Hið kristna fagnaðarár nær hástigi í þúsundáraríkinu
1. Hvað hafa Gyðingar í lýðveldinu Ísrael ekki reynt að taka upp á ný og hvers vegna?
JAFNVEL í lýðveldinu Ísrael (stofnsett 1948) hafa hinir mörgu Gyðingar, sem telja sig bundna lögmáli Móse, ekki tekið upp að nýju að halda hátíðlegt fagnaðarárið. Það yrði auk þess ekki sérlega auðvelt í framkvæmd. Það myndi hafa í för með sér mikla efnahagsörðugleika því að þar kæmi eignarréttur inn í myndina. Lýðveldið Ísrael ræður ekki yfir öllu því landi sem ættkvíslirnar tólf bjuggu í til forna. Þar við bætist að ekkert musteri er til með æðsta presti af ætt Leví og enginn getur sýnt fram á hvaða ættkvísl hann tilheyrir.
2. Hvernig hafa sumir kristnir menn nú þegar byrjað að halda hátíðlegt fagnaðarárið sem fyrirmynd var gefin um í Forn-Ísrael?
2 En hvar stöndum við gagnvart blessun fagnaðarársins? Við munum að hið forna fagnaðarár var veislu- og frelsisár — Ísraelsmenn, sem höfðu selt sig í þrælkun, hlutu frelsi og erfðalandi var skilað. (3. Mósebók 25:8-54) Í greininni á undan var bent á hvernig þessi ráðstöfun féll úr gildi með Móselögunum árið 33. (Rómverjabréfið 7:4, 6; 10:4) Þá tók gildi nýr sáttmáli og samkvæmt honum gat Guð fyrirgefið syndir þeirra sem trúðu, smurt þá heilögum anda og tekið sér þá fyrir syni er ættu himneskt líf í vændum. (Hebreabréfið 10:15-18) Þeir sem hafa gagn af nýja sáttmálanum með þessum hætti eru hins vegar ‚lítil hjörð‘ 144.000 manna „sem út eru leystir frá jörðunni.“ Hvernig geta þá milljónir annarra drottinhollra kristinna manna hlotið þá frelsun sem fagnaðarárið var fyrirmynd um? — Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 14:1-4.
Fórn fyrir alla!
3. Hve áhrifarík og varanleg er fórn Jesú?
3 Fyrir daga kristninnar varði blessun hins árlega friðþægingardags aðeins í eitt ár. Blessunin, sem lausnarfórn Drottins Jesú Krists veitir, er varanleg. Því þarf hinn meiri æðsti prestur, Jesús, ekki að verða maður á ný, fórna sér og snúa svo aftur til himna til að bera verðmæti fórnarinnar fram fyrir Jehóva Guð í hinu allra helgasta ár eftir ár. Eins og Ritningin segir: „Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum.“ — Rómverjabréfið 6:9; Hebreabréfið 9:28.
4, 5. (a) Hvaða afleiðingar hefur fórn Jesú haft frá og með hvítasunnunni árið 33? (b) Hvað bendir til að þessi fórn verði notuð í enn víðtækari mæli?
4 Árin frá og með hvítasunnunni árið 33 hafa því trúaðir menn byrjað að halda hátíðlegt hið kristna fagnaðarár um leið og þeir hafa orðið andagetnir lærisveinar hins dýrlega gerða Drottins Jesús. ‚Frelsaðir frá lögmáli syndarinnar og dauðans‘ hafa þeir notið frelsis sem hefur veitt þeim kraft og styrk. (Rómverjabréfið 8:1, 2) Þeir hafa líka flutt mönnum hinn kristna boðskap til að enn fleiri geti fengið fyrirgefningu synda sinna, hlotið smurningu og orðið andlegir synir Guðs. Þýðir þetta þá að sá sem ekki tilheyrir þessum 144.000 manna hópi geti ekki notið gleðiríkrar frelsunar núna?
5 Í þessu sambandi eru mikilvæg orð Páls í Rómverjabréfinu 8:19-21: „Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber. Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum [vegna þess að hún var syndug og ófær um að losa sig við syndina].“ Páll lagði síðan áherslu á að til væri „von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ Slíkt frelsi er því ekki takmarkað við þá sem verða ‚Guðs börn‘ á himnum. Hin kunnuglegu orð í Jóhannesi 3:16 staðfesta það. Og, eins og nefnt hefur verið, sagði Jóhannes postuli að Kristur hafi dáið „fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:2.
1919 — byrjunarfrelsun
6, 7. Hvers konar frelsun hefur verið boðuð frá 1919 og hvers vegna sérstaklega síðan?
6 Á okkar tímum hafa hinir smurðu, sem halda hátíðlegt hið kristna fagnaðarár, boðað frelsandi fagnaðarerindi, einkum frá 1919. Ekki síst ef þú ert fæddur eftir það kann þér að vera spurn hvers vegna það ár sé nefnt. Við skulum kanna það og hafa hugfast að um er að ræða það að þú getir notið frelsunar.
7 Áratugum fyrir þann tíma höfðu smurðir þjónar Jehóva gefið út á prenti biblíusannindi svo sem hina kunnu bókaröð Rannsóknir á Ritningunni. (1886-1917) Þeir dreifðu líka fjölda fræðandi bæklinga og flugrita. Á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar mættu þeir mótspyrnu, prófraunum og hreinsun og þá dró úr starfi þeirra. En árið 1919 gengu hinar smurðu leifar fram með endurnýjaðri kostgæfni til að boða sannindi Biblíunnar. Eins og Jesús gat sagt árið 30 að hann væri smurður til að „boða bandingjum lausn og blindum sýn,“ svo gátu þessir smurðu þjónar Guðs komist að orði. Eftir hrífandi mót þann 1.-7. september 1919a sóttu þeir fram af krafti við að prédika sannindi sem frelsuðu óteljandi fólk úr fjötrum. — Lúkas 4:18.
8, 9. Í hvaða skilningi hafa margir fengið frelsi og hvaða hjálpargögn hafa verið notuð til að boða frelsið?
8 Lítum til dæmis á biblíunámsritið Harpa Guðs (1921) sem lýsti þýðingarmiklum sannindum sem væru þau tíu hörpustrengir. Bókin viðurkenndi að „margir hafa verið gjörðir fráhverfir biblíunni“ vegna kenningarinnar um það „að hegningarlaun þeirra, sem óhlýðnast Guði, séu eilífar pyndingar í logandi eldi og brennisteini.“ Lesendur hinna nálega sex milljóna eintaka, sem út komu af þessari bók, lærðu að þessi kenning „getur ekki sönn verið, [og] liggja þar til grundvallar að minsta kosti fjórar greinilegar ástæður: (1) Af því slík kenning er gagnstæð sanngirni; (2) af því hún er ósamkvæm réttvísi; (3) af því hún er gagnstæð elsku Guðs; (4) og af því hún kemur í bága við ritninguna.“ Þú getur ímyndað þér hvílík frelsun þetta var fyrir fólk sem hafði alist upp í ótta við eilífar kvalir í helvíti eða hreinsunareldi!
9 Já, kostgæf prédikun þessara smurðu þjóna Guðs frelsaði fólk í öllum heimshornum úr fjötrum falskenninga, hjátrúar og óbiblíulegra athafna (svo sem forfeðradýrkunar, ótta við drauga eða illa anda og arðrán klerkastéttarinnar). Meira að segja titlar sumra biblíunámsritanna endurspegla þau frelsandi áhrif sem þau höfðu á milljónir manna.b Þau orð Jesú hafa því haldið að lærisveinar hans myndu „gjöra meiri verk“ en hann. (Jóhannes 14:12) Í samanburði við hina andlegu undirbúningsfrelsun, sem Jesús vann að þegar hann boðaði „bandingjum lausn,“ hafa nútímaþjónar Guðs gert miklu meira — náð til margra milljóna hringinn í kringum hnöttinn.
10. Hvers vegna getum við vænst enn frekari og meiri frelsunar?
10 Hafðu samt í huga að á fyrstu öldinni hófst enn frekari frelsun á hvítasunnunni árið 33. Þar hófst hið kristna fagnaðarár fyrir „litla hjörð“ sem fengi syndir sínar fyrirgefnar er leiddi til þess að þeir sem henni tilheyrðu yrðu ‚Guðs synir‘ á himnum. Hvað um okkar tíma? Geta milljónir annarra guðhræddra kristinna manna hlotið lausn úr fjötrum syndarinnar og haldið hátíðlegt stórkostlegt fagnaðarár? Já, og Pétur postuli gaf það til kynna þegar hann talaði um að ‚Guð endurreisti alla hluti eins og hann hefði sagt fyrir munn sína heilögu spámanna frá alda öðli.‘ — Postulasagan 3:21.
Fagnaðarár fyrir milljónir manna
11. Hvernig gefur 25. kafli 3. Mósebókar í skyn að vænta megi meiri frelsunar en þeirrar sem hinn andlegi Ísrael nýtur?
11 Það er eftirtektarvert að tvívegis í 25. kafla 3. Mósebókar voru Ísraelsmenn minntir á að frá sjónarhóli Jehóva væru þeir „þjónar“ hans eða þrælar sem hann hefði frelsað úr Egyptalandi. (Vers 42 og 55) Þessi kafli nefnir líka ‚dvalarmenn‘ og ‚hjábýlinga er hjá þeim dveldu.‘ Þeir eiga sér hliðstæður nú á tímum í ‚múginum mikla‘ sem á hlut með andlegum Ísraelsmönnum í að boða fagnaðarerindi kristninnar.
12. Hvaða ánægjuleg þróun hefur átt sér stað frá 1935?
12 Frá og með 1935 hefur „góði hirðirinn“ Jesús Kristur leitt inn til samfélags við hinar smurðu leifar þá sem hann nefndi „aðra sauði.“ Þá bar honum einnig að „leiða“ og þeir áttu að mynda ‚eina hjörð‘ undir umsjón ‚eins hirðis.‘ (Jóhannes 10:16) Hinir ‚aðrir sauðir‘ telja nú milljónir. Ef þú tilheyrir þeim hamingjusama hópi ert þú nú þegar talinn réttlátur sem vinur Guðs, og sem hluti hinnar mannlegu sköpunar hlakkar þú til þess að ‚verða leystur úr ánauð forgengileikans‘ þegar „Guð endurreisir alla hluti“ á jörðinni í náinni framtíð. Þetta er engin falsvon. — Rómverjabréfið 8:19-21; Postulasagan 3:20, 21.
13. Hvaða blessun eftir ‚þrenginguna miklu‘ ættum við að veita sérstaka athygli?
13 Eftir að Jóhannes postuli sá 144.000 njóta hins kristna fagnaðarárs með himneska framtíð í vændum lýsti hann ‚miklum múgi‘ með þessum orðum: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrri hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans.“ — Opinberunarbókin 7:14, 15.
14, 15. Hvers vegna hafa þeir sem mynda ‚múginn mikla‘ sérstaka ástæðu til að fagna núna?
14 Jafnvel núna, fyrir þrenginguna miklu, iðka þeir trú á úthellt blóð Krists og njóta þar með góðs af fórnardauða hans. Þeir fagna því líka að vera frelsaðir úr fjötrum Babýlonar hinnar miklu, hafa góða samvisku frammi fyrir Jehóva Guði og hafa þau sérréttindi að eiga hlut í uppfyllingu Matteusar 24:14 með því að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs áður en endirinn kemur.
15 En hvað um þá von að múgurinn mikli losni við meðfædda synd og ófullkomleika? Er sá tími í nánd? Við höfum gilda ástæðu til að álíta að enn séu á meðal okkar sumir af þeirri kynslóð manna sem Jesús Kristur sagði ekki myndu líða undir lok fyrr en allt hefði ræst sem hann spáði. (Matteus 24:34) Því hlýtur lokaþáttur ‚endaloka veraldar‘ að vera mjög nálægur. — Matteus 24:3.
Hið kristna fagnaðarár kórónað
16. Hvar stöndum við gagnvart framgangi tilgangs Guðs og hvað er framundan?
16 ‚Stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ nálgast óðfluga og þeir sem eftir eru af ‚litlu hjörðinni,‘ svo og „mikill múgur“ trúfastra félaga þeirra, munu varðveita ráðvendni við Jehóva Guð og vænta verndar hans. Þeir hlakka mjög til þess er Jehóva gersigrar alla óvini og nafn hans sem drottinvaldur alheimsins verður upphafið. Hversu stórkostlega mun það ekki kóróna hið kristna frelsi sem þeir nú njóta! — Opinberunarbókin 16:14; 19:19-21; Habakkuk 2:3.
17. Hvernig eiga milljónir manna enn eftir að hljóta frelsun á stórkostlegu fagnaðarári?
17 Þá tekur við stjórn hins sigursæla konungs Jesú Krists yfir hreinsaðri jörð. Drottinvald Jehóva yfir alheimi hefur verið staðfest á nýjan leik og Jesús Kristur fer með fullt vald yfir jörðinni sem konungur konunga og Drottinn drottna. Þá mun hann nota hagnaðinn af fórn sinni beint í þágu milljóna manna, þeirra á meðal hinna dánu sem fá upprisu, iðka trú og þiggja fúslega þá syndafyrirgefningu sem Guð veitir fyrir milligöngu Krists. Þá þerrar Guð „hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Hvað er sönn frelsun ef ekki þetta?
18. Hvað mun verða um jörðina í hinni nýju skipan, sambærilegt við það sem gerðist þegar fagnaðarár voru haldin til forna?
18 Þar við bætist að ágjarnir menn, fyrirtæki og mannastjórnir munu ekki lengur ráðskast með jörðina og menga hana og spilla. (Opinberunarbókin 11:18) Þess í stað verður hún fengin sönnum guðsdýrkendum í hendur. Þeim verður falið það unaðslega verkefni að eiga hlut í bókstaflegri uppfyllingu spádóms Jesaja: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta . . . Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, sem [Jehóva] hefir blessað.“ (Jesaja 65:21-25) Við lok þúsundáraríkisins hefur sérhver minnsti vottur syndar og ófullkomleika verið afmáður og drottinhollir þjónar Guðs á jörðinni munu halda hátíðlegt lokastig fagnaðarársins. Sú frelsun, sem fagnaðarárið var fyrirmynd um, verður orðin að veruleika. — Efesusbréfið 1:10.
Eftir þúsundáraríkið
19, 20. Hvernig munu Satan og illir andar hans reyna að spilla þeirri blessun sem fagnaðarár þúsundáraríkisins hefur veitt og með hvaða afleiðingum?
19 Opinberunarbókin 20:1-3 segir að Satan djöfullinn, höfðingi illra andasveita, hverfi af sjónarsviðinu þau þúsund ár sem Kristur ríkir yfir mannkyninu. Þegar djöflinum og illum öndum hans verður sleppt lausum stutta stund við lok þúsundáraríkisins munu þeir sjá jörðina, ekki í því ástandi sem þeir skildu við hana, heldur ólýsanlega fagra, paradís sem nær um allan hnöttinn. Þeir munu sjá jörð byggða trúföstum ‚miklum múgi‘ og milljörðum upprisinna manna sem Jesús Kristur dó fyrir sem lausnarfórn. Við lok þúsundáraríkisins hefur hið kristna fagnaðarár náð þeim tilgangi sínum að losa mannkynið fullkomlega undan áhrifum syndarinnar. (Rómverjabréfið 8:21) Hvílík skömm að reyna að spilla þessari fegurð og gæðum! En alvaldur Guð leyfir djöflinum að gera úrslitatilraun til þess, og hann lætur höggið ríða í beiskri örvæntingu. Þessu er lýst svo í Opinberunarbókinni 20:7-10, 14:
20 „Þegar þúsund árin eru liðin, mun Satan vera leystur úr fangelsi sínu. Og hann mun út ganga til að leiða þjóðirnar afvega, þær sem eru á fjórum skautum jarðarinnar, Góg og Magóg, og safna þeim saman til stríðs, og tala þeirra er sem sandur sjávarins. Og þeir stigu upp á víðan völl jarðar og umkringdu herbúðir heilagra og borgina elskuðu. En eldur féll af himni ofan og eyddi þeim. Og djöflinum, sem leiðir þá afvega, var kastað í díkið elds og brennisteins.“
21. Hver verða viðbrögð himneskra sona Guðs, sem minna á Jobsbók 38:7, eftir að hinu kristna fagnaðarári lýkur með þúsundáraríkinu?
21 Það ósvikna frelsi, sem fagnaðarárið hefur komið til leiðar, mun halda áfram að ríkja alls staðar. Allar sköpunarverur verða frjálsar og heiðra hann sem einn ber nafnið Jehóva. (Sálmur 83:19) Svo mun verða þegar Jehóva heldur áfram að vinna að tilgangi sínum um allan alheiminn. Við sköpun jarðarinnar, áður en maðurinn var settur á hana, sungu „morgunstjörnurnar . . . gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu“ við þá fögru sjón. (Jobsbók 38:7) Hversu miklu meiri verður ekki fögnuður þeirra við að sjá jörðina byggða mönnum og konum sem hafa sýnt og sannað algerra hollustu sína og ráðvendni við alvaldan Guð.
22. Með hvaða hugarfari ættum við að vera í samræmi við hvatninguna í Sálmi 150:1-6?
22 Þegar allt er skoðað í því skæra ljósi sem varpað er á Ritninguna getum við ekki annað en hrópað ósjálfrátt fagnandi rómi upp til himna: „Halelúja!“ Það er sú hvatning sem Sálmunum lýkur með: „Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans! Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans! Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju! Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum! Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum! Allt sem andardrátt hefir lofi [Jehóva]! Halelúja!“ — Sálmur 150:1-6.
[Neðanmáls]
a Þá var tilkynnt um útgáfu nýs tímarits er skyldi vera „eins og rödd í eyðimörk ringulreiðarinnar og gegna því hlutverki að boða hina komandi gullöld.“ Nú er þetta tímarit nefnt Vaknið!
b Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja (1920); Frelsun (1926); Frelsi fyrir fólkið (1927); Frelsi (1932); „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“ (1943); Hvað segir Ritningin um „líf eftir dauðann“? (1955); Eilíft líf — í frelsi sona Guðs (1966); Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs (1968); Braut sanninda Guðs sem leiðir til frelsunar (1980).
Hverju svarar þú?
◻ Undan hverju voru lærisveinar Jesú frelsaðir við hvítasunnuna árið 33 og hvað byrjaði þá hjá þeim?
◻ Hvers vegna er ástæða til að vænta meiri frelsunar en átti sér stað á fyrstu öldinni?
◻ Hvers konar frelsun hefur átt sér stað frá 1919?
◻ Hvenær og hvernig munu hinir ‚aðrir sauðir‘ njóta góðs af hinu mikla fagnaðarári?
◻ Hvernig verður jörðin eftir að fagnaðarárinu lýkur?
[Mynd á blaðsíðu 27]
Frelsi boðað í Cedar Point árið 1919.
[Mynd á blaðsíðu 28]
‚Aðrir sauðir‘ eiga hlut í fagnaðarári þúsundáraríkisins.