Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.8. bls. 27-31
  • Aðgreindir sem glaðir menn er lofa Guð um allan heim

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Aðgreindir sem glaðir menn er lofa Guð um allan heim
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Líkjum eftir Jesú sem öðrum fremur lofaði Jehóva
  • Gleði af því að lofa Jehóva
  • Glaðir menn allra þjóða sem lofa Guð
  • Miklum múgi glaðra dýrkenda spáð
  • Trúað fyrir sannleikanum
  • Hjálp heilags anda og heimsbræðralags
  • Lofið Jehóva með gleði!
  • Frá landsmótinu berst skilmerkilegt kall! — Lofum Jehóva glöð frá degi til dags!
    Ríkisþjónusta okkar – 1995
  • Unglingar, lofið Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • Lofið Jehóva fyrir stórvirki hans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • ‚Hver er sem Jehóva, Guð okkar?‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.8. bls. 27-31

Aðgreindir sem glaðir menn er lofa Guð um allan heim

„Halelúja. Þjónar [Jehóva], lofið, lofið nafn [Jehóva].“ — SÁLMUR 113:1.

1, 2. (a) Hver er þess verðugur að hljóta ákaft lof í samræmi við Sálm 113:1-3? (b) Hvaða spurningar er viðeigandi að spyrja?

JEHÓVA GUÐ er hinn mikli skapari himins og jarðar, alheimsdrottinn um alla eilífð. Hann er þess fullkomlega verðugur að hljóta ákaft lof okkar. Þess vegna fyrirskipar Sálmur 113:1-3: „Halelúja. Þjónar [Jehóva], lofið, lofið nafn [Jehóva]. Nafn [Jehóva] sé blessað héðan í frá og að eilífu. Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn [Jehóva] vegsamað.“

2 Við sem erum vottar Guðs fögnum því að gera það. Hversu hrífandi er ekki að Jehóva Guð skuli bráðlega láta þennan gleðilega lofsöng, sem við syngjum, fylla alla jörðina! (Sálmur 22:28) Heyrist rödd þín í þessum mikla heimskór? Ef svo er hlýtur það að gleðja þig mjög að vera aðgreindur frá þessum sundraða, gleðisnauða heimi.

3. (a) Af hverju sker fólk Jehóva sig úr? (b) Á hvaða hátt erum við aðgreind?

3 Við erum vissulega einstök og skerum okkur úr fyrir að lofa Jehóva einum munni. Við tölum og kennum hið sama og notum sömu aðferðir til að boða ‚hina miklu gæsku Jehóva.‘ (Sálmur 145:7) Já, vígðir þjónar Jehóva eru aðgreindir til þjónustu við Guð sinn, Jehóva. Hann sagði fólki sínu til forna, Ísrael, að halda sér aðgreindu frá þjóðunum umhverfis og óflekkuðum af athöfnum þeirra. (2. Mósebók 34:12-16) Hann gaf fólki sínu lög til að hjálpa því að gera það. Núna hefur Jehóva gefið okkur heilagt orð sitt, Biblíuna. Fyrirmæli hennar sýna okkur hvernig við getum haldið okkur aðgreindum frá þessum heimi. (2. Korintubréf 6:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Við erum ekki aðgreind með einangrun í klaustrum eins og munkar og nunnur Babýlonar hinnar miklu. Við fylgjum fordæmi Jesú Krists og lofum Jehóva meðal almennings.

Líkjum eftir Jesú sem öðrum fremur lofaði Jehóva

4. Hvaða fordæmi gaf Jesús um að lofa Jehóva?

4 Jesús hvikaði aldrei frá þeim ásetningi sínum að lofa Jehóva og það aðgreindi hann frá heiminum. Hann lofaði heilagt nafn Guðs í samkunduhúsunum og í musterinu í Jerúsalem. Hann prédikaði sannindi Jehóva opinberlega hvar sem fólk safnaðist saman, hvort heldur var á fjallstindi eða við ströndina. Hann sagði: „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar.“ (Matteus 11:25) Jafnvel þegar Pontíus Pílatus réttaði í máli hans lýsti hann yfir: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Jesú var ljóst hve þýðingarmikið starf hans væri. Hvar sem hann var bar hann vitni um Jehóva og lofaði hann opinberlega.

5. Við hverja á Sálmur 22:23 og hvernig ættum við að hugsa?

5 Í Sálmi 22:23 finnum við þessi spádómsorð um þann sem öðrum fremur lofaði Jehóva: „Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!“ Í Hebreabréfinu 2:11, 12 heimfærði Páll postuli þessi orð á Drottin Jesú og þá sem Jehóva Guð hefur helgað til himneskrar dýrðar. Þeir skammast sín ekki fyrir að lofa nafn Jehóva í söfnuðinum frekar en Jesús. Höfum við þetta sama hugarfar þegar við sækjum safnaðarsamkomurnar? Við lofum Jehóva með því að taka góðan þátt í samkomunum, bæði með munni okkar og athygli. En látum við staðar numið þar að lofa Guð með gleði?

6. Hvað fól Jesús lærisveinum sínum og hvernig lofa unnendur ljóssins Guð?

6 Samkvæmt Matteusi 5:14-16 fól Drottinn Jesús fylgjendum sínum einnig að láta ljós sitt skína þannig að aðrir myndu lofa Jehóva. Hann sagði: „Þér eruð ljós heimsins. . . . Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ Þeir sem unna ljósinu vegsama Guð. Gera þeir það aðeins með því að segja og gera eitthvað fallegt og mannúðlegt? Nei, þeir gera það með því að vegsama Jehóva í sameiningu. Þeir sem unna ljósinu vígjast Guði og lofa hann glaðir. Hefur þú stigið þetta ánægjulega skref?

Gleði af því að lofa Jehóva

7. Af hverju eru þeir sem lofa Jehóva svona glaðir og hvaða gleði nutu þeir á hvítasunnudeginum árið 33?

7 Af hverju eru þeir sem lofa Jehóva svona glaðir? Af því að gleði er ávöxtur heilags anda hans. Í Galatabréfinu 5:22 er hún nefnd strax á eftir kærleika. Lærisveinar Jesú á fyrstu öld báru þennan ávöxt anda Jehóva. Á hvítasunnudeginum árið 33, þegar Guð úthellti anda sínum yfir 120 lærisveina Jesú, tóku þeir allir að lofa Guð á mismunandi tungumálum. Guðræknum Gyðingum margra landa, sem komnir voru til Jerúsalem, „brá mjög við,“ voru „frá sér af undrun“ og sögðu: „Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs“! (Postulasagan 2:1-11) Hver var árangurinn af því að Jehóva var lofaður þarna á mörgum tungumálum? Um 3000 Gyðingar og trúskiptingar tóku við fagnaðarerindinu um Messías. Þeir létu skírast, fengu heilagan anda og tóku að lofa Jehóva glaðir og ákafir. (Postulasagan 2:37-42) Hvílík blessun!

8. Hvað gerðu kristnir menn eftir hvítasunnuna til að auka gleði sína?

8 Frásagan heldur áfram: „Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En [Jehóva] bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.“ (Postulasagan 2:46, 47) Var það bara félagsskapurinn og sameiginlegt borðhald sem veitti þeim mikla gleði? Nei, gleði þeirra stafaði fyrst og fremst af því að þeir lofuðu Jehóva Guð dag eftir dag. Og gleðin jókst þegar þeir sáu menn taka þúsundum saman við hjálpræðisboðskap þeirra. Eins er það hjá okkur nú á dögum.

Glaðir menn allra þjóða sem lofa Guð

9. (a) Hvenær og hvernig byrjaði Guð að gefa fólki allra þjóða tækifæri til að heyra fagnaðarerindið? (b) Hvers vegna var heilögum anda úthellt yfir Kornelíus og þá sem með honum voru áður en þeir voru skírðir?

9 Jehóva vildi ekki að ljósberastarf þjóna sinna takmarkaðist við eina þjóð. Þess vegna veitti hann mönnum af öllum þjóðum tækifæri til að heyra fagnaðarerindið frá árinu 36. Eftir handleiðslu Guðs fór Pétur inn á heimili heiðins liðsforingja í Sesareu. Þar fann hann Kornelíus ásamt fjölskyldu og nánustu vinum. Þau hlýddu með athygli á orð Péturs og iðkuðu trú á Jesú í hjörtum sér. Hvernig vitum við það? Vegna þess að heilagur andi Guðs kom yfir þessa trúuðu menn af þjóðunum. Yfirleitt fengu menn ekki heilagan anda fyrr en eftir skírn, en þarna lét Jehóva í ljós velþóknun sína á þessu fólki áður en það lét skírast. Ef hann hefði ekki gert það hefði Pétur ekki getað verið viss um að hann tæki nú við mönnum af þjóðunum sem þjónum sínum og að þeir væru hæfir til vatnsskírnar. — Postulasagan 10:34, 35, 47, 48.

10. Hvernig var boðað frá fornu fari að fólk af öllum þjóðum myndi lofa Jehóva?

10 Frá fornu fari hafði Jehóva boðað að fólk allra þjóða myndi lofa hann svo að hann ætti sér glaða dýrkendur í öllum löndum. Til að sanna það vitnaði Páll í spádóma í Hebresku ritningunum. Hann sagði alþjóðlegum söfnuði kristinna manna í Róm: „Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar. Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin, en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er [í Sálmi 18:50]: ‚Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni.‘ Og enn segir [í 5. Mósebók 32:43]: ‚Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,‘ og enn [í Sálmi 117:1]: ‚Lofið [Jehóva], allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir.‘“ — Rómverjabréfið 15:7-11.

11. Hvernig hefur Guð hjálpað fólki allra þjóða að læra sannleika sinn og með hvaða árangri?

11 Fólk getur ekki lofað Jehóva sameiginlega nema það setji von sína á Jesú Krist, hann sem Jehóva hefur skipað til að ríkja yfir fólki af öllum þjóðum. Guð hefur hrint í framkvæmd alþjóðlegri fræðsluáætlun til að sýna þeim fram á að sannleikur hans leiði til eilífs lífs. Hann stjórnar því fyrir milligöngu hins trúa þjónshóps síns. (Matteus 24:45-47) Og hver er árangurinn? Meira en fimm milljónir gleðiradda syngja Jehóva lof í ríflega 230 löndum. Og milljónir manna til viðbótar sýna áhuga á að gera það líka. Líttu á hina frábæru aðsókn að minningarhátíðinni árið 1996 sem var 12.921.933 manns!

Miklum múgi glaðra dýrkenda spáð

12. Hvaða áhrifamiklu sýn sá Jóhannes postuli og hver er lifandi veruleiki hennar?

12 Jóhannes postuli sá ‚mikinn múg‘ af öllum þjóðum í sýn. (Opinberunarbókin 7:9) Hvaða lofsöng syngur þessi mikli múgur dýrkenda Guðs ásamt hinum smurðu leifum? Jóhannes segir okkur: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:10) Þetta er boðað djarflega í öllum heimshornum. Við lofum Guð sem alheimsdrottin einum munni, eins og værum við að veifa pálmagreinum, og við játum glaðlega fyrir himni og jörð að við skuldum honum og syni hans, lambinu Jesú Kristi, hjálpræði okkar. Það var hrífandi fyrir Jóhannes postula að sjá múginn mikla í þessari áhrifamiklu sýn! Og það er mjög hrífandi fyrir okkur að sjá og jafnvel vera hluti af þeim lifandi veruleika sem Jóhannes sá!

13. Hvað aðgreinir fólk Jehóva frá heiminum?

13 Við erum þjónar Jehóva og berum stoltir nafn hans. (Jesaja 43:10, 12) Við erum ólík þessum heimi af því að við erum vottar Jehóva. Hvílík gleði að bera nafn Guðs og hafa sem tilgang í lífinu að vinna verk hans. Hinn stórkostlegi tilgangur Jehóva að helga nafn sitt og upphefja alheimsdrottinvald sitt fyrir tilstuðlan Guðsríkis hefur gefið lífi okkar gildi. Og hann hefur hjálpað okkur að gegna hlutverki í tilgangi sínum í tengslum við nafn sitt og ríki. Það hefur hann gert með þrennu móti.

Trúað fyrir sannleikanum

14, 15. (a) Nefndu eina leið Guðs til að hjálpa okkur að gegna hlutverki í sambandi við nafn sitt og ríki. (b) Hvernig var ríkið, sem komið var á fót árið 1914, ólíkt því sem var kollvarpað árið 607 f.o.t.?

14 Í fyrsta lagi hefur Jehóva trúað fólki sínu fyrir sannleikanum. Stórfenglegasta opinberunin er sú að ríki hans hafi tekið völd árið 1914. (Opinberunarbókin 12:10) Þessi himneska stjórn er ólík táknmynd sinni, ríkinu í Jerúsalem þar sem konungar af ætt Davíðs voru settir í hásæti. Því ríki var kollvarpað og árið 607 f.o.t. var Jerúsalem sett algerlega undir stjórn heiðinna heimsvelda. Nýja ríkið, sem Jehóva setti á stofn árið 1914, er himneskt ríki sem verður aldrei sett undir nokkurn annan en hann og aldrei lagt í rúst. (Daníel 2:44) Og stjórnarfar þess er ólíkt. Hvernig? Opinberunarbókin 11:15 svarar: „Heyrðust þá raddir miklar á himni, er sögðu: Heimsríkið er orðið ríki Drottins vors og hans Smurða, og hann mun ríkja um aldir alda.“ — Biblían 1912.

15 „Ríki Drottins vors og hans Smurða“ fer með völd yfir öllum mannheimi. Þarna birtist drottinvald Jehóva með nýjum hætti því að Messías, sonur hans, á þar hlut að máli ásamt 144.000 bræðrum sínum sem flestir eru nú þegar risnir upp í himneskri dýrð. Þetta er ekki bara fræðilegt fyrirbæri fyrir biblíugrúskara til að ræða sín á milli. Nei, þetta himneska ríki er raunveruleg stjórn og þær gleðilegu framtíðarhorfur að lifa að eilífu í fullkomleika fyrir tilstuðlan hennar eru okkur ærið fagnaðarefni áfram. Okkur er trúað fyrir slíkum sannindum úr orði Jehóva og það fær okkur til að vera góðir málsvarar þess. (Sálmur 56:11) Gerir þú það að staðaldri með því að segja öllum að Messíasarríki Guðs stjórni nú á himnum?

Hjálp heilags anda og heimsbræðralags

16, 17. Nefndu tvær aðrar leiðir Guðs til að hjálpa okkur að gegna hlutverki í tilgangi sínum.

16 Önnur leið Guðs til að hjálpa okkur að gegna hlutverki í tilgangi sínum er sú að gefa okkur heilagan anda sinn. Andinn gerir okkur kleift að bera fagran ávöxt sinn í lífi okkar og öðlast velþóknun Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Og Páll skrifaði smurðum kristnum mönnum: „Vér höfum . . . hlotið . . . andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið.“ (1. Korintubréf 2:12) Með því að láta anda Jehóva leiða okkur getum við öll þekkt og skilið hið góða sem hann hefur af góðvild sinni gefið okkur — loforð hans, lög, meginreglur og svo framvegis. — Samanber Matteus 13:11.

17 Þriðja leið Jehóva Guðs til að hjálpa okkur er heimsbræðralagið og hið ánægjulega tilbeiðslufyrirkomulag hans. Pétur postuli talaði um það þegar hann hvatti okkur til að ‚elska bræðrafélagið.‘ (1. Pétursbréf 2:17) Hin kærleiksríka alþjóðafjölskylda bræðra og systra hjálpar okkur að þjóna Jehóva með hjartans gleði eins og Sálmur 100:2 fyrirskipar: „Þjónið [Jehóva] með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!“ Fjórða versið bætir við: „Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.“ Við getum því verið glöð, hvort sem við erum að prédika meðal almennings eða sækja samkomur. Við höfum fundið ríkulegan frið og öryggi í fögrum forgörðum andlegs musteris Jehóva.

Lofið Jehóva með gleði!

18. Af hverju getum við fagnað því að lofa Jehóva þrátt fyrir ofsóknir eða önnur vandamál sem að steðja?

18 Hversu erfiðar aðstæður, ofsóknir eða önnur vandamál sem steðja að okkur þá skulum við fagna því að við erum í tilbeiðsluhúsi Jehóva. (Jesaja 2:2, 3) Munum að gleði á sér rætur í hjartanu. Frumkristnir bræður okkar og systur lofuðu Jehóva með gleði þrátt fyrir hina mörgu erfiðleika og tjón sem þau urðu fyrir. (Hebreabréfið 10:34) Trúbræður okkar nú á tímum eru alveg eins og þau. — Matteus 5:10-12.

19. (a) Hvaða endurtekin fyrirmæli örva okkur til að lofa Jehóva? (b) Hverju er eilíft líf okkar háð og hverju erum við staðráðin í?

19 Við, sem þjónum Jehóva, höfum öll yndi af því að hlýða fyrirmælum Biblíunnar um að lofa hann. Oft undirstrikar Opinberunarbókin lofgerð til Guðs með orðinu „hallelúja“ eða „lofið Jah!“ (Opinberunarbókin 19:1-6) Í hinum sex versum 150. sálmsins er okkur sagt 13 sinnum að lofa Jehóva. Þetta er allsherjarhvatning til allrar sköpunar að taka undir og syngja Jehóva lof með gleði. Eilíft líf okkar er undir því komið að við tökum undir með þessum mikla hallelújakór! Eina fólkið, sem fær eilíft líf, er það sem lofar Jehóva án afláts. Við erum því staðráðin í að halda okkur fast við drottinhollan heimssöfnuð hans er endirinn nálgast. Þá getum við vonast eftir að sjá lokaorð 150. sálmsins verða að veruleika: „Allt sem andardrátt hefir lofi [Jah]! Halelúja!“

Hvert er svar þitt?

◻ Hvað gerir fólk Jehóva einstakt?

◻ Hvers vegna eru þjónar Jehóva svona glaðir?

◻ Hvað aðgreinir okkur frá heiminum?

◻ Á hvaða þrjá vegu hefur Guð hjálpað okkur að gegna hlutverki í tilgangi sínum?

[Mynd á blaðsíðu 31]

Jesús bar vitni um Jehóva hvar sem hann var og lofaði hann meðal almennings.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila