Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.12. bls. 19-24
  • „Sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þörfin fyrir lífsvatnið kemur upp
  • Brúðarhópurinn býður mönnum að ‚koma!‘
  • Andinn og brúðurin segja: „Kom þú!“
  • Hinir aðrir sauðir taka undir og segja: „Kom þú!“
  • Taktu undir boðið
  • „Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Fögnum brúðkaupi lambsins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.12. bls. 19-24

„Sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘“

Allt komandi ár munu vottar Jehóva í liðlega 200 löndum leggja sig kappsamlega fram í samræmi við árstexta sinn fyrir árið 1991: „SÁ SEM HEYRIR SEGI: ‚KOM ÞÚ!‘“

„Andinn og brúðurin segja: ‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ — OPINBERUNARBÓKIN 22:17.

1. Til hvaða ‚vatns‘ er okkur boðið að ‚koma‘?

ÞÉR er boðið að ‚koma!‘ Að gera hvað? Að slökkva þorsta þinn með vatni, ekki venjulegu vatni heldur sams konar og Jesús Kristur talaði um er hann sagði við samversku konuna við brunninn: „Hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“ (Jóhannes 4:14) Hvaðan fékk Jesús þetta ‚vatn‘?

2. Hver er uppspretta ‚vatnsins‘ og hvenær fyrst gat það byrjað að streyma fram?

2 Jóhannes postuli hlaut þau sérréttindi að sjá í sýn hvaðan þetta „vatn“ rann eins og hann skýrir frá í Opinberunarbókinni 22:1: „Hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins.“ Já, uppspretta þessa kristaltæra, lífgandi vatns er enginn annar en lífgjafinn, Jehóva sjálfur, sem miðlar mönnum vatninu fyrir milligöngu lambsins, Jesú Krists. (Samanber Opinberunarbókina 21:6.) Úr því að minnst er á „hásæti Guðs og lambsins“ hlýtur það að vera eftir stofnsetningu Messíasarríkisins árið 1914, það er að segja eftir að dagur Drottins hófst, sem lífsvatnið byrjar að streyma fram. — Opinberunarbókin 1:10.

3, 4. Hvað táknar þetta „vatn“ og hverjir hafa aðgang að því?

3 Hvað táknar þetta lífsvatn? Það táknar ráðstöfun Guðs til endurreisnar fullkomnu mannslífi, eilífu lífi og fullkomleika á jörð sem breytt hefur verið í paradís. Lífsvatnið táknar allar ráðstafanir til lífs fyrir milligöngu Jesú Krists. Er allt þetta aðgengilegt núna? Nei, ekki allt því að Guð þarf fyrst að afmá hina núverandi illu heimsskipan ásamt ósýnilegum drottnara sínum, Satan djöflinum. En við getum teygað það sem er fáanlegt af þessu ‚vatni‘ núna með því að heyra og hlýða fagnaðarerindinu um ríkið og samlaga líf okkar því. — Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 12:2.

4 Eftir að hafa sýnt Jóhannesi „móðu lífsvatnsins“ talaði Jesús við hann um þann tilgang sinn að senda engil með sýnina. Síðan heyrði Jóhannes þessa yfirlýsingu: „Andinn og brúðurin segja: ‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segir: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinberunarbókin 22:17) Þjónar Guðs láta því boð út ganga til þyrstra manna um að drekka af ráðstöfun Guðs til eilífs lífs á jörð fyrir milligöngu lambs Guðs. — Jóhannes 1:29.

Þörfin fyrir lífsvatnið kemur upp

5. Hvernig kom það til að mannkynið þarfnaðist þessarar ráðstöfunar Guðs?

5 Því miður héldu fyrstu foreldrar mannkynsins sig ekki við þá lífsstefnu sem hefði veitt afkomendum þeirra tækifæri til að lifa eilíflega sem fullkomnir menn á heimili er væri paradís. Eilíft líf handa mannkyni útheimti að Adam kysi af ráðnum hug að þjóna skapara sínum og hlýða. Undir áhrifum uppreisnargjarnrar andaveru kom Eva af stað því sem leiddi til dauðans meðal manna og Adam, fullkominn eiginmaður hennar, kaus að fylgja henni á þessari helbraut. Sem lífgjafi komandi kynslóða manna var það því í rauninni Adam sem leiddi dauðann yfir allt mannkynið. Því segir Biblían: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað. (Rómverjabréfið 5:12) Adam og Eva byrjuðu ekki að fjölga mannkyninu fyrr en eftir syndafallið. — Sálmur 51:7.

6. Hvers vegna sá Jehóva svo um að ‚vatnið‘ yrði aðgengilegt?

6 Átti að hindra Guð eilíflega í því að fullna þann tilgang sinn að jörðin yrði paradís byggð fullkomnum mönnum? Biblían svarar því auðvitað neitandi. Í þeim tilgangi að fullna tilgang sinn gerði Jehóva eigi að síður kærleiksríka ráðstöfun er skyldi upphefja hinn skelfilega brest Adams og þó að fullu samrýmast réttvísi og réttlæti eins og birtist hjá honum í fullkomnasta mæli. Til þess notar hann „móðu lífsvatnsins.“ Með henni mun hann lyfta upp til fullkomleika hlýðnu mannkyni sem var svipt tækifærinu til aðgangs að uppsprettu lífsins. Þetta fljót streymir fram í sínum fyllsta skilningi í þúsundáraríki Jesú Krists. Því verða menn, meðal annarra þeir sem rísa upp frá dauðum, að drekka af „móðu lífsvatnsins“ í þúsundáraríki Krists. — Samanber Esekíel 47:1-10; Postulasöguna 24:15.

7. Á hvaða grundvelli er séð fyrir ‚vatninu‘?

7 Jehóva hefur yndi af því að vera til og hann hefur líka yndi af því að veita sumum af sköpunarverum sínum vitsmunalíf. Lausnarfórn Jesú er grundvöllurinn að ráðstöfun Jehóva til lífs. (Markús 10:45; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10) Orð Guðs á þar einnig hlut að máli sem Biblían nefnir stundum ‚vatn.‘ (Efesusbréfið 5:26) Jehóva Guði er frjálst að bjóða mönnum að ‚koma‘ sem fóru á mis við hina upphaflegu ráðstöfun sem Guð gerði handa fullkomnum mönnum, Adam og Evu.

Brúðarhópurinn býður mönnum að ‚koma!‘

8. Hverjir fengu fyrst þetta ‚vatn“ og hvenær?

8 Þeir sem mynda hina táknrænu brúði lambsins, frumgetnir, andlegir synir Jehóva, eru fyrstir til að láta boðið um að ‚koma!‘ út ganga. (Opinberunarbókin 14:1, 3, 4; 21:9) Andleg brúður Krists er ekki að bjóða sjálfri sér að ‚koma,‘ það er að segja þeim sem Jehóva á enn eftir að safna af brúðarhópnum til að fullna töluna 144.000. Boðinu er beint til manna sem vonast eftir fullkomnu lífi sem menn á jörð eftir Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Á endalokatíma heimskerfisins frá og með 1914 höfum við heyrt ‚brúðina‘ í samvinnu við heilagan anda Guðs láta boðið út ganga.

9. Hvernig vitum við að það er ekki ætlað aðeins smáum hópi?

9 Síðasta bók Biblíunnar lýsir því á hrífandi hátt að „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið,“ myndi bregðast vel við boðun fagnaðarerindisins um Guðsríki og taka einarðlega afstöðu með þeirri stjórn. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 16, 17) Ert þú einn af þessum mikla múgi? Þá skal ‚sá sem heyrir segja: „Kom þú!“‘

Andinn og brúðurin segja: „Kom þú!“

10. Hvaðan hlýtur hið táknræna vatn að vera komið og hvers vegna?

10 En hvers vegna er ekkert minnst á Guð og hinn táknræna brúðguma í Opinberunarbókinni 22:17? Í fyrsta lagi skaltu veita athygli að versið segir ekki undir leiðsögn hvers andinn starfar. Þegar getið er um andann beinist athyglin samt sem áður að Jehóva Guði sjálfum. Faðirinn er ekki látinn hverfa úr myndinni því að hann er uppspretta heilags anda. Í öðru lagi er sonurinn í fullri samvinnu við föðurinn eins og hann sjálfur segir: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra.“ (Jóhannes 5:19) Og þótt þetta boð sé innblásið og komið frá Jehóva Guði geta menn fengið fyrirmæli Guðs, „anda“ eða innblásin orð, fyrir milligöngu Jesú Krists, ‚Orðsins.‘ (Opinberunarbókin 22:6; sjá einnig 22:17, neðanmálsathugasemd í NW Reference Bible; Jóhannes 1:1) Það er því viðeigandi að setja Krist, brúðgumann, í samband við þetta boð. Já, við megum vera viss um að bæði Jehóva Guð, faðir brúðgumans, og Jesús Kristur, brúðguminn, taka undir með ‚brúðinni‘ fyrir tilstilli heilags anda og segja: „Kom þú!“

11, 12. (a) Hvað benti til þess snemma að boðið um að drekka myndi ná til fleiri? (b) Hvernig skýrðist það eftir því sem árin liðu?

11 Um áratuga skeið hefur þetta boð um að ‚koma‘ gengið út til manna sem þyrstir eftir ‚lífsins vatni.‘ Þegar árið 1918 byrjaði brúðarhópurinn að prédika boðskap sem varðaði sérstaklega þá sem kynnu að lifa á jörðinni. Það var í opinbera fyrirlestrinum sem kallaður var: „Milljónir núlifandi manna þurfa aldrei að deyja.“ Þar var lýst þeirri von að margir myndu lifa af Harmagedón og hljóta síðan eilíft líf undir Messíasarríki Guðs á jörð sem væri paradís. En þessi boðskapur vísaði ekki nákvæmlega veginn til þessarar björgunar, nema með því að leggja áherslu á réttlæti almennt.

12 Til að láta boðið um að ‚koma‘ ná til fleira fólks voru eftirfarandi boð látin ganga út árið 1922 til fólks sem hafði áhuga á að þjóna Guði: „Kunngerið konunginn og ríkið.“ Árið 1923 skildi brúðarhópurinn að „sauðirnir“ og „hafrarnir“ í dæmisgöu Jesú í Matteusi 25:31-46 myndu sýna sig fyrir Harmagedón. Síðan birtist í Varðturninum þann 15. mars 1929 grein sem hét: „Náðarsamlegt boð.“ Greinin sótti stef sitt í Opinberunarbókina 22:17 og lagði áherslu á þá ábyrgð brúðarhópsins að láta boðið um að ‚koma‘ hljóma. — Bls. 87-9.a

Hinir aðrir sauðir taka undir og segja: „Kom þú!“

13, 14. Hvaða nánari skýring kom á fjórða áratug aldarinnar á því að aðrir myndu drekka hið táknræna vatn?

13 Varðturninn benti snemma á þá ábyrgð hinna ‚annarra sauða‘ að bjóða öðrum að ‚koma.‘ (Jóhannes 10:16) Það var árið 1932. Þann 1. ágúst sagði blaðið á blaðsíðu 232, 29. grein: „Vottar Jehóva eru kostgæfir líkt og Jehú og þeir ættu að hvetja Jónadabhópinn [hina aðra sauði] til að slást í för með sér og eiga einhvern þátt í að segja öðrum að Guðsríki sé í nánd.“ Síðan var vitnað í Opinberunarbókina 22:17 og haldið áfram: „Hinir smurðu ættu að hvetja alla sem vilja til að taka þátt í að segja frá fagnaðarerindinu um ríkið. Þeir þurfa ekki að vera smurðir þjónar Drottins til að boða boðskap Drottins. Það er vottum Jehóva mikil hughreysting að vita núna að þeim skuli vera leyft að bera lífsvatnið til hóps manna sem á fyrir sér að komast gegnum Harmagedón og öðlast eilíft líf á jörð vegna hinnar miklu góðvildar Jehóva.b

14 Frá og með 1934 bentu hinar smurðu leifar á að hinir aðrir sauðir yrðu nú einnig að vígjast Guði og láta skírast í vatni til tákns um þá vígslu og slást síðan í lið með brúðarhópnum í að bjóða þeim sem þyrstir eru að ‚koma.‘ Þannig lét brúðarhópurinn skýrt boð út ganga til að safna saman þessum þyrstu, öðrum sauðum inn í ‚eina hjörð‘ undir umsjón ‚eins hirðis,‘ Jesú Krists. (Jóhannes 10:16) Árið 1935 fengu hinar smurðu leifar að vita á almennu móti sínu að hinn sauðumlíki hópur manna, sem þeir voru að bjóða að ‚koma,‘ væri í reyndinni ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9-17. Þetta var mikil lyftistöng því starfi að bjóða mönnum að koma.

15. Hver er aðild ‚andans‘ að boðinu um að ‚koma‘?

15 Er brúðarhópurinn sagði: „Kom þú!“ var hann samstilltur anda Guðs. Með því að láta anda sinn ljúka upp merkingu spádómanna í rituðu orði sínu létu leifar brúðarhópsins boðið út ganga. Þessir spádómar, sem boð þeirra var byggt á, höfðu verið innblásnir af anda Guðs. Það var því í reyndinni andi Guðs, er streymdi fram fyrir milligöngu Krists og brúðar hans, sem var að bjóða hinum mikla múgi sauðumlíkra manna að ‚koma.‘ — Opinberunarbókin 19:10.

16. Hvernig eru andinn og brúðurin tengd þessu boði núna?

16 Allt fram til þessa dags segja andinn og brúðurin, sem á sér leifarnar fyrir fulltrúa, „Kom þú!“ Leifarnar segja hinum öðrum sauðum að bjóða síðan öðrum að ‚koma.‘ Þær eiga ekki að halda ‚lífsvatninu,‘ eins og það stendur til boða núna, fyrir sig. Þær verða að hlýða boði ‚andans og brúðarinnar‘ sem er: „Sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘“ Allir sem svala þorsta sínum verða að láta boðið ganga áfram til annarra, óháð kynþætti, þjóðerni, tungu eða núverandi trú — til allra hvar sem er! Vottar Jehóva bjóða og hjálpa mönnum allra þjóða að teyga ókeypis „lífsins vatn“ eins og það streymir fram núna!

17. Hvers konar „vatn“ er fáanlegt núna?

17 Um alla jörðina er lambið Jesús Kristur að leiða múginn mikla „til vatnslinda lífsins.“ (Opinberunarbókin 7:17) Þetta er ekki mengað vatn heldur tært, svalandi, heilnæmt vatn beint úr uppsprettu sinni. Þetta táknræna vatn merkir meira en aðeins skilningur á sannleika Biblíunnar; það merkir allar ráðstafanir Guðs fyrir milligöngu Jesú Krists sem beina múginum mikla nú þegar inn á brautina til eilífs, fullkomins lífs í hamingju.

Taktu undir boðið

18. Hve umfangsmikið er boðið á okkar tímum?

18 Nú þegar hefur þessi mikli múgur náð tölunni 4.017.213. Þeir halda áfram að boða fagnaðarerindið um Guðsríki af kostgæfni um alla heimsbyggðina. Þeir skila reglulega skýrslum um prédikun fagnaðarerindisins úti á akrinum sem nú hefur teygt sig til 212 landa. Eftir því sem tími leyfir núna á endalokatíma heimskerfisins mun boðið halda áfram að óma í samræmi við þolinmæði og langlyndi Jehóva Guðs, tímavarðarins mikla. Hann veit hvenær tíminn er úti og hvenær komið er að því að hann skuli gera sig kunnan öllum sem Jehóva, alveg eins og hann hefur heitið að gera samkvæmt margendurteknum yfirlýsingum sínum í spádómum Biblíunnar. — Esekíel 36:23; 38:21-23; 39:7.

19. Hvernig getum við sagt að þetta „vatn“ bjóðist mönnum ókeypis?

19 Meðan enn er tími til munu meðlimir múgsins mikla því halda fagnandi áfram að taka undir með leifum brúðarhópsins: ‚Hver sem vill taki ókeypis lífsins vatn.‘ Boðberar þessa lífgandi fagnaðarerindis boða hann frjálst og óhindrað og taka ekkert gjald fyrir þjónustu sína er þeir boða boðskapinn um ríkið um víða veröld.

20. Hvað mun gerast vegna þessa ‚vatns‘?

20 Lífsvatnið stendur nú til boða öllum mönnum um alla jörðina, þannig að hver sem vill getur teygað það að vild sinni og bjargað lífi sínu með því. Endurleyst mannkyn mun lifa endalaust hér á jörð sem breytt verður í paradís og upphefja hinn dýrlega tilgang Jehóva. Skapari okkar myndaði jörðina ekki til einskis heldur til að hún yrði Edengarður eða paradís unaðarins er teygði sig um allan hnöttinn, byggð fullkomnum mönnum í mynd Guðs og líkingu.

21. Hvernig verður tilgangur Guðs með jörðina fullnaður?

21 Það verða ólýsanleg sérréttindi og gleði að búa í slíkum nýjum heimi! Þá mun það boð, sem Guð gaf fyrstu mannlegu hjónunum í 1. Mósebók 1:27, 28, uppfyllast ríkulega. Jehóva tók þá ógæfu, sem mannkynið varð fyrir, svo meistaralegum tökum að menn munu gera sér jörðina undirgefna að því marki að hún verður paradís uppfyllt fullkomnu mannkyni. Já, Guð mun líta á allt sem hann hefur gert, og sjá, það verður harla gott. Verður þú þar? Til þess þarft þú núna að teyga lífsins vatn ríkulega með þakklátum huga. „Kom þú!“ og drekktu nægju þína og svalaðu þorsta þínum með lífsvatninu sem streymir núna fram og mun streyma til fullnustu í hinu komandi þúsundáraríki. Og hver sem heyrir þetta unaðslega boð skal segja: „Kom þú!“

[Neðanmáls]

a Greinin sagði meðal annars: „Aldrei hefur verið borið víðar vitni um sannleikann en undanfarin ár. . . . Leifarnar færa þeim hinn gleðilega boðskap og segja þeim: ‚Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.‘ Þeim er sagt að þeir megi nú taka sér stöðu með Drottni og gegn djöflinum og hljóta blessun. Er það ekki slíkur hópur manna sem getur núna ástundað auðmýkt og réttlæti og verið falinn á reiðidegi hans og verndaður gegnum stríðið mikla við Harmagedón og lifað endalaust og aldrei þurft að deyja? (Sefanía 2:3) . . . Hinar trúföstu leifar taka undir hið náðarsamlega boð og segja: ‚Kom þú!‘ Þennan boðskap skal boða þeim sem þrá réttlæti og sannleika. Það þarf að gera núna.“

b Varðturninn þann 15. ágúst 1934 vék einnig að ábyrgð hinna annarra sauða og sagði á bls. 249, 31. grein: „Jónadabhópurinn eru þeir sem ‚heyra‘ boðskap sannleikans og verða að segja við þá sem heyra til þeirra: ‚„Kom þú!“ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinb. 22:17) Þeir sem tilheyra Jónadabhópnum verða að fylgja þeim sem eru í hópi hins fyrirmyndaða Jehús, það er að segja hinum smurðu, og boða boðskapinn um ríkið, jafnvel þótt þeir séu ekki smurðir vottar Jehóva.“

Hvert er svar þitt?

◻ Hvaða „vatn“ er talað um í Opinberunarbókinni 22:17?

◻ Hver er uppspretta þessa ‚vatns‘?

◻ Hvers vegna er þörf fyrir þetta „vatn“ og hvenær gat það byrjað að streyma fram?

◻ Hvað er gefið til kynna með því að vísa til ‚andans‘ og hvernig á „brúðurin“ hlut að máli?

◻ Hverjir geta drukkið ‚vatnið‘ og með hvaða afleiðingum?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila