfirráð hjálpar okkur að ástunda frið Guðs í fjölskyldunni. Páll skrifaði: „Ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Þetta þýðir að maðurinn tekur forystuna í fjölskyldunni, eiginkonan styður hann dyggilega og börnin eru hlýðin. (Efesusbréfið 5:22-25, 28-33; 6:1-4) Slíkt stuðlar að friði Guðs í fjölskyldunni.
18 Kristinn eiginmaður þarf að hafa hugfast að biblíuleg forysta er ekki einræði. Hann verður að líkja eftir Jesú, höfði sínu. Þótt Jesús ætti að vera „höfuðið yfir öllu“ kom hann „ekki . . . til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna.“ (Efesusbréfið 1:22; Matteus 20:28) Á svipaðan hátt beitir kristinn karlmaður yfirráðum sínum á kærleiksríkan hátt þannig að hann geti sinnt hagsmunum fjölskyldunnar vel. Og kristin eiginkona vill vissulega vinna með manni sínum. Sem ‚meðhjálp við hans hæfi‘ hefur hún til að bera eiginleika sem mann hennar skortir og veitir honum þannig nauðsynlegan stuðning. (1. Mósebók 2:20; Orðskviðirnir 31:10-31) Ef rétt er með forystuna farið hjálpar það eiginmanni og eiginkonu að sýna hvort öðru virðingu og hvetur börnin til að vera hlýðin. Já, það stuðlar að friði Guðs í fjölskyldunni að viðurkenna yfirráð.
19. Af hverju eru góð tjáskipti nauðsynleg friðsömu og hamingjuríku fjölskyldulífi?
19 Þriðju mikilvægu meginreglunni má lýsa þannig: Góð tjáskipti eru nauðsynleg til að varðveita frið og hamingju fjölskyldunnar. Jakobsbréfið 1:19 segir okkur: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ Fólk þarf bæði að hlusta og tala saman því að tjáskipti innan fjölskyldunnar eru gagnkvæm. En jafnvel þegar það sem við segjum er rétt er hætt við að það geri meira illt en gott ef það er sagt grimmilega, drembilega eða tillitslaust. Mál okkar ætti að vera smekklegt, „salti kryddað.“ (Kólossubréfið 4:6) Fjölskyldur, sem fara eftir meginreglum Biblíunnar og eiga góð tjáskipti, eru að keppa eftir friði Guðs.
20. Hvers vegna álítur þú að ást eða kærleikur sé nauðsynlegur til að fjölskyldulífið sé friðsamt?
20 Fjórða meginreglan er þessi: Kærleikur er nauðsynlegur friði og hamingju fjölskyldunnar. Rómantísk ást getur gegnt mikilvægu hlutverki í hjónabandi og fólki getur þótt mjög vænt hvert um annað innan fjölskyldunnar. En ástin eða kærleikurinn, sem gríska orðið agaʹpe lýsir, er enn þýðingarmeiri. Þetta er sá kærleikur sem við þroskum með okkur til Jehóva, til Jesú og til náungans. (Matteus 22:37-39) Jehóva sýndi mannkyninu þennan kærleika með því að ‚gefa son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.‘ (Jóhannes 3:16) Það er stórkostlegt að við skulum geta sýnt sams konar kærleika til ættingja okkar! Þessi háleiti kærleikur er „band algjörleikans.“ (Kólossubréfið 3:14) Hann bindur hjón saman og kemur þeim til að gera það sem er best hvort fyrir annað og fyrir börnin. Þegar erfiðleikar verða á veginum hjálpar kærleikurinn þeim að taka á þeim sameiginlega. Við megum vera viss um það af því að „kærleikurinn . . . leitar ekki síns eigin . . . Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ eða bregst aldrei. (1. Korintubréf 13:4-8) Sú fjölskylda er sannarlega hamingjusöm þar sem innbyrðis kærleikur ríkir og eflist með kærleika til Jehóva!
Haltu áfram að ástunda frið Guðs
21. Hvað er líklegt til að auka frið og hamingju fjölskyldu þinnar?
21 Meginreglurnar hér að ofan og aðrar fleiri úr Biblíunni eru dregnar fram í ritum sem Jehóva hefur af örlæti sínu látið okkur í té fyrir atbeina ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45) Til dæmis er slíkt efni að finna í 192 blaðsíðna bók sem nefnist Lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi sem gefin var út á umdæmismótum votta Jehóva, „Friðarboðberar Guðs,“ um heim allan árið 1996-7. Einkabiblíunám og fjölskyldubiblíunám með hjálp slíkrar bókar getur reynst mjög gagnlegt. (Jesaja 48:17, 18) Með því að fara eftir ráðleggingum Ritningarinnar er líklegt að þú stuðlir að auknum friði og hamingju fjölskyldu þinnar.
22. Hvað ætti að vera þungamiðja fjölskyldulífsins?
22 Jehóva hefur fyrirbúið fjölskyldum, sem gera vilja hans, stórkostlega blessun og hann verðskuldar heilshugar þjónustu okkar og lof. (Opinberunarbókin 21:1-4) Megi fjölskylda þín því gera tilbeiðsluna á hinum sanna Guði að þungamiðju lífsins. Og megi ástríkur faðir okkar á himnum, Jehóva Guð, blessa þig og veita þér hamingju er þú ástundar frið hans í fjölskyldulífinu!
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað er nauðsynlegt til að fjölskyldur lifi í guðrækni?
◻ Af hverju kreppir að fjölskyldunni nú á dögum?
◻ Hver er lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi?
◻ Nefndu nokkrar meginreglur sem stuðla að friði og hamingju í fjölskyldunni.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Góð tjáskipti hjálpa okkur að ástunda frið Guðs í fjölskyldulífinu.