Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.8. bls. 8-13
  • Mesta mikilmenni sem lifað hefur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mesta mikilmenni sem lifað hefur
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Var Jesús til í raun og veru?
  • Hver var Jesús í raun og veru?
  • Hvernig best er að fræðast um Guð
  • Kærleikur Guðs birtist í Jesú
  • Bregst þú jákvætt við kærleika Jesú?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Hver er Jesús Kristur?
    Hvað kennir Biblían?
  • Jesús Kristur – sendur af Guði?
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Mikill meistari gefur okkur skýrari mynd af skaparanum
    Er til skapari sem er annt um okkur?
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.8. bls. 8-13

Mesta mikilmenni sem lifað hefur

„Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ — MATTEUS 16:16.

HVERT heldur þú vera mesta mikilmenni sem lifað hefur? Eftir hverju metur þú það hvort maður sé mikilmenni? Eftir herstjórnarsnilli hans? Eftir yfirburðavitsmunum hans? Eftir líkamsburðum hans?

2 Ýmsir valdhafar hafa verið nefndir „miklir,“ svo sem Kýrus mikli, Alexander mikli og Karl mikli (eða Karlamagnús) sem nefndur var „hinn mikli“ jafnvel í lifanda lífi. Þetta voru aðsópsmiklir menn sem höfðu mikil áhrif á þegna sína.

3 Sagnfræðingurinn H. G. Wells lýsti fyrir 50 árum athyglisverðri mælistiku sem hann notaði til að mæla mikilleik manna. Hann skrifaði: „Mælistika sagnfræðingsins á mikilleik einstaklings er þessi: ‚Hvað lét hann eftir sig sem gat vaxið? Kom hann mönnum til að hugsa eftir nýjum brautum með krafti sem viðhélst eftir hans dag?‘“ Wells komst að eftirfarandi niðurstöðu: „Eftir þessari mælistiku stendur Jesús fremstur.“ Jafnvel Napóleon Bonaparte benti á að „Jesús Kristur hefur haft áhrif á og stjórnað þegnum sínum án þess að vera sýnilega nærverandi í líkamanum.“

4 Sumir hafa þó andmælt og haldið því fram að Jesús sé ekki sannsöguleg persóna heldur goðsögn. Margir hafa farið út í hinar öfgarnar, dýrkað Jesú sem Guð og segja að Guð hafi komið til jarðar sem Jesús. H. G. Wells, sem byggði niðurstöður sínar einvörðungu á sögulegum heimildum um tilvist Jesú sem manns, skrifaði hins vegar: „Það er athyglisvert og þýðingarmikið að sagnfræðingur skuli, án nokkurrar hlutdrægni af guðfræðilegu tagi, komast að þeirri niðurstöðu að hann geti ekki lýst framför mannkynsins heiðarlega án þess að gefa efnalitlum kennara frá Nasaret fremsta sætið. . . . Sagnfræðingur eins og ég, sem kallar sig ekki einu sinni kristinn, sér líf og persónu þessa mjög svo mikilvæga manns óhjákvæmilega sem þungamiðju myndarinnar.“

Var Jesús til í raun og veru?

5 En hvað nú ef einhver segði þér að Jesús hefði aldrei verið til í alvöru, að hann sé í raun réttri goðsögn, uppfinning einhverra manna á fyrstu öld. Hvernig myndir þú svara þeirri staðhæfingu? Þótt Wells viðurkenni að „við vitum ekki jafnmikið um [Jesú] og við vildum,“ segir hann eigi að síður: „Guðspjöllin fjögur . . . eru samhljóða í því að draga upp mjög skýra persónumynd; þau hafa á sér sannfæringar- og veruleikablæ. Að gera ráð fyrir að hann hafi aldrei verið til, að frásagan af lífi hans sé uppspuni, er erfiðara og vekur langtum fleiri spurningar fyrir sagnfræðinginn heldur en að viðurkenna kjarnann í frásögnum guðspjallanna sem staðreynd.“

6 Hinn virti sagnfræðingur Will Durant tók í sama streng og sagði: „Ef fáeinir almúgamenn [sem kölluðu sig kristna] ættu að hafa á einni kynslóð spunnið upp svona sterkan og aðlaðandi persónuleika, svona háleita siðfræði og svona hrífandi hugsýn um bræðralag manna, þá væri það margfalt ótrúlegra kraftaverk en nokkurt þeirra sem guðspjöllin greina frá.“

7 Þú gætir því rökrætt við slíkan efahyggjumann eftir þessum nótum: Gat goðsöguleg persóna — persóna sem aldrei var til í raun og veru — haft svona einstök áhrif á mannkynssöguna? Uppsláttarritið The Historian’s History of the World segir: „Söguleg áhrif starfs [Jesú] voru afdrifaríkari, jafnvel frá hreinum veraldlegum sjónarhóli, en verk nokkurrar annarrar persónu sögunnar. Helstu menningarsamfélög veraldar viðurkenna að með fæðingu hans hafi nýtt tímabil hafist í mannkynssögunni.“ Hugsaðu um þetta. Jafnvel sum af dagatölum nútímans miðast við það ár sem Jesús var álitinn hafa fæðst. „Ártöl fyrir þann tíma eru auðkennd með f.Kr., eða fyrir Krist,“ segir The World Book Encyclopedia. „Ártöl eftir það ár eru auðkennd með e.Kr. eða eftir Krist.“

8 Með kraftmikilli kennslu sinni og með því hvernig hann lifði lífi sínu í samræmi við hana hefur Jesús haft sterk áhrif á líf ótalinna manna í nærfellt tvö þúsund ár. Eins og rithöfundur einn komst svo vel að orði: „Allir þeir herir sem gengið hafa fylktu liði, allir þeir herskipaflotar sem smíðaðir hafa verið, öll þau þing sem hafa setið og allir þeir konungar sem hafa ríkt hafa ekki samanlagt haft jafnmikil áhrif á líf mannsins á jörðinni og hann.“ En gagnrýnendurnir segja: „Allt sem við vitum í raun og veru um Jesú er tekið úr Biblíunni. Það eru engar aðrar samtímaheimildir um hann.“ En er það rétt?

9 Þótt sagnfræðingar þess tíma segi ekki mikið um Jesú Krist er hans þó getið. Cornelíus Tacítus, virtur rómverskur sagnaritari á fyrstu öld, sagði að Neró Rómarkeisari hafi ‚kennt kristnum mönnum um bruna Rómar,‘ og sagði svo til skýringar: „Nafnið [kristinn maður] er dregið af Kristi sem Pontíus Pílatus landstjóri lét lífláta í stjórnartíð Tíberíusar.“ Svetóníus og Plíníus yngri, aðrir rómverskir rithöfundar á þeim tíma, minnast einnig á Krist. Auk þess minntist Gyðingurinn Flavíus Jósefus, sagnaritari á fyrstu öld, á dauða kristna lærisveinsins Jakobs í Fornaldarsögu Gyðinga. Jósefus sagði til skýringar að Jakob hefði verið „bróðir Jesú sem var kallaður Kristur.“

10 Niðurstaða The New Enclopædia Britannica er því: „Þessar óháðu frásagnir sanna að til forna véfengdu jafnvel óvinir kristninnar aldrei að Jesús væri sannsöguleg persóna, en það var í fyrsta sinn véfengt og á grunni ófullnægjandi upplýsinga undir lok 18. aldar, á 19. öld og í byrjun 20. aldar.“

Hver var Jesús í raun og veru?

11 Nær allt sem nú er vitað um Jesú Krist var þó í raun og veru skráð af fylgjendum hans á fyrstu öld. Frásagnir þeirra hafa varðveist í guðspjöllunum — biblíubókum rituðum af tveim postulum hans, Matteusi og Jóhannesi, og af tveim öðrum lærisveinum, Markúsi og Lúkasi. Hvað opinbera frásagnir þessara manna um það hver Jesús var? Hver var hann í raun og veru? Félagar Jesú á fyrstu öldinni íhuguðu þessa spurningu. Er þeir sáu Jesú vinna það kraftaverk að lægja öldugang á vatni með því að ávíta hann spurðu þeir furðu lostnir: „Hver er þessi?“ Síðar, við annað tækifæri, spurði Jesús postula sína: „Hvern segið þér mig vera?“ — Markús 4:41; Matteus 16:15.

12 Hvernig myndir þú svara ef þú værir spurður þessarar spurningar? Hver var Jesús í raun og veru? Að sjálfsögðu myndu margir í kristna heiminum svara því til að hann hefði verið alvaldur Guð í mannsmynd, Guð í líkamlegri mynd. En persónulegir félagar Jesú héldu aldrei að hann væri Guð. Pétur postuli kallaði hann ‚Krist, son hins lifanda Guðs.‘ (Matteus 16:16) Og hversu mjög sem þú leitar getur þú hvergi lesið að Jesús hafi sagst vera Guð. Þess í stað sagði hann Gyðingunum að hann væri „sonur Guðs,“ ekki Guð. — Jóhannes 10:36

13 Þegar Jesús gekk á ólgandi vatni var sú staðreynd innprentuð lærisveinunum að hann væri ólíkur öllum öðrum mönnum. (Jóhannes 6:18-21) Hann var mjög sérstakur maður. Það kom til af því að hann hafði lifað áður sem andasonur Guðs á himnum, já, sem engill er Biblían kallar höfuðengil (1. Þessaloníkubréf 4:16; Júdasarbréfið 9) Guð hafði skapað hann á undan öllu öðru. (Kólossubréfið 1:15) Jesús hafði því um ótilgreindar aldir, meira að segja frá því áður en efnisheimurinn var skapaður, átt náinn félagsskap á himnum við föður sinn, Jehóva Guð, hinn mikla skapara. — Orðskviðirnir 8:22, 27-31; Prédikarinn 12:1, NW.

14 Síðan, fyrir um það bil tvö þúsund árum, flutti Guð líf sonar síns í móðurkvið konu. Við það varð hann mennskur sonur Guðs, fæddur á venjulegan hátt af konu. (Galatabréfið 4:4) Meðan Jesús var að þroskast í kviði móður sinnar, Maríu, og síðar þegar hann var að alast upp sem drengur, var hann háður þeim er Guð hafði valið sem jarðneska foreldra hans. Loks varð Jesús fullorðinn og þá var honum greinilega veitt full minning um það samfélag sem hann hafði átt áður við Guð á himnum. Það gerðist þegar „himnarnir opnuðust fyrir honum“ við skírn hans. — Matteus 3:16, Bi 1912; Jóhannes 8:23; 17:5.

15 Jesús var sannarlega einstök persóna. En hann var eigi að síður maður, jafningi Adams sem Guð skapaði í upphafi og setti í garðinn Eden. Páll postuli sagði: „‚Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál,‘ hinn síðari Adam að lífgandi anda.“ Jesús er kallaður „hinn síðari Adam“ vegna þess að hann var fullkominn maður eins og hinn upphaflegi Adam. En þegar Jesús dó var hann reistur upp og sameinaðist aftur föður sínum á himnum sem andavera. — 1. Korintubréf 15:45.

Hvernig best er að fræðast um Guð

16 Hugsaðu þér eitt andartak þau undursamlegu sérréttindi sem sumir nutu að mega vera persónulegir félagar Jesú meðan hann var á jörðinni. Ímyndaðu þér að hlusta á hann, tala við, horfa á og jafnvel vinna með honum sem hafði verið náinn félagi Jehóva Guðs á himnum, ef til vill um milljarða ára. Sem trúfastur sonur líkti Jesús eftir himneskum föður sínum í öllu sem hann gerði. Í rauninni líkti hann svo fullkomlega eftir honum að hann gat sagt postulum sínum skömmu fyrir aftöku sína: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9, 10) Já, undir öllum kringumstæðum, sem Jesú mætti hér á jörðinni, gerði hann nákvæmlega eins og faðir hans, alvaldur Guð, hefði gert ef hann hefði verið hér. Þannig erum við í reynd að kynnast því hvers konar persóna Guð er þegar við kynnum okkur ævi og þjónustu Jesú Krists.

17 Greinaröðin „Ævi og þjónusta Jesú,“ sem birtist samfellt í tölublöðum Varðturnsins á mörgum erlendum málum frá apríl 1985 til júní 1991, gaf þess vegna ekki aðeins góða mynd af manninum Jesú heldur kenndi hún einnig mikið um himneskan föður Jesú, Jehóva Guð. Eftir að fyrstu tvær greinarnar höfðu birst skrifaði brautryðjandi Varðturnsfélaginu og sagði þakklátur í bragði: „Það finnst varla betri leið til að nálgast föðurinn en að kynnast syninum nánar!“ Það er hverju orði sannara! Umhyggja föðurins fyrir þjónum sínum og örlæti hans birtist greinilega í lífi sonar hans.

18 Kærleikur Jesú til föður síns, sem birtist í fullkominni undirgefni við vilja hans, er sannarlega fagur að sjá. „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér,“ sagði Jesús þeim Gyðingum sem ætluðu að drepa hann, „heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóhannes 8:28) Það var því ekki Jesús sem var höfundur boðskaparins um Guðsríki sem hann prédikaði. Höfundurinn var Jehóva Guð! Og aftur og aftur gaf Jesús föður sínum heiðurinn. „Ég hef ekki talað af sjálfum mér,“ sagði hann „heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala. . . . Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér.“ — Jóhannes 12:49, 50

19 En Jesús lét ekki við það sitja að tala eða kenna það sem faðirinn sagði honum. Hann gerði miklu meira. Hann talaði eða kenndi á þann hátt sem faðirinn hefði talað eða kennt. Enn fremur hegðaði hann sér og breytti í öllu sem hann gerði og öllum samkiptum sínum við aðra, alveg eins og faðir hans hefði hegðað sér og breytt undir sömu kringumstæðum. „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér,“ sagði Jesús til skýringar, „nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig [„á sama hátt,“ NW].“ (Jóhannes 5:19) Á alla vegu var Jesús fullkomin spegilmynd föður síns, Jehóva Guðs. Það er því engin furða að Jesús skuli vera mesta mikilmenni sem lifað hefur. Það er því afar þýðingarmikið að við virðum vandlega fyrir okkur þennan mann sem er þýðingarmeiri en allir aðrir.

Kærleikur Guðs birtist í Jesú

20 Hvað lærum við sérstaklega af ítarlegri og nákvæmri könnun á ævi og þjónustu Jesú? Nú, Jóhannes postuli viðurkenndi að ‚enginn maður hefur séð Guð.‘ (Jóhannes 1:18) Eigi að síður skrifaði Jóhannes með öruggri vissu í 1. Jóhannesarbréfi 4:8: „Guð er kærleikur.“ Jóhannes gat sagt það vegna þess að hann þekkti kærleika Guðs af því sem hann hafði séð hjá Jesú.

21 Líkt og faðirinn var Jesús hluttekningarsamur, vingjarnlegur, auðmjúkur og viðmótsþýður. Hinum veikburða og undirokuðu leið vel í návist hans eins og öllum öðrum — körlum, konum, börnum, ríkum, fátækum, voldugum og líka þekktum syndurum. Það var sér í lagi hið frábæra fordæmi Jesú um kærleikann, þar sem hann líkti eftir föður sínum, sem gerði hann að mesta mikilmenni sem lifað hefur. Jafnvel er haft eftir Napóleon Bonaparte: „Alexander, Sesar, Karlamagnús og ég stofnsettum heimsveldi, en á hverju byggjum við sköpunarverk snilligáfu okkar? Á valdi. Jesús Kristur einn byggði ríki sitt á kærleika, og enn þann dag í dag væru milljónir manna fúsar til að deyja fyrir hann.“

22 Kenningar Jesú voru byltingarkenndar. „Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein,“ hvatti Jesús. „Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ ‚Gerið öðrum það sem þið viljið að þeir geri ykkur.‘ (Matteus 5:39, 44; 7:12) Heimurinn væri harla ólíkur því sem hann er ef allir fylgdu þessum göfugu kenningum.

23 Dæmisögur Jesú eða líkingar snertu hjörtu manna og komu þeim til að gera gott og forðast illt. Vera má að þú munir eftir hinni velþekktu sögu hans um fyrirlitinn Samverja sem hjálpaði særðum manni af öðrum kynþætti er skinhelgir menn af kynþætti þess manns vildu ekki hjálpa. Eða dæmisögunni um hinn hluttekningarsama föður og glataða soninn. Og hvað um söguna um konunginn sem gaf þjóni sínum upp skuld er nam 60 milljónum denara en síðan sneri þjónninn sér að samþjóni sínum og lét varpa honum í fangelsi af því að sá gat ekki greitt honum aðeins 100 denara skuld? Með einföldum líkingum gerði Jesús eigingjörn og ágjörn verk andstyggileg en kærleiks- og miskunnarverk aðlaðandi. — Matteus 18:23-35; Lúkas 10:30-37; 15:11-32.

24 En það sem laðaði fólk þó sérstaklega að Jesú og hafði góð áhrif á það var að líf hans sjálfs var fullkomlega samstillt því sem hann kenndi. Hann iðkaði það sem hann prédikaði. Með þolinmæði umbar hann galla annarra. Er lærisveinar hans þráttuðu um það hver þeirra væri mestur leiðrétti hann þá vingjarnlega í stað þess að ávíta þá harðlega. Hann þjónaði auðmjúkur þörfum þeirra og þvoði jafnvel fætur þeirra. (Markús 9:30-37; 10:35-45; Lúkas 22:24-27; Jóhannes 13:5) Loks dó hann fúslega kvalafullum dauðdaga, ekki aðeins fyrir þá heldur fyrir allt mannkyn. Á því leikur enginn vafi að Jesús var mesta mikilmenni sem lifað hefur.

Hverju svarar þú?

◻ Hvað sannar að Jesús var í raun söguleg persóna?

◻ Hvernig vitum við að Jesús var maður en hvernig var hann ólíkur öllum öðrum mönnum?

◻ Hvers vegna er besta leiðin til að fræðast um Guð sú að kanna ævi Jesú?

◻ Hvað lærum við um kærleika Guðs með því að fræðast um Jesú?

[Spurningar]

1, 2. (a) Hvernig mætti meta hvort maður sé mikilmenni? (b) Hvaða sögufrægir menn hafa verið kallaðir „miklir“ og hvers vegna?

3. (a) Hvaða mælistiku má nota til að mæla mikilleik manna? (b) Hvert er mesta mikilmenni sem lifað hefur samkvæmt þeirri mælistiku?

4. Hvaða andstæð sjónarmið eru til varðandi Jesú? (b) Hvaða sess í sögunni fær Jesús hjá sagnfræðingi sem er ekki kristinn?

5, 6. Hvað hafa sagnfræðingarnir H. G. Wells og Will Durant að segja um það hvort Jesús sé söguleg persóna?

7, 8. Hversu mikil áhrif hafði Jesús á mannkynssöguna

9, 10. (a) Hvað sögðu veraldlegir sagnfræðingar og ritarar fyrri tíma um Jesú? (b) Að hvaða niðurstöðu, byggðri á frásögnum fyrri tíma sagnfræðinga, kemst virt alfræðirit?

11. (a) Hvar fáum við í raun og veru nær allar sagnfræðilegu upplýsingarnar um Jesú? (b) Hvers spurðu fylgjendur Jesú sjálfs varðandi það hver hann væri?

12. Hvernig vitum við að Jesús er ekki Guð?

13. Á hvaða hátt var Jesús ólíkur öllum öðrum mönnum?

14. Hvernig varð Jesús maður?

15. Hvernig vitum við að Jesús var á allan hátt maður þegar hann lifði á jörðinni?

16. (a) Hvað gerði það að miklum sérréttindum að hafa samneyti við Jesú? (b) Hvers vegna var hægt að segja að það að sjá Jesú væri það sama og að sjá Guð?

17. Hvaða góða tilgangi þjónaði greinaröð Varðturnsins „Ævi og þjónusta Jesú“?

18. Hver er höfundur boðskaparins um Guðsríki og hvernig viðurkenndi Jesús það?

19. (a) Hvernig vitum við að Jesús kenndi á sama hátt og Jehóva kennir? (b) Hvers vegna var Jesús mesta mikilmenni sem lifað hefur?

20. Hvernig gat Jóhannes postuli vitað að „Guð er kærleikur“?

21. Hvað var það við Jesú sem gerði hann að mesta mikilmenni sem lifað hefur?

22. Hvað var byltingarkennt við kenningar Jesú?

23. Hvað gerði Jesús til að snerta hjörtu manna og koma þeim til að gera gott?

24. Hvers vegna getum við sagt að Jesús sé óumdeilanlega mesta mikilmenni sem lifað hefur?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Postular Jesú spurðu furðu lostnir: „Hver er þessi?“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila