Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.9. bls. 17-22
  • „Lögleysinginn“ afhjúpaður

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Lögleysinginn“ afhjúpaður
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Skylt að elska hver annan
  • Lögleysinginn afhjúpaður
  • Hvers vegna svona öflug afhjúpun?
  • Dómur guðs yfir ‚lögleysingjanum‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Borin kennsl á ‚lögleysingjann‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Kristur hataði lögleysu – en þú?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Tilbeiðsla sem Guð hefur velþóknun á
    Hvað kennir Biblían?
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.9. bls. 17-22

„Lögleysinginn“ afhjúpaður

„Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ — OPINBERUNARBÓKIN 18:4.

1, 2. (a) Hvernig er hægt að bera kennsl á lögleysingjann? (b) Hver er afstaða Guðs til þeirra sem segjast þjóna honum en eru blóðsekir? (Matteus 7:21-23)

ORÐ Guðs sagði fyrir tilkomu ‚lögleysingja.‘ Það sagði einnig fyrir að himneskur aftökumaður Guðs, Kristur Jesús, myndi ‚tortíma og að engu gera‘ þetta löglausa afl. (2. Þessaloníkubréf 2:3-8) Eins og komið hefur fram í greinunum hér á undan er þessi lögleysingi klerkastétt kristna heimsins. Endur fyrir löngu yfirgáfu þeir sannleika orðs Guðs og tóku upp á arma sínar heiðnar kenningar, svo sem um þrenninguna, helvíti og ódauðleika sálarinnar. Auk þess hafa þeir unnið verk sem eru andstæð lögum Guðs. Líkt og þeir sem Páll varaði Títus við segjast þeir „þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.“ — Títusarbréfið 1:16.

2 Jesús sagði: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ Falsspámenn myndu bera „vonda ávöxtu.“ (Matteus 7:15-18) Hin gríðarlega blóðskuld klerkastéttarinnar er eitt merki hins slæma ávaxtar hennar. Um aldaraðir hefur hún stutt krossferðir, rannsóknarrétti og styrjaldir þar sem úthellt hefur verið blóði milljóna manna. Klerkar hafa beðið fyrir og blessað stríðsaðila beggja vegna víglínunnar þar sem fylgjendur þeirra eigin trúarbragða hafa drepið hver annan. Páll postuli gat hins vegar sagt: „Eg er hreinn af blóði allra.“ (Postulasagan 20:26, ísl. bi. 1912.) Klerkarnir eru það ekki. Guð segir slíkum mönnum: „Þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki. Hendur yðar eru alblóðugar.“ — Jesaja 1:15.

3. Hvaða þýðingarmiklir heimsviðburðir nálgast ört?

3 Tími Guðs til að fullnægja dómi sínum á lögleysingjanum nálgast ört. Bráðlega mun, eins og Jesús sagði fyrir, verða „sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ (Matteus 24:21) Þessi þrengingartími, sem á sér enga hliðstæðu í mannkynssögunni, mun hefjast með eyðingu Babýlonar hinnar miklu, heimskerfi falskra trúarbragða, og þá einnig trúarbrögðum kristna heimsins. Stjórnmálaöflin munu „gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:16) Þrengingunni miklu mun ljúka með eyðingu þess sem eftir er af heimi Satans í Harmagedón, ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ — Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21.

Skylt að elska hver annan

4. Hvað þurfa þeir sem tilbiðja Guð „í anda og sannleika“ að hafa í huga?

4 Þar eð þessir stórviðburðir eiga að gerast innan skamms, hvaða skyldukvöð hvílir þá á þeim sem „tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:23) Meðal annars verða þeir að hafa í huga það sem Jesús sagði: „Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans. . . . Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.“ — Jóhannes 15:10-14; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

5, 6. (a) Hvað bauð Jesús lærisveinum sínum að gera er skyldi einkenna þá? (b) Í hvaða skilningi var þetta nýtt boðorð?

5 Sannkristnum mönnum er þannig skylt að elska aðra menn, einkum kristna bræður sína og systur í öllum löndum. (Postulasagan 10:34; Galatabréfið 6:10; 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21) Kristnir menn verða svo sannarlega að hafa „brennandi kærleika hver til annars.“ (1. Pétursbréf 4:8) Þess konar kærleikur á heimsmælikvarða einkennir þá sem sanna guðsdýrkendur því að Jesús sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:34, 35.

6 Hvað var nýtt við þetta boðorð? Var ekki Gyðingum undir Móselögunum boðið: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“? (3. Mósebók 19:18) Jú, en Jesús gaf til kynna eitthvað umfram það er hann sagði: „Eins og ég hef elskað yður.“ Kærleikur hans fól í sér að hann lagði líf sitt í sölurnar fyrir aðra og lærisveinar hans verða að vera fúsir til að gera það líka. (Jóhannes 15:13) Þetta var æðra stig kærleikans því að slíkra fórna var ekki krafist samkvæmt Móselögunum.

7. Hvaða trúarsamfélag hefur hlýtt lögmáli kærleikans á þessari öld?

7 Hvaða trúarsamfélag hefur á okkar öld fylgt þessu lögmáli kærleikans? Svo sannarlega ekki trúfélög kristna heimsins því að meðlimir þeirra hafa brytjað hver annan niður í tugmilljónatali í tveim heimsstyrjöldum og öðrum átökum. Það eru vottar Jehóva sem hafa hlýtt lögmáli kærleikans um alla jörðina. Þeir hafa framfylgt ófrávíkjanlegu hlutleysi í styrjöldum þjóðanna því að Jesús sagði að fylgjendur hans mættu ‚ekki heyra heiminum til.‘ (Jóhannes 17:16) Þannig geta þeir sagt, eins og Páll postuli, að þeir séu ‚hreinir af blóði allra.‘ Taktu til dæmis eftir upphafsorðum yfirlýsingar sem þjónar Jehóva samþykktu á móti í Washington, D.C., þann 27. nóvember 1921:

„Sem kristnir menn leggjum við okkur einlæglega fram um að fylgja kenningum Krists Jesú, Drottins okkar, og postula hans. Við álítum: Að stríð sé arfur villimennsku, spilli góðu siðferði og sé kristnu fólki til skammar, að þær meginreglur, sem Drottinn Jesús kenndi, útiloki að vígðir kristnir menn geti tekið þátt í stríði, blóðsúthellingum eða ofbeldi í nokkurri mynd.“

8. Hvað segja sagnfræðilegar heimildir okkur um votta Jehóva í síðari heimsstyrjöldinni?

8 Hvernig var þessu viðhorfi framfylgt í síðari heimsstyrjöldinni? Um 50 milljónir manna féllu í þessari mannskæðustu styrjöld mannkynssögunnar. Enginn einasti maður féll þó fyrir hendi eins af vottum Jehóva! Nálega allir þýskir prestar veittu til dæmis nasistum stuðning, annaðhvort virkan eða óvirkan. Vottar Jehóva varðveittu aftur á móti strangt hlutleysi undir stjórn nasista og neituðu að heilsa með Hitlerskveðju eða vera hluti af stríðsvél hans. Þess vegna drápu þeir engan af andlegum bræðrum sínum í öðrum löndum, og reyndar engan annan heldur. Og vottar Jehóva í öllum öðrum löndum voru hlutlausir líka.

9. Hvert var hlutskipti votta Jehóva í Þýskalandi og Austurríki undir stjórn nasista?

9 Margir vottar Jehóva hafa látið lífið í þágu vina sinna, hlýðnir lögmáli kærleikans. Í ritdómi um bókina Kirchenkampf in Deutschland eftir Friedich Zipfel segir um vottana: „Níutíu og sjö af hverjum hundrað meðlimum þessa smáa trúfélags sættu ofsóknum nasista. Þriðjungur þeirra var annaðhvort tekinn af lífi eða drepinn með öðrum ofbeldisverkum, hungri, sjúkdómum eða þrælkunarvinnu. Þessi kúgun var þyngri en áður hafði þekkst og stafaði af óhagganlegri trú sem ekki gat samrýmst hugmyndafræði nasista.“ Í Austurríki var fjórðungur votta Jehóva líflátinn, barinn til dauða eða lést af völdum sjúkdóma eða örmögnunar í fangabúðum nasista.

10. Hverju treystu þeir sem dóu vegna hlýðni sinnar við lögmál kærleikans?

10 Þeir sem dóu píslarvættisdauða vegna þess að þeir hlýddu lögmáli kærleikans treystu því að ‚Guð sé ekki ranglátur og gleymi ekki verkum þeirra og kærleikanum sem þeir auðsýndu nafni hans.‘ (Hebreabréfið 6:10) Þeir vissu að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Þeir höfðu örugga von um að hljóta upprisu með eilíft líf í vændum. — Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15.

11. Á hvaða hátt eru þjónar Jehóva einstæðir og hvaða spádómur er að rætast á þeim?

11 Vottar Jehóva eru einir um það að hlýða þeirri reglu sem Pétur og hinir postularnir tiltóku frammi fyrir hæstarétti: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Þar eð vottar Jehóva gera það eiga þeir vísan stuðning ‚heilags anda sem Guð hefur gefið þeim er honum hlýða.‘ (Postulasagan 5:32) Þessi andi gerir þeim kleift að uppfylla spádóminn í Jesaja 2:2-4. Þar er sagt fyrir að á okkar tímum yrði sönn guðsdýrkun endurreist og fólk allra þjóða myndi streyma til hennar. Ein af afleiðingunum yrði þessi: „Og [þeir] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Með því að vottar Jehóva búa sig undir líf í friðsælum nýjum heimi temja þeir sér ekki hernað framar. Þeir læra lögmál kærleikans. — Jóhannes 13:34, 35.

12. Hvað þurfa þeir sem hlýða lögmáli kærleikans að gera fyrir aðra?

12 Þar eð lögmál kristninnar felur í sér að ‚elska náungann eins og sjálfan sig‘ mega þjónar Guðs ekki lúra eigingjarnir á því sem þeir vita. (Matteus 22:39) Margir fleiri myndu vilja þjóna Guði og lifa í nýjum heimi hans. Meðan enn er tími til þurfa þeir líka að kynnast lögmáli kærleikans og hinum mörgu fleiri sannindum sem tengjast drottinvaldi alheimsins, Jehóva Guði. Það þarf að kenna þeim að Jehóva einn er verðugur tilbeiðslu okkar og þeir þurfa að læra hvernig á að tilbiðja hann. (Matteus 4:10; Opinberunarbókin 4:11) Þeim sem hafa nú þegar lært þetta er skylt að segja öðrum frá því þannig að þeir geti einnig öðlast hylli Jehóva. — Esekíel 33:7-9, 14-16.

Lögleysinginn afhjúpaður

13. Hvað þurfum við að kunngera er við berum vitni um víða veröld og hvers vegna?

13 Jesús sagði að ‚fagnaðarerindið um ríkið yrði prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar, og þá myndi endirinn koma.‘ (Matteus 24:14) Jafnhliða þessum vitnisburði um víða veröld er þjónum Guðs skylt að kunngera dóma hans yfir falstrúarbrögðunum, einkum klerkum kristna heimsins. Þeir eru sérlega ámælisverðir í augum Guðs vegna þess að þeir kalla sig kristna. Það verður að afhjúpa þá þannig að þeir sem vilja þjóna Guði geti losnað undan áhrifum þeirra og stigið viðeigandi skref til björgunar. Eins og Jesús sagði: „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — Jóhannes 8:32.

14. Hvaða skýran boðskap varðandi falstrúarbrögðin þarf að boða?

14 Vottar Jehóva verða því að kunngera þennan innblásna boðskap tengdan falstrúarbrögðunum: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar. Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar. . . . Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er [Jehóva] Guð, sem hana dæmdi.“ — Opinberunarbókin 18:4-8.

15. Hvaða þýðingu hafði árið 1914 í tímatali Jehóva og hvað orsakaði það eftir fyrri heimsstyrjöldina?

15 Spádómar Biblíunnar sýna að ‚síðustu dagar‘ þessa heimskerfis hófust hið örlagaríka ár 1914. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Matteus 24:3-13) Frá því ári höfum við lifað ‚tíma endalokanna.‘ (Daníel 12:4) Í samræmi við tímaáætlun Guðs byrjuðu þjónar hans, strax eftir fyrri heimsstyrjöldina, að kunngera Guðsríki af auknum krafti eins og sagt var fyrir í Matteusi 24:14. Þeir byrjuðu líka að afhjúpa falstrúarbrögðin opinskár, einkum löglausa klerkastétt hins trúvillta kristna heims.

16. Hvernig hefur afhjúpun lögleysingjans orðið þróttmeiri síðastliðin 70 ár?

16 Þjónar Guðs hafa nú í liðlega sjö áratugi varað fólk af síauknum krafti við blekkingarstarfi lögleysingjans. Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar voru aðeins nokkur þúsund vottar þar að verki, en núna eru þeir orðnir að „voldugri þjóð“ sem telur yfir þrjár og hálfa milljón starfandi þjóna orðsins sem tilheyra yfir 60.000 söfnuðum um víða veröld. (Jesaja 60:22) Í sívaxandi mæli boða þjónar Guðs kostgæfilega Guðsríki sem einustu von mannkynsins, og samtímis afhjúpa þeir klerkastéttina — sem hinn undirförula lögleysingja.

Hvers vegna svona öflug afhjúpun?

17. Hvers vegna hafa þjónar Jehóva afhjúpað lögleysingjann af krafti?

17 Hvers vegna hafa þjónar Jehóva afhjúpað lögleysingjann svona vægðarlaust öll þessi ár? Vegna þess að milljónir af hinum mikla múgi sauða Jehóva, sem eru þegar á vegi hjálpræðisins, þurfa að fá vernd gegn heimi Satans og falstrúarbrögðum hans. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9-14) Enn fremur gætu hjartahreinir menn, sem tilheyra ekki enn hjörð Guðs, ekki vitað hvernig þeir ættu að forðast hina röngu braut ef klerkastéttin yrði ekki afhjúpuð. Það þarf því að gera þeim viðvart alveg eins og Jesús gerði fólki viðvart er hann sagði um hina hrænisfullu trúarleiðtoga sinnar samtíðar: „Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju.“ — Matteus 15:14; sjá einnig 2. Korintubréf 4:4; 11:13-15.

18. Hvað þurfa þeir sem leita sannleikans að vita?

18 Klerkastéttin er hluti af heimi Satans. (Jóhannes 8:44) Það er hins vegar heimur sem Guð mun bráðlega þurrka út. (2. Pétursbréf 3:11-13; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Orð Guðs aðvarar því: „Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ (Jakobsbréfið 4:4) Klerkastéttin lætur þessa aðvörun sem vind um eyrun þjóta og heldur áfram að blanda sér óbeðin í stjórnmál. Hún segir fylgjendum sínum að betri heimur sé í vændum fyrir atbeina stjórnmálamanna. Það er falsvon því að þessi heimur undir yfirráðum Satans er að syngja sitt síðasta. Fólk sem væntir vonar frá þessum heimi er því að láta blekkja sig. Það þarf að segja því sannleikann um hvert þessi heimur stefnir og hvað muni koma í hans stað. — Orðskviðirnir 14:12; 19:21; Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:4, 5.

19. Hvernig hefur veraldlegt hugarfar sumra presta verið afhjúpað í fjölmiðlum á síðustu árum?

19 Veraldlegt hugarfar sumra af klerkunum hefur verið afhjúpað í fjölmiðlum á síðustu árum, til dæmis siðleysi og hömlulaus lífsstíll sumra sjónvarpsprédikara. Lagasmiður nokkur samdi lag sem hét: „Myndi Jesús bera [600.000 króna] Rolex [úr] í sjónvarpsþættinum sínum?“ Í söngtextanum segir meðal annars: „Myndi Jesús skipta sér af stjórnmálum ef hann kæmi aftur til jarðar, eiga annað heimili í Palm Springs [auðmannahverfi í Bandaríkjunum] og reyna að fela ríkidæmi sitt?“ Auk þess eru fleiri og fleiri prestar annaðhvort kynvilltir eða láta sér lynda kynvillu stéttarbræðra sinna. Nú þegar hefur kaþólska kirkjan í Bandaríkjunum þurft að reiða af hendi milljónir dollara í skaðabætur vegna presta sem gerst hafa sekir um kynferðislega misnotkun barna. — Rómverjabréfið 1:24-27; 1. Korintubréf 6:9, 10.

20. Hvers vegna verða þjónar Guðs að halda áfram að afhjúpa lögleysingjann?

20 Þjónar Guðs geta ekki látið eins og þeir sjái ekki þessa rangsleitni heldur verða þeir að afhjúpa hana öðrum til góðs. Nauðsynlegt er að vernda hinn mikla múg annarra sauða fyrir þeim sem reyna að koma þeim til að brjóta lög Guðs. Og leita þarf uppi þá sem „andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru,“ þannig að þeir geti notið verndar og leiðsagnar hirðisins mikla, Jehóva Guðs, og ‚góða hirðisins,‘ Krists Jesú. — Esekíel 9:4; Jóhannes 10:11; Orðskviðirnir 18:10.

21. Hvað munu vottar Jehóva halda áfram að boða?

21 Þjónar Guðs munu því ekki hika við að boða dóm hans yfir öllum heimi Satans, meðal annars lögleysingja hans, klerkastétt kristna heimsins. Þeir munu af miklum krafti bera boðskap engilsins í Opinberunarbókinni 14:7: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans.“ Og boðun þeirra mun fela í sér hina áríðandi aðvörun Opinberunarbókarinnar 18:4 um falstrúarbrögðin: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“

Upprifjun

◻ Hvaða örlög mun lögleysinginn hljóta og hvers vegna?

◻ Hver er skylda þjóna Jehóva gagnvart öðrum?

◻ Hvernig hafa þjónar Jehóva varðveitt sig hreina af blóði allra manna?

◻ Hvað þurfum við að gera varðandi Babýlon hina miklu?

◻ Hvers vegna munum við halda áfram að boða hinn öfluga boðskap okkar um lögleysingjann?

[Mynd á blaðsíðu 20]

Postularnir sögðu hæstarétti Gyðinga: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“

[Mynd á blaðsíðu 21]

Einlægir menn þurfa að fá að vita hvert þessi heimur og trúarbrögð hans stefna.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila