Kristnir menn og mannheimurinn
„Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 4:5.
1. Hvað sagði Jesús um fylgjendur sína og heiminn?
Í BÆN til föður síns á himnum sagði Jesús um fylgjendur sína: „Heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ Síðan bætti hann við: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ (Jóhannes 17:14, 15) Kristnir menn áttu ekki að vera aðgreindir líkamlega frá heiminum, til dæmis í klaustureinangrun. Nei, Kristur ‚sendi þá í heiminn‘ til að vera vottar sínir „allt til endimarka jarðarinnar.“ (Jóhannes 17:18; Postulasagan 1:8) Samt bað hann Guð að gæta þeirra því að Satan, ‚höfðingi þessa heims,‘ myndi æsa til haturs á þeim vegna nafns Krists. — Jóhannes 12:31; Matteus 24:9.
2. (a) Hvernig notar Biblían orðið „heimur“? (b) Hvaða öfgalausa afstöðu sýnir Jehóva gagnvart heiminum?
2 Í Biblíunni er orðið „heimur“ (á grísku koʹsmos) oft notað um ranglátt mannfélag sem „er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þar eð kristnir menn fylgja stöðlum Jehóva og fara jafnframt eftir þeim fyrirmælum að prédika fagnaðarerindið um ríkið fyrir heiminum hefur samband þeirra við heiminn stundum verið vandasamt. (2. Tímóteusarbréf 3:12; 1. Jóhannesarbréf 3:1, 13) En orðið koʹsmos er líka notað í Ritningunni um mannkynið almennt. Jesús sagði um heiminn í þessum skilningi: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.“ (Jóhannes 3:16, 17; 2. Korintubréf 5:19; 1. Jóhannesarbréf 4:14) Enda þótt Jehóva hati það sem einkennir illt heimskerfi Satans sýndi hann kærleika sinn til mannkynsins með því að senda son sinn til jarðar til að frelsa alla sem ‚kæmust til iðrunar.‘ (2. Pétursbréf 3:9; Orðskviðirnir 6:16-19) Tilbiðjendur Jehóva ættu að hafa öfgalausa afstöðu hans til heimsins að leiðarljósi.
Fordæmi Jesú
3, 4. (a) Hvaða afstöðu tók Jesús til stjórnar? (b) Hvernig leit Jesús á mannheiminn?
3 Jesús sagði Pontíusi Pílatusi skömmu fyrir dauða sinn: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ (Jóhannes 18:36) Í samræmi við þessi orð hafði Jesús áður hafnað tilboði Satans um vald yfir öllum ríkjum heims og hafði ekki leyft Gyðingum að gera sig að konungi. (Lúkas 4:5-8; Jóhannes 6:14, 15) Samt sem áður sýndi Jesús mikinn kærleika til mannheimsins. Matteus postuli segir frá dæmi um það: „Er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ Vegna kærleika prédikaði hann fyrir fólki í bæjum og þorpum. Hann kenndi því og læknaði það. (Matteus 9:36) Hann var líka næmur á líkamlegar þarfir þeirra sem komu til að læra af honum. Við lesum: „Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: ‚Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni.‘“ (Matteus 15:32) Hvílík umhyggja!
4 Gyðingar voru mjög fordómafullir í garð Samverja en Jesús talaði lengi við samverska konu og eyddi tveim dögum í að bera rækilega vitni í samverskri borg. (Jóhannes 4:5-42) Enda þótt Guð hefði sent Jesú til „týndra sauða af Ísraelsætt“ sinnti hann stundum fólki af öðrum þjóðum sem sýndi trú. (Matteus 8:5-13; 15:21-28) Já, Jesús sýndi fram á að hægt væri að ‚vera ekki af heiminum‘ en sýna samtímis kærleika til mannheimsins, til fólksins. Berum við slíkan hug til fólks þar sem við búum, vinnum eða kaupum inn? Sýnum við umhyggju fyrir velferð þess — bæði andlegum þörfum og einnig öðrum ef við getum með góðu móti hjálpað? Jesús gerði það og opnaði þar með leiðina til að fræða fólk um Guðsríki. Við getum að vísu ekki unnið bókstafleg kraftaverk eins og Jesús. En góðvild í verki vinnur oft kraftaverk ef svo má segja með því að eyða fordómum.
Afstaða Páls til fólks „fyrir utan“
5, 6. Hvernig kom Páll fram við Gyðinga sem stóðu „fyrir utan“?
5 Í nokkrum bréfa sinna minnist Páll postuli á fólk „fyrir utan“ eða þá sem „standa fyrir utan,“ og á við þá sem ekki eru kristnir, hvort heldur Gyðinga eða heiðingja. (1. Korintubréf 5:12; 1. Þessaloníkubréf 4:12; 1. Tímóteusarbréf 3:7) Hvernig kom hann fram við þá? Hann ‚varð öllum allt til þess að hann gæti að minnsta kosti frelsað nokkra.‘ (1. Korintubréf 9:20-22) Þegar hann kom í einhverja borg var hann vanur að prédika fyrst fyrir þeim Gyðingum sem höfðu sest þar að. Hvernig bar hann sig að? Með háttvísi og virðingu kom hann með sannfærandi rök frá Biblíunni um að Messías væri kominn, hefði dáið sem fórn og verið reistur upp frá dauðum. — Postulasagan 13:5, 14-16, 43; 17:1-3, 10.
6 Páll byggði þannig á þekkingu Gyðinga á lögmálinu og spámönnunum til að fræða þá um Messías og Guðsríki. Og honum tókst að sannfæra suma. (Postulasagan 14:1; 17:4) Þrátt fyrir andstöðu gyðingaleiðtoga lét Páll í ljós ástúð sína í garð Gyðinga er hann sagði: „Bræður, það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir [Gyðingar] megi hólpnir verða. Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi.“ — Rómverjabréfið 10:1, 2.
Að hjálpa trúuðum mönnum sem ekki voru Gyðingar
7. Hvernig brugðust margir trúskiptingar við fagnaðarerindinu sem Páll prédikaði?
7 Trúskiptingar voru annarra þjóða menn sem tekið höfðu gyðingatrú og umskorist. Ljóst er að trúskiptingar voru í Róm, Antíokkíu í Sýrlandi, Eþíópíu og Antíokkíu í Pisidíu — reyndar alls staðar þar sem Gyðingar höfðu sest að. (Postulasagan 2:8-10; 6:5; 8:27; 13:14, 43; samanber Matteus 23:15.) Ólíkt mörgum valdhöfum Gyðinga voru trúskiptingar yfirleitt ekki hrokafullir og þeir gátu ekki stært sig af því að þeir væru komnir af Abraham. (Matteus 3:9; Jóhannes 8:33) Þeir höfðu snúið baki við heiðnum guðum, snúið sér auðmjúkir til Jehóva og aflað sér einhverrar þekkingar á honum og lögum hans. Og þeir höfðu sömu vonir og Gyðingar um væntanlegan Messías. Þeir höfðu þegar sýnt vilja til að taka stefnubreytingu í leit sinni að sannleikanum, og margir þeirra voru fúsir til að gera enn meiri breytingar og taka við því sem Páll postuli prédikaði. (Postulasagan 13:42, 43) Þegar trúskiptingur, sem hafði einu sinni tilbeðið heiðna guði, snerist til kristni var hann í sérlega góðri aðstöðu til að vitna fyrir öðrum sem tilbáðu enn þessa guði.
8, 9. (a) Hvaða annar hópur af þjóðunum laðaðist að trú Gyðinga? (b) Hvernig brugðust margir guðhræddir, óumskornir menn við fagnaðarerindinu?
8 Auk umskorinna trúskiptinga löðuðust aðrir menn, sem ekki voru Gyðingar, að trú þeirra. Kornelíus var sá fyrsti þeirra, sem gerðist kristinn, en hann var „trúmaður og dýrkaði Guð“ þótt ekki væri hann trúskiptingur. (Postulasagan 10:2) Prófessor F. F. Bruce segir í skýringum sínum við Postulasöguna: „Slíkir heiðingjar eru yfirleitt kallaðir ‚guðhræddir menn‘ sem er viðeigandi heiti þótt það sé ekki fræðiheiti. Margir heiðingjar á þeim tíma löðuðust að hinni auðskildu eingyðistrú sem stunduð var í samkundum Gyðinga og þeim siðferðisreglum sem þeir lifðu eftir, þótt þeir væru ekki tilbúnir til að snúast að fullu til gyðingdómsins (umskurnarkrafan var karlmönnum sérstakur þyrnir í augum). Sumir þeirra sóttu samkunduna og urðu nokkuð vel að sér í bænagerð og ritningargreinum sem þeir heyrðu lesnar í grískri útgáfu.“
9 Páll postuli hitti fyrir marga guðhrædda menn þegar hann prédikaði í samkunduhúsunum í Litlu-Asíu og Grikklandi. Í Antíokkíu í Pisidíu ávarpaði hann samkundugesti með orðunum: „Ísraelsmenn og aðrir þér, sem óttist Guð.“ (Postulasagan 13:16, 26) Lúkas skrifar að eftir að Páll hafði prédikað þrjá hvíldardaga í samkunduhúsinu í Þessaloníku hafi ‚nokkrir Gyðinganna látið sannfærast (orðið kristnir) og gengið til fylgis við Pál og Sílas, og auk þess mikill fjöldi guðrækinna Grikkja og mikilsháttar konur eigi allfáar.‘ (Postulasagan 17:4) Trúlega voru sumir Grikkjanna óumskornir menn sem óttuðust Guð. Ýmislegt bendir til að margir slíkir af þjóðunum hafi umgengist samfélög Gyðinga.
Prédikað meðal ‚vantrúaðra‘
10. Hvernig prédikaði Páll fyrir heiðingjum sem þekktu ekkert til Ritningarinnar, og með hvaða árangri?
10 Í kristnu Grísku ritningunum er orðið „vantrúaður“ stundum notað um fólk almennt utan kristna safnaðarins. Oft er það notað um heiðingja. (Rómverjabréfið 15:31; 1. Korintubréf 14:22, 23; 2. Korintubréf 4:4; 6:14) Margt vantrúaðra manna í Aþenu var menntað í grískri heimspeki og hafði alls enga þekkingu á Ritningunni. Veigraði Páll sér við að vitna fyrir þeim? Nei, en hann lagaði boðunaraðferð sína að þeim. Hann kom biblíuhugmyndum listilega á framfæri án þess að vitna beint í Hebresku ritningarnar sem Aþeningar þekktu ekkert til. Hann sýndi snilldarlega fram á að sumt væri líkt með sannleika Biblíunnar og vissum hugmyndum fornra stóuskálda. Og hann kom á framfæri hugmyndinni um einn sannan Guð alls mannkyns, Guð sem dæmir með réttvísi fyrir atbeina manns er dó og var reistur upp frá dauðum. Þannig prédikaði Páll Krist nærgætnislega fyrir Aþeningum. Og hver var árangurinn? Þótt meirihlutinn gerði beinlínis gys að honum eða væri efagjarn slógust „nokkrir menn . . . í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.“ — Postulasagan 17:18, 21-34.
11. Hvers konar borg var Korinta og hver var árangurinn af prédikun Páls þar?
11 Í Korintu var allstórt gyðingasamfélag þannig að Páll hóf boðunarstarf sitt þar með því að prédika í samkunduhúsinu. En þegar Gyðingar stóðu gegn honum sneri hann sér að heiðingjunum. (Postulasagan 18:1-6) Og hvílíkur mannsöfnuður! Korinta var erilsöm viðskipta- og heimsborg, alræmd um allan hinn grísk-rómverska heim fyrir siðlaust líferni. Meira að segja var til sagnorðið „að korintera“ sem merkti að stunda siðleysi. En eftir að Gyðingar höfðu hafnað prédikun Páls birtist Kristur honum og sagði: „Óttast þú eigi, heldur tala þú . . . því að ég á margt fólk í þessari borg.“ (Postulasagan 18:9, 10) Það fór líka svo að Páll stofnaði söfnuð í Korintu enda þótt líferni sumra safnaðarmanna hefði áður verið „korintískt.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.
Að reyna að bjarga alls konar mönnum nú á dögum
12, 13. (a) Hvað er líkt með starfssvæði okkar og Páls? (b) Hvaða viðhorf sýnum við á svæðum þar sem kristni heimurinn hefur lengi staðið traustum fótum eða þar sem margir eru vonsviknir með stóru trúfélögin?
12 Núna, eins og á fyrstu öld, hefur „náð Guðs . . . opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.“ (Títusarbréfið 2:11) Boðunarsvæði fagnaðarerindisins hefur teygt sig til allra heimsálfa og flestra eyja hafsins. Líkt og á dögum Páls hittum við fyrir alls konar menn. Til dæmis prédika sum okkar í löndum þar sem kirkjur kristna heimsins hafa staðið traustum fótum um aldaraðir. Kannski leggja sóknarbörnin mikið upp úr trúarhefðum líkt og Gyðingar fyrstu aldar. En við leitum fúslega uppi þá sem hafa gott hjartalag og byggjum á þeirri biblíuþekkingu sem þeir kunna að hafa. Við tölum ekki yfirlætislega til þeirra eða fyrirlítum þá, jafnvel þótt trúarleiðtogar þeirra standi stundum gegn okkur og ofsæki okkur. Okkur er ljóst að sumir þessara manna eru kannski „kappsfullir Guðs vegna“ þótt þá skorti nákvæman skilning. Líkt og Jesús og Páll sýnum við fólki ósvikinn kærleika og þráum heitt að það bjargist. — Rómverjabréfið 10:2.
13 Í prédikunarstarfi okkar hittum við marga sem eru vonsviknir með stóru trúfélögin. Engu að síður má vera að þeir óttist Guð, trúi á hann að einhverju marki og reyni að vera heiðarlegir menn. Ættum við ekki að fagna því að hitta fólk, sem hefur einhverja trú á Guð, meðal þessarar rangsnúnu og æ guðlausari kynslóðar? Og finnst okkur ekki gleðilegt að benda því á þá tilbeiðslu sem er ekki flekkuð af hræsni og ósannindum? — Filippíbréfið 2:15.
14, 15. Hvernig hefur opnast stór akur til að prédika fagnaðarerindið?
14 Í dæmisögu sinni um netið sagði Jesús fyrir að prédikað yrði á mjög stóru svæði. (Matteus 13:47-49) Varðturninn útskýrði þessa dæmisögu 1. nóvember 1992 á bls. 25: „Meðlimir kristna heimsins [gegndu] stóru hlutverki í aldanna rás í því að þýða, afrita og dreifa orði Guðs. Kirkjufélög stofnuðu síðar og studdu biblíufélög sem þýddu Biblíuna á þjóðtungur fjarlægra landa. Kirkjurnar sendu líka út af örkinni læknatrúboða og kennara sem bjuggu til hrísgrjónakristna menn. Með þessum hætti var safnað gríðarlega miklu magni af ónothæfum fiski sem hafði ekki velþóknun Guðs. Eigi að síður kom það milljónum manna, sem ekki voru kristnir, í tengsl við Biblíuna og einhvers konar kristni, þótt spillt væri.“
15 Kristna heiminum hefur orðið sérstaklega ágengt í trúboði sínu í Suður-Ameríku, Afríku og sumum eyjum hafsins. Á okkar dögum hefur tekist að finna marga auðmjúka menn á þessum landssvæðum og við getum haldið áfram að láta margt gott af okkur leiða ef við erum jákvæð og kærleiksrík gagnvart slíku auðmjúku fólki eins og Páll var gagnvart þeim sem tóku gyðingatrú. Í hópi þeirra sem þarfnast hjálpar okkar eru líka milljónir manna sem mætti segja að séu „hlynntir“ vottum Jehóva. Þeir eru alltaf ánægðir að hitta okkur þegar við heimsækjum þá. Sumir hafa numið Biblíuna með okkar hjálp og sótt samkomurnar, einkum hina árlegu minningarhátíð um dauða Krists. Eru þeir ekki stór akur til að prédika fagnaðarerindið um ríkið?
16, 17. (a) Við hvers konar fólk komum við fagnaðarerindinu á framfæri? (b) Hvernig líkjum við eftir Páli með því að prédika fyrir mismunandi fólki?
16 Hvað um þá sem koma úr menningarsamfélögum utan kristna heimsins — hvort heldur við hittum þá í heimalandi sínu eða þeir hafa flust til Vesturlanda? Hvað um þær mörgu milljónir sem hafa snúið algerlega baki við trúarbrögðunum og eru trúleysingjar eða efasemdarmenn? Og hvað um þá sem fylgja næstum af trúarhita þeirri nútímaheimspeki eða poppsálfræði sem er útlistuð í fjölda bóka um sjálfshjálp er fást í bókaverslunum? Á að sniðganga eitthvað af þessu fólki, telja að því sé ekki viðbjargandi? Ekki ef við líkjum eftir Páli postula.
17 Þegar Páll prédikaði í Aþenu féll hann ekki í þá gildru að karpa um heimspeki við áheyrendur sína. Hins vegar aðlagaði hann rökfærslu sína því fólki sem hann var að tala við og kom sannindum Biblíunnar skýrt og rökfast á framfæri. Við þurfum ekki heldur að verða sérfræðingar í trú eða heimspeki þeirra sem við prédikum fyrir. Hins vegar lögum við boðunaraðferðir okkar að fólki til að gefa áhrifaríkan vitnisburð, og þannig verðum við „öllum allt.“ (1. Korintubréf 9:22) Páll sagði í bréfi til kristinna manna í Kólossu: „Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina. Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ — Kólossubréfið 4:5, 6.
18. Hvaða ábyrgð hvílir á okkur og hverju ættum við aldrei að gleyma?
18 Við skulum sýna alls konar fólki kærleika líkt og Jesús og Páll postuli. Leggjum okkur sérstaklega fram um að segja öðrum frá fagnaðarerindinu um ríkið. En gleymum aldrei að Jesús sagði um lærisveina sína: „Þeir eru ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Næsta grein fjallar um hvað það merkir fyrir okkur.
Upprifjun
◻ Lýstu öfgalausri afstöðu Jesú til heimsins.
◻ Hvernig prédikaði Páll postuli fyrir Gyðingum og trúskiptingum?
◻ Hvernig kom Páll fagnaðarerindinu á framfæri við guðhrædda menn og vantrúaða?
◻ Hvernig getum við verið „öllum allt“ í prédikunarstarfi okkar?
[Myndir á blaðsíðu 24]
Kristnir menn geta oft eytt fordómum með því að sýna nágrönnum sínum góðvild í verki.