Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.11. bls. 7-12
  • ‚Verið þakklátir‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • ‚Verið þakklátir‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ríkuleg ástæða til þakklætis
  • Hvernig sýna skal þakklæti
  • Örlæti hjartans
  • Nútímahliðstæður
  • Leiðir til að sýna þakklæti
  • Fagurt fordæmi fátæku ekkjunnar
  • Áminningar um að sýna þakklæti eru til góðs
  • Verum þakklát
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • Fleiri ástæður til að vera þakklátur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Hvers vegna að vera þakklátur?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Sýnið þakklæti ykkar
    Ríkisþjónusta okkar – 2004
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.11. bls. 7-12

‚Verið þakklátir‘

„Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar . . . Verðið þakklátir.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:15.

1. Gegn hverju verða kristnir menn að vera á verði í þessum vanþakkláta heimi?

NÚ ER svo komið málum á þessari erfiðu 20. öld að margir hafa gleymt hvernig það er að vera þakklátur. Orð, sem tjá viðurkenningu, svo sem „villtu gera svo vel“ og „þakka þér fyrir,“ heyrast æ sjaldnar með hverju árinu sem líður. Vanþakklæti er orðið hluti af ‚loftinu,‘ hinum eigingjarna anda sem ríkir yfir fólki þessa heims. (Efesusbréfið 2:1, 2) Þótt kristnir menn séu „ekki af heiminum“ verða þeir að lifa í honum svo lengi sem núverandi heimskerfi endist. (Jóhannes 17:11, 16) Þess vegna verða þeir að gæta þess að smitast ekki af þessum vanþakkláta anda með þeim afleiðingum að þakklæti þeirra færi þverrandi.

2. (a) Nefnið nokkrar aðferðir sem þjónar Jehóva geta beitt til að sýna honum þakklæti sitt. (b) Hvers er krafist auk þakklætis í orðum?

2 Við getum oft látið í ljósi í samtölum við trúbræður okkar að við kunnum að meta gæsku Guðs. Flestir vígðir kristnir menn þakka líklega himneska föður sínum, Jehóva, fyrir gæsku hans nokkrum sinnum á dag, og gera það í einkabæn. Við tjáum líka þakklæti okkar í sameiginlegum bænum safnaðarins og þegar ríkissöngvarnir eru sungnir á kristnum samkomum. Að sjálfsögðu er tiltölulega auðvelt að sýna þakklæti í orðum. Páll postuli hvatti samt trúbræður sína í Kólossu til að láta ekki sitja við það að segja aðeins að þeir væru þakklátir heldur jafnframt að sýna eða sanna þakklæti sitt í daglega lífinu. Hann skrifaði: „Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir.“ — Kólossubréfið 3:15.

Ríkuleg ástæða til þakklætis

3. Hvers vegna ættum við öll að vera Guði þakklát?

3 Allir lifandi menn hafa ríkulega ástæðu til að vera þakklátir. Helsta ástæðan er fögnuðurinn yfir lífinu sjálfu, því að allt sem við höfum eða hyggjumst gera verður skyndilega einskis vert ef við týnum lífinu. Sálmaritarinn Davíð hvatti alla lifandi menn til að muna að „hjá þér [Jehóva Guði] er uppspretta lífsins.“ (Sámur 36:10) Og Páll postuli minnti Aþenubúa á þennan sama ævarandi sannleika þegar hann talaði til þeirra á Aresarhæðinni. (Postulasagan 17:28) Já, aðeins það að vera á lífi er næg ástæða til þakklætis. Og þakklæti okkar vex þegar við hugsum til þeirra hæfileika sem Guð hefur gefið okkur — bragðskyn, snertiskyn, lyktarskyn, sjón og heyrn — svo að við getum notið lífsins og fegurðar sköpunarverksins í kringum okkur.

4. Hvað mun verja okkur gegn því að taka dásemdir lífsins sem sjálfsagðan hlut?

4 Þó taka margir þessum gæðum sem sjálfsögðum hlut. Oft er það ekki fyrr en menn missa eitthvert af skilningarvitunum, svo sem sjón eða heyrn, að þeir átta sig á hvílík sú blessun var sem þeir kunnu ekki að meta þegar þeir bjuggu við góða heilsu. Vígðir kristnir menn þurfa stöðugt að gæta þess að falla ekki í það far að sýna sams konar vanþakklæti. Þeir verða að leggja sig hart fram til að viðhalda sömu þakklætiskenndinni og sálmaritarinn sýndi sem sagði: „Mörg hefir þú, [Jehóva], Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.“ — Sálmur 40:6.

5. Hvaða skammarlega stefnu tóku Ísraelsmenn þrátt fyrir það að þeir nutu sérstakrar blessunar Jehóva?

5 Sálmur 106 dregur saman á skáldlegan hátt þau stórvirki sem Jehóva vann í þágu lýðs síns, Ísraelsþjóðarinnar. Verk Guðs í hennar þágu komu til viðbótar þeim kærleika og venjulegum blessunum lífsins sem hann veitir mannkyninu í heild. En sálmaritarinn bendir á að þrátt fyrir þessa yfirburði hafi Ísraelsmenn ekki haldið áfram að sýna að þeir kynnu að meta þessar einstæðu blessanir. Í versi 13 segir: „En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.“ Nei, það dró ekki smám saman úr þakklæti þeirra vegna þess að tíminn leið þannig að áratugum síðar væru þeir búnir að gleyma því sem Guð hafði gert fyrir þá. Í stað þess gleymdu þeir fljótt — fáeinum vikum eftir að Jehóva hafði þeirra vegna framið hin stórkostlegu kraftaverk við Rauðahafið. (2. Mósebók 16:1-3) Því miður sýndi það sem á eftir kom að vanþakklætið varð að reglu í lífi þeirra.

Hvernig sýna skal þakklæti

6. Hvers vegna var tíundaskyldan ekkert harðrétti?

6 Jehóva rakti í smáatriðum þrjár leiðir sem Ísraelsmenn gætu notað til að sýna ósvikið þakklæti fyrir gæsku hans. Ein var sú að sinna tíundarskyldunni með því að gefa Jehóva tíunda hluta af öllum afurðum og búpeningi. (3. Mósebók 27:30-32) Þetta þrengdi ekkert að þeim því að Guð var ábyrgur fyrir sólinni, gróðursæld moldar, regninu og því undri sem sprettan er. Með því að gefa tíunda hlutann til prestanna í helgidómi Jehóva voru Ísraelsmenn þess vegna á hagnýtan hátt að tjá Jehóva sjálfum þakklætið sitt.

7. (a) Hver var stærsti munurinn á tíund og framlögum til Jehóva? (b) Hvað bauð þetta Ísraelsmönnum upp á að opinbera um sjálfa sig?

7 Önnur krafa voru framlög til Guðs þar sem stærð framlagsins réðst af því viðhorfi sem bjó í hjarta þess Ísraelsmanns sem framlagið gaf. Þótt ekkert sérstakt magn væri tilnefnt átti framlagið að vera af frumgróðanum — hinu fyrsta af korninu, víninu og ullinni af hjörðinni. (4. Mósebók 15:17-21; 5. Mósebók 18:4) Auk þess setti Jehóva það skilyrði að þjóð hans ætti að gefa hiklaust og ‚ekki láta það undan dragast‘ og ætti að gefa „hið fyrsta, frumgróða jarðar.“ (2. Mósebók 22:29; 23:19) Þetta veitti Ísraelsmönnum tækifæri til að sýna Jehóva þakklæti sitt á áþreifanlegan hátt. Með stærð framlagsins gátu þeir gefið til kynna hversu djúpt þakklæti þeirra risti. Gæfu þeir aðeins einn vínberjaklasa? Eða myndi örlátt hjarta þeirra koma þeim til að gefa fulla körfu af vínberjum? Þannig gat hver einstaklingur eða fjölskylda sýnt þakklæti sitt þvingunarlaust.

8. (a) Hvaða tvo kosti hafði það fyrirkomulag að fátækir mættu tína eftirtíning? (b) Hvernig gátu allir þeir sem tengdust því fyrirkomulagi sýnt örlæti sitt og þakklæti?

8 Þriðja sérstaka leiðin til að sýna þakklæti tengdist ákvæðum Guðs um kornskurð. Um uppskerutímann átti að skilja eftir hluta kornsins óskorinn handa hinum þurfandi. Þetta kenndi mönnum ekki aðeins að hafa samúð með hinum fátæku og taka tillit til þeirra heldur tryggði það líka að hinir fátæku lifðu ekki á mannskemmandi ölmusu sem kallaði ekki á neina viðleitni af þeirra hálfu. (3. Mósebók 19:9, 10) Ekki var nákvæmlega tilgreint hversu mikið bæri að skilja eftir handa hinum þurfandi. En sýndu ísraelskir bændur örlæti sitt með því að láta nóg óskorið á jöðrum akra sinna og sýna þannig hinum fátæku velvild voru þeir með því að vegsama Guð. (Orðskviðirnir 14:31) Það var þeirra að ákveða hvort þeir skildu eftir mjóa eða breiða spildu óskorna. En Guð beindi þeim sterklega í átt til gjafmildi með því að fyrirskipa að sérhvert kornbundini, sem þeim yfirsást á akrinum, og sérhver ávöxtur, sem skilinn væri eftir á tré eða vínviði, væri eign hinna þurfandi. (5. Mósebók 24:19-22) Í staðinn áttu hinir þurfandi, sem tíndu eftirtíning, að sýna Jehóva þakklæti sitt fyrir þessa ráðstöfun hans með því að gefa tíunda hluta af eftirtíningnum til tilbeiðslustaðar hans.

Örlæti hjartans

9. Hvers vegna voru þeir sem sýndu eigingjarnt viðhorf í raun að skaða sjálfa sig?

9 Ef framlög Ísraelsmanna voru ríkuleg hvíldi blessun Jehóva yfir heimili þeirra. (Samanber Esekíel 44:30; Malakí 3:10.) En þeir létu samt oft undir höfuð leggjast að koma með framlög sín þrátt fyrir ríkulega uppskeru. Þá notaði Guð konunga eða spámenn til að minna þá á þetta og endurvekja þakklæti þeirra. Raunverulega voru það eigingjörnu Ísraelsmennirnir sem urðu fyrir tjóni því að Jehóva gat ekki blessað þá sem drógu undan framlög sem voru tengd tilbeiðslu á honum eða ætluð hinum fátæku.

10. (a) Hvaða góðum árangri skilaði áminning Hiskía konungs um þakklæti? (b) Var þessi árangur varanlegur?

10 Í eitt sinn varð árangurinn af áminningu Hiskía konungs sá að haldin var 14 daga gleðihátíð í Jerúsalem. Þjóðin var endurlífguð andlega. Fyrst eyddu Ísraelsmenn öllu er tengdist skurðgoðadýrkun og gáfu síðan ríkulega og „lögðu bing við bing. . . . Kom þá Hiskía og höfuðsmennirnir, litu á bingina og lofuðu [Jehóva] og lýð hans Ísrael.“ (2. Kroníkubók 30:1, 21-23; 31:1, 6-8) Það er þó dapurlegt að eftir svona tímabundna andlega endurlífgun féll þjóðin brátt aftur í vanþakklætisdróma. Að lokum missti Guð þolinmæðina og leyfði að þjóð hans væri herleidd til Babýlonar. Borg hennar og hinu fagra musteri var gjöreytt. (2. Kroníkubók 36:17-21) Síðar, eftir endurreisnina, var ástandið aftur svo alvarlegt að Jehóva líkti nísku Gyðinganna við það að stela frá honum, ræna hann! — Malakí 3:8.

11. Hvaða meginreglur, sem við lærum af sögu Ísraelsmanna, geta komið kristnum nútímamönnum að gagni?

11 Hvaða frumreglu má læra af óstöðuglyndi Ísraelsmanna? Þessa: Svo lengi sem þakklæti var sterkt í hjörtum þeirra sýndu þeir það glaðir með því að gefa „bing við bing“ til Jehóva. En þegar þakklætið gleymdist eða var í ládeyðu má heita að efnislegar gjafir, sem gefnar voru af gleði, hafi lagst niður. Gætu vígðir kristnir menn nú á tímum sýnt svo slæmt viðhorf? Já, vegna þess að mannlegur ófullkomleiki fylgir okkur enn. Við getum glaðst yfir því að Guð skuli hafa látið skrá samskipti sín við Ísraelsmenn til þess að við, sem lifum endalok þessa heimskerfis, getum lært og haft gagn af því! — Rómverjabréfið 15:4; 1. Korintubréf 10:11.

12. (a) Hvernig er fólk Jehóva nú á tímum í svipaðri stöðu og Ísraelsmennirnir? (b) Hvaða spurninga þurfum við að spyrja?

12 Fólk Jehóva nú á tímum hefur margt til að vera þakklátt fyrir líkt og Ísraelsmenn til forna. Einnig við njótum meiri blessunar en samtímamenn okkar. Meira að segja vitum við miklu meira um áform Jehóva en Ísraelsþjóðin gerði. Við höfum lært hvernig Guð fúslega fórnaði syni sínum og við gerum okkur grein fyrir þeirri blessun sem það hefur í för með sér fyrir þá sem hafa velþóknun Guðs. Og nú á dögum höfum við þau sérréttindi að vera í andlegri paradís því að frá árinu 1919 hefur Jehóva skapað stórfenglega landareign handa þjóð sinni. Já, vottar Jehóva hafa aukna ástæðu til að vera þakklátir. Því þurfum við að spyrja: Hversu djúpt ristir þakklæti okkar í garð Guðs? Og hvernig getum við sýnt að við séum þakklát núna á 20. öldinni?

Nútímahliðstæður

13, 14. Er hægt að draga nokkrar hliðstæður fyrir kristna menn nútímans af lögunum um tíund þótt þeir séu ekki undir Móselögunum?

13 Kristnir menn eru ekki undir Móselögunum sem sögðu til um hvernig sýna ætti Guði þakklæti. (Galatabréfið 3:24, 25) „Lofgjörðarfórn“ okkar til Jehóva er ‚ávöxtur vara, er játa nafn hans.‘ (Hebreabréfið 13:15) Á þennan hátt fyrst og fremst geta því vígðir kristnir menn sýnt þakklæti sitt til Guðs. En áhugaverðar hliðstæður er hægt að draga af lögunum um tíund, framlög og eftirtíning.

14 Það að greiða tíund merkti að gefa nákvæmlega einn tíunda hluta — og um það var ekkert valfrelsi. Á sama hátt eru sérstök fyrirmæli sem allir nútímaþjónar Jehóva verða að fylgja og um þau er heldur ekkert valfrelsi. Við eigum að koma reglulega saman og við verðum að prédika opinberlega fagnaðarerindið um ríki Jehóva og hjálpa öðrum að verða lærisveinar Krists. — Hebreabréfið 10:24, 25; Matteus 24:14; 28:19, 20.

15. Hvaða merki um örlát hjörtu á okkar tímum samsvara þeim sem birtust í fyrirkomulaginu um framlög og eftirtíning í Ísrael til forna?

15 Við skulum líka muna eftir hvaða háttur var hafður á framlögum og eftirtíningi. Ekki voru settar kröfur um vissar upphæðir. Á sama hátt fastbindur Ritningin heldur ekki sérstakan tímafjölda sem sérhver þjón Jehóva á að nota til heilagrar þjónustu. Gjöfulum og óeigingjörnum hjörtum er eftirlátið að ákvarða þann tíma sem varið er til að nema orð Guðs og kenna öðrum. Sömuleiðis er það lagt í hendur hvers og eins að ákveða hversu mikið hann leggur fram efnislega til hagsmunamála Guðsríkis. Dýpt þakklætiskenndarinnar mun ákvarða hvort nútímaþjónn Guðs mun leggja „bing við bing“ eða rétt nóg til að það sé skammlaust. (2. Kroníkubók 31:6) Þó gildir hið sama og á dögum Ísraelsmanna að því betur sem við sýnum þakklæti okkar þeim mun ríkulegri blessun fáum við frá Guði.

Leiðir til að sýna þakklæti

16-18. Á hvaða sérstaka vegu geta vígðir kristnir menn sýnt þakklæti sitt?

16 Sú leið, sem liggur beinust við er við viljum sýna þakklæti okkar til Jehóva, er að takast á hendur þjónustu í fullu starfi. Er þakklæti þitt svo mikið að þig langi til þess í hjarta þér? Á það hefur verið réttilega bent að farsæll brautryðjandi þurfi fyrst að hafa löngunina til að þjóna og því næst réttu kringumstæðurnar. Þegar þakklætið ristir djúpt sprettur fram knýjandi löngun í hjartanu til að þjóna Guði í enn ríkari mæli. Líður þér þannig? Jafnvel þótt núverandi kringumstæður þínar útiloki þjónustu í fullu starfi þarf það ekki að kæfa brautryðjandaandann. Þú getur stutt og uppörvað brautryðjendurna af heilum huga.

17 Getir þú ekki orðið brautryðjandi núna, gætir þú þá verið aðstoðarbrautryðjandi af og til? Á sérstökum tímabilum á ári hverju hvetur kristni söfnuðurinn til meira átaks í prédikunarstarfinu en venjulega. Sumarmánuðirnir eru til dæmis kjörnir fyrir marga og í október er aukið starf unnið í sambandi við áskriftarherferð að blöðunum. Að því er snertir aukinn tíma til hinnar heilögu þjónustu er sú meginregla í fullu gildi að þakklæti færir af sér örlátar gjafir.

18 Önnur sérstök aðferð til að sýna þakklæti er að styðja guðræðislegar byggingarframkvæmdir sem fara fram um víða veröld. Í mörgum löndum eru byggðir nýjir Ríkissalir og vegna aukinnar samkomusóknar eru Ríkissalir, sem fyrir er, stækkaðir. Nýjar mótshallir eru byggðar og Betelheimili og prentsmiðjur stækkaðar. Þar getum við sýnt Jehóva þakklæti okkar á mjög hagnýtan hátt — með þeirri vinnu og fjármunum sem við leggjum fram til þessara byggingarframkvæmda!

Fagurt fordæmi fátæku ekkjunnar

19. Hvað hrífur þig mest varðandi fátæku ekkjuna í musterinu?

19 Lýsingin, sem Jesús gaf á ekkjunni, er vel þekkt biblíulegt dæmi um það hvernig hægt er að sýna þakklæti með því að gefa örlátlega af efnum sínum. Hún hlýtur að hafa gert sér grein fyrir að smápeningarnir hennar tveir breyttu litlu um efnislega afkomu musterisins og þeirra sem þar þjónuðu. En hún leit ekki til musterisins og prestanna sem þjónuðu þar og hugsaði með sjálfri sér: ‚Þeir komast miklu betur af en ég geri og eiga betri húsakynni en fátæklega heimilið mitt.‘ Musterið var að vísu margfalt glæsilegra og fagurra. Það var ‚prýtt fögrum steinum og heitgjöfum.‘ (Lúkas 21:5) En það aftraði ekki ekkjunni frá að leggja sitt af mörkum. Hún vildi sýna Jehóva þakklæti sitt en ekki mönnunum sem þjónuðu við musterið.

20. Hvernig getum við sýnt sama aðdáunarverða hugarfarið og fátæka ekkjan?

20 Nútímaþjónar Jehóva draga lærdóm af þessu fordæmi. Þeir vita, líkt og fátæka ekkjan, að framlög þeirra, stór eða smá, eru færð Guði. Og það veitir þeim trúnaðartraust að vita að skipulag Jehóva á jörðinni er þannig uppbyggt að enginn einstaklingur getur nokkru sinni hagnast fjárhagslega á því. Starfsaðstaða og búnaður Félagsins er uppbyggð og rekin með það fyrir augum að gera dugmiklum verkamönnum fært að ná sem mestum afköstum og gæðum í framleiðslu á Biblíunni og hjálpargögnum til biblíunáms og í að þjóna hagsmunum Guðsríkis. Þetta er í hrópandi andstöðu við hneykslanlega misnotkun á gjafafé sem nýlega hefur komið í ljós í sambandi við suma sjónvarpsprédikara.

Áminningar um að sýna þakklæti eru til góðs

21, 22. Hvaða áhrif ættu vingjarnlegar áminningar um að sýna þakklæti að vekja í hjörtum okkar?

21 Ísraelsmenn þurftu stöðugt á áminningum að halda til að muna eftir skyldum sínum við Jehóva, sérstaklega varðandi það að vera með þakklátum huga. Þegar athygli þeirra var beint að þessu var þakklætið venjulega endurvakið í hjörtum þeirra, og þakklæti þeirra braust út í fleiru en aðeins orðum einum. Þeir voru fúsir til að leggja „bing við bing“ af afurðum og gjöfum handa Jehóva til að nota í tilbeiðsluhúsi hans.

22 Megi þess vegna nútíma „Ísrael Guðs“ og ‚hinn mikli múgur‘ félaga þeirra alltaf bera sama hug. (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbóin 7:9) Megi þakklát hjörtu þeirra hræra þá til að leggja „bing við bing“ af lofgjörð til Jehóva. Þá geta þeir með sanni sagt: „Við sýnum að við erum þakklátir hinum örláta og kærleiksríka Guði okkar, Jehóva.“

Manst þú?

◻ Hvers vegna þurfa kristnir menn að gefa stöðugan gaum að því hversu mikið þakklæti þeirra er?

◻ Hvers vegna hefur fólk Jehóva alltaf haft meiri ástæðu til þakklætis en aðrir?

◻ Með hvaða hætti sérstaklega gátu Ísraelsmenn sýnt Jehóva þakklæti sitt?

◻ Hvað sérstakt getum við gert, líkt og Ísraelsmenn, til að sýna þakklæti okkar?

◻ Hvað getum við lært af fátæku ekkjunni í musterinu?

[Mynd á blaðsíðu 7]

Ísraelsmenn sýndu þakklæti sitt með því að bera fram tíund og frumgróða uppskerunnar og með því að leyfa fátækum að tína eftirtíning á ökrum þeirra.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Sálmaritarinn þakkaði Jehóva fyrir dásamleg verk hans og hugulsemi gagnvart fólki hans.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Vottar Jehóva nútímans sýna þakklæti sitt með því að taka þátt í þjónustunni á akrinum og guðræðislegum byggingarverkefnum, auk þess að gefa efnislegar gjafir.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila