-
Þiggðu handleiðslu lifanda GuðsVarðturninn – 2004 | 1. ágúst
-
-
4, 5. (a) Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva um blóð fyrir daga kristninnar? (b) Hvernig vitum við að fyrirmæli Guðs um blóð ná til kristinna manna?
4 Hið sama er að segja um leiðsögn Guðs varðandi blóð. Hann sagði Nóa að menn mættu ekki neyta blóðs. Hann opinberaði síðan í lögmálinu að einungis mætti nota blóð á altarinu — til syndafyrirgefningar. Með þessum fyrirmælum var Guð að leggja grundvöllinn að miklu mikilvægari notkun blóðs — að björgun mannslífa með blóði Jesú. (Hebreabréfið 9:14) Já, leiðbeiningar Guðs tóku mið af velferð okkar. Adam Clarke, fræðimaður á 19. öld, skrifaði um 1. Mósebók 9:4: „Þetta boðorð [sem Nóa var gefið] er enn haldið samviskusamlega í austurkirkjunni . . . Ekkert blóð var etið meðan lögmálið var í gildi vegna þess að það vísaði til blóðsins sem átti að úthella fyrir synd heimsins; og þegar fagnaðarerindið tók við átti ekki að eta það því að alltaf átti að líta á það sem tákn blóðsins sem hefur verið úthellt til syndafyrirgefningar.“
5 Þessi fræðimaður mun hafa átt við fagnaðarerindið um Jesú. Í því felst að Guð sendi son sinn til að deyja fyrir okkur, til að úthella blóði sínu svo að við gætum hlotið eilíft líf. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:8, 9) Orð hans ná einnig yfir síðari fyrirmæli þess efnis að fylgjendur Krists ættu að halda sig frá blóði.
6. Hvaða fyrirmæli fengu kristnir menn um blóð og hvers vegna?
6 Guð setti Ísraelsmönnum hundruð reglna eins og þú veist. Eftir að Jesús dó var lærisveinum hans ekki skylt að halda þær allar. (Rómverjabréfið 7:4, 6; Kólossubréfið 2:13, 14, 17; Hebreabréfið 8:6, 13) Síðar vaknaði hins vegar spurning um eitt mikilvægt ákvæði — um umskurn karla. Þurftu þeir sem ekki voru af Gyðingaættum og vildu njóta góðs af blóði Krists að láta umskerast, til merkis um að þeir væru enn undir lögmálinu? Hið stjórnandi ráð kristinna manna tók þetta mál fyrir árið 49. (Postulasagan, 15. kafli) Undir leiðsögn anda Guðs komust postularnir og öldungarnir að þeirri niðurstöðu að umskurnarskyldan hefði fallið úr gildi samtímis lögmálinu. Ýmsar aðrar kröfur Guðs voru eftir sem áður í fullu gildi fyrir kristna menn. Hið stjórnandi ráð sagði í bréfi til safnaðanna: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel.“ — Postulasagan 15:28, 29.
7. Hve mikilvægt er það fyrir kristna menn að ‚halda sig frá blóði‘?
7 Ljóst er að hið stjórnandi ráð áleit það jafnmikilvægt siðferðilega að kristnir menn ‚héldu sig frá blóði‘ eins og frá kynferðislegu siðleysi eða skurðgoðadýrkun. Þetta sannar að bannið við neyslu blóðs er háalvarlegt. Ef kristinn maður dýrkar skurðgoð eða gerist sekur um siðleysi án þess að iðrast mun hann „ekki Guðs ríki erfa“ og „hinn annar dauði“ verður hlutskipti hans. (1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8; 22:15) Taktu eftir andstæðunum: Að virða ekki fyrirmæli Guðs um heilagleika blóðsins getur haft í för með sér eilífan dauða en virðing fyrir fórn Jesú getur leitt til eilífs lífs.
8. Af hverju má sjá að frumkristnir menn tóku fyrirmæli Guðs um blóð alvarlega?
8 Hvernig skildu frumkristnir menn fyrirmæli Guðs um blóð og hvernig fóru þeir eftir þeim? Eins og þú manst sagði Clarke: „Þegar fagnaðarerindið tók við átti ekki að eta það því að alltaf átti að líta á það sem tákn blóðsins sem hefur verið úthellt til syndafyrirgefningar.“ Sagan staðfestir að frumkristnir menn tóku þetta mál alvarlega. Tertúllíanus skrifaði: „Lítið á þá sem taka með græðgisþorsta ferskt blóð óguðlegra glæpamanna á sýningu á leikvanginum . . . og fara með það til að læknast af flogaveiki.“ Tertúllíanus segir að kristnir menn hafi ekki einu sinni neytt „blóðs dýranna við máltíðir [sínar]“, ólíkt heiðnum mönnum sem neyttu blóðs. Hann heldur áfram: „Við réttarhöld yfir kristnum mönnum bjóðið þið þeim blóðpylsur. Þið vitið auðvitað að það er ólöglegt fyrir þá [að neyta þess].“ Já, kristnir menn neyttu ekki blóðs þó að lífið lægi við. Svo alvarlega tóku þeir fyrirmæli Guðs.
9. Hvað annað en að borða ekki blóð beint fólst í ákvæðinu að halda sig frá blóði?
9 Sumir halda kannski að hið stjórnandi ráð hafi einfaldlega átt við að kristnir menn mættu ekki drekka eða borða blóð beint og ekki heldur kjöt af óblóðguðum dýrum eða mat sem blóði var blandað í. Þetta var vissulega aðalatriðið í fyrirmælum Guðs til Nóa. Úrskurður postulanna var sömuleiðis á þá lund að kristnir menn ættu að ‚halda sig frá kjöti af köfnuðum dýrum‘ því að blóðið var enn í því. (1. Mósebók 9:3, 4; Postulasagan 21:25) En frumkristnir menn vissu að það var fleira fólgið í þessu ákvæði. Stundum neyttu menn blóðs í lækningaskyni. Tertúllíanus nefnir að heiðnir menn hafi, sumir hverjir, drukkið ferskt blóð í von um að læknast af flogaveiki. Og blóð kann að hafa verið notað við öðrum sjúkdómum eða til heilsubótar. Kristnir menn neyttu því ekki heldur blóðs „í lækningaskyni“. Þeir létu ekki haggast, jafnvel þó að þeir settu sig í lífshættu með því.
-
-
Spurningar frá lesendumVarðturninn: Spurningar frá lesendum
-
-
Jehóva Guð sagði Nóa, sameiginlegum forföður okkar, að blóð skyldi meðhöndlað sem mjög sérstakt efni. (1. Mósebók 9:3, 4) Síðar gaf hann Ísraelsmönnum lögmál sem bar glöggt vitni um heilagleika blóðsins: „Hver sá af húsi Ísraels og af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem neytir nokkurs blóðs, – gegn þeim manni, sem neytir blóðs, vil ég snúa augliti mínu.“ Ef Ísraelsmaður hafnaði lögum Guðs gat hann spillt öðrum svo að Guð bætti við: „[Ég vil] uppræta hann úr þjóð sinni.“ (3. Mósebók 17:10) Löngu síðar komust postularnir og öldungarnir að þeirri niðurstöðu á fundi í Jerúsalem að kristnir menn yrðu að ,halda sig frá blóði‘. Það var jafnmikilvægt og að halda sig frá siðleysi og skurðgoðadýrkun. – Postulasagan 15:28, 29.
Hvað skyldi það hafa merkt á þeim tíma að ,halda sig frá‘ einhverju? Það merkti að kristnir menn neyttu ekki blóðs, hvort heldur það var ferskt eða storkið, og þeir átu ekki kjöt af skepnu sem ekki hafði verið blóðguð. Það útilokaði matvörur sem blóði var bætt í, svo sem blóðpylsur. Það var brot á lögum Guðs að neyta nokkurs af því tagi. – 1. Samúelsbók 14:32, 33.
-