Að leysa vandamál í friði
OFBELDI er næstum jafngamalt mannkyninu. Biblían rekur sögu ofbeldis allt aftur til Kains, bróður Abels og elsta sonar fyrstu mannhjónanna. Þegar Guði geðjaðist betur að fórn Abels en Kains „reiddist Kain ákaflega.“ Og hvernig tókst hann á við reiðina? ‚Kain réðst á Abel bróður sinn og drap hann.‘ Á eftir þurfti hann að standa Guði reikningsskap gerða sinna. (1. Mósebók 4:5, 8-12) Kain bætti ekki stöðu sína frammi fyrir skaparanum með því að grípa til ofbeldis.
Hvernig getum við forðast að fara út á braut Kains og reyna að útkljá ágreiningsmál með ofbeldi?
Frá ofbeldi til umburðarlyndis
Lítum á mann sem horfði með velþóknun á morðið á Stefáni, fyrsta kristna píslarvottinum. (Postulasagan 7:58; 8:1) Maðurinn var Sál frá Tarsus. Hann var ósáttur við trúarlega afstöðu Stefáns og studdi morðið á honum. Hann taldi það réttmæta aðferð til að stöðva starf hans. Óvíst er að Sál hafi verið ofbeldismaður á öllum sviðum, en hann taldi greinilega að ofbeldi væri boðleg leið til að leysa vandamál. Strax eftir dauða Stefáns ‚gerði Sál sér allt far um að uppræta kristna söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.‘ — Postulasagan 8:3.
Biblíufræðingurinn Albert Barnes segir að gríska orðið, sem hér er þýtt „uppræta,“ lýsi eyðileggingu villidýra á borð við ljón og úlfa. „Sál fór með miklum ofsa gegn kirkjunni eins og villidýr — notuð eru sterk orð til að lýsa brennandi ákafa hans og grimmilegum ofsóknum,“ segir Barnes. Þegar Sál hélt til Damaskus í þeim tilgangi að smala saman fleiri fylgjendum Krists var hann enn að ‚blása ógnum og manndrápum gegn lærisveinum hans.‘ Á leiðinni ávarpaði hinn upprisni Jesús hann sem varð til þess að hann snerist til kristni. — Postulasagan 9:1-19.
Eftir trúhvarf sitt breytti Sál um háttalag í samskiptum við aðra. Atvik, sem átti sér stað um 16 árum síðar, lýsir breytingunni vel. Hópur fólks kom til heimasafnaðar hans í Antíokkíu og hvatti kristna menn þar til að halda Móselögin. Varð úr „mikil misklíð.“ Sál, sem var þá þekktari undir heitinu Páll, tók afstöðu í deilunni. Greinilegt er að mönnum hitnaði í hamsi. En Páll greip ekki til ofbeldis heldur féllst á þá ákvörðun safnaðarins að skjóta málinu til postulanna og öldunga safnaðarins í Jerúsalem. — Postulasagan 15:1, 2.
Í Jerúsalem varð ‚mikil umræða‘ um málið á fundi öldunganna. Páll beið uns ‚þögn sló á allan hópinn‘ og skýrði þá frá stórfenglegri starfsemi anda Guðs meðal óumskorinna manna sem tekið höfðu trú. Eftir biblíulegar umræður ályktuðu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem „einróma“ að ekki skyldi að óþörfu íþyngja óumskornum mönnum, sem höfðu tekið trú, heldur hvetja þá til að ‚halda sér frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.‘ (Postulasagan 15:3-29) Páll hafði tekið stakkaskiptum. Hann hafði lært að leysa deilumál án ofbeldis.
Að takast á við ofbeldishneigð
„Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði,“ áminnti Páll síðar, „heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum, hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti.“ (2. Tímóteusarbréf 2:24, 25) Hann hvatti Tímóteus, ungan umsjónarmann, til að taka stillilega á málum. Páll var raunsær. Hann vissi að jafnvel kristnum mönnum getur hitnað í hamsi. (Postulasagan 15:37-41) Hann hafði því gilda ástæðu til að ráðleggja: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ (Efesusbréfið 4:26) Réttu viðbrögðin við slíkum tilfinningum eru þau að hafa stjórn á reiðinni og sleppa sér ekki. Hvernig er það hægt?
Það er ekkert auðvelt að hafa hemil á reiði. „Það er í tísku að vera illskeyttur,“ segir læknirinn Deborah Prothrow-Stith, aðstoðardeildarforseti Harvard School of Public Health. „Þeir hæfileikar sem þarf til að umgangast aðra — sáttfýsi, sveigjanleiki, hluttekning og fyrirgefning — eru yfirleitt eignaðir aumingjum.“ En þetta eru karlmannlegir eiginleikar og þeir eru forsendan fyrir því að hægt sé að hafa hemil á ofbeldishneigðinni sem ólgar stundum innra með okkur.
Þegar Páll gerðist kristinn lærði hann betri leið til að bregðast við skoðanaágreiningi. Hún var byggð á kenningum Biblíunnar. Páll var fræðimaður og vel heima í gyðingdóminum og Hebresku ritningunum. Hann hlýtur að hafa þekkt ritningarstaði eins og þessa: „Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans.“ „Sá sem seinn er til reiði, er betri en kappi, og sá sem stjórnar geði sínu, er meiri en sá sem vinnur borgir.“ „Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.“ (Orðskviðirnir 3:31; 16:32; 25:28) En þessi vitneskja hafði ekki komið í veg fyrir að Páll beitti kristna menn ofbeldi áður en hann tók kristna trú. (Galatabréfið 1:13, 14) Hvað hjálpaði honum eftir það til að lægja tilfinningaöldur með rökum og fortölum í stað ofbeldis?
Páll gaf vísbendingu um það þegar hann sagði: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ (1. Korintubréf 11:1) Hann mat mikils það sem Jesús Kristur hafði gert fyrir hann. (1. Tímóteusarbréf 1:13, 14) Kristur var honum fordæmi til eftirbreytni. Hann vissi hvernig Jesús hafði þjáðst fyrir syndugt mannkyn. (Hebreabréfið 2:18; 5:8-10) Páll gat staðfest að spádómur Jesaja um Messías hefði ræst á Jesú: „Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.“ (Jesaja 53:7) Pétur postuli skrifaði: „Hann [Jesús] illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ — 1. Pétursbréf 2:23, 24.
Páll kunni vel að meta hvernig Jesús Kristur brást við togstreitu milli manna og það var honum hvöt til að breyta sér. Hann gat hvatt trúbræður sína: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ (Kólossubréfið 3:13) Það er ekki nóg að viðurkenna að ofbeldi sé rangt. Ef við kunnum að meta það sem Jehóva og Jesús Kristur hafa gert fyrir okkur hjálpar það okkur að hafa nógu sterka hvöt til að sigrast á ofbeldishneigð.
Er það hægt?
Japanskan mann vantaði slíka hvöt. Faðir hans, skapbráður hermaður, drottnaði með harðri hendi yfir fjölskyldu sinni. Maðurinn hafði verið beittur ofbeldi á uppvaxtarárunum, hafði horft upp á það að móðir hans var beitt ofbeldi, og varð svo sjálfur ofbeldishneigður. Hann gekk með tvö mislöng samurai-sverð sem hann mundaði til að leysa ágreiningsmál og ógna fólki.
Þegar konan hans fór að kynna sér Biblíuna fylgdist hann með náminu án þess að taka það alvarlega. En afstaða hans breyttist þegar hann las bækling sem hét „Þessar góðu fréttir um ríkið.“a Hvað kom til? „Ég skammaðist mín þegar ég las efnið undir millifyrirsögnunum ‚Jesús Kristur‘ og ‚Lausnargjaldið,‘“ segir hann. „Þótt ég væri einþykkur vildi ég samt vera vingjarnlegur við þá sem mér féll vel við. Ég naut þess að gleðja vini mína en því aðeins að það hefði ekki áhrif á mitt eigið líf. En sonur Guðs, Jesús, var fús til að láta lífið fyrir mannkynið, þar á meðal mig. Ég var höggdofa, rétt eins og ég hefði verið sleginn með kylfu.“
Hann hætti að umgangast fyrri félaga og lét fljótlega innrita sig í Guðveldisskólann í söfnuði votta Jehóva. Þessi skóli þjálfar nemendur í að kenna öðrum boðskap Biblíunnar. En maðurinn hafði líka annað gagn af þessum skóla. „Þegar ég var ungur,“ segir hann, „beitti ég ógnunum og ofbeldi af því að ég kunni ekki að tjá öðrum tilfinningar mínar. Þegar ég lærði að tjá öðrum hugsanir mínar fór ég að rökræða við fólk í stað þess að beita ofbeldi.“
Hefur hann tileinkað sér lífsveg Krists líkt og Páll gerði? Það reyndi á trú hans þegar fyrrverandi vinur, sem hann hafði gengið í fóstbræðralag við, reyndi að hindra hann í að gerast kristinn. „Vinurinn“ sló hann og lastmælti Guði hans, Jehóva. Ofbeldismaðurinn fyrrverandi hafði stjórn á sér og bað hinn afsökunar á því að hann gæti ekki haldið fóstbræðraeiðinn. „Fóstbróðirinn“ gekk þá vonsvikinn burt.
Með því að sigrast á ofbeldishneigðinni hefur þessi maður, sem var svo reiðigjarn áður, eignast fjölda andlegra bræðra og systra sem eru sameinuð vegna kærleika síns til Guðs og náungans. (Kólossubréfið 3:14) Nú eru liðin meira en 20 ár síðan hann gerðist kristinn og hann þjónar sem farandumsjónarmaður votta Jehóva. Hann hefur ánægju af því að geta vísað í Biblíuna til að sýna fram á að menn með dýrslegt skapferli geti lært að leysa ágreiningsmál sín án ofbeldis eins og hann lærði. Og honum þykir það mikil sérréttindi að geta bent á stórkostlega uppfyllingu spádómsorðanna: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:9.
Þú getur lært að bregðast rétt við ögrun og leysa vandamál friðsamlega, alveg eins og Páll postuli og þessi fyrrverandi ofbeldismaður lærðu. Vottar Jehóva í heimabyggð þinni munu fúslega hjálpa þér til þess.
[Neðanmáls]
a Gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Innskot á blaðsíðu 5]
Páll var raunsær. Hann vissi að jafnvel kristnum mönnum getur hitnað í hamsi.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Þakklæti fyrir það sem Guð hefur gert fyrir okkur stuðlar að friðsamlegum samskiptum.