Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.6. bls. 5-6
  • Bók náttúrunnar og Biblían

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Bók náttúrunnar og Biblían
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Það sem úrið kennir okkur um úrsmiðinn
  • Það sem sigurverkið segir okkur ekki
  • Þekking sem aðeins finnst í Biblíunni
  • Skaparinn getur gert líf þitt innihaldsríkara
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“
    „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“
  • Hönnuðurinn mikli opinberar sig
    Vaknið! – 2000
  • Það sem við lærum af náttúrunni
    Vaknið! – 2010
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.6. bls. 5-6

Bók náttúrunnar og Biblían

„Alheimurinn er mér ráðgáta! Ég get ekki ímyndað mér að slík ‚klukka‘ geti verið til án þess að til sé klukkusmiður.“ — Voltaire, franskur heimspekingur á 18. öld.

NÁKVÆMT klukkuverk vekur aðdáun okkar fyrir hagleik og hugvit þess sem bjó það til. En hvað um alheiminn umhverfis okkur? Getur hann gefið okkur einhverja hugmynd um persónuleika skapara síns?

Fyrir nálega 2000 árum svaraði Páll postuli, einn af riturum Biblíunnar, þessari spurningu: „Hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) Hvað getum við þá lært af því að rýna í þessa bók náttúrunnar?

Það sem úrið kennir okkur um úrsmiðinn

Tignarlegur foss, æðandi bylgjur sjávarins, heiður næturhiminn prýddur óteljandi, blikandi stjörnum — þetta ásamt mörgu öðru fær okkur til að hugsa um voldugan skapara. Nákvæmur gangur reikistjarnanna um sporbaug sinn getur líka minnt okkur, eins og Voltaire, á það að skaparinn hljóti að hafa stórkostlega skipulagsgáfu, vera óviðjafnanlegur úrsmiður. — Sálmur 104:1.

Hinar fjölbreyttu afurðir jarðarinnar — ávextir, grænmeti og alls kyns aðrar jurtir — bera líka vitni um örlæti Guðs. Páll minntist á það þegar hann sagði að Guð hefði ‚vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefði gefið okkur regn af himni og uppskerutíðir, veitt fæðu og fyllt hjörtu okkar gleði.‘ — Postulasagan 14:17.

Það sem sigurverkið segir okkur ekki

Nánari lestur í bók náttúrunnar myndi kenna okkur sitthvað fleira um eiginleika Guðs. En ef við reiddum okkur einungis á það sem við getum lært af sköpunarverkinu myndi þekking okkar á Guði alltaf vera takmörkuð. Franski rithöfundurinn Robert Lenoble skýrir það nánar í bók sinni Esquisse d’une histoire de l’idée de Nature (Aðalatriðin í hugmynd náttúrunnar): „Maðurinn mun alltaf beina athygli sinni að náttúrunni í því skyni að skilja ráðgátu hennar og afhjúpa leyndardóm hennar, leyndardóm sem aldrei er hægt að uppgötva á rannsóknastofu.“ Yfir helmingur Frakka, sem spurðir voru í skoðanakönnun á vegum kaþólska dagblaðsins La Croix voru þessu viðhorfi sammála, óháð því hvort þeir töldu sig trúaða eða guðleysingja. Þeir viðurkenndu að „vísindin gætu aldrei gefið fullnægjandi skýringu á alheiminum, því að fjölmörg atriði væru af heimspekilegum eða trúarlegum toga spunnin.“

Fyrir um það bil 3500 árum komst hinn trúfasti Job að sömu niðurstöðu. Hann varpaði fram þessari spurningu: „En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima?“ Er þessa visku að finna í bók sköpunarinnar? „Undirdjúpið segir: ‚Í mér er hún ekki!‘ og hafið segir: ‚Ekki er hún hjá mér!‘ Hún er falin augum allra þeirra er lifa, og fuglum loftsins er hún hulin.“ — Jobsbók 28:12, 14, 21.

Hvar ættum við þá að geta fundið þessa visku? Sama biblíubók svarar: „Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar.“ (Jobsbók 28:23) Og Guð hefur á stórfenglegan hátt gefið mannkyninu hlutdeild í þessari visku í orði sínu, Biblíunni.

Þekking sem aðeins finnst í Biblíunni

Biblían veitir okkur einstæða vitneskju um uppruna mannkyns. Hún segir okkur að Guð hafi búið jörðina undir ábúð mannsins og síðan sett þar fyrstu mennina, karl og konu. Okkar fyrstu foreldrar hefðu getað lifað endalaust við fullkomnar aðstæður. Það fór þó á annan veg því að þau gerðu uppreisn og með synd sinni opnuðu þau flóðgáttir alls kyns illsku og erfiðleika — meðal annars syndar og dauða — sem hafa hrjáð mannkynið. — 1. Mósebók 1. til 3. kafli; Rómverjabréfið 5:12-21.

Biblían segir okkur líka í smáatriðum hvaða skref Guð hefur stigið til að bæta ástandið á ný. Þúsundum ára eftir daga Adams og Evu kom Guðs eigin sonur, Jesús, til jarðar til að gefa mannkyninu tækifæri til að sættast við Guð. Þeim sem sýndu trú á Krist og viðurkenndu mikilvægi fórnar hans gaf hann von um eilíft líf á jörð sem verður breytt í paradís. — Lúkas 23:43; Jóhannes 3:16.

Einu og sérhverju okkar stendur þessi von til boða. Til að hún verði að veruleika þurfum við að afla okkur nákvæmrar ‚þekkingar á hinum eina sanna Guði og þeim sem hann sendi, Jesú Kristi.‘ Við verðum líka að lifa í samræmi við þá von. Þessa nákvæmu þekkingu er að finna í Biblíunni. — Jóhannes 17:3; Jakobsbréfið 2:24-26.

Gætir þú hugsað þér að fá skilmerkileg svör við spurningum svo sem: Hvernig varð maðurinn til? Hvað gerist eftir dauðann? Af hverju orsakast vandamál mannkynsins? Er einhver von um að þau leysist einhvern tíma? Hvenær og hvernig mun Guð koma á fullkomnum lífsskilyrðum fyrir mannkynið? Ef þú þráir að fá svör við þessum spurningum hvetjum við þig til að rýna í Biblíuna, einu bókina sem getur gefið þér svör frá Guði alheimsins, einu bókina sem gefur „von um eilíft líf.“ Það er markmiðið með útgáfustarfi Biblíufélagsins Varðturninn að hjálpa þér að finna svör við þessum spurningum í þinni eigin biblíu. — Títusarbréfið 1:1, 2.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Alheimurinn endurspeglar vissar hliðar á persónuleika Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Aðeins Biblían getur sagt okkur frá tilgangi Guðs með manninn og jörðina.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila