13. KAFLI
Ef hjónabandið er að fara út um þúfur
1, 2. Hvaða spurningar ætti að spyrja ef maður á í erfiðleikum í hjónabandinu?
LINDA var langt niðri.a Hún hafði verið gift í tíu ár en nú var að slitna upp úr hjónabandinu. Hún hafði margoft reynt að sættast við eiginmann sinn en án árangurs. Hún skildi því við hann að borði og sæng sökum ósamlyndis og þurfti nú ein að sjá um uppeldi tveggja dætra. „Ég var sannfærð um að hjónabandinu yrði ekki bjargað,“ segir hún þegar hún lítur um öxl.
2 Ef þú átt í erfiðleikum í hjónabandinu geturðu sennilega sett þig í spor Lindu. Þú veltir kannski fyrir þér hvort hægt sé að bjarga hjónabandi þínu. Ef svo er komið getur verið gott að spyrja sig eftirfarandi spurningar: Hef ég fylgt öllum þeim góðu ráðum Biblíunnar sem stuðla að farsælu hjónabandi? — Sálmur 119:105.
3. Hvaða áhrif getur skilnaður haft?
3 Ef mikil spenna er milli hjóna getur auðveldasta leiðin virst sú að slíta hjónabandinu. Hjónaskilnuðum hefur vissulega fjölgað gríðarlega víða um lönd en kannanir benda til þess að stór hluti fráskilinna sjái eftir því að hafa slitið hjónabandinu. Líkamlegir kvillar og geðræn vandamál eru algengari meðal fráskilinna en þeirra sem halda saman. Skilnaðarbörn eru oft vansæl og ráðvillt árum saman eftir að foreldrarnir slíta samvistum. Skilnaðurinn kemur líka niður á foreldrum og vinum hjónanna. Og hvernig ætli Guð, höfundur hjónabandsins, líti á málið?
4. Hvernig ætti að taka á erfiðleikum í hjónabandi?
4 Eins og fram hefur komið fyrr í bókinni var það ætlun Guðs að hjónabandið entist ævilangt. (1. Mósebók 2:24) Af hverju enda þá svona mörg hjónabönd með skilnaði? Það gerist sjaldan á einni nóttu. Yfirleitt eru farnir að sjást brestir í hjónabandinu áður en upp úr slitnar. Smávægileg vandamál geta hlaðið utan á sig uns þau virðast óleysanleg. Sé hins vegar tekið fljótt á vandamálum með hjálp Biblíunnar er oft hægt að afstýra hjónaskilnaði.
VERIÐ RAUNSÆ
5. Hvaða veruleika ættu öll hjón að horfast í augu við?
5 Óraunhæfar væntingar af hálfu annars eða beggja hjónanna er stundum undirrót erfiðleika. Ástarsögur, glanstímarit, sjónvarpsþættir og kvikmyndir geta vakið vonir og drauma sem eru víðsfjarri raunveruleikanum. Þegar draumarnir rætast ekki getur fólki fundist það svikið og það verður óánægt eða jafnvel biturt. En hvernig geta tvær ófullkomnar manneskjur búið í hamingjuríku og farsælu hjónabandi? Það kostar vinnu.
6. (a) Hvað bendir Biblían á í sambandi við hjónabandið? (b) Nefndu nokkrar hugsanlegar ástæður fyrir ósætti milli hjóna.
6 Biblían er raunsæ. Hún minnist á þá gleði sem hægt er að njóta í hjónabandi en bendir jafnframt á að hjón hljóti „þrenging . . . fyrir hold sitt“. (1. Korintubréf 7:28, Biblían 1912) Eins og fram hefur komið eru bæði hjónin ófullkomin og hafa tilhneigingu til að syndga. Andlegt og tilfinningalegt atgervi þeirra er ólíkt og hið sama er að segja um uppeldi þeirra. Hjón geta verið ósammála um peningamál, barnauppeldi og tengdafólkið. Stundum má rekja árekstra til þess að þau gefa sér ekki nægan tíma til að vera saman eða eiga í einhverjum erfiðleikum í kynlífinu.b Það kostar tíma að vinna úr slíkum málum en missið ekki kjarkinn. Flest hjón geta horfst í augu við vandamál sín og fundið lausnir sem bæði eru sátt við.
RÆÐIÐ MÁLIN
7, 8. Hvernig mælir Biblían með að hjón takist á við særðar tilfinningar eða misskilning ?
7 Mörgum finnst erfitt að halda ró sinni þegar þeir ræða um særðar tilfinningar, misskilning eða eigin mistök. Fólki hættir til að láta tilfinningarnar taka völdin og taka of djúpt í árinni í stað þess að segja hreint og beint: „Ég held þú misskiljir mig.“ Margir segja frekar: „Þú hugsar bara um sjálfan þig“ eða: „Þú elskar mig ekki.“ Hitt hjónanna þegir kannski þunnu hljóði til að reyna að komast hjá rifrildi.
8 Það er miklu vænlegra til árangurs að fylgja eftirfarandi ráði Biblíunnar: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ (Efesusbréfið 4:26) Á sextugasta brúðkaupsafmælinu voru hjón spurð hver væri leyndardómurinn að baki farsælu og hamingjuríku hjónabandi þeirra. Maðurinn svaraði: „Okkur lærðist að fara ekki að sofa fyrr en við værum búin að útkljá ágreiningsmál, sama hversu smávægileg þau voru.“
9. (a) Hver er mikilvægur þáttur tjáskipta, að sögn Biblíunnar? (b) Hvað þurfa hjón oft að gera þó að það kosti auðmýkt og hugrekki?
9 Þegar hjón eru ósammála þurfa þau að ‚vera fljót til að heyra, sein til að tala og sein til reiði‘. (Jakobsbréfið 1:19) Eftir að hafa hlustað vel hvort á annað gætu þau bæði þurft að biðjast afsökunar. (Jakobsbréfið 5:16) Það kostar auðmýkt og hugrekki að segja í einlægni: „Fyrirgefðu að ég skyldi særa þig.“ En ef hjón taka á vandamálum sínum með þessum hætti eru þau á góðri leið með að leysa þau. Jafnframt stuðlar það að hlýju og innileik og þau njóta þess enn meir að vera hvort með öðru.
AÐ GEGNA HJÓNABANDSSKYLDUNNI
10. Hverju mælti Páll með í bréfi til Korintumanna sem gæti verið kristnum mönnum til verndar núna?
10 Í bréfi til Korintumanna mælti Páll postuli með hjónabandi „vegna saurlifnaðarins“ sem var svo útbreiddur. (1. Korintubréf 7:2) Heimur nútímans er jafnslæmur og Korinta fortíðar, ef ekki verri. Allt leggst á eitt um að vekja upp fýsnir holdsins — siðlaus mál sem fólk í heiminum ræðir opinskátt, ósæmilegur klæðnaður þess og klúrar sögur sem sagðar eru í tímaritum og bókum og sýndar eru í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Páll skrifaði Korintumönnum sem bjuggu í sambærilegu umhverfi: „Betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.“ — 1. Korintubréf 7:9.
11, 12. (a) Hvað skulda hjón hvort öðru og með hvaða hugarfari ættu þau að láta það í té? (b) Hvað ættu hjón að gera ef þau geta ekki sinnt hjónabandsskyldunni um stundarsakir?
11 Biblían segir því kristnum hjónum: „Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum.“ (1. Korintubréf 7:3) Við tökum eftir að áherslan er lögð á að gefa en ekki heimta. Samlíf hjóna er því aðeins ánægjulegt að þau hugsi bæði um að þóknast hvort öðru. Biblían segir eiginmanni til dæmis að ,sýna eiginkonu sinni nærgætni‘. (1. Pétursbréf 3:7, Biblían 2007) Þetta er sérstaklega mikilvægt í kynlífi hjónanna. Ef maðurinn er ekki blíður við konuna sína gæti hún átt erfitt með að njóta þessa þáttar í hjónabandinu.
12 Þær stundir geta komið að hjón geti ekki sinnt hjónabandsskyldunni. Þetta getur til dæmis gerst hjá konunni á vissum tímum mánaðarins og eins ef hún er mjög þreytt. (Samanber 3. Mósebók 18:19.) Sömuleiðis gæti þetta gerst hjá eiginmanninum ef alvarlegir erfiðleikar koma upp á vinnustað og honum finnst hann þurrausinn tilfinningalega. Ef annað hjónanna treystir sér ekki til að gegna hjónabandsskyldunni um stundarsakir er langbest að þau ræði það opinskátt og séu sammála um það. (1. Korintubréf 7:5) Þá er ekki hætta á að annað hvort þeirra dragi rangar ályktanir í fljótfærni. Ef eiginkona neitar hins vegar að gegna hjónabandsskyldunni eða eiginmaðurinn sinnir því ekki á kærleiksríkan hátt gæti verið meiri hætta á að makinn falli í freistni sem er ávísun á alvarleg vandamál í hjónabandinu.
13. Hvernig geta kristnir menn haldið huga sínum hreinum?
13 Allir þjónar Guðs, hvort sem þeir eru giftir eða ekki, þurfa að forðast klám því að það getur vakið upp óhreinar og óeðlilegar langanir. (Kólossubréfið 3:5) Þeir þurfa líka að hafa gát á hugsunum sínum og framkomu í samskiptum við hitt kynið. Jesús sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28) Með því að fylgja ráðleggingum Biblíunnar í kynferðismálum ættu hjón að geta staðist freistingar og forðast hjúskaparbrot. Þá geta þau notið hjónalífsins eins og best verður á kosið og litið á kynlífið sem eina af hinum góðu gjöfum Jehóva, höfundar hjónabandsins. — Orðskviðirnir 5:15-19.
BIBLÍULEGAR SKILNAÐARFORSENDUR
14. Hvaða dapurlega ástand skapast stundum og hvers vegna?
14 Sem betur fer er yfirleitt hægt að takast á við öll vandamál sem upp koma í kristnu hjónabandi. En stundum reynist það erfitt. Menn eru ófullkomnir og búa í syndugum heimi sem er undir stjórn Satans. Þetta gerir að verkum að hjónabönd eru stundum við það að rofna. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hvernig ætti kristinn maður að takast á við slíka erfiðleika?
15. (a) Hver er eina biblíulega skilnaðarforsendan sem veitir fólki möguleika á að giftast á ný? (b) Af hverju hafa sumir ákveðið að skilja ekki við maka sinn þótt hann hafi reynst ótrúr?
15 Eins og nefnt var í öðrum kafla þessarar bókar er hórdómur eina biblíulega skilnaðarforsendan sem veitir fólki möguleika á að giftast á ný.c (Matteus 19:9) Ef þú hefur ótvíræða sönnun fyrir því að maki þinn hafi reynst ótrúr áttu erfiða ákvörðun fyrir höndum. Ætlarðu að halda hjónabandinu áfram eða sækja um skilnað? Um það eru engar reglur. Sumir kristnir menn hafa algerlega fyrirgefið iðrandi maka og hjónabandið hefur orðið farsælt. Aðrir hafa ákveðið að sækja ekki um skilnað barnanna vegna.
16. (a) Hvers vegna hafa sumir ákveðið að skilja við ótrúan maka? (b) Af hverju ætti enginn að véfengja ákvörðun saklausa makans?
16 Á hinn bóginn gæti framhjáhaldið hafa haft þungun eða samræðissjúkdóm í för með sér, eða þá að nauðsynlegt er að vernda börnin gegn kynferðisofbeldi af hálfu foreldris. Að mörgu er að hyggja áður en ákvörðun er tekin. Ef þú tekur aftur upp kynferðissamband við maka þinn eftir að hafa uppgötvað að hann var þér ótrúr er það hins vegar yfirlýsing um að þú hafir fyrirgefið honum og viljir halda hjónabandinu áfram. Þá eru ekki lengur fyrir hendi biblíulegar skilnaðarforsendur sem veita möguleika á að giftast á ný. Aðrir ættu ekki að blanda sér í málið og reyna að hafa áhrif á ákvörðun þína, og sömuleiðis ætti enginn að gagnrýna þá ákvörðun sem þú tekur. Það ert þú sem þarft að taka afleiðingum hennar. „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ — Galatabréfið 6:5.
AÐ SKILJA AÐ BORÐI OG SÆNG
17. Hvaða skilyrði eru sett í Biblíunni um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað ef ekki er um hórdóm að ræða?
17 Er stundum réttlætanlegt að sækja um skilnað að borði og sæng eða jafnvel lögskilnað þó að makinn hafi ekki gerst sekur um hórdóm? Já, en í slíku tilfelli er kristnum manni ekki frjálst að stofna til kynna við þriðja aðila með hjónaband í huga. (Matteus 5:32) Enda þótt Biblían heimili samvistarslit af þessu tagi er það skilyrði sett að sá sem sæki um skilnaðinn sé áfram ógiftur eða sættist aftur við makann. (1. Korintubréf 7:11) Við hvers konar aðstæður gæti virst ráðlegt að skilja að borði og sæng ?
18, 19. Við hvaða aðstæður mætti hugleiða skilnað að borði og sæng eða lögskilnað þó að ekki sé mögulegt að giftast á ný?
18 Fjölskyldan gæti verið á vonarvöl sökum leti og slæmra ávana heimilisföðurins.d Hann sólundar ef til vill tekjum fjölskyldunnar í fjárhættuspil, áfengi eða fíkniefni. Biblían segir: „Ef einhver sér eigi fyrir . . . heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Ef slíkur maður neitar að bæta ráð sitt og eyðir jafnvel tekjum eiginkonunnar til að fjármagna lesti sína ákveður hún kannski að sækja um skilnað að borði og sæng til að vernda hag sinn og barnanna.
19 Slíkur skilnaður að lögum kemur einnig til greina ef annað hjónanna beitir hitt tíðu og grófu ofbeldi og ógnar jafnvel lífi þess og heilsu með barsmíðum. Og reyni annað hjónanna í sífellu að þvinga hitt til að brjóta boðorð Guðs á einhvern hátt gæti þolandinn einnig íhugað að slíta samvistum við maka sinn, ekki síst ef svo er komið að trú hans er í hættu. Þolandinn kemst ef til vill að þeirri niðurstöðu að hann eigi ekki um annað að velja en að sækja um skilnað að borði og sæng til að ‚hlýða Guði framar en mönnum‘. — Postulasagan 5:29.
20. (a) Hvaða aðstoð geta þroskaðir vinir og safnaðaröldungar boðið fram en hvað ættu þeir ekki að gera? (b) Hvernig ætti kristið fólk ekki að nota orð Biblíunnar um lögskilnað og skilnað að borði og sæng ?
20 Þótt gróft heimilisofbeldi eigi sér stað ætti hvorki að þrýsta á þolandann að slíta samvistum við maka sinn né hvetja hann til að halda áfram að búa með honum. Þroskaðir vinir og safnaðaröldungar geta auðvitað boðið fram stuðning sinn og gefið biblíuleg ráð en það er ógerlegt fyrir þá að vita í smáatriðum hvað fer fram í samskiptum hjónanna. Jehóva einn sér það. Kristin eiginkona væri auðvitað ekki að heiðra hjónabandið, sem Guð er höfundur að, ef hún notaði einhverja átyllu til að losna úr hjónabandinu. Ef ástandið er hreinlega hættulegt ætti enginn hins vegar að gagnrýna hana þótt hún ákveði að slíta samvistum við eiginmann sinn. Hið sama er auðvitað að segja um kristinn eiginmann sem er að hugsa um að sækja um skilnað að borði og sæng. „Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.“ — Rómverjabréfið 14:10.
HVERNIG HJÓNABANDI VAR BJARGAÐ
21. Hvaða dæmi sýnir að ráðleggingar Biblíunnar um hjónaband hrífa?
21 Þrem mánuðum eftir að Linda, sem getið var í byrjun kaflans, sleit samvistum við eiginmann sinn hitti hún votta Jehóva og byrjaði að kynna sér Biblíuna með hjálp þeirra. „Mér til mikillar undrunar komst ég að raun um að Biblían hafði að geyma raunhæfa lausn á þeim vanda sem ég átti í,“ segir hún. „Það var ekki liðin nema vika þegar mig langaði til að sættast við manninn minn. Ég get fullyrt að Jehóva kann að bjarga hjónaböndum í vanda vegna þess að leiðbeiningar hans kenna hjónum að virða hvort annað. Það er rangt að vottar Jehóva sundri fjölskyldum eins og sumir halda fram. Hjá mér gerðist hið gagnstæða.“ Linda lærði að fara eftir meginreglum Biblíunnar.
22. Hverju ættu hjón að treysta?
22 Linda er engin undantekning. Jehóva vill að hjónabandið sé blessun en ekki byrði og hefur í orði sínu veitt bestu hjónaráðgjöf sem til er. Biblían getur gert „hinn fávísa vitran“. (Sálmur 19:8-12) Hún hefur bjargað fjölda hjónabanda sem voru að fara út um þúfur og stórbætt ótal önnur þar sem hjón áttu í alvarlegum erfiðleikum. Hjón geta treyst á ráðleggingar Jehóva Guðs. Þær virka!
a Nafninu er breytt.
b Fjallað var um sumt af þessu fyrr í bókinni.
c Biblíuorðið, sem þýtt er „hór“, felur í sér hjúskaparbrot, kynmök við manneskju af sama kyni, kynmök við dýr og aðra óleyfilega notkun kynfæranna.
d Hér er ekki átt við það þegar fjölskyldufaðir er ófær um að sjá fyrir fjölskyldunni af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda eða atvinnuleysis.