Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.10. bls. 11-14
  • ‚Eitthvað vantar‘ — en hvað?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • ‚Eitthvað vantar‘ — en hvað?
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Viljann vantar til að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir
  • Guð, hönnun og eðlisfræðistuðlarnir
  • Eðlileg, mannleg þörf
  • Svörin er að finna í bók
  • Hvernig varð alheimurinn til? — enn ágreiningsmál
    Er til skapari sem er annt um okkur?
  • Hinn mikilfenglegi alheimur
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Alheimurinn kemur sífellt á óvart
    Vaknið! – 2010
  • Skaparinn getur gert líf þitt innihaldsríkara
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Vaknið! – 1996
g96 8.10. bls. 11-14

Hinn mikilfenglegi alheimur

‚Eitthvað vantar‘ — en hvað?

VIÐ komum inn eftir að hafa horft á stjörnurnar á dimmri, heiðskírri nóttu; okkur er hrollkalt og við fáum ofbirtu í augun en við erum heilluð af þeirri ægifegurð sem við sáum. Og hugurinn er fullur af spurningum. Af hverju er alheimurinn til? Hvernig varð hann til? Hvað verður um hann? Margir hafa reynt að svara þessum spurningum.

Eftir fimm ára heimsmyndarrannsóknir, með tilheyrandi setum á vísindaráðstefnum og heimsóknum til rannsóknamiðstöðva um heim allan, lýsti vísindarithöfundurinn Dennis Overbye samtali sem hann átti við hinn heimsfræga eðlisfræðing Stephen Hawking: „Að síðustu langaði mig til að heyra álit Hawkings á máli sem ég hef alltaf viljað heyra frá Hawking, sem sé hvað verði um okkur þegar við deyjum.“

Þótt orðin endurómi vissa kaldhæðni segja þau margt um okkar tíma. Spurningar manna snúast ekki aðallega um stjörnurnar sjálfar eða um kenningar og sundurleitar skoðanir heimsmyndarfræðinganna sem rannsaka þær. Fólk þyrstir enn í svör við spurningum sem hafa leitað á mannkynið um árþúsundir: Af hverju erum við hér? Er til Guð? Hvað verður um okkur þegar við deyjum? Hvar fáum við svör við þessum spurningum? Eru þau fólgin í stjörnunum?

Annar vísindarithöfundur, John Boslough, nefnir að þegar fólk hafi snúið baki við trúnni hafi vísindamenn á borð við heimsmyndarfræðinga orðið „hin fullkomna prestastétt veraldarhyggjunnar. Nú áttu þeir, ekki trúarleiðtogarnir, að opinbera alla leyndardóma alheimsins lið fyrir lið, ekki í gervi trúarvitrana heldur sem jöfnur, óskiljanlegar öllum nema hinum útvöldu.“ En geta þeir lokið upp öllum leyndardómum alheimsins og svarað öllum spurningum sem hafa leitað á mannkynið um aldaraðir?

Hvað opinbera heimsmyndarfræðingarnir núna? Flestir aðhyllast einhverja útgáfu miklahvellsguðfræðinnnar sem er orðin hin veraldlega trú okkar tíma, enda þótt þeir deili án afláts um smáatriðin. „En með hliðsjón af nýjum og mótsagnakenndum rannsóknarniðurstöðum gerist sú tilfinning æ áleitnari að miklahvellskenningin sé einfeldnislegt líkan í leit að samsvarandi sköpunarathöfn,“ segir Boslough. „Frá byrjun tíunda áratugarins hefur miklahvellslíkanið reynst . . . æ verr til að svara mikilvægustu spurningunum.“ Hann bætir við að „margir kenningasmiðir hafi lýst þeirri skoðun sinni að það endist ekki einu sinni út tíunda áratuginn.“

Kannski eiga einhverjar af núverandi tilgátum heimsmyndarfræðinga eftir að reynast réttar, kannski ekki — alveg eins og það eru kannski að myndast reikistjörnur í daufum ljóma Sverðþokunnar í Óríon, kannski ekki. Sannleikurinn er sá að enginn hér á jörð veit það fyrir víst. Nóg er af kenningunum en heiðarlegir vísindamenn taka undir skarplega athugasemd Margaretar Geller að þrátt fyrir alla mælgi vísindanna virðist vanta eitthvert grundvallaratriði í núverandi skilning þeirra á alheiminum.

Viljann vantar til að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir

Flestir vísindamenn — og þar eru flestir heimsmyndarfræðingar meðtaldir — aðhyllast þróunarkenninguna. Þeim geðjast alls ekki að því að vitsmunum og tilgangi sé ætlað hlutverk í sköpuninni, og þá hryllir við sé minnst á Guð sem skapara. Þeir vilja ekki einu sinni íhuga slíka villutrú. Sálmur 10:4 fer engum blíðuorðum um drambsaman mann sem ‚hugsar í öllu: „Guð er ekki til.“‘ Tilviljunin er sköpunarguðinn hans. En eftir því sem þekkingin vex og tilviljunin hopar undan þrýstingi æ fleiri sönnunargagna taka vísindamenn sér í vaxandi mæli í munn bannorð eins og „vitsmunir“ og „hönnun.“ Lítum á eftirfarandi dæmi:

„Eitt hefur greinilega vantað í heimsmyndarrannsóknir okkar. Uppruni alheimsins kallar á vitsmuni alveg eins og það þarf vitsmuni til að raða upp Rubik-kubbnum,“ segir stjarneðlisfræðingurinn Fred Hoyle í bók sinni The Intelligent Universe, bls. 189.

„Því meir sem ég athuga alheiminn og rannsaka uppbyggingu hans nánar, þeim mun meiri sannanir finn ég fyrir því að alheimurinn hljóti í einhverjum skilningi að hafa vitað að von væri á okkur.“ — Freeman Dyson: Disturbing the Universe, bls. 250.

„Hvaða eiginleikar alheimsins voru nauðsynlegir til að verur á borð við okkur gætu komið fram, og er það tilviljun eða er einhver djúptækari ástæða fyrir því að alheimurinn hefur þessa eiginleika? . . . Býr einhver stórfenglegri áætlun að baki sem tryggir að alheimurinn sé eins og klæðskerasaumaður handa mannkyninu?“ — John Gribbin og Martin Rees: Cosmic Coincidences, bls. xiv, 4.

Fred Hoyle hefur líka sitthvað að segja um þessa eiginleika á bls. 220 í áðurnefndri bók sinni: „Slíkir eiginleikar virðast vera samofnir heimi náttúrunnar eins og þráður heppilegra tilviljana. En þessar undarlegu tilviljanir, sem eru nauðsynlegar lífinu, eru svo margar að það virðist þurfa að finna þeim einhverja skýringu.“

„Maðurinn hefur ekki bara aðlagast alheiminum heldur er alheimurinn lagaður að manninum. Hugsaðu þér alheim þar sem einhverjum grundvallarstuðli eðlisfræðinnar væri breytt um fáein prósent á annan hvorn veginn. Maðurinn gæti aldrei lifað í slíkum alheimi. Það er kjarni mannlífslögmálsins. Samkvæmt þessu lögmáli er lífgandi afl undirstaða hönnunar og gangverks heimsins.“ — John Barrow og Frank Tiple: The Anthropic Cosmological Principle, bls. vii.

Guð, hönnun og eðlisfræðistuðlarnir

Hvaða eðlisfræðistuðlar eru meðal annars nauðsynlegir til að líf þrífist í alheiminum? Nokkrir þeirra voru taldir upp í frétt í dagblaðinu The Orange County Register hinn 8. janúar 1995. Þar kom vel fram hve nákvæmir þeir verða að vera. Blaðið sagði: „Það er hrífandi hve nákvæmir margir af meginstuðlum og stærðum eðlisfræðinnar, sem skilgreina alheiminn, eru — til dæmis hleðsla rafeindarinnar, ljóshraðinn eða innbyrðis styrkur undirstöðuafla náttúrunnar — sumir með allt að 120 aukastöfum. Þessar nákvæmu stærðir skipta gríðarlega miklu máli í þróun alheims sem gat kveikt af sér líf. Hefði orðið minnsta frávik — nanósekúnda hér, ångström þar — væri alheimurinn kannski auður og lífvana.“

Höfundur þessarar fréttar nefndi síðan það sem yfirleitt má ekki nefna: „Það virðist skynsamlegra að ætla að einhver dularfull hneigð leynist í þessu ferli, kannski í áhrifum viti borins og meðvitaðs afls sem fínstillti alheiminn til að undirbúa komu okkar.“

George Greenstein, prófessor í stjarnfræði og heimsmyndarfræði, tók saman enn lengri lista yfir þessa eðlisfræðistuðla í bók sinni The Symbiotic Universe. Þeirra á meðal eru svo nákvæmir stuðlar að agnarminnsta frávik hefði valdið því að hvorki atóm, stjörnur né alheimur hefðu nokkurn tíma geta orðið til. Innbyrðis samhengi þeirra er lýst nánar í rammanum á næstu síðu. Allir eru þeir forsenda lífs. Þeir eru flóknir og óvíst að allir lesendur blaðsins kunni skil á þeim, en stjarneðlisfræðingar þekkja þá og gildi þeirra.

Greenstein varð um og ó er listinn lengdist. „Svona margar tilviljanir!“ segir hann. „Því meir sem ég las, þeim mun sannfærðari varð ég um að slíkar ‚tilviljanir‘ gætu tæpast verið tilviljun. En um leið og þessi sannfæring jókst ágerðist eitthvað annað innra með mér. Ég á enn erfitt með að lýsa þessu ‚einhverju‘ með orðum. Þetta var ákafur viðbjóður, stundum næstum líkamlegs eðlis. Ég hreinlega engdist sundur og saman af óþægindum. . . . Getur hugsast að við höfum skyndilega og óvart fundið vísindalega sönnun fyrir tilvist æðstu vitsmunaveru? Var það Guð sem lét til sín taka og smíðaði alheiminn svo haganlega fyrir okkur?“

Greenstein hryllti við tilhugsuninni og var fljótur að draga í land. Hann endurheimti í skyndingu vísindarétttrúnað sinn og lýsti yfir: „Guð er ekki skýringin.“ Engin rök — tilhugsunin var honum bara svo ógeðfelld að hann afbar hana ekki!

Eðlileg, mannleg þörf

Nú er það ekki ætlun okkar að gera lítið úr þrotlausu starfi einlægra vísindamanna, þeirra á meðal heimsmyndarfræðinga. Vottar Jehóva kunna sérstaklega vel að meta hinar mörgu uppgötvanir þeirra í sambandi við sköpunina sem opinbera mátt, visku og kærleika hins sanna Guðs, Jehóva. Rómverjabréfið 1:20 segir: „Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.“

Hin þrotlausa leit vísindamanna er eðlileg, mannleg viðbrögð við þörf sem er manninum jafnsterk og þörfin fyrir fæði, klæði og húsaskjól. Það er þörfin fyrir svör við vissum spurningum um framtíðina og tilgang lífsins. Guð hefur lagt „eilífðina . . . í brjóst þeirra [mannanna], aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.“ — Prédikarinn 3:11.

Þetta eru engin ótíðindi. Það merkir bara að mannkynið mun aldrei skilja ‚verk Guðs‘ til hlítar en það verður heldur aldrei uppiskroppa með rannsóknarefni: „Þá sá ég, að maðurinn getur ekki skilið til fulls allt Guðs verk, það verk sem gjörist undir sólinni, því að hversu mjög sem maðurinn gjörir sér far um að leita, fær hann þó ekki skilið það til fulls, og enda þótt spekingurinn hyggist að þekkja það, þá fær hann eigi skilið það til fulls.“ — Prédikarinn 8:17.

Sumir vísindamenn andmæla á þeirri forsendu að það lami leitar- og rannsóknarlöngun mannsins að gera Guð að „lausninni“ á öllu saman. En sá sem viðurkennir að Guð sé skapari himins og jarðar hefur ókjör annarra, hrífandi sanninda til að uppgötva og forvitnilegra leyndardóma til að rannsaka. Það er sem hann fái grænt ljós á frekari uppgötvanir og lærdóm!

Hver getur staðist boðið í Jesaja 40:26? „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um.“ Við höfum hafið augu okkar til hæða á síðum þessa blaðs og séð þetta ‚eitthvað sem vantar‘ og heimsmyndarfræðingar hafa ekki komið auga á. Við höfum líka bent á hvar finna megi svörin við stóru spurningunum sem koma upp aftur og aftur og hafa ásótt manninn í aldanna rás.

Svörin er að finna í bók

Svörin hafa alltaf verið innan seilingar, en eins og þeir sem töldu sig trúaða á dögum Jesú hafa margir blindað sjálfa sig, lokað eyrunum og hert hjörtu sín þegar svörin hafa ekki samrýmst mannakenningum þeirra eða lífsstefnunni sem þeir hafa valið sér. (Matteus 13:14, 15) Jehóva hefur sagt okkur hvernig alheimurinn varð til, hvernig jörðin myndaðist og hverjir munu lifa á henni. Hann hefur sagt okkur að maðurinn eigi að rækta jörðina og annast jurtirnar og dýrin sem hafa afnot af henni með honum. Hann hefur líka sagt okkur hvað verði um manninn við dauðann, að menn geti lifnað aftur og hvað þeir þurfi að gera til að lifa eilíflega á jörðinni.

Ef þú hefur áhuga á svörum Biblíunnar, innblásins orðs Guðs, lestu þá eftirfarandi ritningargreinar: 1. Mósebók 1:1, 26-28; 2:15; Orðskviðina 12:10; Matteus 10:29; Jesaja 11:6-9; 45:18; 1. Mósebók 3:19; Sálm 146:4; Prédikarann 9:5; Postulasöguna 24:15; Jóhannes 5:28, 29; 17:3; Sálm 37:10, 11; Opinberunarbókina 21:3-5.

Væri ekki ráð að lesa þessar ritningargreinar með fjölskyldunni eða nágranna eða vinahópi eitthvert kvöldið? Þú mátt vera viss um að það hleypir af stað líflegum og lærdómsríkum umræðum!

Hrífst þú af fegurð alheimsins og vekja leyndardómar hans forvitni þína? Hví þá ekki að kynnast skapara hans betur? Undrun okkar og forvitni er einskis virði fyrir lífvana himininn, en Jehóva Guð, skapari himinsins, er líka skapari okkar og hann lætur sér annt um auðmjúka menn sem hafa áhuga á að kynnast honum og sköpunarverkum hans. Mönnum er nú boðið út um allan heim: „‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ — Opinberunarbókin 22:17.

Þetta er hlýlegt boð frá Jehóva! Alheimurinn myndaðist ekki í tilgangslausri sprengingu heldur er hann sköpunarverk Guðs sem ræður yfir takmarkalausum vitsmunum og hefur ákveðinn tilgang sem gerði ráð fyrir þér allt frá öndverðu. Hann ræður yfir ótakmarkaðri orku sem hann hefur fulla stjórn á og er alltaf tiltæk til að halda þjónum hans uppi. (Jesaja 40:28-31) Launin, sem þú færð fyrir að kynnast honum, verða jafn óendanleg og hinn mikilfenglegi alheimur sjálfur!

„Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ — Sálmur 19:2.

[Rammi á blaðsíðu 13]

Nokkrir eðlisfræðistuðlar sem eru forsenda lífs

Rafeindir og róteindir verða að hafa jafna og gagnstæða hleðslu; nifteindin verður að vera agnarögn þyngri en róteindin; hiti sólar verður að samsvara varmagleypni blaðgrænunnar til að ljóstillífun geti átt sér stað; ef sterku kraftarnir í atómkjarnanum væru örlítið veikari gæti sólin ekki myndað orku með kjarnahvörfum, en ef þeir væru örlítið sterkari yrði eldsneytið, sem þarf til orkuframleiðslunnar, gríðarlega óstöðugt; ef ekki kæmu til tvær hermur í atómkjörnum rauðra risastjarna hefði ekkert frumefni þyngra en helíum getað myndast; ef geimurinn væri minna en þrjár víddir væru tengingar tauga- og blóðrásarkerfis óhugsandi, og ef geimurinn væri meira en þrjár víddir væru reikistjörnurnar ekki á stöðugri braut um sólu. — The Symbiotic Universe, bls. 256-7.

[Rammi á blaðsíðu 14]

Hefur einhver séð týnda massann?

Andrómeduþokan snýst tígulega í geimnum líkt og allar aðrar þyrillaga stjörnuþokur, rétt eins og hún væri gríðarmikill fellibylur. Stjarnfræðingar geta reiknað snúningshraða margra vetrarbrauta út frá litrófi þeirra, og þegar þeir gera það kemur svolítið undarlegt í ljós. Snúningshraðinn virðist alls ekki fá staðist! Allar þyrillaga vetrarbrautir virðast snúast of hratt. Það er engu líkara en að sýnilegar stjörnur vetrarbrautanna séu greyptar í miklu stærri baug úr dökku efni sem sést ekki í sjónaukanum. „Við vitum ekki hvers eðlis dökka efnið er,“ viðurkennir stjarnfræðingurinn James Kaler. Heimsmyndarfræðingar áætla að ekki hafi verið gerð grein fyrir 90 af hundraði þess massa sem vantar. Þeir leita hans örvæntingarfullir, annaðhvort í mynd gríðarlegs fiseindamagns eða óhemjumagns af einhverju óþekktu efni.

Ef þú skyldir rekast á týnda massann, hafðu þá endilega samband við næsta heimsmyndarfræðing og láttu hann vita!

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila