Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w93 1.2. bls. 16-21
  • Hvernig hleypur þú í kapphlaupinu um lífið?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig hleypur þú í kapphlaupinu um lífið?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Kapphlaupið um lífið
  • Iðkið sjálfstjórn á öllum sviðum
  • Hlauptu „ekki stefnulaust“
  • Þú getur verið þolgóður allt til enda
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Ljúkum hlaupinu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • Þreytum kapphlaupið af þolgæði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Keppum þolgóð að eilífa lífinu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
w93 1.2. bls. 16-21

Hvernig hleypur þú í kapphlaupinu um lífið?

„Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.“ — 1. KORINTUBRÉF 9:24.

1. Við hvað líkir Biblían kristinni lífsbraut okkar?

BIBLÍAN líkir viðleitni okkar til að hljóta eilíft líf við kapphlaup. Á síðustu ævidögum sínum sagði Páll um sjálfan sig: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið [„hlaupið brautina á enda,“ NW], hef varðveitt trúna.“ Hann hvatti kristna bræður sína til að gera slíkt hið sama er hann sagði: „Léttum . . . af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:7; Hebreabréfið 12:1.

2. Hvaða uppörvandi byrjun sjáum við í kapphlaupinu um lífið?

2 Þessi samanburður á vel við vegna þess að skeið eða kapphlaup hefst við ráslínuna, fylgir ákveðinni leið og lýkur við markið. Þannig er það líka með andlegt þroskaferli okkar í átt til lífsins. Eins og við höfum séð leggja hundruð þúsunda manna á hverju ári vel af stað í kapphlaupinu um lífið. Svo dæmi sé tekið hafa 1.406.558 einstaklingar byrjað formlega í kapphlaupinu með vígslu og skírn á síðustu fimm árum. Svona kröftug byrjun er mjög uppörvandi. En mikilvægast er að halda hlaupinu áfram uns markinu er náð. Ert þú að því?

Kapphlaupið um lífið

3, 4. (a) Hvernig benti Páll á nauðsyn þess að halda áfram í kapphlaupinu? (b) Hvernig hafa sumir ekki farið eftir ráðleggingum Páls?

3 Til að undirstrika mikilvægi þess að halda áfram í hlaupinu áminnti Páll: „Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli [„hlauparar í kapphlaupi,“ NW], hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.“ — 1. Korintubréf 9:24.

4 Víst er það rétt að í hinum fornu kappleikjum gat aðeins einn hlotið sigurlaunin. En í kapphlaupinu um lífið geta allir fengið sigurlaunin. Aðeins þarf að halda hlaupið út til enda! Til allrar hamingju hafa margir hlaupið trúfastir til æviloka eins og Páll postuli gerði. Og milljónir manna halda áfram að hlaupa. Sumir hafa þó ekki lagt sig fram eða tekið framförum í átt að markinu. Þeir leyfðu einhverju öðru að hindra sig þannig að þeir féllu úr keppni eða urðu vanhæfir á einhvern hátt. (Galatabréfið 5:7) Það ætti að vera okkur öllum tilefni til að rannsaka hvernig við hlaupum í kapphlaupinu um lífið.

5. Var Páll að líkja kapphlaupinu um lífið við samkeppnisleik? Gefðu skýringu.

5 Hægt væri að spyrja: Hvað hafði Páll í huga þegar hann sagði að aðeins ‚einn fengi sigurlaunin‘? Eins og fram kom hér á undan átti hann ekki við að meðal allra þeirra sem hófu kapphlaupið um lífið fengi aðeins einn eilíft líf að launum. Augljóst er að það getur ekki verið því Páll gerir aftur og aftur ljóst að það sé Guðs vilji að allir menn verði hólpnir. (Rómverjabréfið 5:18; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4; 4:10; Títusarbréfið 2:11) Nei, hann var ekki að segja að kapphlaupið um lífið sé keppni þar sem hver keppandi reynir að sigra alla hina. Korintumenn vissu svo ósköp vel að slíkur samkeppnisandi ríkti meðal keppenda á eiðisleikunum sem sagðir voru virtari en Ólympíuleikarnir á þeim tíma. Hvað hafði Páll þá í huga?

6. Hvað sýnir samhengið varðandi umræðu Páls um hlauparann og kapphlaupið?

6 Með líkingunni um hlauparann var Páll aðallega að tala um sínar eigin hjálpræðishorfur. Í versunum á undan lýsti hann hvernig hann hafði unnið hörðum höndum og lagt sig fram á marga vegu. (1. Korintubréf 9:19-22) Síðan sagði hann í versi 23: „Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.“ Hann gerði sér grein fyrir því að hjálpræði hans væri ekki tryggt vegna þess eins að hann var valinn til að vera postuli eða vegna þess að hann hafði varið mörgum árum í að prédika fyrir öðrum. Til að fá hlutdeild í blessunum fagnaðarerindisins varð hann að gera allt sem í hans valdi stóð vegna fagnaðarerindisins. Hann varð að hlaupa með þeim fasta ásetningi að vinna, leggja jafnhart að sér og væri hann þátttakandi í kapphlaupi á eiðisleikunum þar sem aðeins „einn fær sigurlaunin.“ — 1. Korintubréf 9:24a.

7. Hvað er nauðsynlegt til að ‚hlaupa þannig að við öðlumst launin‘?

7 Við getum lært margt af þessu dæmi. Jafnvel þótt alla sem taka þátt í kapphlaupinu langi til að vinna hafa aðeins þeir sem eru alveg staðráðnir í því einhverja möguleika. Við ættum þess vegna ekki að vera sjálfsánægð aðeins vegna þess að við tökum þátt í kapphlaupinu. Ímyndum okkur ekki að allt verði í stakasta lagi fyrst við erum ‚í sannleikanum.‘ Við getum kallast kristnir, en höfum við eitthvað sem sannar að við séum það? Gerum við til dæmis það sem við vitum að kristnir menn ættu að gera — sækja kristnar samkomur, taka þátt í starfinu á akrinum og svo framvegis? Það er hrósunarvert ef svo er og við ættum keppa að því að halda fast við slíkar frábærar venjur. Er samt sem áður möguleiki að við gætum haft meira gagn af því sem við gerum? Erum við til dæmis alltaf undirbúin til að taka einhvern þátt í samkomunum? Kappkostum við að heimfæra það sem við lærum á líf okkar? Vinnum við að því að bæta hæfni okkar þannig að við getum gefið rækilegan vitnisburð þrátt fyrir þá andstöðu sem við mætum í starfinu? Erum við fús til að taka þeirri áskorun að fara í endurheimsóknir til áhugasamra einstaklinga og stjórna með þeim biblíunámi? „Hlaupið þannig, að þér hljótið þau,“ hvatti Páll. — 1. Korintubréf 9:24b.

Iðkið sjálfstjórn á öllum sviðum

8. Hvað gæti hafa knúið Pál til að hvetja kristna bræður sína til að ‚iðka sjálfstjórn á öllum sviðum‘?

8 Á ævi sinni hafði Páll séð marga hægja á sér, hrekjast af leið eða gefast upp í kapphlaupinu um lífið. (1. Tímóteusarbréf 1:19, 20; Hebreabréfið 2:1) Þess vegna minnti hann kristna bræður sína hvað eftir annað á að þeir væru í erfiðri og óslitinni keppni. (Efesusbréfið 6:12; 1. Tímóteusarbréf 6:12) Hann vann nánar úr líkingunni við hlauparann og sagði: „Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt [„iðkar sjálfstjórn á öllum sviðum,“ NW].“ (1. Korintubréf 9:25a) Með þessum orðum var Páll að vísa óbeint til einhvers sem kristnir Korintumenn þekktu vel, það er að segja hinnar ströngu þjálfunar sem keppendur eiðisleikanna stunduðu.

9, 10. (a) Hvernig lýsir heimildarrit keppendum á eiðisleikunum? (b) Hvað er sérstaklega athyglisvert við þessa lýsingu?

9 Hér kemur greinagóð lýsing á þjálfun keppanda:

„Fúslega og möglunarlaust beygir hann sig undir reglur og hömlur tíu mánaða þjálfunar sinnar því án hennar gæti hann alveg eins látið það vera að að keppa. . . . Hann er stoltur af litlu þrautunum sem hann þarf að þola, þreytunni og skortinum og telur það heiður að halda sig samviskusamlega frá hverju sem gæti hið minnsta dregið úr möguleika sínum á að ná árangri. Hann sér aðra láta undan matarlystinni, hvílast meðan hann stynur undan áreynslunni, slaka á í baði, njóta lystisemda lífsins; en öfund hvarflar varla að honum því að hann hefur einsett sér að hreppa sigurlaunin, þannig að hlífðarlaus þjálfun er óhjákvæmileg. Hann veit að möguleikar hans eru glataðir ef hann í einhverju atriði eða við eitthvert tækifæri slakar á strangri þjálfun sinni.“ — The Expositor’s Bible, 5. bindi, bls. 674.

10 Sérlega athyglisverð er sú athugasemd að sá sem er í þjálfun ‚telji það heiður‘ að ganga í gegnum svo stranga þjálfun í sjálfsafneitun. Í raun ‚hvarflar öfund ekki að honum‘ yfir þeim þægindum og rólegheitum sem hann sér aðra njóta. Getum við lært eitthvað af þessu? Já, svo sannarlega.

11. Hvaða röng viðhorf verðum við að varast þegar við tökum þátt í kapphlaupinu um lífið?

11 Minnstu orða Jesú að „vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ (Matteus 7:13, 14) Er þú kappkostar að ganga ‚mjóa veginn‘ lítur þú þá öfundaraugum á það frelsi og áhyggjuleysi sem fólk virðist njóta á breiða veginum? Finnst þér þú vera að missa af einhverju sem aðrir eru að gera og virðist ekki vera svo slæmt í sjálfu sér? Það er auðvelt fyrir okkur að finnast það ef við höfum ekki í huga ástæðuna fyrir því að við höfum tekið þessa stefnu. „Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan,“ sagði Páll. — 1. Korintubréf 9:25b.

12. Hvers vegna er hægt að segja að vegsemd og vinsældir, sem fólk hefur sóst eftir, séu svipuð hinum hverfula sigursveig sem veittur var á eiðisleikunum?

12 Sigurvegarinn á eiðisleikunum hlaut krans úr furu eða einhverri annarri plöntu sem líklega visnaði á nokkrum dögum eða vikum. Að sjálfsögðu kepptu íþróttamennirnir ekki vegna hins forgengilega sigursveigs, heldur vegna þeirrar vegsemdar, virðingar og frægðar sem því fylgdi. Í heimildarriti segir að þegar sigurvegarinn sneri heim hafi hann verið hylltur sem sigursæl hetja. Oft voru borgarveggir rifnir niður þannig að hann kæmist í gegn á sigurgöngu sinni og styttur voru reistar honum til heiðurs. En þrátt fyrir allt þetta féll vegsemd hans í gleymsku. Fáir nú á dögum hafa nokkra hugmynd um hverjar þessar sigusælu hetjur voru og flestum er í rauninni alveg sama. Þeir sem fórna tíma sínum, kröftum, heilsu og jafnvel hamingju fjölskyldunnar til að öðlast völd, frægð og auðæfi í heiminum, en eru ekki ríkir hjá Guði, komast að raun um að líkt sé með hinum efnislega „sigursveig“ og lífi þeirra; það er bara stundlegt. — Matteus 6:19, 20; Lúkas 12:16-21.

13. Hvernig er lífsstefna þátttakendanna í kapphlaupinu um lífið ólík lífsstefnu íþróttamanna?

13 Keppendur á íþróttamóti kunna að vera fúsir til að ganga gegnum stranga þjálfun, eins og þá sem lýst var að framan, en aðeins um takmarkaðan tíma. Um leið og leikunum er lokið fer líf þeirra aftur í eðlilegt horf. Þeir æfa sig kannski endrum og eins til að viðhalda færni sinni en þeir fylgja ekki lengur strangri sjálfsafneitun, að minnsta kosti ekki fyrr en líður að næstu keppni. Þannig er það ekki hjá þeim sem eru í kapphlaupinu um lífið. Hjá þeim verður þjálfun og sjálfsafneitun að vera lífsstefna. — 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.

14, 15. Hvers vegna verður keppandi í kapphlaupinu um lífið stöðugt að iðka sjálfstjórn?

14 „Hver sem vill fylgja mér,“ sagði Jesús Kristur við lærisveinana og aðra saman komna, „afneiti sjálfum sér [eða, „hann verður að segja ‚nei‘ við sjálfan sig,“ Charles B. Williams], taki kross sinn og fylgi mér [„stöðuglega,“ NW].“ (Markús 8:34) Þegar við tökum þessu boði verðum við að vera reiðubúin að gera það „stöðuglega,“ ekki vegna þess að sjálfsafneitun sé sérstakur verðleiki, heldur vegna þess að augnabliks ógætni, ein dómgreindarglöp, geta ónýtt allt sem búið var að byggja upp, jafnvel stofnað eilífri velferð okkar í hættu. Andleg framför gengur yfirleitt frekar hægum skrefum, en getur fokið snögglega út í veður og vind ef við erum ekki stöðugt á varðbergi!

15 Enn fremur lagði Páll áherslu á að við yrðum að iðka sjálfstjórn „á öllum sviðum,“ það er að segja við verðum gera það af stefnufestu á öllum sviðum lífsins. Það hljómar skynsamlega því ef íþróttamaður í þjálfun lætur óhóflega mikið eftir sér eða lifir taumlausu lífi, hvaða gagn verður þá af þeirri líkamlegu þjáningu og áreynslu sem hann þolir? Eins verðum við að iðka sjáfstjórn á öllum sviðum í kapphlaupi okkar um lífið. Maður gæti haft stjórn á sér varðandi drykkjuskap og saurlifnað en gildi þess minnkar ef hann er hrokafullur og deilugjarn. En hvað nú ef hann er langlyndur og vingjarnlegur í viðmóti en felur einhverja leynda synd í einkalífi sínu? Til að hafa fullt gagn af sjálfstjórn verður að iðka hana „á öllum sviðum.“ — Samanber Jakobsbréfið 2:10, 11.

Hlauptu „ekki stefnulaust“

16. Hvað þýðir það að hlaupa „ekki stefnulaust“?

16 Páll gerði sér grein fyrir hve kappsfulla viðleitni þarf til að ná árangri í kapphlaupinu um lífið og bætti við: „Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.“ (1. Korintubréf 9:26) Orðið „stefnulaust“ þýðir bókstaflega „ógreinilega“ (Kingdom Interlinear), „óséð, ómerkt“ (Lange’s Commentary). Það að hlaupa „ekki stefnulaust“ þýðir þess vegna að það sé alveg ljóst hverjum sem á horfir hvert hlauparinn stefnir. The Anchor Bible þýðir það „ekki eftir krákustíg.“ Ef þú sæir fótspor í fjörusandi, sem lægju fram og aftur um ströndina, færu hér og þar í hringi og stundum jafnvel til baka, myndir þú varla halda að maðurinn hafi verið að hlaupa, hvað þá að hann hafi haft hugmynd um hvert hann stefndi. En ef þú sæir langa og beina slóð þar sem jafnt bil væri milli spora myndir þú álykta að fótsporin tilheyrðu manni sem vissi nákvæmlega hvert hann væri að fara.

17. (a) Hvernig sýndi Páll að hann hljóp „ekki stefnulaust“? (b) Hvernig getum við líkt eftir Páli í þessu?

17 Af lífi Páls sést að hann hljóp „ekki stefnulaust.“ Kappnógar sannanir voru fyrir því að hann væri kristinn þjónn og postuli. Hann hafði aðeins eitt markmið og lagði sig kröftuglega fram allt til æviloka um að ná því. Hann lét aldrei tilhugsun um vinsældir, völd, auðæfi eða þægindi koma sér út af sporinu, jafnvel þótt hann hefði hugsanlega getað hlotið hvað sem var af þessu. (Postulasagan 20:24; 1. Korintubréf 9:2; 2. Korintubréf 3:2, 3; Filippíbréfið 3:8, 13, 14) Þegar þú lítur til baka á lífsleið þína, hvers konar slóð sérð þú? Beina línu með greinilegri stefnu eða reikandi slóð án nokkurs markmiðs? Er augljóst að þú ert þátttakandi í kapphlaupinu um lífið? Mundu að við erum ekki í kapphlaupinu bara til málamynda, heldur til að komast í mark.

18. (a) Hvað getur verið sambærilegt við að ‚slá vindhögg‘? (b) Hvers vegna er það hættuleg stefna?

18 Páll hélt áfram og tók nú samlíkingu við aðra íþróttagrein: „Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.“ (1. Korintubréf 9:26b) Í keppni okkar um lífið eigum við marga óvini, þeirra á meðal Satan, heiminn og okkar eigin ófullkomleika. Eins og hnefaleikamenn til forna verðum við að geta slegið þá niður með hnitmiðuðum höggum. Sem betur fer þjálfar Jehóva Guð okkur og hjálpar í baráttunni. Hann gefur leiðbeiningar í orði sínu, biblíuritum og á kristnum samkomum. Ef við lesum Biblíuna og ritin og sækjum samkomurnar en breytum ekki eftir því sem við lærum, erum við þá ekki að erfiða til einskis, ‚slá vindhögg‘? Það setur okkur í mjög hættulega aðstöðu. Við höldum að við séum að berjast og fáum þannig falska öryggiskennd en við erum ekki að sigra óvini okkar. Það er þess vegna sem lærisveinninn Jakob áminnir: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður [„með fölskum röksemdum,“ NW].“ Við tryggjum ekki að við séum að gera vilja Guðs með því að vera „aðeins heyrendur“ frekar en við sigrum óvini okkar með því að ‚slá vindhögg.‘ — Jakobsbréfið 1:22; 1. Samúelsbók 15:22; Matteus 7:24, 25.

19. Hvernig getum við tryggt að okkur verði ekki hafnað?

19 Að lokum ljóstrar Páll upp leyndarmáli velgengni sinnar: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.“ (1. Korintubréf 9:27) Eins og Páll verðum við líka að ná valdi yfir ófullkomnu holdi okkar en ekki leyfa því að stjórna okkur. Við verðum að uppræta holdlegar tilhneigingar, langanir og girndir. (Rómverjabréfið 8:5-8; Jakobsbréfið 1:14, 15) Það getur verið sársaukafullt að gera það því orðið sem þýtt er ‚að leika . . . hart‘ merkir bókstaflega ‚högg undir augað‘ (Kingdom Interlinear). Er þó ekki betra að fá glóðarauga, ef svo má segja, og lifa heldur en að láta undan girndum hins fallna holds og deyja? — Samanber Matteus 5:28, 29; 18:9; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

20. Hvers vegna er sérstaklega núna áríðandi að rannsaka hvernig við hlaupum í kapphlaupinu um lífið?

20 Núna nálgumst við markið í kapphlaupinu. Verðlaunin verða brátt afhent. Smurðir kristnir menn fá ‚verðlaunin á himnum, sem Guð kallaði þá til fyrir Krist Jesú.‘ (Filippíbréfið 3:14) Verðlaunin, sem múgurinn mikli fær, eru eilíft líf í jarðneskri paradís. Þar eð svo mikið er í húfi skulum við vera staðráðin, eins og Páll var, í að ‚verða ekki hafnað.‘ Megi hvert og eitt okkar taka til sín fyrirmælin: „Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.“ — 1. Korintubréf 9:24, 27.

Manst þú?

◻ Hvers vegna er viðeigandi að líkja lífi kristins manns við kapphlaup?

◻ Hvernig er kapphlaupið um lífið ólíkt venjulegu kapphlaupi?

◻ Hvers vegna verðum við að iðka sjálfstjórn stöðuglega og „á öllum sviðum“?

◻ Hvernig hlaupa menn „ekki stefnulaust“?

◻ Hvers vegna er hættulegt að slá bara „vindhögg“?

[Mynd á blaðsíðu 19]

Sigursveigur, virðing og vegsemd sigurvegarans fölnaði með tímanum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila