Sannleikurinn gerir okkur frjáls
1 Jesús sagði einu sinni við Gyðingana sem tekið höfðu trú á hann: „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóh. 8:32) Þetta frelsi er meira en aðeins mannréttindi og það stendur öllum til boða óháð menntun og auðlegð. Jesús kenndi sannleika sem myndi frelsa menn úr ánauð syndar og dauða. Eins og Jesús sagði ,er hver, sem syndina drýgir, þræll syndarinnar.‘ (Jóh. 8:34) Við hlökkum til þess tíma þegar allir hlýðnir menn ,verða leystir úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ — Rómv. 8:21.
2 Sannleikurinn um Jesú og hlutverk hans í tilgangi Guðs veitir okkur þetta frelsi. Þessi sannleikur felur í sér vitneskju um lausnarfórnina sem hann færði fyrir okkur. (Rómv. 3:24) Ef við viðurkennum sannleika Biblíunnar og förum eftir honum getum við að miklu leiti verið frjáls undan ótta, örvæntingu og alls konar skaðlegum venjum.
3 Frelsi undan ótta og örvæntingu: Við þurfum ekki að örvænta út af ástandi heimsins af því að við skiljum hvers vegna illskan er á jörðinni og vitum að hún verður bráðum afmáð. (Sálm. 37:10, 11; 2. Tím. 3:1; Opinb. 12:12) Sannleikurinn frelsar okkur einnig undan falskenningum um dauðann. Við vitum að hinir dauðu geta ekki gert okkur mein, að þeir líða ekki eilífar kvalir og að Guð tekur ekki fólk til sín bara til þess að hafa það hjá sér á andlega tilverusviðinu. — Préd. 9:5; Post. 24:15.
4 Þessi sannleikur var haldreipi foreldra þegar barnið þeirra lést í slysi. „Það er tómarúm í lífi okkar sem verður ekki fyllt fyrr en við sjáum son okkar aftur upprisinn,“ viðurkennir móðirin. „En við vitum að sársaukinn er aðeins tímabundinn.“
5 Frelsi undan skaðlegum venjum: Sannleikur Biblíunnar getur breytt hugsunarhætti og persónuleika fólks þannig að það verður frjálst undan vandamálum sem hægt er að forðast. (Ef. 4:20-24) Heiðarleiki og vinnusemi geta dregið úr fátækt. (Orðskv. 13:4) Fórnfús kærleikur bætir samband okkar við aðra. (Kól. 3:13, 14) Kristileg undirgefni í fjölskyldunni dregur úr vandamálum. (Ef. 5:33–6:1) Það stuðlar að góðri heilsu að forðast drykkjuskap, kynferðislegt siðleysi, tóbak og fíkniefni. — Orðskv. 7:21-23; 23:29, 30; 2. Kor. 7:1.
6 Ungur maður hafði verið háður fíkniefnum í níu ár. Dag einn hitti hann boðbera sem var í götustarfinu. Hann þáði rit og ákveðið var að hann fengi heimsókn. Biblíunámskeið var hafið. Tveimur mánuðum seinna hætti hann alveg að neyta fíkniefna og eftir að hafa verið á biblíunámskeiði í átta mánuði lét hann skírast. Þegar bróðir hans og mágkona sáu að hann var hættur að neyta fíkniefna ákváðu þau að kynna sér Biblíuna.
7 Hjálpaðu öðrum að öðlast frelsi: Þeir sem hafa verið í fjötrum falskra kenninga alla ævi geta átt erfitt með að skilja frelsið sem orð Guðs færir. Til þess að ná til hjartna þeirra gæti kennarinn þurft að vera sérstaklega iðinn og vel undirbúinn. (2. Tím. 4:2, 5) Núna er ekki rétti tíminn til að draga úr því starfi að „boða herteknum frelsi.“ (Jes. 61:1) Frelsi kristinna manna er dýrmætt. Það hefur eilíft líf í för með sér. — 1. Tím. 4:16.