Sjónarmið Biblíunnar
Hve þýðingarmikið er árið 2000?
Flestir tengja alls enga trúarlega merkingu við árið 2000. Reyndar hafa gyðingar, múslímar og hindúar eigið trúarlegt almanak sem ber ekki saman við almanak Vesturlanda. Trúarlegar og hefðbundnar dagsetningar Kínverja byggjast á tunglalmanaki. Milljarðar nútímamanna, kannski meirihluti jarðarbúa, eigna því árinu 2000 enga sérstaka merkingu.a
Engu að síður bíða margir óþreyjufullir, sérstaklega í vestrænum löndum, eftir að þriðja árþúsundin renni upp samkvæmt gregoríanska tímatalinu. Hjá sumum er það ekki aðeins forvitni sem býr að baki. Þeir líta svo á að árið 2000 marki upphaf nýrra tíma, að það sé tímamót í sögunni. Margir sem játa trú á Biblíuna tengja uppfyllingu spádóma hennar við árið 2000. Sumir vænta andlegrar opinberunar í stórum stíl. Aðrir óttast náttúruhamfarir — heimsendi. Gefur Biblían einhverja forsendu fyrir slíkum væntingum?
Tímavörðurinn Jehóva
Guð Biblíunnar er kallaður „hinn aldraði.“ (Daníel 7:9) Hann stjórnar tímanum með fullkominni nákvæmni eins og sést af starfsemi sköpunarverks hans, allt frá gangi reikistjarnanna til hreyfinga öreindanna. Hann hefur eigin tímaáætlun sem hann fylgir nákvæmlega. Biblían segir: ‚Hann hefur ákveðið setta tíma og mörk bólstaða manna.‘ (Postulasagan 17:26) Jehóva er nákvæmur tímavörður.
Þess vegna leggur Biblían sérstaka áherslu á tímatal. Hún segir samfellda sögu sem gefur okkur kost á að telja tímann nákvæmlega aftur til upphafs mannkynssögunnar. Slíkur útreikningur gefur til kynna að Guð hafi skapað Adam árið 4026 f.o.t. Hér um bil 2000 árum seinna fæddist Abraham. Og enn liðu 2000 ár þar til Jesús fæddist.
Sumir sem rannsaka tímatal Biblíunnar hafa sett fram órökstuddar formúlur sem benda á ákveðnar dagsetningar í framtíðinni. Til dæmis spá sumir geigvænlegum atburði þegar liðin eru 2000 ár frá fæðingu Jesú og byggja spá sína á hinum tveim samfelldu 2000 ára tímabilum frá Adam til Abrahams og frá Abraham til Jesú. Þetta er aðeins ein margra tímaformúlna sem eru sagðar byggjast á tímatali Biblíunnar.
Að vísu talar Biblían um þann tíma þegar Jehóva Guð grípur inn í mál manna með því að fjarlægja illskuna og innleiða nýjan heim. Biblíuspádómar tala um „tíð endalokanna,“ ‚endalok veraldar,‘ ‚síðustu daga‘ og ‚dag Jehóva.‘ (Daníel 8:17; Matteus 24:3; 2. Tímóteusarbréf 3:1; 2. Pétursbréf 3:12) En ‚endalokin,‘ sem spáð er í Biblíunni, tengjast ekki árinu 2000 á nokkurn hátt. Það er ekkert í Ritningunni sem tengir sérstaka merkingu við endi annarrar árþúsundarinnar eins og hún er reiknuð út í gregoríanska tímatalinu.
„Hvenær verður þetta?“
Postular Jesú sýndu mikinn áhuga á tímaáætlun Guðs þegar þeir spurðu hann: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) Margir nú á dögum eru álíka forvitnir um framtíðina. Það er eðlilegt að hafa mikinn áhuga á svo þýðingarmiklum spádómum Biblíunnar og uppfyllingartíma þeirra. En það er samt skynsamlegt að viðurkenna og virða afstöðu Guðs til málsins.
Fyrir milligöngu sonar síns hefur Jehóva opinberað tilgang sinn og gefið afdráttarlaust svar í þessu máli. Skömmu fyrir burtför Jesú til himna spurðu lærisveinarnir hann aftur hvenær loforð Guðs myndu uppfyllast. Jesús svaraði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.“ (Postulasagan 1:7) Áður hafði hann sagt lærisveinunum: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ — Matteus 24:36.
Það er því greinilegt að það er ekki á valdi manna að „vita tíma eða tíðir,“ sérstaklega þegar kemur að framtíðaruppfyllingu spádóma Biblíunnar. Guð hefur kosið að upplýsa okkur ekki um slíkt. (Matteus 24:22-44) Getum við á einhvern hátt haft áhrif á tilgang Guðs með því að ráða fram úr ‚þeim degi og stund‘ á eigin spýtur, gegn vilja hans? Það er auðvitað ekki hægt. (4. Mósebók 23:19; Rómverjabréfið 11:33, 34) Biblían segir: „Ráð [Jehóva] stendur stöðugt um aldur.“ (Sálmur 33:11) Þar sem hann er almáttugur Guð nær allt fram að ganga sem hann ætlar sér. — Jesaja 55:8-11.
Enda þótt Guð hafi vald til að halda vitneskjunni um ‚tíma og tíðir á sjálf síns valdi,‘ reyna margir samt að geta sér til um tímann. Sumir verða sjálfskipaðir dómsspámenn. Af þessari ástæðu gaf Páll postuli Þessaloníkumönnum ákveðna tilsögn um hættuna samfara því að hlusta á þá sem velta sér upp úr ártölum. Hann skrifaði: „[Vér] biðjum . . . yður, bræður, að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur [Jehóva] væri þegar fyrir höndum. Látið engan villa yður á nokkurn hátt.“ — 2. Þessaloníkubréf 2:1-3.
Vottar Jehóva trúa því staðfastlega að tilgangur Guðs með framtíðina fullnist örugglega á fyrirfram ákveðnum tíma hans, nákvæmlega á þeim degi og stund sem hann hefur tiltekið. (Habakkuk 2:3; 2. Pétursbréf 3:9, 10) Og við trúum því að þessir atburðir eigi sér stað í mjög náinni framtíð. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) En við reynum hvorki að giska á tímann né styðjum þær kenningar sem margfaldast nú á dögum.b Hvorki árið 2000 né 2001 né nokkur annar tímapunktur, sem menn hafa sett, hefur nokkur tengsl við tímaáætlun Jehóva.
[Neðanmáls]
a Fræðilega séð byrjar hin svokallaða þriðja árþúsund 1. janúar 2001. Fyrsta árþúsundin byrjaði ekki á árinu núll heldur á árinu 1. En almenningur tengir orðalagið „þriðja árþúsundin“ við árið 2000. Þessi grein beinir athyglinni að almennum eftirvæntingum í sambandi við árið 2000.
b Varðturninn 1. október 1997 sagði á bls. 30: „Vottum Jehóva hefur verið mikið í mun að vita hvenær dagur Jehóva komi. Í ákefð sinni hafa þeir stundum reynt að giska á hvenær það yrði. En þá hafa þeir ekki sinnt varnaðarorðum meistara síns, frekar en lærisveinar hans á fyrstu öld, um að ‚þann dag eða stund viti enginn.‘ (Markús 13:32, 33) Spottarar hafa gert gys að trúföstum kristnum mönnum fyrir ótímabærar væntingar þeirra. (2. Pétursbréf 3:3, 4) En dagur Jehóva mun koma eftir stundaskrá hans eins og Pétur staðfestir.“