Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.1. bls. 27-31
  • Í heiminum en ekki hluti af honum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Í heiminum en ekki hluti af honum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Uppgangur heimsvelda
  • Hin komandi stjórn Guðsríkis
  • Að forðast ‚merki dýrsins‘
  • „Dýrið“ og ‚keisarinn‘
  • Samviskusamir þegnar
  • Hlutlausir kristnir menn á síðustu dögum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Guð og keisarinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Friður, öryggi og ‚líkneski dýrsins‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Velur þú heim Satans eða nýja skipan Guðs?
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.1. bls. 27-31

Í heiminum en ekki hluti af honum

„Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum.“ — JÓHANNES 15:19.

1. Hvert er samband kristinna manna við heiminn en hvernig lítur heimurinn á þá?

SÍÐUSTU nóttina, sem Jesús var með lærisveinum sínum, sagði hann þeim: „Þér eruð ekki af heiminum.“ Um hvaða heim var hann að tala? Hafði hann ekki sagt áður: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“? (Jóhannes 3:16) Lærisveinarnir voru greinilega hluti af þeim heimi af því að þeir voru fyrstir til að iðka trú á Jesú til eilífs lífs. Af hverju sagði Jesús þá núna að lærisveinar hans væru ekki hluti af heiminum? Og af hverju sagði hann líka: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum“? — Jóhannes 15:19.

2, 3. (a) Hvaða ‚heimi‘ voru kristnir menn ekki hluti af? (b) Hvað segir Biblían um ‚heiminn‘ sem kristnir menn eru ekki hluti af?

2 Svarið er að Biblían notar orðið „heimur“ (koʹsmos á grísku) á mismunandi vegu. Eins og skýrt var í greininni á undan er orðið „heimur“ stundum notað í Biblíunni um mannkynið í heild. Það er sá heimur sem Guð elskaði og Jesús dó fyrir. En bókin The Oxford History of Christianity segir: „Orðið ‚heimur‘ er líka notað í kristninni um það sem er fráhverft Guði og fjandsamlegt honum.“ Hvernig þá? Kaþólski rithöfundurinn Roland Minnerath segir í bók sinni Les chrétiens et le monde (Kristnir menn og heimurinn): „Í neikvæðri merkingu er heimurinn álitinn . . . sá vettvangur þar sem stjórnir fjandsamlegar Guði vinna verk sitt og mynda, með andstöðu sinni við sigursæla stjórn Krists, óvinaveldi undir stjórn Satans.“ Þessi „heimur“ er sá mikli fjöldi mannkyns sem er fráhverfur Guði. Sannkristnir menn eru ekki hluti af þeim heimi og hann hatar þá.

3 Jóhannes hafði þennan heim í huga er hann skrifaði undir lok fyrstu aldar: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Hann skrifaði einnig: „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Jesús kallaði Satan „höfðingja þessa heims.“ — Jóhannes 12:31; 16:11.

Uppgangur heimsvelda

4. Hvernig urðu heimsveldin til?

4 Núverandi mannheimur, sem er fráhverfur Guði, varð til skömmu eftir flóðið á dögum Nóa þegar margir afkomenda hans hættu að tilbiðja Jehóva Guð. Nimrod lét mikið að sér kveða á þeim tíma en hann byggði borgir og var „mikill veiðimaður í andstöðu við Jehóva.“ (1. Mósebók 10:8-12, NW) Á þeim tíma var heimurinn að stórum hluta til smá borgríki sem bundust af og til samtökum og herjuðu hvert á annað. (1. Mósebók 14:1-9) Sum borgríki lögðu önnur undir sig og urðu héraðsveldi. Sum héraðsveldin uxu svo smám saman upp í voldug heimsveldi.

5, 6. (a) Hver eru hin sjö heimsveldi biblíusögunnar? (b) Með hverju eru þessi heimsveldi táknuð og hvaðan fá þau vald sitt?

5 Að hætti Nimrods tilbáðu stjórnendur heimsveldanna ekki Jehóva og það endurspeglaðist í ofbeldis- og grimmdarverkum þeirra. Þessi heimsveldi eru táknuð í Ritningunni með villidýrum og Biblían nafngreinir sex þeirra sem höfðu mikil áhrif á fólk Jehóva í aldanna rás. Það voru Egyptaland, Assýría, Babýlon, Medía-Persía, Grikkland og Róm. Á eftir Róm átti að koma sjöunda heimsveldið samkvæmt spádómunum. (Daníel 7:3-7; 8:3-7, 20, 21; Opinberunarbókin 17:9, 10) Það reyndist vera ensk-ameríska heimsveldið, það er að segja breska heimsveldið og Bandaríkin er urðu með tímanum valdameiri en Bretland. Breska heimsveldið tók að vaxa eftir að síðustu menjar Rómaveldis hurfu.a

6 Heimsveldin sjö eru táknuð í Opinberunarbókinni með höfðunum á sjöhöfða dýri er stígur upp úr ólgusömu mannhafinu. (Jesaja 17:12, 13; 57:20, 21; Opinberunarbókin 13:1) Hver gefur þessu dýri völd? Biblían svarar: „Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið.“ (Opinberunarbókin 13:2) Drekinn er enginn annar en Satan djöfullinn. — Lúkas 4:5, 6; Opinberunarbókin 12:9.

Hin komandi stjórn Guðsríkis

7. Á hvað vona kristnir menn og hvaða áhrif hefur það á samband þeirra við stjórnvöld heims?

7 Kristnir menn hafa beðið í nærfellt 2000 ár: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Vottar Jehóva vita að aðeins Guðsríki getur komið á raunverulegum friði á jörð. Þeir fylgjast grannt með spádómum Biblíunnar og eru sannfærðir um að þessari bæn verði bráðlega svarað og að ríkið taki málefni jarðar bráðlega í sínar hendur. (Daníel 2:44) Hollusta þeirra við þetta ríki gerir þá hlutlausa gagnvart stjórnum heimsins.

8. Hvernig bregðast stjórnvöld við yfirráðum Guðsríkis eins og spáð er í Sálmi 2?

8 Sumar þjóðir segjast hafa trúarleg gildi að leiðarljósi. Í reynd hunsa þær hins vegar þá staðreynd að Jehóva er alheimsdrottinn og hefur krýnt Jesú sem himneskan konung með yfirráð yfir jörðinni. (Daníel 4:17; Opinberunarbókin 11:15) Í spádómlegum sálmi segir: „Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn [Jehóva] og hans smurða: ‚Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra.‘“ (Sálmur 2:2, 3) Ríkisstjórnir heims viðurkenna enga „fjötra“ eða ‚viðjar‘ sem takmarka fullveldi þeirra. Þess vegna segir Jehóva útvöldum konungi sínum, Jesú: „Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali. Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker.“ (Sálmur 2:8, 9) En mannheimurinn, sem Jesús dó fyrir, verður ekki ‚molaður‘ algerlega. — Jóhannes 3:17.

Að forðast ‚merki dýrsins‘

9, 10. (a) Við hverju erum við vöruð í Opinberunarbókinni? (b) Hvað táknar það að bera ‚merki dýrsins‘? (c) Hvaða merki þiggja þjónar Guðs?

9 Opinberunin, sem Jóhannes postuli fékk, varaði við því að mannheimurinn, sem er fráhverfur Guði, myndi gera auknar kröfur skömmu fyrir endalok sín og ‚láta alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín og koma því til leiðar, að enginn geti keypt eða selt, nema hann hafi merkið.‘ (Opinberunarbókin 13:16, 17) Hvað merkir þetta? Merki á hægri hönd er viðeigandi tákn um virkan stuðning. Hvað um merki á enninu? Biblíuskýringarritið The Expositor’s Greek Testament segir: „Þetta er mjög svo táknræn tilvísun til þess siðar að merkja hermenn og þræla með áberandi hörundsflúri eða brennimerki . . . eða, það sem betra er, þess trúarlega siðar að bera nafn einhvers guðs sem verndargrip.“ Margir menn bera þetta merki táknrænt með verkum sínum eða orðum og sýna þar með að þeir séu ‚þrælar‘ eða „hermenn“ ‚dýrsins.‘ (Opinberunarbókin 13:3, 4) Um framtíð þeirra segir orðabókin Theological Dictionary of the New Testament: „Óvinir Guðs leyfa að [merki] dýrsins, hin dularfulla tala er felur í sér nafn þess, sé stimplað á enni þeirra og aðra hönd. Það er þeim til verulegra viðskipta- og fjárhagsbóta en kallar yfir þá reiði Guðs og útilokar þá frá þúsundáraríkinu, Opb. 13:16; 14:9; 20:4.“

10 Það kostar æ meira hugrekki og þolgæði að standa gegn því að fá ‚merkið.‘ (Opinberunarbókin 14:9-12) Þjónar Guðs hafa þennan styrk og eru af þeim sökum oft hataðir og rægðir. (Jóhannes 15:18-20; 17:14, 15) Í stað þess að bera merki dýrsins segir Jesaja að þeir skrifi táknrænt á hönd sér: „Helgaður [Jehóva].“ (Jesaja 44:5) Og þar eð þeir „andvarpa og kveina“ yfir þeim svívirðingum, sem fráhvarfstrúarbrögð hafa í frammi, fá þeir táknrænt merki á enni sér til marks um að þeir séu þess verðir að vera þyrmt þegar dómum Jehóva er fullnægt. — Esekíel 9:1-7.

11. Hver veitir mennskum stjórnvöldum leyfi til að fara með völd uns Guðsríki tekur völdin á jörðinni í sínar hendur?

11 Guð leyfir mannastjórnum að fara með völd uns tíminn kemur fyrir himneskt ríki Krists að taka völdin á jörðinni að fullu í sínar hendur. Prófessor Oscar Cullmann minnist á þetta umburðarlyndi Guðs í garð pólitískra ríkja í bók sinni, The State in the New Testament. Hann skrifar: „Hin flókna hugmynd um ‚tímabundið‘ eðli ríkisins er ástæðan fyrir því að afstaða hinna fyrstu kristnu manna til ríkisins er ekki einhljóða heldur virðist mótsagnakennd. Ég endurtek að hún virðist vera það. Ekki þarf annað en að nefna Rómverjabréfið 13:1: „Sérhver maður hlýði . . . yfirvöldum . . . ,“ ásamt Opinberunarbókinni 13: ríkið í mynd dýrsins úr undirdjúpinu.“

„Dýrið“ og ‚keisarinn‘

12. Hvaða öfgalausa afstöðu hafa vottar Jehóva til mennskra stjórnvalda?

12 Það væri rangt að álykta sem svo að allir menn, sem fara með stjórnvald, séu handbendi Satans. Margir hafa reynst réttsýnir líkt og Sergíus Páll landstjóri sem Biblían kallar ‚hygginn mann.‘ (Postulasagan 13:7) Sumir valdhafar hafa með hugrekki varið réttindi minnihlutahópa og hafa þar haft að leiðarljósi samviskuna, er Guð gaf þeim, þótt þeir þekktu hvorki hann né tilgang hans. (Rómverjabréfið 2:14, 15) Munum að Biblían notar orðið „heimur“ í tveim ólíkum merkingum: annars vegar um mannheiminn sem Guð elskar og við ættum að elska og hins vegar mannheiminn sem er fráhverfur Jehóva og Satan er guð yfir og við verðum að vera aðgreindir frá. (Jóhannes 1:9, 10; 17:14; 2. Korintubréf 4:4; Jakobsbréfið 4:4) Þjónar Jehóva hafa því öfgalausa afstöðu til stjórnar í höndum manna. Við erum hlutlausir gagnvart stjórnmálum því að við þjónum sem sendiherrar eða erindrekar Guðsríkis og líf okkar er helgað Guði. (2. Korintubréf 5:20) Hins vegar erum við samviskunnar vegna undirgefnir þeim sem með völdin fara.

13. (a) Hvernig lítur Jehóva á stjórnir manna? (b) Hve langt gengur kristin undirgefni gagnvart stjórnum manna?

13 Þessi öfgalausa afstaða endurspeglar viðhorf Jehóva Guðs sjálfs. Þegar heimsveldi eða jafnvel smáríki misbeita valdi sínu, kúga þegnana eða ofsækja þá sem tilbiðja Guð verðskulda þau vissulega þá spádómlegu lýsingu að kallast grimm villidýr. (Daníel 7:19-21; Opinberunarbókin 11:7) En þegar stjórnvöld þjóna tilgangi Guðs með því að halda uppi lögum og reglu lítur hann á þau sem ‚þjón‘ sinn. (Rómverjabréfið 13:6) Jehóva væntir þess að fólk sitt virði stjórnir manna og sé þeim undirgefið, en undirgefnin er ekki ótakmörkuð. Þegar menn krefjast af þjónum Guðs þess er lög hans banna, eða banna það sem Guð krefst að þjónar hans geri, þá fylgja þjónar hans sömu stefnu og postularnir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29.

14. Hvernig útskýrir Jesús kristna undirgefni við stjórnir manna? Hvernig útskýrir Páll hana?

14 Jesús sagði að fylgjendur sínir hefðu skyldum að gegna bæði gagnvart stjórnvöldum og Guði er hann sagði: „Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 22:21) Páll postuli skrifaði vegna innblásturs: „Sérhver maður hlýði . . . yfirvöldum . . . En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa. Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar. Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta.“ (Rómverjabréfið 13:1, 4-6) Allt frá fyrstu öld okkar tímatals fram á okkar dag hafa kristnir menn þurft að íhuga kröfur ríkisins. Þeir hafa þurft að athuga hvort þeir væru að slaka til í sambandi við tilbeiðslu sína með því að uppfylla þessar kröfur eða hvort þetta væru réttmætar kröfur sem fylgja bæri samviskusamlega.

Samviskusamir þegnar

15. Hvernig gjalda vottar Jehóva keisaranum samviskusamlega það sem þeir skulda?

15 Hin pólitísku ‚yfirvöld‘ eru „þjónn“ Guðs þegar þau gegna því hlutverki sem hann hefur ætlað þeim. Það felur meðal annars í sér að ‚refsa illgjörðamönnum og lofa þá er breyta vel.‘ (1. Pétursbréf 2:13, 14) Þjónar Jehóva gjalda keisaranum samviskusamlega það sem hann krefst með réttu í mynd skatta, og þeir ganga eins langt og biblíufrædd samviska þeirra leyfir í að „vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, . . . og reiðubúnir til sérhvers góðs verks.“ (Títusarbréfið 3:1) ‚Góð verk‘ felast meðal annars í því að hjálpa öðrum, til dæmis í hörmungum og náttúruhamförum. Margir hafa borið vitni um góðvild votta Jehóva í garð annarra manna við þessar aðstæður. — Galatabréfið 6:10.

16. Hvaða góð verk vinna vottar Jehóva samviskusamlega í þágu stjórnvalda og náungans?

16 Vottar Jehóva elska aðra menn og telja að það besta sem þeir geti gert fyrir þá sé að hjálpa þeim að afla sér nákvæmrar þekkingar á tilgangi Guðs að koma á réttlátum ‚nýjum heimi og nýrri jörð.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Með því að kenna og fara eftir háleitum siðferðisreglum Biblíunnar eru þeir mannlegu samfélagi til gagns með því að beina mörgum af villubraut. Þjónar Jehóva eru löghlýðnir og virða ráðherra, embættismenn, dómara og borgaryfirvöld, og sýna „þeim virðing, sem virðing ber.“ (Rómverjabréfið 13:7) Vottaforeldrar vinna fúslega með kennurum barna sinna og hjálpa börnunum að stunda nám sitt vel þannig að þau geti séð fyrir sér síðar og verði ekki byrði á samfélaginu. (1. Þessaloníkubréf 4:11, 12) Innan safnaða sinna beita vottarnir sér gegn kynþáttafordómum og stéttaskiptingu og þeir leggja mikla áherslu á eflingu fjölskyldulífsins. (Postulasagan 10:34, 35; Kólossubréfið 3:18-21) Þannig sýna þeir með verkum sínum að þeir eru alls ekki andvígir fjölskyldunni eða gagnslausir samfélaginu eins og þeir eru ranglega sakaðir um. Þar með rætast orð Péturs postula: „Það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel þagga niður vanþekkingu heimskra manna.“ — 1. Pétursbréf 2:15.

17. Hvernig geta kristnir menn ‚umgengist viturlega þá sem fyrir utan eru‘?

17 Enda þótt sannir fylgjendur Krists séu „ekki af heiminum“ eru þeir eftir sem áður í heimi mannlegs samfélags og verða að ‚umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru.‘ (Jóhannes 17:16; Kólossubréfið 4:5) Meðan Jehóva leyfir yfirvöldum að starfa sem þjónn sinn sýnum við þeim tilhlýðilega virðingu. (Rómverjabréfið 13:1-4) Enda þótt við séum hlutlaus í stjórnmálum biðjum við fyrir „konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir,“ einkum þegar þeir þurfa að taka ákvarðanir sem gætu haft áhrif á trúfrelsi. Við höldum því áfram „til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði,“ svo að alls konar menn „verði hólpnir.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:1-4.

[Neðanmáls]

a Sjá bókina Opinberunin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, 35. kafla, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Upprifjunarspurningar

◻ Hvaða ‚heimi‘ eru kristnir menn hluti af en hvaða ‚heimi‘ mega þeir ekki vera hluti af?

◻ Hvað táknar ‚merki dýrsins‘ á hönd eða enni manna og hvaða merki hafa trúfastir þjónar Jehóva?

◻ Hvaða öfgalausa afstöðu hafa sannkristnir menn til mannlegra stjórnvalda?

◻ Hvernig stuðla vottar Jehóva að velferð mannlegs samfélags?

[Myndir á blaðsíðu 30]

Biblían kallar stjórnir manna bæði þjón Guðs og villidýr.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Vottar Jehóva eru samfélaginu til góðs vegna umhyggju sinnar fyrir öðrum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila