Ástundaðu sannan frið og kepptu eftir honum!
„Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga . . . hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum.“ — 1. PÉTURSBRÉF 3:10, 11.
1. Hvaða fræg orð Jesaja uppfyllast örugglega?
„ÞÆR munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ (Jesaja 2:4) Jafnvel þótt þessi frægu orð standi spölkorn frá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York verður ekki með nokkru móti sagt að þessi heimssamtök hafi uppfyllt þau. En þessi yfirlýsing er hluti af óbrigðulu orði Jehóva Guðs og nær því vissulega fram að ganga. — Jesaja 55:10, 11.
2. Hvað gerist „á hinum síðustu dögum“ samkvæmt Jesaja 2:2, 3?
2 Orðin í Jesaja 2:4 eru reyndar hluti af stórfenglegum spádómi, spádómi um sannan frið — og hann er að uppfyllast núna á okkar tímum. Áður en spádómurinn greinir frá þeirri hrífandi framtíðarsýn að hvorki stríð eða stríðsvopn verði framar til, segir hann: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum,‘ því að frá Síon mun kenning út ganga og orð [Jehóva] frá Jerúsalem.“ — Jesaja 2:2, 3.
Menn geta orðið friðelskir
3. Hvernig getur maður breyst úr því að vera ófriðsamur og orðið friðelskur?
3 Taktu eftir að áður en fólk getur ástundað frið verður það að fá fræðslu um vegu Jehóva. Með því að þiggja kennslu Jehóva getur maður breytt hugsunarhætti sínum og hegðun og orðið friðelskur í stað þess að vera ófriðsamur. Hvernig á þessi umbreyting sér stað? Rómverjabréfið 12:2 segir: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ Við endurnýjum hugarfarið eða beinum huganum í aðra átt með því að fylla hann frumreglum og lífsreglum frá orði Guðs. Reglulegt nám í Biblíunni hjálpar okkur að gera slíkar breytingar og gerir okkur kleift að sanna fyrir sjálfum okkur hver sé vilji Jehóva með okkur, svo við sjáum skýrt hvaða leið við verðum að fara. — Sálmur 119:105.
4. Hvernig íklæðist maður friðsömum, nýjum persónuleika?
4 Sannleikur Biblíunnar umbreytir bæði hugsanagangi okkar, hegðun og persónuleika. Hann hjálpar okkur að gera það sem Páll postuli hvatti til: „Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun [„endurnýja aflvaka hugans,“ NW] og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:22-24) Aflvaki hugans er innra með okkur. Hann endurnýjast og verður þeim mun öflugri sem kærleikur okkar til Jehóva og laga hans vex, og gerir okkur andlega sinnaða og friðelska.
5. Hvernig stuðlar ‚nýja boðorðið,‘ sem Jesús gaf lærisveinum sínum, að friði meðal þeirra?
5 Nauðsyn þessarar umbreytingar sést glöggt af leiðbeiningum Jesú til lærisveinanna síðustu stundir hans með þeim: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Þessi óeigingjarni, kristilegi kærleikur bindur lærisveinana fullkomnum einingarböndum. (Kólossubréfið 3:14, NW) Aðeins þeir sem viðurkenna og lifa eftir þessu ‚nýja boðorði‘ njóta friðarins sem Guð lofar. Eru einhverjir sem gera það nú á dögum?
6. Hvers vegna njóta vottar Jehóva friðar ólíkt fólki í heiminum?
6 Vottar Jehóva leitast við að sýna kærleika í heimsbræðrafélagi sínu. Þótt þeir séu frá öllum þjóðum heims, blanda þeir sér ekki í deilumál heimsins, jafnvel þegar þeir verða fyrir miklum þrýstingi stjórnmála- og trúmálaafla. Þeir eru sameinuð þjóð sem fær kennslu frá Jehóva og nýtur friðar. (Jesaja 54:13) Þeir eru hlutlausir í pólitískum átökum og taka ekki þátt í styrjöldum. Sumir voru áður ofbeldishneigðir en hafa lagt það af. Þeir hafa orðið friðelskir kristnir menn að fyrirmynd Krists Jesú. Og þeir fylgja heilshugar ráðleggingum Péturs: „Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinni frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik. Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum.“ — 1. Pétursbréf 3:10, 11; Efesusbréfið 4:3.
Þeir sem ástunda frið
7, 8. Komdu með dæmi um fólk sem hætti hernaði og ástundaði sannan frið. (Nefndu önnur dæmi sem þú þekkir kannski til.)
7 Rami Oved, fyrrverandi liðsforingi í sérsveit gegn hryðjuverkamönnum, er dæmi um þetta. Hann var þjálfaður til að drepa óvini sína. Hann var ákafur ísraelskur þjóðernissinni til þess dags er hann uppgötvaði að rabbínarnir vildu ekki að hann kvæntist konunni sem hann elskaði aðeins vegna þess að hún var Asíubúi, það er að segja heiðingi. Hann byrjaði að leita sannleikans í Biblíunni. Þá komst hann í samband við votta Jehóva. Biblíunám hans hjá vottunum sannfærði hann um að hann gæti ekki lengur verið ofstækisfullur þjóðernissinni — kristinn kærleikur fæli í sér að hætta að taka þátt í stríði og bera vopn og læra að elska fólk af öllum kynþáttum. Það kom honum sannarlega á óvart þegar hann fékk vingjarnlegt bréf sem hófst með orðunum: „Bróðir minn Rami“! Hvað var svona óvenjulegt við það? Bréfritarinn var palestínskur vottur. „Ég ætlaði varla að trúa því,“ segir Rami, „þar sem Palestínumenn voru óvinir mínir og hér kallaði einn þeirra mig bróður sinn.“ Rami og eiginkona hans ástunda nú sannan frið í samræmi við vegu Guðs.
8 Georg Reuter er annað dæmi, en hann var í innrásarher Þjóðverja í Rússlandi í síðari heimsstyrjöldinni. Hann varð fljótlega fyrir vonbrigðum með stórmennskuáform Hitlers um heimsyfirráð. Þegar hann sneri heim úr stríðinu hóf hann að kynna sér Biblíuna hjá vottum Jehóva. Hann skrifaði: „Loksins voru hlutirnir farnir að skýrast fyrir mér. Ég gerði mér ljóst að allar þessar blóðsúthellingar væru ekki Guði að kenna . . . Ég komst að raun um að tilgangur hans væri að skapa paradís um alla jörðina, hlýðnum mönnum til eilífrar blessunar. . . . Hitler hafði stært sig af ‚þúsundáraríki‘ sínu en hafði ríkt aðeins í 12 [ár] — og með skelfilegum afleiðingum! Það er Kristur en ekki Hitler . . . sem getur og kemur á fót þúsundáraríki yfir jörðinni.“ Georg hefur nú þjónað um 50 ára skeið í fullu starfi sem erindreki fyrir sönnum friði.
9. Hvernig sannar reynsla votta Jehóva í Þýskalandi nasista að þeir voru hugrakkir en friðelskir?
9 Ráðvendni og hlutleysi votta Jehóva í Þýskalandi á tímum nasista ber vitni um kærleika þeirra til Guðs og friðarins enn þann dag í dag, meira en 50 árum síðar. Í bæklingi, sem Holocaust Museum í Washington, D.C., gaf út, segir: „Vottar Jehóva máttu þola grimmilegar ofsóknir á stjórnarárum nasista. . . . Það hugrekki, sem mikill meirihluti þeirra sýndi með því að vilja ekki [afneita trú sinni] andspænis pyndingum, illri meðferð í fangabúðum og stundum aftöku, aflaði þeim virðingar margra samtíðarmanna sinna.“ Bæklingurinn bætir síðan við: „Meðan frelsun fólks úr búðunum stóð yfir héldu vottar Jehóva áfram starfi sínu, fóru um á meðal þeirra sem lifðu af og sneru fólki til trúar sinnar.“
Miklu umfangsmeiri breyting
10. (a) Hvaða mikillar breytingar er þörf til að sannur friður komist á? (b) Hvernig var því lýst í Daníelsbók?
10 Þýðir þetta að vottar Jehóva trúi því að þeir geti fært öllum heiminum frið með því að snúa fjöldanum til kristins hlutleysis? Nei! Til að koma aftur á friði á jörðinni þarf miklu umfangsmeiri breytingu. Hver er hún? Ofbeldisfullar stjórnir manna, sem sundra og kúga, verða að víkja fyrir stjórn Guðsríkis sem Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um. (Matteus 6:9, 10) Og hvernig á það sér stað? Í innblásnum draumi frá Guði sá spámaðurinn Daníel að á hinum síðustu dögum myndi ríki Guðs, eins og stærðar steinn, sem ‚losnar án þess að nokkur mannshönd komi við hann,‘ mola risastórt líkneski sem táknar stjórnir manna yfir jörðinni. Síðan boðaði Daníel: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:31-44.
11. Hvernig gerir Jehóva þá breytingu sem þarf til að koma á friði?
11 Hvers vegna á þessi róttæka breyting á heimsmyndinni sér stað? Vegna þess að Jehóva hefur lofað að hreinsa af jörðinni alla þá sem menga hana og eyðileggja. (Opinberunarbókin 11:18) Þessi umbreyting á sér stað í réttlátu stríði Jehóva gegn Satan og illum heimi hans. Við lesum í Opinberunarbókinni 16:14, 16: „Þeir [óhreinu andarnir] eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga [pólitískra stjórnenda] allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda. Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.“
12. Hvernig verður Harmagedónstríðið?
12 Hvernig verður Harmagedón? Það stríð verður ekki kjarnorkuragnarök eða hörmungar af mannavöldum. Nei, það er stríð Guðs til að binda enda á allar styrjaldir manna og tortíma öllum sem stuðla að þeim. Það er stríð Guðs til að koma á sönnum friði til handa þeim sem elska frið. Já, Harmagedón kemur eins og Jehóva hefur ákveðið. Það dregst ekki. Spámanni hans, Habakkuk, var blásið í brjóst að skrifa: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ (Habakkuk 2:3) Sökum mannlegrar óþolinmæði getur okkur virst Harmagedónstríðið líða undan eða seinka, en Jehóva heldur sér við tímaáætlun sína. Það skellur á á þeirri stundu sem Jehóva hefur fyrirfram ákveðið.
13. Hvernig tekur Guð á aðalsökudólgnum, Satan djöflinum?
13 Þessi afgerandi verknaður Guðs ryður brautina fyrir sönnum friði. Til að treysta sannan frið í sessi þarf að gera meira — það þarf að fjarlægja þann sem veldur sundrungu, hatri og erjum. Og það er einmitt það sem spádómar Biblíunnar segja að gerist næst. Satan verður varpað í undirdjúpið, honum sem æst hefur til styrjalda og er faðir lyginnar. Jóhannes postuli sá þennan atburð í spádómssýn sem skráð er í Opinberunarbókinni 20:1-3: „Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár. Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin.“
14. Hvernig mætti lýsa sigri Jehóva yfir Satan?
14 Þetta er enginn draumur; það er fyrirheit Guðs — og Biblían segir „óhugsandi . . . að hann fari með lygi.“ (Hebreabréfið 6:18) Jehóva gat því sagt fyrir munn spámannsins Jeremía: „Það er ég, [Jehóva], sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun — segir [Jehóva].“ (Jeremía 9:24) Já, Jehóva sýnir rétt og réttlæti í verkum sínum, og hann hefur unun af þeim friði sem hann innleiðir á jörðinni.
Stjórn Friðarhöfðingjans
15, 16. (a) Hvern hefur Jehóva valið til að ríkja sem konungur? (b) Hvernig er þessari stjórn lýst og hverjir taka þátt í henni?
15 Til að tryggja að allir, sem lifa undir stjórn Guðsríkis, njóti ósvikins friðar hefur Jehóva fengið hinum sanna Friðarhöfðingja, Jesú Kristi, stjórnartaumana í hendur eins og spáð er í Jesaja 9:6, 7: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka . . . Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“ Sálmaritarinn skrifaði líka spádómlega um hina friðsömu stjórn Messíasar: „Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.“ — Sálmur 72:7.
16 Auk þess munu 144.000 andasmurðir bræður Krists ríkja með honum á himni. Þetta eru samerfingjar Krists og um þá skrifar Páll: „Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar. Náðin Drottins vors Jesú [Krists] sé með yður.“ (Rómverjabréfið 16:20) Já, frá himni taka þeir þátt í sigri Krists yfir stríðsmangaranum Satan djöflinum!
17. Hvað verðum við að gera til að öðlast sannan frið?
17 Núna er því spurningin sú hvað þú verðir að gera til að öðlast sannan frið. Leið Guðs er eina leiðin til að koma á sönnum friði og til að öðlast hann þarftu að stíga markviss skref. Þú verður að viðurkenna Friðarhöfðingjann og snúa þér til hans. Það þýðir að þú verðir að viðurkenna Krist sem endurlausnara og friðþægjara syndugs mannkyns. Jesús sjálfur sagði þessi frægu orð: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Ert þú fús til að sýna í verki að þú trúir að Kristur Jesús sé sá sem Guð notar til að koma á sönnum friði og hjálpræði? Ekkert annað nafn undir himninum getur komið á friði og tryggt hann. (Filippíbréfið 2:8-11) Hvers vegna? Vegna þess að Jesús er sá sem Guð hefur útvalið. Hann er mesti friðarboðberinn sem nokkru sinni hefur gengið á jörðinni. Ætlar þú að hlýða á Jesú og fylgja fordæmi hans?
18. Hvað ættum við að gera í ljósi orða Jesú í Jóhannesi 17:3?
18 „Það er hið eilífa líf,“ sagði Jesús, „að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Núna er tímabært að afla sér nákvæmrar þekkingar með því að sækja reglulega samkomur votta Jehóva í ríkissalnum. Þessar fræðslusamkomur munu hvetja þig til að deila þekkingu þinni og von með öðrum. Þú getur líka orðið friðarerindreki Guðs. Þú getur notið friðar núna með því að treysta á Jehóva Guð eins og segir í Jesaja 26:3 samkvæmt biblíuþýðingunni New International Version: „Þú varðveitir í fullkomnum friði þann sem er staðfastur í huga, því að hann treystir á þig.“ Hverjum ættirðu að treysta? „Treystið [Jehóva] æ og ætíð, því að [Jah, Jehóva] er eilíft bjarg.“ — Jesaja 26:4.
19, 20. Hvað bíður þeirra sem ástunda frið og keppa eftir honum?
19 Taktu afstöðu núna með eilífu lífi í friðsömum, nýjum heimi Guðs. Orð Guðs fullvissar okkur í Opinberunarbókinni 21:3, 4: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Er þetta ekki sú friðsæla framtíð sem þú þráir?
20 Hafðu þá hugfast það sem Guð hefur lofað. „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu [„njóta unaðsemdar af þeim mikla friði,“ Biblían 1859]. Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum.“ (Sálmur 37:11, 37) Megum við segja þakklát þegar sá hamingjudagur rennur upp: „Loksins sannur friður! Þökk sé Jehóva Guði, frá honum kemur sannur friður!“
Geturðu útskýrt?
◻ Hvað getur hjálpað manni að breyta hugsun sinni og athöfnum?
◻ Hvernig hafa vottar Jehóva sýnt að þeir elski sannan frið, bæði sem einstaklingar og sem heild?
◻ Hvernig tekur Jehóva á öllum sem stuðla að hatri og styrjöldum?
◻ Hvað gerir stjórn Friðarhöfðingjans fyrir mannkynið?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Orð Jesaja uppfyllast ekki á Sameinuðu þjóðunum, heldur á þeim sem þiggja kennslu Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Þessir tveir menn breyttu um lífsstefnu til að keppa eftir friði.
Rami Oved
Georg Reuter
[Mynd á blaðsíðu 16]
Sannur friður ríkir undir stjórn Friðarhöfðingjans.