‚Guð hefur svo elskað okkur‘
„Fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 4:11.
1. Hvers vegna koma milljónir manna saman eftir sólsetur 23. mars í ríkissölum og á öðrum samkomustöðum um heim allan?
EFTIR sólsetur sunnudaginn 23. mars 1997 safnast eflaust saman meira en 13.000.000 manna um heim allan í ríkissölum votta Jehóva og á öðrum samkomustöðum sem þeir nota. Hvers vegna? Vegna þess að mesta kærleiksverk Guðs í þágu mannkyns hefur snert hjörtu þeirra. Jesús Kristur beindi athyglinni að þessu stórfenglega tákni um kærleika Guðs er hann sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.
2. Hvaða spurninga er gagnlegt fyrir alla að spyrja sig um viðbrögð sín við kærleika Guðs?
2 Þegar við hugleiðum kærleikann, sem Guð hefur sýnt, ættum við að spyrja okkur: ‚Kann ég í alvöru að meta það sem Guð hefur gert? Ber líf mitt vitni um að ég sé þakklátur fyrir það?‘
„Guð er kærleikur“
3. (a) Hvers vegna er það ekki óvenjulegt að Guð sýni kærleika? (b) Hvernig birtist máttur og viska í sköpunarverkum hans?
3 Það er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt að Guð skuli sýna kærleika því að „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Kærleikur er aðaleiginleiki hans. Þegar hann var að búa jörðina undir ábúð manna og var að lyfta upp fjöllum og láta vatnið safnast í vötn og höf, var það hrífandi sýning á mætti hans. (1. Mósebók 1:9, 10) Það bar vott um mikla visku þegar Guð setti vatnshringrásina og súrefnishringrásina af stað, þegar hann hannaði ótal örverur og fjölbreyttan gróður til að breyta frumefnum jarðar í efni sem menn gætu notað til lífsviðurværis og þegar hann samstillti lífklukkur okkar sólarhringnum og mánuðinum á reikistjörnunni jörð. (Sálmur 104:24; Jeremía 10:12) En kærleikur Guðs sýnir sig með enn stórkostlegri hætti í sköpunarverkinu.
4. Hvaða tákn um kærleika Guðs ættum við öll að sjá í sköpunarverkinu og kunna að meta?
4 Bragðskynið minnir okkur á kærleika Guðs þegar við bítum í safaríkan, þroskaðan ávöxt sem var augljóslega ekki gerður aðeins til næringar heldur einnig til ánægju. Augu okkar sjá greinileg merki hans í ægifögru sólsetri, stjörnumprýddum himni á heiðskírri nóttu, fjölbreyttu útliti og fögrum litum blómanna, skrípalátum ungdýra og hlýlegu vinarbrosi. Nefið minnir okkur á kærleika Guðs þegar við öndum að okkur sætum ilmi vorblómanna. Eyrun skynja hann þegar við hlustum á fossnið, fuglasöng og rödd ástvinar. Við finnum fyrir honum í faðmlagi ástvinar. Sum dýr hafa skarpari sjón og næmari heyrn og lyktarskyn en menn. En maðurinn, sem er skapaður í Guðs mynd, getur skynjað kærleika hans á þann veg sem ekkert dýr getur. — 1. Mósebók 1:27.
5. Hvernig sýndi Jehóva Adam og Evu ríkulegan kærleika?
5 Þegar Jehóva Guð skapaði fyrstu mennina, Adam og Evu, var kærleikur hans sýnilegur allt umhverfis þau. Hann hafði plantað garð, paradís, og látið alls konar tré vaxa í honum. Hann hafði látið á renna um hann til vökvunar og fyllt hann fögrum fuglum og dýrum. Allt þetta gaf hann Adam og Evu sem heimili. (1. Mósebók 2:8-10, 19) Jehóva kom fram við þau eins og börnin sín. Þau tilheyrðu alheimsfjölskyldu hans. (Lúkas 3:38) Himneskur faðir þeirra gaf þeim Eden sem fyrirmynd og fól þeim það ánægjulega verkefni að stækka paradísina uns hún næði um allan hnöttinn. Afkomendur þeirra áttu að byggja alla jörðina. — 1. Mósebók 1:28.
6. (a) Hvað finnst þér um uppreisnarstefnu Adams og Evu? (b) Hvað gæti bent til að við höfum dregið lærdóm af því sem gerðist í Eden og höfum haft gagn af þeirri þekkingu?
6 En skömmu síðar þurftu Adam og Eva að gangast undir hlýðni- og hollustupróf. Fyrst brást annað þeirra og síðan hitt. Þau kunnu ekki að meta kærleikann sem þeim hafði verið sýndur. Það sem þau gerðu var hneykslanlegt, óafsakanlegt! Afleiðingin varð sú að þau misstu samband sitt við Guð, voru rekin úr fjölskyldu hans og vísað út úr Eden. Við finnum fyrir áhrifunum af synd þeirra enn þann dag í dag. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:1-6, 16-19, 24; Rómverjabréfið 5:12) En höfum við dregið lærdóm af því sem gerðist? Hver eru viðbrögð okkar við kærleika Guðs? Sýna daglegar ákvarðanir okkar að við kunnum að meta kærleika hans? — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
7. Hvernig sýndi Jehóva afkomendum Adams og Evu kærleika, þrátt fyrir það sem þau gerðu?
7 Jafnvel smánarlegt vanþakklæti fyrstu foreldra okkar fyrir allt sem Guð hafði gert fyrir þau kom honum ekki til að halda aftur af kærleika sínum. Vegna meðaumkunar með ófæddu mannkyni — okkur meðtöldum — leyfði Guð Adam og Evu að eignast börn áður en þau dóu. (1. Mósebók 5:1-5; Matteus 5:44, 45) Ekkert okkar hefði fæðst ef hann hefði ekki gert það. Auk þess opinberaði Jehóva vilja sinn jafnt og þétt, og þannig veitti hann von öllum afkomendum Adams sem trúðu. (1. Mósebók 3:15; 22:18; Jesaja 9:6, 7) Ráðstöfun hans fól í sér að menn af öllum þjóðum gætu endurheimt það sem Adam glataði, það er að segja fullkomið líf og aðild að alheimsfjölskyldu Guðs. Það gerði hann með því að sjá fyrir lausnargjaldi.
Hvers vegna lausnargjald?
8. Hvers vegna gat Guð ekki einfaldlega fyrirskipað að hlýðnir afkomendur Adams og Evu lifðu, þótt þau yrðu sjálf að deyja?
8 Var virkilega nauðsynlegt að greiða mannslíf sem lausnargjald? Gat Guð ekki einfaldlega fyrirskipað að Adam og Eva skyldu deyja fyrir uppreisn sína en að allir afkomendur þeirra, sem hlýddu honum, gætu lifað að eilífu? Frá sjónarhóli skammsýnna manna gæti það virst rökrétt. En Jehóva „hefir mætur á réttlæti og rétti.“ (Sálmur 33:5) Adam og Eva eignuðust ekki börn fyrr en eftir að þau syndguðu, þannig að ekkert þessara barna fæddist fullkomið. (Sálmur 51:7) Öll fengu þau syndina í arf og laun syndarinnar er dauði. Hvers konar fordæmi hefði Jehóva sett alheimsfjölskyldu sinni ef hann hefði hunsað það? Hann gat ekki virt réttláta staðla sína að vettugi. Hann virti kröfur réttvísinnar. Enginn gæti nokkurn tíma réttilega fundið að því hvernig Guð tók á málum. — Rómverjabréfið 3:21-23.
9. Hvers konar lausnargjald þurfti samkvæmt réttlætisstaðli Guðs?
9 En hvaða viðeigandi grundvöll var hægt að finna til að frelsa þá afkomendur Adams sem sýndu að þeir elskuðu Jehóva og hlýddu honum? Ef fullkominn maður dæi fórnardauða mætti með réttu láta verðgildi þessa fullkomna lífs breiða yfir syndir þeirra sem viðurkenndu lausnargjaldið í trú. Þar eð synd eins manns, Adams, olli því að allir menn urðu syndarar, gat úthellt blóð annars fullkomins manns, sem var samsvarandi að verðmæti, jafnað vogarskálar réttvísinnar. (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6, NW) En hvar var slíkan mann að finna?
Hve hátt var gjaldið?
10. Hvers vegna gátu afkomendur Adams ekki lagt fram það lausnargjald sem þurfti?
10 Enginn afkomandi syndarans Adams gat lagt fram það sem þurfti til að endurkaupa lífsmöguleikann sem Adam fyrirgerði. „Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann. Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu, ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.“ (Sálmur 49:8-10) Í stað þess að skilja mannkynið eftir án vonar lagði Jehóva sjálfur til lausnargjaldið í miskunn sinni.
11. Með hvaða hætti sá Jehóva fyrir hinu fullkomna mannslífi sem þurfti til að greiða lausnargjaldið?
11 Jehóva sendi ekki engil til jarðar til að holdgast og þykjast síðan deyja með því að afklæðast holdslíkamanum en lifa áfram sem andi. Hann vann kraftaverk sem aðeins Guð, skaparinn, gat upphugsað, og flutti lífskraft og persónueinkenni himnesks sonar í móðurkvið konu af Júdaættkvísl sem hét María Elídóttir. Starfskraftur Guðs, heilagur andi hans, verndaði drenginn meðan hann var að þroskast í móðurkviði, og hann fæddist fullkominn. (Lúkas 1:35; 1. Pétursbréf 2:22) Hann réði yfir því verðmæti sem þurfti til að greiða lausnargjald er fullnægði réttvísi Guðs algerlega. — Hebreabréfið 10:5.
12. (a) Í hvaða skilningi er Jesús ‚eingetinn sonur‘ Guðs? (b) Hvernig sýndi það kærleika Guðs til okkar að hann skyldi senda þennan son sem lausnargjald?
12 Englasynir Jehóva skipta ótal þúsundum. Hverjum þeirra fól hann þetta verkefni? Þeim sem Ritningin kallar „eingetinn son“ hans. (1. Jóhannesarbréf 4:9, Biblían 1912) Þessi nafngift er ekki notuð um hann sem mann heldur til að lýsa því sem hann var áður á himnum. Hann er sá eini sem Jehóva skapaði beint án samvinnu við nokkurn annan. Hann er frumburður allrar sköpunar. Hann er sá sem Guð notaði til að skapa allar aðrar verur. Englarnir eru synir Guðs alveg eins og Adam var sonur Guðs. En Jesú er lýst svo að hann búi yfir „dýrð sem eingetins sonar frá föður.“ Hann er sagður „hallast að brjósti föðurins.“ (Jóhannes 1:14, 18, Biblían 1912) Samband hans við föðurinn er náið, innilegt trúnaðarsamband. Hann ber sama kærleika til mannkynsins og faðir hans. Orðskviðirnir 8:30, 31 lýsa því hvað föðurnum finnst um soninn og syninum um mannkynið: „Ég [Jesús, verkstjóri Jehóva, persónugervingur viskunnar] var yndi hans [Jehóva] dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma . . . og hafði yndi mitt af mannanna börnum.“ Það var þessi hjartfólgni sonur sem Guð sendi til jarðar til að greiða lausnargjaldið. Orð Jesú eru því merkingarþrungin: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn.“ — Jóhannes 3:16.
13, 14. Hvað ætti frásaga Biblíunnar af því þegar Abraham reyndi að fórna Ísak að sýna okkur um það sem Jehóva gerði? (1. Jóhannesarbréf 4:10)
13 Til að hjálpa okkur að skilja þýðingu þessa að einhverju marki sagði Guð Abraham fyrir hér um bil 3890 árum, löngu áður en Jesús kom til jarðar: „Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til.“ (1. Mósebók 22:1, 2) Abraham hlýddi í trú. Settu þig í spor Abrahams. Hvað nú ef þetta hefði verið sonur þinn, einkasonur sem þú elskaðir mjög heitt? Hvernig ætli þér hefði verið innanbrjósts meðan þú varst að kljúfa viðinn fyrir brennifórnina, ferðast nokkrar dagleiðir til Móríalands og leggja son þinn á altarið?
14 Hvers vegna ber umhyggjusamt foreldri slíkar tilfinningar í brjósti? Fyrsta Mósebók 1:27 segir að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Ást okkar og umhyggja endurspegla í mjög takmörkuðum mæli kærleika og umhyggju Jehóva. Guð skarst í leikinn þannig að Abraham þurfti ekki að fórna Ísak í raun og veru. (1. Mósebók 22:12, 13; Hebreabréfið 11:17-19) En þegar Jehóva átti sjálfur í hlut hætti hann ekki á síðustu stundu við að leggja fram lausnargjaldið, enda þótt það væri bæði honum og syni hans dýrt. Það sem Guð gerði kom ekki til af neinni skyldukvöð heldur var það óvenjuleg og óverðskulduð góðvild. Kunnum við fyllilega að meta hana? — Hebreabréfið 2:9.
Það sem lausnargjaldið kemur til leiðar
15. Hvaða áhrif hefur lausnargjaldið á líf manna jafnvel í núverandi heimskerfi?
15 Kærleiksrík ráðstöfun Guðs hefur djúpstæð áhrif á líf þeirra sem taka við henni í trú. Þeir voru áður fráhverfir Guði vegna syndar sinnar. Þeir voru, eins og orð hans segir, ‚óvinveittir í huga sér og vondum verkum.‘ (Kólossubréfið 1:21-23) En þeir ‚urðu sættir við hann með dauða sonar hans.‘ (Rómverjabréfið 5:8-10) Þeir breyttu um lífsstefnu og þáðu fyrirgefninguna sem Guð býður þeim er trúa á fórn Krists, og þeir fá hreina samvisku. — Hebreabréfið 9:14; 1. Pétursbréf 3:21.
16. Hvaða blessun er litlu hjörðinni veitt vegna trúar sinnar á lausnargjaldið?
16 Jehóva hefur sýnt takmörkuðum hópi þeirra, lítilli hjörð, þá óverðskulduðu góðvild að ríkja með syni hans á himnum, í þeim tilgangi að hrinda upphaflegum tilgangi sínum með jörðina í framkvæmd. (Lúkas 12:32) Þeir eru valdir ‚af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð til að vera konungsríki og prestar Guðs okkar og ríkja yfir jörðinni.‘ (Opinberunarbókin 5:9, 10) Páll postuli skrifaði þeim: „Þér [hafið] fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: ‚Abba, faðir!‘ Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists.“ (Rómverjabréfið 8:15-17) Með því að gefa þeim barna- eða sonarrétt er Guð að veita þeim það dýrmæta samband sem Adam glataði, en þessum sonum verða veitt þau viðbótarsérréttindi að þjóna á himnum — sem Adam hafði aldrei. Það er engin furða að Jóhannes postuli skyldi segja: „Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn.“ (1. Jóhannesarbréf 3:1) Guð sýnir þeim ekki aðeins kærleika byggðan á meginreglum (agaʹpe) heldur einnig blíða ástúð (fílíʹa) sem er einkennandi fyrir böndin milli sannra vina. — Jóhannes 16:27.
17. (a) Hvaða tækifæri er öllum sem trúa á lausnargjaldið veitt? (b) Hvað mun ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘ þýða fyrir þá?
17 Jehóva opnar líka öðrum — öllum sem trúa á það örlæti hans að veita mönnum líf fyrir atbeina Jesú Krists — tækifæri til að eignast hið dýrmæta samband sem Adam glataði. Páll postuli útskýrði: „Því að sköpunin [hin mennska sköpun sem er komin af Adam] þráir, að Guðs börn verði opinber [það er að segja bíður þess tíma að það verði fullljóst að synir Guðs, sem eru erfingjar með Kristi að ríkinu á himnum, láti til skarar skríða í þágu mannkyns]. Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum [hún fæddist syndug og átti dauðann í vændum og hafði enga möguleika á að frelsa sjálfa sig], ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von [sem Guð gaf] um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:19-21) Hvað felst í þessu frelsi? Að mennirnir verði frelsaðir úr fjötrum syndar og dauða. Þeir verða fullkomnir í huga og á líkama, paradís verður heimili þeirra og þeir hafa eilífðina til að njóta fullkomleika síns og tjá Jehóva, hinum eina sanna Guði, þakklæti sitt. Og hvernig var öllu þessu komið til leiðar? Með lausnarfórn eingetins sonar Guðs.
18. Hvað gerum við eftir sólsetur 23. mars og hvers vegna?
18 Hinn 14. nísan árið 33 stofnsetti Jesús minningarhátíðina um dauða sinn í loftstofu í Jerúsalem. Árleg minningarhátíð um dauða hans er orðin mikilvægur atburður í lífi allra sannkristinna manna. Jesús fyrirskipaði: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19) Árið 1997 verður minningarhátíðin haldin eftir sólsetur hinn 23. mars (en þá hefst 14. nísan). Ekkert getur gerið þýðingarmeira á þeim degi en að vera viðstaddur minningarhátíðina.
Hvert er svar þitt?
◻ Á hvaða vegu hefur Guð sýnt ríkulegan kærleika sinn til mannkynsins?
◻ Hvers vegna þurfti fullkomið mannslíf til að endurleysa afkomendur Adams?
◻ Hvaða hátt gjald greiddi Jehóva til að endurleysa mannkynið?
◻ Hverju áorkar lausnargjaldið?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Guð gaf eingetinn son sinn.