Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.3. bls. 12-16
  • Börn Guðs eiga dýrðarfrelsi í vændum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Börn Guðs eiga dýrðarfrelsi í vændum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þeir segja: „Kom þú!“
  • Breytingar í tímans rás
  • Margar ástæður til þakklætis
  • Verður þú viðstaddur?
  • Jehóva leiðir marga syni til dýrðar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Hvað þýðir kvöldmáltíð Drottins fyrir þig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Fögnum í voninni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • ‚Ég geri við ykkur sáttmála um ríki‘
    Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.3. bls. 12-16

Börn Guðs eiga dýrðarfrelsi í vændum

„Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, . . . í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:20, 21.

1. Með hverju var fórn Jesú táknuð á friðþægingardeginum?

JEHÓVA gaf eingetinn son sinn sem lausnarfórn er opnaði 144.000 mönnum leiðina til lífs á himnum og öðrum mönnum von um eilíft líf á jörð. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Eins og bent var á í greininni á undan var fórn Jesú í þágu andagetinna kristinna manna táknuð með því er æðstiprestur Ísraels fórnaði nauti sem syndafórn fyrir sjálfan sig, heimili sitt og ættkvísl Leví á hinum árlega friðþægingardegi. Sama dag fórnaði hann geithafri sem syndafórn fyrir alla aðra Ísraelsmenn, líkt og fórn Krists verður mannkyninu í heild til góðs. Lifandi geithafur bar táknrænt burt samansafnaðar syndir þjóðarinnar fyrir liðið ár er hann hvarf út í eyðimörkina.a — 3. Mósebók 16:7-15, 20-22, 26.

2, 3. Hvað merkja orð Páls í Rómverjabréfinu 8:20, 21?

2 Eftir að hafa lýst von þeirra manna sem áttu að verða himneskir „synir Guðs“ sagði Páll postuli: „Sköpunin þráir, að Guðs börn [„synir Guðs“, NW] verði opinber. Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:14, 17, 19-21) Hvað merkja þessi orð?

3 Þegar Adam, forfaðir okkar, var skapaður sem fullkominn maður var hann ‚sonur [eða barn] Guðs.‘ (Lúkas 3:38) Þegar hann syndgaði lenti hann í „ánauð forgengileikans“ og arfleiddi mannkynið að henni. (Rómverjabréfið 5:12) Guð leyfði að menn fæddust undirorpnir „fallvaltleikanum“ vegna arfgengs ófullkomleika síns en veitti von fyrir atbeina ‚sæðisins,‘ Jesú Krists. (1. Mósebók 3:15; 22:18; Galatabréfið 3:16) Opinberunarbókin 21:1-4 talar um þann tíma þegar ‚dauði, harmur, vein og kvöl verður ekki framar til.‘ Þar eð þetta er loforð til „mannanna“ veitir það okkur vissu fyrir því að nýtt jarðneskt mannfélag verður til undir stjórn Guðsríkis þar sem menn fá fulla heilsu á huga og líkama og hljóta eilíft líf sem jarðnesk ‚börn Guðs.‘ Í þúsundáraríki Krists verða hlýðnir menn ‚leystir úr ánauð forgengileikans.‘ Eftir að hafa sýnt Jehóva hollustu í lokaprófi verða þeir að eilífu lausir við erfðasynd og dauða. (Opinberunarbókin 20:7-10) Þá munu jarðarbúar njóta „dýrðarfrelsis Guðs barna.“

Þeir segja: „Kom þú!“

4. Hvað merkir það að ‚fá ókeypis lífsins vatn‘?

4 Mannkyninu er veitt stórkostleg von! Það er engin furða að andagetnir kristnir menn, sem enn eru á jörðinni, skuli taka kostgæfilega forystu í að segja öðrum frá henni. Hinar smurðu leifar verða hluti af „brúði“ lambsins dýrlega, Jesú Krists, og eiga þátt í uppfyllingu þessara spádómsorða: „Andinn og brúðurin segja: ‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinberunarbókin 21:2, 9; 22:1, 2, 17) Það eru fleiri en hinir 144.000 smurðu sem njóta góðs af lausnarfórn Jesú. Andi Guðs starfar áfram fyrir atbeina þeirra sem eftir eru á jörð af brúðarhópnum og segir: „Kom þú.“ Hverjum sem heyrir og þyrstir í réttlætið er boðið að segja: „Kom þú“ og notfæra sér ríkulega hjálpræðisráðstöfun Jehóva.

5. Hverja þykir vottum Jehóva ánægjulegt að hafa sín á meðal?

5 Vottar Jehóva trúa á ráðstöfun Guðs til að veita líf fyrir atbeina Jesú Krists. (Postulasagan 4:12) Þeir fagna því að hafa sín á meðal hjartahreina menn sem þrá að kynnast tilgangi Guðs og gera vilja hans. Ríkissalir þeirra eru opnir öllum sem vilja ‚koma og fá ókeypis lífsins vatn‘ nú á tíma ‚endalokanna.‘ — Daníel 12:4.

Breytingar í tímans rás

6. Hvernig hefur andi Guðs verkað á þjóna hans á ýmsum tímum?

6 Guð hefur ákveðinn tíma til að hrinda fyrirætlunum sínum í framkvæmd og það hefur áhrif á samskipti hans við menn. (Prédikarinn 3:1; Postulasagan 1:7) Enda þótt andi Guðs kæmi yfir þjóna hans fyrir daga kristninnar voru þeir ekki getnir sem andlegir synir hans. En þegar Jesús var á jörð var tíminn kominn fyrir Jehóva til að nota heilagan anda til að geta vígða karla og konur til himneskrar arfleifðar. Og hvað um okkar daga? Þessi sami andi verkar á „aðra sauði“ Jesú en hann vekur ekki með þeim von og þrá eftir lífi á himnum. (Jóhannes 10:16) Guð hefur veitt þeim von um eilíft líf í paradís á jörð og þeir styðja leifar hinna smurðu fagnandi í því að bera vitni á þessum umskiptatíma frá gamla heiminum til hins réttláta, nýja heims Guðs. — 2. Pétursbréf 3:5-13.

7. Hvaða uppskerustarfi unnu Biblíunemendurnir að en hvað vissu þeir um paradís?

7 Guð byrjaði að ‚leiða marga syni til dýrðar‘ með úthellingu heilags anda á hvítasunnunni árið 33, og hann fastsetti greinilega tíma til að ljúka samansöfnun hins andlega ‚Ísraels Guðs‘ sem er alls 144.000 manns. (Hebreabréfið 2:10; Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 7:1-8) Tímaritið Varðturninn byrjaði að tala um uppskerustarf hinna smurðu árið 1879. En Biblíunemendurnir (nú kallaðir vottar Jehóva) vissu líka að Ritningin veitir von um eilíft líf í paradís á jörð. Til dæmis sagði blaðið í júlí 1883: „Þegar Jesús hefur stofnsett ríki sitt, eytt illskunni o.s.frv. verður jörðin paradís . . . og allir sem eru í gröfunum ganga fram á hana. Og með því að hlýða lögum hennar geta þeir lifað eilíflega á henni.“ Með tímanum dró úr uppskeru hinna smurðu og smám saman var farið að safna inn í skipulag Jehóva fólki sem ekki hafði himneska von. Samtímis veitti Guð smurðum þjónum sínum, sem eru endurfæddir kristnir menn, athyglisvert innsæi. — Daníel 12:3; Filippíbréfið 2:15; Opinberunarbókin 14:15, 16.

8. Hvernig þróaðist skilningurinn á jarðneskri von á fyrri helmingi fjórða áratugarins?

8 Menn með jarðneska von hafa einkum tengst kristna söfnuðinum frá 1931. Það ár upplýsti Jehóva leifar andagetinna kristinna manna svo að þær skildu að í 9. kafla Esekíels er talað um þennan jarðneska hóp sem er merktur til björgunar inn í nýjan heim. Árið 1932 var ályktað að Jónadab, félagi Jehús, táknaði þessa sauðumlíku nútímamenn. (2. Konungabók 10:15-17) Árið 1934 kom skýrt fram að „Jónadabar“ ættu að „helga“ sig eða vígjast Guði. Fram til 1935 var álitið að ‚múgurinn mikli‘ væri lægra settur andlegur hópur manna sem ættu að vera „vinkonur“ eða félagar brúðar Krists á himnum. Það ár kom hins vegar fram að þeir væru hinir aðrir sauðir og hefðu jarðneska von. (Opinberunarbókin 7:4-15; 21:2, 9; Sálmur 45:15, 16) Og frá 1935 hafa hinir smurðu verið í fararbroddi við að leita að hjartahreinum mönnum sem þrá að lifa eilíflega í paradís á jörð.

9. Af hverju hættu sumir kristnir menn að neyta brauðsins og vínsins við kvöldmáltíð Drottins eftir 1935?

9 Eftir 1935 hættu sumir kristnir menn að neyta af brauðinu og víninu við kvöldmáltíð Drottins þótt þeir hefðu gert það fram að því. Af hverju? Af því að þeim varð ljóst að þeir hefðu jarðneska von, ekki himneska. Kona, sem lét skírast árið 1930, sagði: „Ég var aldrei sannfærð um að ég hefði himneska von, enda þótt það [að neyta brauðsins og vínsins] væri talið hið rétta, einkum ef maður var kostgæfinn boðberi í fullu starfi. En árið 1935 var okkur sýnt greinilega fram á að verið væri að safna miklum múgi með von um eilíft líf á jörð. Mörg okkar fögnuðu þeim skilningi að við værum hluti af þessum mikla múgi og við hættum að neyta brauðsins og vínsins.“ Kristin rit breyttust jafnvel. Áður höfðu ritin aðallega verið samin með andagetna fylgjendur Jesú í huga. En frá 1935 tóku Varðturninn og önnur rit hins ‚trúa þjóns‘ að miðla andlegri fæðu sem hentaði bæði hinum smurðu og félögum þeirra með jarðneska von. — Matteus 24:45-47.

10. Hvernig er líklegt að valinn sé annar í stað einhvers af hinum smurðu sem gerist ótrúr?

10 Setjum sem svo að einhver hinna smurðu gerðist ótrúr. Yrði annar valinn í hans stað? Páll gaf það sterklega í skyn í umræðu sinni um hið táknræna olíutré. (Rómverjabréfið 11:11-32) Ef skipta þarf um einhvern hinna andagetnu er líklegt að Guð veiti himneska köllun einhverjum sem hefur veitt honum heilaga þjónustu um langt árabil og verið til fyrirmyndar í trúnni. — Samanber Lúkas 22:28, 29; 1. Pétursbréf 1:6, 7.

Margar ástæður til þakklætis

11. Hvað fullvissar Jakobsbréfið 1:17 okkur um óháð von okkar?

11 Hvar sem við þjónum Jehóva í trúfesti fullnægir hann þörfum okkar og réttmætum löngunum. (Sálmur 145:16; Lúkas 1:67-74) Hvort sem við höfum ósvikna himneska von eða eigum í vændum að búa á jörðinni höfum við margar góðar ástæður til að vera Guði þakklát. Hann gerir alltaf það besta fyrir þá sem elska hann. Lærisveinninn Jakob sagði að ‚sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa væri ofan að og kæmi niður frá föður ljósanna,‘ Jehóva Guði. (Jakobsbréfið 1:17) Lítum á dæmi um þessar gjafir og blessanir.

12. Af hverju getum við sagt að Jehóva hafi gefið sérhverjum trúföstum þjóni sínum stórkostlega von?

12 Jehóva hefur veitt sérhverjum trúföstum þjóni sínum stórfenglega von. Hann hefur kallað suma til lífs á himnum. Hann veitti vottum sínum fyrir daga kristninnar stórkostlega von um upprisu til eilífs lífs á jörð. Til dæmis trúði Abraham á upprisu og vænti „þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn“ — hins himneska ríkis sem verður við völd þegar hann fær upprisu til lífs á jörðinni. (Hebreabréfið 11:10, 17-19) Núna, á endalokatímanum, veitir Guð milljónum manna von um eilíft líf í paradís á jörð. (Lúkas 23:43; Jóhannes 17:3) Hver sá sem Jehóva hefur gefið svona stórfenglega von ætti vissulega að vera innilega þakklátur fyrir hana.

13. Hvernig hefur heilagur andi verkað á fólk hans?

13 Jehóva gefur fólki sínu heilagan anda sinn. Kristnir menn, sem veitt er himnesk von, eru smurðir með heilögum anda. (1. Jóhannesarbréf 2:20; 5:1-4, 18) En þjónar Guðs með jarðneska von njóta líka hjálpar og handleiðslu andans. Móse var einn þeirra sem hafði anda Jehóva og eins var um mennina 70 sem skipaðir voru honum til aðstoðar. (4. Mósebók 11:24, 25) Undir áhrifum heilags anda þjónaði Besalel sem úrvalshandverksmaður við gerð tjaldbúðar Ísraels. (2. Mósebók 31:1-11) Andi Guðs kom yfir Gídeon, Jefta, Samson, Davíð, Elía, Elísa og fleiri. Enda þótt þessum mönnum fortíðar verði aldrei veitt himnesk dýrð nutu þeir leiðsagnar og hjálpar heilags anda líkt og aðrir sauðir Jesú nú á tímum. Að hafa anda Guðs þarf því ekki að merkja að við höfum himneska köllun. Engu að síður leiðbeinir andi Jehóva okkur, hjálpar okkur að prédika og vinna önnur verkefni frá honum, veitir okkur kraft umfram hið venjulega og framkallar í okkur ávöxt sinn, kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, hógværð og sjálfstjórn. (Jóhannes 16:13; Postulasagan 1:8; 2. Korintubréf 4:7-10; Galatabréfið 5:22, 23) Ættum við ekki að vera þakklát fyrir þessa rausnarlegu gjöf frá Guði?

14. Hvernig njótum við góðs af þekkingunni og viskunni sem Guð hefur gefið okkur?

14 Þekking og viska eru gjafir Guðs sem við ættum að vera þakklát fyrir, hvort heldur von okkar er himnesk eða jarðnesk. Nákvæm þekking á Jehóva hjálpar okkur að ‚meta þá hluti rétt sem máli skipta‘ og ‚hegða okkur eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ (Filippíbréfið 1:9-11; Kólossubréfið 1:9, 10) Viska frá Guði er okkur til verndar og leiðsagnar í lífinu. (Orðskviðirnir 4:5-7; Prédikarinn 7:12) Sönn þekking og viska er byggð á orði Guðs og þeir fáu, sem eftir eru af hinum smurðu, hrífast sérstaklega af því sem það segir um himneska von þeirra. En kærleikur til orðs Guðs og góður skilningur á því er ekki sú aðferð sem hann notar til að láta okkur vita að við höfum hlotið himneska köllun. Menn eins og Móse og Daníel skrifuðu jafnvel hluta Biblíunnar en upprisa þeirra verður jarðnesk. Hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska fáum við öll andlega fæðu fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ sem Jehóva hefur lagt blessun sína yfir. (Matteus 24:45-47) Við erum öll innilega þakklát fyrir þekkinguna sem við höfum aflað okkur með þeim hætti.

15. Hver er ein mesta gjöf Guðs og hvernig lítur þú á hana?

15 Ein mesta kærleiksgjöf Guðs er lausnarfórn Jesú, og við njótum góðs af henni hvort sem við eigum í vændum að lifa á himni eða jörð. Guð elskaði mannheiminn svo mikið „að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Og kærleikur Jesú kom honum til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Eins og Jóhannes postuli útskýrði er Jesús Kristur „friðþæging fyrir syndir vorar [hinna smurðu] og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Við ættum því öll að vera innilega þakklát fyrir þessa kærleiksráðstöfun til hjálpræðis og eilífs lífs.b

Verður þú viðstaddur?

16. Hvaða merkisatburðar verður minnst eftir sólsetur 11. apríl 1998 og hverjir ættu að vera viðstaddir?

16 Þakklæti fyrir lausnargjaldið, sem Guð gaf í syni sínum, ætti að fá okkur til að vera viðstödd í ríkissalnum eða annars staðar þar sem vottar Jehóva koma saman eftir sólsetur 11. apríl 1998 til að minnast dauða Krists. Þegar Jesús stofnsetti þessa hátíð með trúföstum postulum sínum síðasta kvöldið sem hann lifði á jörð sagði hann: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (Lúkas 22:19, 20; Matteus 26:26-30) Þeir fáu, sem eftir eru af hinum smurðu, neyta af ósýrða brauðinu er táknar syndlausan mannslíkama Jesú, og af óbættu rauðvíninu sem táknar blóðið er hann úthellti að fórn. Engir nema andagetnir kristnir menn ættu að neyta af því vegna þess að engir nema þeir eiga aðild að nýja sáttmálanum og sáttmálanum um ríkið og hafa óyggjandi vitnisburð heilags anda Guðs um himneska von sína. Milljónir annarra verða viðstaddar sem áhorfendur. Þeir eru þakklátir fyrir kærleikann sem Guð og Kristur sýndu með fórninni er gerir eilíft líf mögulegt. — Rómverjabréfið 6:23.

17. Hvað ættum við að muna í sambandi við andasmurningu?

17 Ýmislegt getur gefið sumum þá röngu hugmynd að þeir hafi fengið himneska köllun, til dæmis fyrri trúarskoðanir, sterkar tilfinningar vegna ástvinamissis, þrautir og þrengingar daglegs lífs eða sú tilfinning að maður hafi hlotið einhverja sérstaka blessun frá Jehóva. En við ættum öll að hafa hugfast að Ritningin fyrirskipar okkur ekki að neyta af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni til að sýna þakklæti okkar fyrir lausnarfórn Krists. Og andasmurning ‚er ekki komin undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði,‘ honum er gat Jesú sem andlegan son og leiðir aðeins 144.000 aðra syni til dýrðar. — Rómverjabréfið 9:16; Jesaja 64:7.

18. Hvaða blessun bíður flestra sem þjóna Jehóva nú á dögum?

18 Jehóva gefur yfirgnæfandi meirihluta manna, sem þjóna honum núna á síðustu dögum, von um eilíft líf í paradís á jörð. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Innan skamms fá þeir að njóta þessarar unaðslegu paradísar. Þá munu höfðingjar annast málefni jarðar undir himneskri stjórn. (Sálmur 45:17) Þegar jarðarbúar fara eftir lögum Jehóva Guðs og kynnast vegum hans nánar verður friður. (Jesaja 9:6, 7; Opinberunarbókin 20:12) Það verður nóg að gera við að byggja hús og gera jörðina undirgefna. (Jesaja 65:17-25) Og hugsaðu þér hina ánægjulegu endurfundi þegar látnir ástvinir vakna aftur til lífs! (Jóhannes 5:28, 29) Eftir að lokaprófun hefur farið fram verður öll illska horfin. (Opinberunarbókin 20:7-10) Þaðan í frá verður jörðin að eilífu byggð fullkomnum mönnum sem eru ‚leystir úr ánauð forgengileikans og njóta dýrðarfrelsis Guðs barna.‘

[Neðanmáls]

a Sjá Innsýn í Ritninguna, 1. bindi, bls. 225-6.

b Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. mars 1991, bls. 19-22.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað merkir það að ‚fá ókeypis lífsins vatn‘?

◻ Hvaða ástæður höfum við til að vera Guði þakklát, hvort sem von okkar er himnesk eða jarðnesk?

◻ Hvaða árlega hátíð ættum við öll að vera viðstödd?

◻ Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir flesta þjóna Jehóva?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Milljónir manna eru farnar að ‚fá ókeypis lífsins vatn.‘ Ert þú einn þeirra?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila