Ný mælivídd visku Guðs
„GUÐ sagði til Mósis: eg verð sá, sem eg er. Og hann sagði: svo skaltu segja Ísraelsmönnum: ‚sá sem verður (það sem hann er)‘, hann sendi mig til yðar.“ (2. Mósebók 3:14, Ísl. bi. 1859) Jehóva skýrði fyrir Móse að fram til þessa hefðu jafnvel þjónar hans ekki skilið til fulls hvað fælist í nafni hans. Hann er Guð sem hefur tilgang og kemur vilja sínum alltaf í framkvæmd. Ef kringumstæður kalla á það getur hann breytt um aðferð til að láta tilgang sinn ná fram að ganga. Hann er svo vitur!
Satan gerði sér ekki grein fyrir hvað nafn Guðs fól í sér. Líklega vissi hann af lífsins tré í Edengarðinum. Ef hann hefði leitt Adam og Evu þangað hefði getað virst svo sem Jehóva væri stillt upp við vegg: annaðhvort yrði hann að standa við orð sín um að synd þeirra hefði dauða í för með sér eða standa við orð sín um lífsins tré. (1. Mósebók 2:9; 3:1-6) En Satan varð ekki kápan úr því klæðinu.
Guð lét nú í ljós visku sem andasynir hans höfðu ekki átt von á og hafði ekki birst þeim áður. (Samanber Efesusbréfið 3:10.) Hann gaf yfirlýsingar og lét verða atburði sem myndu í tímans rás sýna með undursamlegum hætti hæfni hans til að láta eilífan tilgang sinn ná fram að ganga, þann tilgang að fylla jörðina hamingjusömum, drottinhollum mönnum sem gætu lifað endalaust í paradís. (1. Mósebók 1:27, 28) Aftur og aftur átti Guð eftir að ónýta tilraunir Satans til að hindra framgang þessa tilgangs.
Heilagur leyndardómur kemur í ljós
Guð lét til skarar skríða strax eftir fyrstu uppreisnina. Hann gekk í dóm yfir hinum seku hjónum og stóð við dauðadóm sinn fyrir óhlýðni. En hvað um það að Adam og Eva gætu etið af lífsins tré? „[Jehóva] Guð sagði: ‚Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!‘ Þá lét [Jehóva] Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden.“ — 1. Mósebók 3:17-23.
Samhliða þessum atburðum gekk Guð einnig fram sem boðberi góðra tíðinda. Hann bar fram fyrsta spádóminn: „Þá sagði [Jehóva] Guð við höggorminn: . . . ‚Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.‘ “ (1. Mósebók 3:14, 15) Öldum síðar sagði Páll postuli: „Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst.“ — Rómverjabréfið 8:20, 21.
Já, þaðan í frá yrði maðurinn í fjötrum erfðadauðans frá Adam og gæti enga björg sér veitt, en Guð lýsti yfir þeim tilgangi sínum að bjarga hlýðnum afkomendum Adams. En á hverju byggðist vonin? Hvernig gat hann bjargað mannkyninu án þess að víkja frá dauðadómi sínum fyrir synd? Það var hin leynda viska Guðs; það var ‚leyndardómurinn sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða.‘ (Kólossubréfið 1:26; 1. Korintubréf 2:7, 8) Enda þótt trúfastir þjónar Guðs til forna skildu ekki þennan leyndardóm höfðu þeir þá von að Guð myndi með einhverjum hætti bjarga þeim. Meira að segja englarnir voru ákafir að fá vitneskju um hvernig Jehóva myndi láta tilgang sinn rætast! (1. Pétursbréf 1:10-12) Skilur þú þennan heilaga leyndardóm?
Keyptir með lausnargjaldi
Í aldanna rás lét Jehóva smám saman í té nánari vitneskju um upphaflegan tilgang sinn. Hann hét hinum trúfasta Abraham að sæðið til blessunar öllum hlýðnum mönnum myndi koma af honum. (1. Mósebók 22:15-18) Jakob fékk að vita að sæðið yrði konungur af ættkvísl Júda. (1. Mósebók 49:10) Þegar hér var komið sögu trúðu guðhræddir menn á upprisu dauðra þótt þeir skildu ekki til fullnustu hvernig hún yrði. (Jobsbók 14:14, 15; Hebreabréfið 11:19) Að síðustu hét Guð Davíð að hinn komandi konungur eða Messías skyldi vera afkomandi hans og ríkja um eilífð. — 2. Samúelsbók 7:16.
Allir spámennirnir bættu við einhverjum upplýsingum til skilnings á hinum heilaga leyndardómi, en menn gátu þó ekki séð heildarmyndina. Að lokum rann upp sú stund að Messías kæmi fram, og þá loksins var hin margþætta viska Guðs mun ljósari. Miðdepill hennar var Jesús Kristur og fullkomið mannslíf hans var það lausnargjald sem greiða þyrfti fyrir mannkynið. Á þeim grundvelli gat allur hinn dýrlegi tilgangur Jehóva náð fram að ganga í gegnum Guðsríki. Skilur þú meginregluna um lausnargjaldið?
Í Rómverjabréfinu 5. og 6. kafla gefur Páll góða skýringu á því. Í Rómverjabréfinu 5:12 skýrir hann hvernig við öll höfum tekið synd og dauða í arf. Síðan sýnir hann fram á hvernig hægt væri með öðru fullkomnu mannslífi að upphefja áhrif einnar syndar hins fullkomna Adams og það að hann fyrirgerði með henni lífi allra afkomenda sinna. Það var líf ‚mannsins Jesú Krists.‘ (Vers 15-21; sjá einnig 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.) Hvernig gat Jesús greitt þetta lausnargjald? Þar eð Jesús var sonur Guðs var hann „heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum.“ (Hebreabréfið 7:26; Lúkas 1:32, 33) Við þurfum ekki að freista þess að skýra getnað og fæðingu Jesú með erfðafræðilegum hætti. Engillinn Gabríel fullvissaði Maríu, móður Jesú, og okkur um að Guði væri ekkert um megn. (Lúkas 1:37) Þótt Jesús væri fæddur af konu, sem var afkomandi Adams, var hann sonur Guðs og í raun og sannleika fullkominn maður. Blóð hans eða líf var langtum verðmætara en blóð þeirra óteljandi dýra sem prestar Ísraels af ætt Arons höfðu fórnað í musterinu í Jerúsalem. Hann var „Guð lamb, sem ber synd heimsins.“ — Jóhannes 1:29; 3:16.
Gat Guð gert þessa ráðstöfun fyrir milligöngu Jesú og jafnframt verið réttvís? Hvað varð um lausnargjaldið ef Guð reisti son sinn upp til lífs á þriðja degi? Páll fullvissar okkur um að Guð sé réttlátur. Taktu eftir röksemdafærslu hans: „[Menn] réttlætast án verðskuldunar af náð hans [Guðs] fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú. Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir, til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.“ (Rómverjabréfið 3:24-26) Hvað merkir þetta? Einfaldlega að Jesús sem fullkominn maður af holdi og blóði hafi dáið sem maður og verði dáinn sem maður að eilífu. Hann dó „í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.“ (Hebreabréfið 7:27) Lausnargjaldið er því fullgilt. Jesús dó í holdinu en var á þriðja degi „lifandi gjörður sem andi.“ — 1. Pétursbréf 3:18, Ísl. bi. 1912.
Nýr sáttmáli og ný sköpun
Nú sjáum við hinn heilaga leyndardóm fullnaðan. Að Jesús skyldi vera trúfastur allt til dauða gerir hann hæfan til að verða æðsti prestur og konungur Jehóva. Með úthelltu blóði sínu fullgildir hann nýjan sáttmála. Þessi nýi sáttmáli þjónar því hlutverki að leiða fram himneska meðkonunga og presta handa Jesú. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 20:4, 6) Þeir mynda nýja þjóð, ‚nýja sköpun,‘ og það er þess vert að eftir því sé tekið! — Galatabréfið 6:15, 16.
Í gegnum Krist Jesú velur Guð ákveðið úrtak úr mannkyninu, bæði karla og konur. Hann getur á lagalegum grundvelli lýst þá réttláta og kallað þá til að vera andlega syni sína. Eftir dauða þeirra reisir Guð þá upp til himna, þegar það er tímabært, og gefur þeim ódauðleika eins og hann gaf Jesú að launum. (1. Pétursbréf 1:3, 4) Hann ber mikið traust til ‚nýrrar sköpunar‘ sinnar og hollustu hennar við sig. Með þessari ráðstöfun gefur hann áhrifamikið svar þeim sem hefur ranglega ákært þá frammi fyrir honum. (Opinberunarbókin 12:10) Þótt þeir séu ódauðlegir með Jesú Kristi munu þeir aldrei verða Jehóva ótrúir. Og enn er ekki allt upptalið.
Jörð sem verður paradís
Kristur Jesús mun, ásamt meðkonungum sínum og prestum, sjá til þess að tilgangur Guðs með manninn og jörðina rætist fullkomlega í þúsundáraríki hans. Jesús mun beita lausnargjaldinu til að reisa upp dána og lyfta upp til fullkomleika trúföstum mönnum úr þeirra hópi og þeim sem lifa af endalok þessa illa heimskerfis. Um leið og þessu fer fram verður jörðinni umbreytt í paradís. Allir sem þá standast síðustu tilraun Satans til að spilla þeim fá að lifa að eilífu sem fullkomnir menn. Satan og illum fylgjendum hans verður tortímt að eilífu. Friður og eining mun ríkja um allt sköpunarverkið til lofs drottinvaldi Jehóva og kærleiksstjórn hans. Bæði englar og menn munu þá hafa sýnt skapara sínum og Guði trúfastan kærleika. — Opinberunarbókin 20. kafli.
Nú skiljum við betur hinn heilaga leyndardóm. Nú sjáum við visku Jehóva sem jafnvel ber af snilldarverkum hans í jurta- og dýraríkinu. Við höfum ærið tilefni til að segja: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans . . . Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.“ — Rómverjabréfið 11:33-36.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Hægt var að upphefja áhrif einnar syndar hins fullkomna Adams. Með hverju? Með öðru fullkomnu mannslífi, lífi Jesú.