Spurningar frá lesendum
◼ Er rétt að tala um komandi „nýjan heim“?
Eðlilegt er að bera fram þessa spurningu því að gríska orðið kosmos, oft þýtt „heimur,“ hefur grunnmerkinguna mannkyn, og Guð ætlar ekki að mynda nýjan kynstofn manna. Auk þess finnum við ekki í Biblíunni orðatiltækið kainos kosmos (bókstaflega „nýr heimur“).
Biblían notar orðið kosmos þó þannig að kristnum manni er fullkomlega heimilt að tala um „nýjan heim“ í merkingunni paradís endurreist á jörð. Orðabókin The New International Dictionary of New Testament Theology segir: ‚Nafnorðið kosmos merkti upphaflega bygging, þó einkanlega merki það reglu.‘ Orðabókin bætir því við að orðið hafi ýmsar sérstakar merkingar svo sem „skraut og skart,“ „stjórnun lífsins í mannlegu samfélagi“ og „íbúar jarðar, mannkynið.“
Í kristnu Grísku ritningunum er kosmos oft notað um allt mannkynið. Við lesum til dæmis að ‚allir hafi syndgað [það er að segja allir ófullkomnir afkomendur Adams] og skorti Guðs dýrð.‘ (Rómverjabréfið 3:19, 23) Einnig segir að „svo elskaði Guð heiminn [kosmos], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir . . . hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Já, fórn Krists stendur til reiðu öllum mönnum sem iðka trú.
Ef Biblían notaði kosmos eingöngu í þessari merkingu væri rangt að tala um komandi „nýjan heim.“ Hvers vegna? Vegna þess að sumir menn munu lifa af hina komandi miklu þrengingu. Þeir fá síðan tækifæri til að lifa í endurreistri paradís. Guð mun því ekki skapa nýtt mannkyn, nýjan mannheim. En Biblían notar kosmos ekki aðeins í merkingunni allt mannkyn.
Stundum táknar gríska orðið til dæmis alla menn sem eru fjarlægir Guði. Hebreabréfið 11:7 segir að ‚fyrir trú hafi Nói dæmt heiminn [kosmos].‘ Augljóslega dæmdi hann ekki heiminn til síðasta manns, allt mannkynið, því að Nói og sjö af fjölskyldu hans lifðu af flóðið. Jesús bað líka: „Ég bið ekki fyrir heiminum [kosmos], heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér . . . heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ — Jóhannes 17:9, 14; samanber 2. Pétursbréf 2:5; 3:6.
Við skulum nú beina athygli okkar að annarri merkingu sem orðið kosmos hefur í Biblíunni. Hér er átt við innviði, reglu eða athafnasvæði mannlegs lífs.a Við rekumst á slíka notkun orðsins í spurningu Jesú: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn [kosmos] og fyrirgjöra sálu sinni?“ (Matteus 16:26) Ljóst er að Kristur var ekki að tala um að ‚eignast allan mannheiminn‘ og ekki ‚heim manna fjarlægan Guði.‘ Það var ekki mannkynið sem efnishyggjumaður gæti eignast, heldur það sem fólk á, gerir eða kemur í kring. Hið sama má segja um orð Páls þess efnis að þeir sem giftir eru ‚beri fyrir brjósti það sem heimsins er.‘ Kristinn maður ætti ekki heldur að ‚nota heiminn til fulls.‘ — 1. Korintubréf 7:31-33.
Í þessum skilningi er kosmos líkrar merkingar og gríska orðið aion sem þýða má „heimskerfi“ eða „öld.“ (Sjá Aid to Bible Understanding, bls. 1671-4.) Í sumum tilvikum má nánast nota orðin tvö jöfnum höndum. Lítum á tvö dæmi þar sem kosmos og aion eru líkrar merkingar: (1) Páll skrifaði að Demas hefði yfirgefið hann „vegna þess að hann elskaði þennan heim [aion].“ Jóhannes postuli varaði menn hins vegar við því að ‚elska heiminn [kosmos]‘ þaðan sem komin er „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti.“ (2. Tímóteusarbréf 4:10; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) (2) Jóhannes 12:31 talar um „höfðingja þessa heims [kosmos]“ sem 2. Korintubréf 4:4 kallar „guð þessarar aldar [aion].“
Því má bæði nota orðið kosmos, „heimur,“ um allt mannkynið og umgjörð mannlegs athafnasviðs. Þar af leiðandi er bæði viðeigandi og rétt að tala um komandi nýja heimsskipan eða nýjan heim. Það verður ný umgjörð, nýir innviðir, ný heimsskipan eða athafnasvið manna. Flestir búendur endurreistrar paradísar á jörð munu hafa lifað í hinni gömlu heimsskipan. Þeir hafa lifað af endalok hennar eða fengið upprisu. Þeir verða sama mannkyn sem áður var. Þá verður hins vegar horfinn sá mannheimur, sem er fjarlægur Guði, og gengið í garð nýtt fyrirkomulag eða heimsskipan byggð á opinberuðum vilja Guðs, og hin endurreista paradís verður nýr heimur.
[Neðanmáls]
a Ofangreind orðabók bendir á að jafnvel á venjulegri Forngrísku sé „kosmos grunnorð fyrir heimsskipanina, heimskerfið.“