Að þjálfa minnisgáfuna
JEHÓVA GUÐ skapaði mannsheilann og minnisgáfuna. Minnið átti að vera eins konar sjóður sem maðurinn átti að geta gengið í án þess að tapa nokkru af hinni verðmætu innistæðu sem hann hefði safnað. Hönnun mannsheilans er í samræmi við þá ætlun Guðs að maðurinn lifi að eilífu. — Sálm. 139:14; Jóh. 17:3.
En finnst þér of mikið fara forgörðum af því sem þú leggur inn í hugann? Það virðist ekki vera handbært þegar þú vilt grípa til þess. Hvað geturðu gert til að bæta minnisgáfuna?
Áhugi
Áhugi er mikilvægur þáttur í því að þjálfa minnisgáfuna. Við örvum hugann ef við temjum okkur að vera athugul og hafa áhuga á fólki og viðburðum umhverfis okkur. Það auðveldar okkur síðan að sýna sama áhuga þegar við lesum eða heyrum eitthvað sem hefur varanlegt gildi.
Mörgum finnst erfitt að muna nöfn. En við sem erum kristin vitum að fólk skiptir máli — trúsystkini, fólk sem við boðum trúna og aðrir sem við eigum nauðsynleg samskipti við í dagsins önn. Hvernig getum við auðveldað okkur að muna nöfn þeirra sem við ættum að muna? Í bréfi til ákveðins safnaðar nafngreinir Páll postuli 26 einstaklinga. Ljóst er að hann hafði áhuga á þeim því að hann þekkti þá ekki aðeins með nafni heldur minntist líka á ákveðna hluti sem tengdust þeim. (Rómv. 16:3-16) Sumir farandhirðar Votta Jehóva á okkar tímum eru býsna minnugir á nöfn, þó svo að þeir flytji sig vikulega milli safnaða. Hvernig fara þeir að því? Sumir hafa tamið sér að nefna fólk með nafni nokkrum sinnum þegar þeir tala við það í fyrsta skipti. Þeir reyna að tengja saman nöfn og andlit. Og þeir matast með ýmsum í söfnuðinum og fara með allmörgum út í boðunarstarfið. Hvað geturðu gert til að muna nöfn þeirra sem þú hittir? Reyndu að finna góða ástæðu til að muna hvað þeir heita og nýttu þér svo einhverjar af tillögunum hér á undan.
Það er líka mikilvægt að muna það sem þú lest. Hvað er hægt að gera til að bæta lesminnið? Bæði áhugi og skilningur skiptir máli. Til að einbeita þér að því sem þú lest þarftu að hafa nægan áhuga á því. Minnisgeymdin er ekki mikil ef þú ert með hugann við eitthvað annað á meðan þú ert að reyna að lesa. Skilningurinn eykst ef þú reynir að tengja það sem þú lest við fyrri vitneskju eða kunnuglega hluti. Spyrðu þig: ‚Hvernig og hvenær get ég notfært mér þetta efni? Hvernig get ég notað það til að hjálpa öðrum?‘ Þú eykur líka skilninginn með því að lesa setningarhluta í stað orða því að þá grípurðu betur hugmyndir og kemur auga á meginatriði þannig að auðveldara er að muna þau.
Upprifjun
Kennslufræðingar leggja mikla áherslu á upprifjun. Prófessor nokkur sýndi fram á að með einnar mínútu upprifjun strax eftir lestur væri hægt að tvöfalda minnisgeymdina. Eftir að hafa lesið það sem þú ætlaðir þér, eða ákveðinn hluta þess, skaltu því rifja upp meginatriðin í huganum til að festa þau í minni. Veltu fyrir þér hvernig þú myndir útskýra með eigin orðum það sem þú hefur lært. Með því að hressa upp á minnið strax eftir að hafa lesið eitthvað manstu það mun lengur en ella.
Leitaðu síðan færis næstu daga til að rifja upp það sem þú lærðir, með því að segja öðrum frá því. Þú gætir rætt um það við einhvern í fjölskyldunni eða söfnuðinum, við vinnu- eða skólafélaga, nágranna eða einhvern sem þú hittir í boðunarstarfinu. Reyndu bæði að rifja upp helstu staðreyndir og hin biblíulegu rök sem fylgja þeim. Þú hefur mikið gagn af því sjálfur, því að þannig festirðu þér mikilvæg atriði í minni, en aðrir njóta líka góðs af.
Hugleiðing
Auk þess að rifja upp það sem þú hefur lesið og segja öðrum frá því er mjög gagnlegt að hugleiða mikilvæg atriði sem þú hefur lært. Þetta gerðu biblíuritararnir Asaf og Davíð. Asaf segir: „Ég víðfrægi stórvirki [Jah], ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum, ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.“ (Sálm. 77:12, 13) Og Davíð orti: „Ég . . . hugsa um þig á næturvökunum,“ og „ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar.“ (Sálm. 63:7; 143:5) Gerir þú þetta?
Djúp og einbeitt umhugsun um verk Jehóva, eiginleika hans, orð og vilja hjálpar þér ekki aðeins að muna eftir staðreyndum. Ef þú temur þér að hugleiða það sem þú lest ná djúpstæð sannindi að festa rætur í hjarta þér og móta þinn innri mann og leyndustu hugsanir. — Sálm. 119:16.
Hlutverk anda Guðs
Við eigum okkur sterkan bakhjarl sem auðveldar okkur að muna eftir verkum Jehóva og orðum Jesú Krists. Jesús sagði fylgjendum sínum nóttina áður en hann dó: „Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“ (Jóh. 14:25, 26) Matteus og Jóhannes voru meðal viðstaddra. Heilagur andi hjálpaði þeim svo sannarlega. Matteus lauk við að rita fyrstu, ítarlegu frásöguna af ævi Krists um átta árum síðar, þar á meðal ómetanlegar minningar á borð við fjallræðuna og hið ítarlega tákn um nærveru Krists og endalok heimskerfisins. Jóhannes skrifaði guðspjall sitt 65 árum eftir dauða Jesú, og þar kemur meðal annars fram hvað Jesús sagði síðustu nóttina sem hann var með postulunum áður en hann lagði líf sitt í sölurnar. Matteus og Jóhannes hafa eflaust átt ljóslifandi minningar um það sem Jesús sagði og gerði meðan hann var á meðal þeirra, en heilagur andi gegndi stóru hlutverki í því að þeir gleymdu ekki mikilvægum atriðum sem Jehóva vildi láta koma fram í orði sínu.
Hjálpar heilagur andi þjónum Guðs nú á tímum? Vissulega. Hann lætur okkur auðvitað ekki muna það sem við höfum aldrei lært en hann hjálpar okkur að rifja upp mikilvæg mál sem við höfum kynnt okkur áður. (Lúk. 11:13; 1. Jóh. 5:14) Hann örvar hugsun okkar þegar þörf krefur og ‚rifjar upp fyrir okkur þau orð sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins okkar og frelsara.‘ — 2. Pét. 3:1, 2.
‚Gleymið ekki‘
Jehóva minnti Ísraelsmenn margsinnis á að ‚gleyma ekki.‘ Ekki svo að skilja að hann ætlaðist til þess að þeir myndu allt fullkomlega, en þeir máttu ekki verða svo uppteknir af eigin hugðarefnum að það skyggði á minninguna um verk hans. Þeir áttu að halda því vakandi hvernig Jehóva frelsaði þá þegar engill hans drap alla frumburði Egypta, og eins hvernig hann opnaði Rauðahafið og lokaði því síðan þannig að faraó drukknaði með her sínum. Þeir áttu að minnast þess að hann gaf þeim lögmálið við Sínaífjall og leiddi þá um eyðimörkina inn í fyrirheitna landið. Að gleyma þessu ekki merkti að minningin átti að hafa djúpstæð áhrif á líf þeirra dag frá degi. — 5. Mós. 4:9, 10; 8:10-18; 2. Mós. 12:24-27; Sálm. 136:15.
Við þurfum einnig að gæta þess að gleyma ekki. Í glímunni við álag lífsins er mikilvægt að muna eftir Jehóva, að hafa hugfast hvers konar Guð hann er og minnast kærleikans sem hann sýndi þegar hann gaf son sinn sem lausnargjald fyrir syndir okkar þannig að við gætum hlotið fullkomleika og eilíft líf. (Sálm. 103:2, 8; 106:7, 13; Jóh. 3:16; Rómv. 6:23) Reglulegur biblíulestur og góð þátttaka í samkomum og boðunarstarfi safnaðarins heldur þessum sannindum vakandi í huga okkar.
Þegar við þurfum að taka ákvarðanir, stórar eða smáar, er gott að rifja þessi mikilvægu sannindi upp og láta þau hafa áhrif á hugsanir sínar. Gleymum ekki. Leitum leiðsagnar Jehóva. Í stað þess að horfa eingöngu á málin frá sjónarhóli holdlegs manns eða treysta á skyndihvatir ófullkomins hjarta skaltu spyrja þig: ‚Hvaða ráð eða meginreglur Biblíunnar ættu að hafa áhrif á ákvörðun mína?‘ (Orðskv. 3:5-7; 28:26) Þú getur ekki munað það sem þú hefur aldrei lesið eða heyrt. En þegar þú byggir upp nákvæma þekkingu á Jehóva og styrkir kærleikann til hans áttu stóran og vaxandi sjóð sem andi hans getur hjálpað þér að nýta, og kærleikurinn til Jehóva mun hjálpa þér að breyta í samræmi við þekkingu þína.