Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g98 8.7. bls. 26-28
  • Er Biblían á móti menntun?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Er Biblían á móti menntun?
  • Vaknið! – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Menntun á fyrstu öld
  • Að meta málið vandlega
  • Persónulegt val
  • Hvernig líta vottar Jehóva á menntun?
    Spurningar og svör um Votta Jehóva
  • Menntun — notaðu hana til að lofa Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Menntun sem hefur tilgang
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Hvernig vottar Jehóva líta á menntun
    Vottar Jehóva og menntun
Sjá meira
Vaknið! – 1998
g98 8.7. bls. 26-28

Sjónarmið Biblíunnar

Er Biblían á móti menntun?

„AÐEINS FÁVITINN FYRIRLÍTUR MENNTUN.“ — Públílíus Sýrus, Moral Sayings, á fyrstu öld f.o.t.

BIBLÍAN hvetur okkur til að ‚varðveita visku og gætni.‘ (Orðskviðirnir 3:21) Jehóva, Guð þekkingar, vill að tilbiðjendur sínir séu menntaðir. (1. Samúelsbók 2:3; Orðskviðirnir 1:5, 22) En sumar yfirlýsingar Biblíunnar gætu vakið upp spurningar. Þegar Páll postuli minntist til dæmis á fyrri iðju sína, þar á meðal æðri menntun, skrifaði hann: „Ég . . . met það sem sorp.“ (Filippíbréfið 3:3-8) Í öðru innblásnu bréfi fullyrti hann: „Speki þessa heims er heimska hjá Guði.“ — 1. Korintubréf 3:19.

Er Biblían þá á móti menntun? Hve langt ætti kristinn maður að ganga í að afla sér veraldlegrar menntunar? Er nóg að hljóta lögboðna lágmarksmenntun eða ætti að afla sér viðbótarmenntunar?

Menntun á fyrstu öld

Kristnir menn á fyrstu öld höfðu hlotið ólíka menntun. Sumir framámenn litu á Pétur og Jóhannes, postulana frá Galíleu, sem ‚ólærða leikmenn.‘ (Postulasagan 4:5, 6, 13) Merkti það að þessir tveir menn væru ólæsir, óskrifandi og ómenntaðir? Nei, það merkti einfaldlega að þeir höfðu ekki hlotið menntun við æðri menntastofnanir Hebrea í Jerúsalem. Rit þessara tveggja, djörfu málsvara kristinnar trúar sýndu seinna að þeir voru vel menntaðir, gáfaðir og færir um að útskýra Ritninguna á auðskilinn hátt. Meðal annars höfðu þeir fengið hagnýta fræðslu um að sjá fjölskyldum sínum farborða. Þeir stunduðu útgerð saman sem var greinilega arðbær. — Markús 1:16-21; Lúkas 5:7, 10.

En Lúkas, lærisveinninn sem skrifaði eitt guðspjallanna og Postulasöguna, fékk meiri menntun en þeir. Hann var læknir. (Kólossubréfið 4:14) Lækniskunnátta hans gefur innblásnum ritum hans auðkennandi blæ. — Sjá Lúkas 4:38; 5:12; Postulasöguna 28:8.

Áður en Páll postuli varð kristinn var hann fræddur í lögmáli Gyðinga undir handleiðslu eins snjallasta fræðimanns þess tíma, Gamalíels. (Postulasagan 22:3) Menntun Páls er sambærileg háskólamenntun nútímans. Enn fremur var það talið virðingarvert í gyðinglegu samfélagi að ungt fólk lærði einhverja iðn jafnvel þótt það myndi afla sér æðri menntunar síðar. Páll var greinilega þjálfaður í tjaldgerð þegar hann var ungur piltur. Slík kunnátta gerði honum kleift að sjá fyrir sér sem boðberi í fullu starfi.

Samt sem áður viðurkenndi Páll að í samanburði við framúrskarandi gildi þekkingarinnar á Guði hefði veraldleg menntun — þótt nauðsynleg væri — takmarkað gildi. Þess vegna leggur Biblían mesta áherslu á að menn afli sér þekkingar á Guði og Kristi. Það er gott fyrir kristna menn nútímans að tileinka sér þetta raunsæja viðhorf til veraldlegrar menntunar. — Orðskviðirnir 2:1-5; Jóhannes 17:3; Kólossubréfið 2:3.

Að meta málið vandlega

Sumir kristnir menn hafa komist að raun um að bókleg eða verkleg viðbótarmenntun hefur hjálpað þeim að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Það er rétt að sjá fyrir fjölskyldunni af því að það er heilög skylda að ‚sjá fyrir heimilismönnum sínum.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Það er hagnýt viska að afla sér þeirrar kunnáttu sem til þarf.

En þeim sem finnst þeir þurfi meira en grunnmenntun til að ná þessu markmiði ættu að meta bæði kosti þess og galla. Hugsanlegir kostir eru meðal annars að geta fengið vinnu sem gerir manni kleift að sjá sómasamlega fyrir sér og sínum og sinna boðunarstarfinu af kappi. Þar að auki er maður kannski fær um að aðstoða aðra efnislega og hefur þannig „eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.“ — Efesusbréfið 4:28.

Hverjir eru hugsanlegir gallar? Til dæmis að menn komist í snertingu við kenningar sem grafa undan trú á Guð og Biblíuna. Páll ráðlagði kristnum mönnum að vera á verði gagnvart ‚hinni rangnefndu þekkingu‘ og „heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:20, 21; Kólossubréfið 2:8) Viss menntun getur óneitanlega verið skaðleg fyrir trú kristins manns. Þeir sem eru að íhuga viðbótarþjálfun eða nám ættu að vera meðvitaðir um hættuna á þessum skaðlegu áhrifum.

Móse, sem „var fræddur í allri speki Egypta,“ viðhélt sterkri trú þrátt fyrir að sú menntun sem hann hlaut fæli vafalaust í sér fjölgyðistrúarkenningar sem vanvirtu Guð. (Postulasagan 7:22) Kristnir menn nú á dögum gæta sín sömuleiðis að láta ekki undan óheilnæmum áhrifum þess umhverfis sem þeir eru í.

Önnur hugsanleg hætta, sem fylgir því að afla sér viðbótarmenntunar, er sú að þekking blæs menn upp eða elur með þeim hroka. (1. Korintubréf 8:1) Margir leggja stund á nám í eigingjörnum tilgangi. Einlæg þekkingaröflun getur jafnvel látið mönnum finnast þeir yfir aðra hafnir og gert þá stæriláta. Slík viðhorf eru Guði vanþóknanleg. — Orðskviðirnir 8:13.

Líttu á faríseana sem dæmi. Meðlimir þessa áberandi sértrúarflokks stærðu sig af fræðikunnáttu sinni og ímynduðu réttlæti. Þeir voru vel heima í hinu stóra erfikenningasafni rabbína og litu niður á almenning sem var ekki eins menntaður og þeir, töldu hann fávísan, fyrirlitlegan og jafnvel bölvaðan. (Jóhannes 7:49) Auk þess voru þeir fégjarnir. (Lúkas 16:14) Fordæmi þeirra sýnir að þegar sóst er eftir menntun af röngum hvötum getur hún gert mann stoltan eða fégjarnan. Þegar kristinn maður ákveður hvaða menntunar hann aflar sér og hve mikillar væri því gott fyrir hann að spyrja sig: ‚Hvað gengur mér til?‘

Persónulegt val

Líkt og var á fyrstu öldinni hafa kristnir menn nú á dögum hlotið ólíka menntun. Undir leiðsögn foreldra sinna kann ungt fólk, sem hefur lokið skyldunámi, að velja sér veraldlega viðbótarmenntun. Eins geta fullorðnir, sem vilja auðvelda sér að sjá fyrir fjölskyldunni, litið á slíka viðbótarmenntun sem hagkvæma leið að því marki.a Sum hefðbundin, bókleg menntun leggur áherslu á almenna þekkingu frekar en fag- eða starfskunnáttu. Maður, sem kostað hefur miklum tíma til slíkrar menntunar, kemst kannski að raun um að hann vantar enn kunnáttu sem nýtist á vinnumarkaðinum. Af þessari ástæðu kjósa sumir nám í verslunar-, iðn- eða fjölbrautaskóla til að auðvelda sér að uppfylla raunverulegar kröfur á vinnumarkaðinum.

Slíkar ákvarðanir eru engu að síður persónulegar. Kristnir menn ættu ekki að gagnrýna eða dæma hver annan að þessu leyti. Jakob skrifaði: „Hver ert þú, sem dæmir náungann?“ (Jakobsbréfið 4:12) Ef kristinn maður íhugar að afla sér viðbótarmenntunar væri gott fyrir hann að rannsaka sínar eigin hvatir til að tryggja að eigingjarnir, efnislegir hagsmunir séu ekki driffjöðrin.

Það er greinilegt að Biblían hvetur menn til að hafa öfgalausa afstöðu til menntunar. Kristnir foreldrar viðurkenna hið framúrskarandi gildi andlegrar menntunar sem byggð er á innblásnu orði Guðs og gefa börnum sínum yfirvegaðar ráðleggingar varðandi viðbótarmenntun. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Þeir líta lífið raunsæisaugum og viðurkenna gildi veraldlegrar menntunar til að veita fulltíða börnum sínum nauðsynlega kunnáttu til að sjá fyrir sér og seinna meir fjölskyldu sinni. Þegar kristinn maður ákveður hvort og hve mikillar viðbótarmenntunar ætti að afla sér getur hann tekið skynsamlegar ákvarðanir byggðar á guðrækni, sem „er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

[Neðanmáls]

a Nánari upplýsingar um þetta efni er að finna í Varðturninum 1. apríl 1993 bls. 20-31 og bæklingnum Vottar Jehóva og menntun, gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Innskot á blaðsíðu 27]

„Varðveit þú visku og gætni.“ — Orðskviðirnir 3:21.

[Innskot á blaðsíðu 28]

Þegar kristinn maður íhugar hvort hann ætti að afla sér viðbótarmenntunar væri gott fyrir hann að spyrja sig: ‚Hvað gengur mér til?‘

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila