Deilan um drottinvaldið yfir alheiminum endanlega útkljáð
„[Jehóva] er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.“ — SÁLMUR 110:5.
1, 2. Hvaða atburður ársins 70 kann að hafa vakið efasemdir um að Jehóva færi með drottinvald yfir alheimi en að hverjum var hann þá búinn að beina hylli sinni?
DEILAN um drottinvald skapara himins og jarðar yfir alheimi er mesta deilumál sem menn og englar standa frammi fyrir. Innan tíðar verður þetta deilumál útkljáð í eitt skipti fyrir öll, en um aldaraðir hafa óvinir Jehóva ögrað drottinvaldi hans. Eyðing Jerúsalemborgar árið 70 og musteris hennar, sem vígt var Jehóva, kann að hafa vakið efasemdir um hve víðtækt drottinvald skaparans væri í raun. Eigi að síður var gild ástæða fyrir Jehóva til að ganga ekki fram sem stríðsguð í þágu Ísraels að holdinu á þeim tíma.
2 Hver var sú ástæða? Er þar var komið sögu hafði Jehóva Guð veitt nýrri þjóð hylli sína, andlegum Ísrael, „Ísrael Guðs“ eins og Páll postuli kallar söfnuð Jesú Krists. (Galatabréfið 6:16) Enn sem komið er hefur Jehóva ekki á hinu svonefnda kristna tímabili barist fyrir hinn andlega Ísrael sem stríðsguð á sama hátt og hann barðist fyrir Ísrael að holdinu undir lagasáttmála Móse. Hann leyfði jafnvel að rómverskir hermenn líflétu Jesú Krist á kvalastaur á Hauskúpuhæð að undirlagi Gyðinga. Það var 37 árum fyrir síðari eyðingu Jerúsalem árið 70 fyrir hendi Rómverja.
3, 4. Hvernig hafði Guð sýnt sig vera stríðshetju frá dögum Móse allt til daga Hiskía konungs en hvað má segja um bardaga hans í þágu andlegra Ísraelsmanna og baráttu þeirra?
3 Allt frá dögum spámannsins Móse fram til stjórnartíðar Hískía konungs í Jerúsalem barðist Jehóva Guð með undraverðum hætti fyrir Ísraelsþjóðina og Ísraelsmenn börðust undir hans stjórn með stríðsvopnum. (5. Mósebók 1:30; 3:22; 20:3, 4; Jósúa 10:42) En svo hefur ekki verið í sambandi við hinn andlega Ísrael. Allt frá dauða Jesú Krists fyrir utan Jerúsalem hefur Guð kosið að heyja ekki bókstaflegt stríð fyrir Ísrael Guðs. Af sömu ástæðu hefur hann ekki leyft andlegum Ísraelsmönnum, er mynda kristna söfnuðinn, að berjast með jarðneskum stríðsvopnum. Kristnir menn heyja annars konar hernað.
4 Það var í samræmi við þetta sem einn af fremstu baráttumönnum kristinnar trúar skrifaði kristnum bræðrum sínum í Korintu í Grikklandi: „Vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi. Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist. Og vér erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin.“ (2. Korintubréf 10:4-6) Fyrr í sama bréfi talaði Páll um ‚vopn réttlætisins til sóknar og varnar.‘ — 2. Korintubréf 6:7; sjá einnig Efesusbréfið 6:11-18.
Jehóva berst við Harmagedón
5. Hvaða afstöðu tók Jesús í Getsemanegarðinum til vopnabeitingar í sjálfsvörn og hvaða stefnu tóku lærisveinar hans?
5 Er Jesús Kristur var á jörðinni greip hann aldrei til bókstaflegra vopna í sjálfsvörn. Nóttina sem hann var svikinn í Getsemanegarðinum dró tryggur lærisveinn hans, Símon Pétur, sverð úr slíðrum og hjó af eyra eins af þjónum æðsta prests Gyðinga. En Jesús vann það kraftaverk að græða eyrað á hann aftur og sagði: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla. Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla? Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ (Matteus 26:52-54) Með þessa vitneskju að bakhjarli gæta allir, sem líkja eftir fórnfúsum syni Guðs, hlutleysis gagnvart hernaði þjóðanna, bæði beint og óbeint. — Jóhannes 17:16; 18:36.
6. Hvaða afstöðu munu vottar Jehóva taka í stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda við Harmagedón?
6 Athygli þjóðanna skal aftur vakin á því að í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda,‘ á þeim ‚stað sem á hebresku kallast Harmagedón,‘ munu vottar Jehóva ekki taka þátt í bardaga. Þeir munu eftirláta Guði, sem heyr stríðið, ‚Jehóva hersveitanna‘ og englasveitum hans undir forystu Jesú Krists, að berjast. — Opinberunarbókin 16:14-16; 19:11-21; Sálmur 84:13.
Jehóva mun bráðlega berjast á ný
7. Hvaða titill var Jehóva Guði gefinn og á hann enn þá við?
7 Guð Ísraels til forna var þekktur og ávarpaður sem Jehóva tsevaoð eða Jehóva hersveitanna. (1. Samúelsbók 1:3, 11) Í Rómverjabréfinu 9:29 vísar kristni postulinn Páll í Jesaja 1:9 og skrifar: „Ef Drottinn [Jehóva] hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru.“ Og kristni lærisveinninn Jakob skrifar: „Köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna.“ (Jakobsbréfið 5:4) Páll og Jakob litu því á Guð sem Jehóva hersveitanna á fyrstu öld okkar tímatals. Næstu átján aldir eftir það hefur Guð ekki háð bókstaflegt stríð í þágu hins andlegs Ísraels, Ísraels Guðs, á sama hátt og hann háði fyrir Ísrael fortíðar, en hann er eftir sem áður Jehóva hersveitanna.
8-10. (a) Hver lögheimilaði stríðið á himnum og hvers vegna var Míkael hæfastur til að berjast? (b) Hvernig lyktaði stríðinu á himnum og hve langur tími er eftir fram að stríðinu á hinum mikla degi Jehóva?
8 Við fæðingu Messíasarríkisins árið 1914 og lok ‚heiðingjatímanna‘ braust út stríð á himnesku yfirráðasvæði Jehóva Guðs. (Lúkas 21:24) Hver lögheimilaði það stríð? Jehóva Guð sjálfur. Hann sendi krýndan son sinn fram til bardaga undir nafninu Míkael, því að hann er hæfastur til að svara spurningunni sem fólgin er í því nafni, það er að segja „hver er Guði líkur?“ Míkael gekk skjótt fram til bardaga sem fulltrúi Jehóva hersveitanna.
9 Við lesum þannig í Opinberunarbókinni 12:7-10: „Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum. Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: ‚Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra.‘“
10 Núna, meira en 70 árum eftir að þetta stríð var háð á himnum, er aðeins ‚naumur tími‘ eftir áður en stríðið á hinum mikla degi Jehóva brýst út og Guð opinberar sig núverandi kynslóð manna sem Jehóva hersveitanna. — Opinberunarbókin 12:12; Sakaría 14:3.
Hann berst til að upphefja nafn Jehóva
11. Hvaða tiltekins tíma bíða leifar litlu hjarðarinnar og múgurinn mikli og hvernig munu þeir þá fagna?
11 Vegna innblásturs skrifaði hinn vitri Salómon konungur Ísraels til forna: „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. . . . Ófriður hefir sinn tíma, og friður hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1-8) Á jörðu bíða lærisveinar hins ríkjandi konungs, sem er „meira en Salómon,“ þess tíma er hann leiðir sigursæla engla á himnum fram í bardagann við Harmagedón. (Matteus 12:42; Opinberunarbókin 19:11-16) Þar mun hann ‚stjórna þjóðunum með járnsprota‘ og ‚mola þær með járnsprota.‘ (Opinberunarbókin 19:15; Sálmur 2:9) Hinir friðsömu lærisveinar hans, sem hann verndar, munu reka upp mikið fagnaðaróp er þeir verða frelsaðir með þessum ógnþrungna hætti! Í þeirra hópi verða bæði leifar hinnar ‚litlu hjarðar‘ samerfingjanna að ríkinu og „mikill múgur“ ‚annarra sauða‘ hans sem bera í brjósti von um að erfa paradís á jörð undir þúsund ára friðarstjórn Krists. (Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 7:9-17; Jóhannes 10:16) „Í skugga Hins almáttka“ munu þeir fagna þeim stórkostlega sigri hjarðkonungsins Jesú Krists er hann upphefur drottinvald Jehóva Guðs yfir alheimi. — Sálmur 91:1.
12. Hvaða stríð ógnar þjóðunum og hver munu úrslitin verða samkvæmt Sálmi 68:2, 3?
12 Ýkjulaust má segja að stríð vofi yfir af völdum máttarvalda fjarri mannheimi. Í því verða notuð langtum nákvæmari og markvissari vopn en kjarnorkuvopn þjóðanna og öllum þjóðum jarðar er ógnað, hvort heldur þær eru innan eða utan Sameinuðu þjóðanna. Heyrið: „Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans. Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.“ — Sálmur 68:2, 3.
13. Hvern ávarpar Sálmur 45:2-7 nú er stríðsundirbúningur er hafinn?
13 Undirbúningur þessa mikla lokastríðs er nú hafinn. Hann sem berst fyrir upphafningu nafns Jehóva og er fremstur stríðshetja hans er ávarpaður með eftirfarandi orðum sem Ísraelsmaður færði í letur vegna innblásturs: „Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu. Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd. Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti. Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir. Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.“ — Sálmur 45:2-7.
Þjóðirnar safnast saman gegn Jehóva
14, 15. Hvaða orð úr Sálmi 2 vitnuðu postularnir í eftir að þeim var sleppt úr haldi og um hvað báðu þeir Guð?
14 Skömmu eftir stofnsetningu kristna safnaðarins á hvítasunnudeginum árið 33 gerðu smurðir kristnir menn sér grein fyrir heimfærslu Sálms 2:1, 2. Þar stendur: „Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð? Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn [Jehóva] og hans smurða.“ Eftir að postular hins smurða konungs Jehóva höfðu verið handteknir í fyrsta sinn og misþyrmt af fjandsamlegum Gyðingum fundu þeir aftur kristna bræður sína og vitnuðu í þessi orð 2. sálmsins sem Davíð konungur orti. Postulasagan 4:23-30 lýsir atburðinum svo:
15 „Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað. Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: „Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er, þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð? Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn [Jehóva] og gegn hans Smurða. Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi. Og nú [Jehóva], lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt. Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú.‘“
16, 17. (a) Hefur nokkurn tíma gerst nokkuð í mannkynssögunni er jafnast á við það sem hófst árið 1914? Skýrðu svarið. (b) Hvaða stefnu halda þjóðirnar áfram og hvað er Jehóva Guð þar með nauðbeygður til að skrifa í ‚bókina um bardaga sína‘?
16 En getur nokkuð í mannkynssögunni jafnast á við það sem hófst árið 1914, fyrir 76 árum, að því er varðar geisandi þjóðir, konunga sem rísa upp og stjórnmálaleiðtoga sem safnast saman gegn Jehóva og hans smurða, Jesú Kristi? Það ár braust ekki aðeins út fyrsta heimsstyrjöld í sögu mannkyns heldur lauk þá einnig ‚tímum heiðingjanna.‘ (Lúkas 21:24) Greinilegt er að það ár hófst hin meiriháttar uppfylling 2. sálmsins.
17 Við lok heiðingjatímanna árið 1914 var engin þjóð — ekki einu sinni þjóðir hins svonefnda kristna heims þar sem margir telja sig andlega Ísraelsmenn — tilbúin að bjóða velkominn hinn smurða konung Jehóva, Jesú Krist, í hásæti sem drottnara jarðar. Og núna, 71 ári eftir að byrjað var að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar“ árið 1919, hafa þjóðir jarðar innan sem utan kristna heimsins greinilega ekki í hyggju að hylla konung Jehóva, sverja honum hollustueið og afsala sér völdum yfir jörðinni. (Matteus 24:14) Nei, nú er loks svo komið að Jehóva er nánast tilneyddur að skrifa hinn stórfenglega lokakafla ‚bókarinnar um bardaga Jehóva.‘ — 4. Mósebók 21:14.
Dýrlegur sigur stríðsguðsins
18. Hvaða aðgerðum Jehóva erum við hlynnt og hverjir munu vera hans megin til uppfyllingar Sálmi 110?
18 Sæk því fram til bardaga, Jehóva hersveitanna, með son þinn og konung, Jesú Krist, þér við hlið! Það er hann sem er ávarpaður með spádómsorðunum: „Drottna þú mitt á meðal óvina þinna! [Jehóva] er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar. Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.“ — Sálmur 110:2, 5, 6.
19. Hvers biðjum við í þágu múgsins mikla í tengslum við stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda sem er framundan?
19 Jehóva hersveitanna! Megi trúfastir þjónar þínir á jörðinni lifa og fagna óviðjafnanlegum sigri þínum fyrir milligöngu stríðskonungsins, Jesú Krists, í stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda á þeim stað sem nefndur er á hebresku Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14) Megi múgurinn mikli, sem hefur „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins,“ koma fagnandi út úr „þrengingunni miklu“ ásamt leifum hinna andlegu Ísraelsmanna, og verða jarðneskir vottar þínir um alla eilífð! (Opinberunarbókin 7:14) Megi þeir lifa undir ástríkri verndarhendi þinni inn í nýjan heim þar sem aldrei verður stríð, þar sem sigursæll sonur þinn stjórnar yfir hreinsaðri jörð er breytt verður í fagra paradís samkvæmt upphaflegum tilgangi þínum. Megi þeir verða sýnilegur vitnisburður öllum þeim sem rísa upp frá dauðum um það drottinvald sem þú ferð réttilega með yfir öllum alheimi! Við þökkum þér að þú munt á þeim tíma hafa útkljáð deilumálið um drottinvaldið yfir alheiminum í eitt skipti fyrir öll, að eilífu!
Manst þú?
◻ Hvert er mesta deilumál sem menn og englar standa frammi fyrir?
◻ Hvað er ólíkt með baráttu Jehóva fyrir Forn-Ísrael og hinum andlega Ísrael?
◻ Hvaða afstöðu munu vottar Jehóva taka og hvers vegna í stríðinu við Harmagedón?
◻ Hvenær hlaut Sálmur 2:1, 2 aðaluppfyllingu sína?
◻ Hvernig verður alheimsdeilumálið útkljáð í eitt skipti fyrir öll?
[Mynd á blaðsíðu 14, 15]
‚Múgurinn mikli‘ mun hylla hinn sigursæla konung Guðs og hirði.