Treystum á arm Jehóva til bjargar
„Ó Jehóva, ...vertu armur okkar á hverjum morgni, já, hjálpræði okkar á neyðartíma.“ — JESAJA 33:2, NW.
1. Í hvaða skilningi hefur Jehóva máttugan arm?
JEHÓVA hefur máttugan arm. En þar sem „Guð er andi“ er armur hans að sjálfsögðu ekki úr holdi. (Jóhannes 4:24) Biblían notar arm í táknrænni merkingu um hæfni til að beita afli. Guð frelsar þannig lýð sinn með armi sínum. Já, ‚eins og hirðir heldur hann hjörð sinni til haga, tekur unglömbin í faðm sér og ber þau í fangi sínu.‘ (Jesaja 40:11; Sálmur 23:1-4) Fólk Jehóva finnur sannarlega til öryggis í kærleiksríkum örmum hans! — Samanber 5. Mósebók 3:24.
2. Hvaða spurningar eru hér íhugunarverðar fyrir okkur?
2 Hvernig hefur armur Jehóva bjargað lýð hans bæði fyrr og nú? Hvaða aðstoð veitir hann honum sem söfnuði? Og hvers vegna getur fólk hans treyst á arm hans til bjargar á neyðartímum?
Armur Guðs kemur til bjargar
3. Hverju þakkar Ritningin frelsun Ísraelsmanna úr Egyptalandi?
3 Áður en Guð frelsaði Ísraelsmenn úr ánauð Egypta fyrir 3500 árum sagði hann við spámann sinn Móse: „Seg . . .Ísraelsmönnum: ‚Ég er [Jehóva]. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum.‘“ (2. Mósebók 6:6) Samkvæmt orðum Páls postula leiddi Guð Ísraelsmenn út af Egyptalandi „með upplyftum armi.“ (Postulasagan 13:17) Synir Kóra eignuðu Guði heiðurinn af því að Ísraelsmenn unnu fyrirheitna landið og sögðu: „Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.“ — Sálmur 44:4.
4. Hvernig var traust á armi Jehóva til bjargar umbunað á dögum innrásar Assýringa?
4 Armur Jehóva kom einnig þjóð hans til hjálpar þegar hún sætti árásum Assýringa. Á þeim tíma bað Jesaja spámaður: „[Jehóva], ver þú oss líknsamur! Vér vonum á þig. Ver þú styrkur [„armur,“ NW] vor á hverjum morgni og hjálpræði vort á neyðarinnar tíma.“ (Jesaja 33:2) Þeirri bæn var svarað þegar engill Guðs drap 185.000 manns í herbúðum Assýringa, sem varð til þess að hrekja Sanheríb konung „með sneypu“ burt frá Jerúsalem. (2. Kroníkubók 32:21; Jesaja 37:33-37) Það borgar sig alltaf að leggja traust á arm Jehóva til bjargar.
5. Hvað gerði máttugur armur Guðs fyrir ofsótta kristna menn við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar?
5 Hinn máttugi armur Guðs bjargaði ofsóttum smurðum kristnum mönnum við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Árið 1918 réðust andstæðingar þeirra inn á höfuðstöðvar hins stjórnandi ráðs og hnepptu nokkra þekkta bræður í fangelsi. Af ótta við veraldleg yfirvöld hættu hinir smurðu, að heita má, vitnisburðarstarfi sínu. En þeir báðu um að það yrði endurvakið og þeir hreinsaðir af þeirri synd að vera óvirkir og þeim óhreinleika að láta ótta ná tökum á sér. Guð bænheyrði þá á þann hátt að hann kom því til leiðar að bræðurnir í fangelsi voru látnir lausir og hreinsaðir af öllum ákærum skömmu síðar. Þau sannindi, sem fram komu á móti þeirra árið 1919, og úthelling hins hvetjandi anda Guðs urðu til þess að endurvekja hina smurðu til óttalausrar þjónustu við Jehóva. Þar með uppfylltist spádómurinn í Jóel 3:1-5 endanlega. — Opinberunarbókin 11:7-12.
Hjálp í söfnuðinum
6. Hvernig vitum við að það er hægt að standast erfiðar prófraunir innan safnaðar?
6 Guð réttir ekki aðeins skipulagi sínu í heild hjálparhönd heldur styrkir armur hans einnig einstaklinga innan þess. Vitaskuld er hvergi fullkomið ástand í nokkrum söfnuði þar sem við erum öll ófullkomin. (Rómverjabréfið 5:12) Sumir af þjónum Jehóva geta af þeim sökum orðið fyrir þrengingum af og til í söfnuðinum. Þó að til dæmis Gajus hafi ‚breytt dyggilega‘ með því að vera gestrisinn við bræður sem komu í heimsókn, tók Díótrefes ekki á móti þeim og reyndi jafnvel að reka gestrisna menn úr söfnuðinum. (3. Jóhannesarbréf 5, 9, 10) Engu að síður hjálpaði Jehóva Gajusi og öðrum að halda áfram að sýna gestrisni til stuðnings prédikuninni um Guðsríki. Ef við treystum Jehóva og biðjum til hans ætti það að hjálpa okkur að halda áfram að starfa af trúfesti meðan við bíðum þess að hann lagfæri aðstæður sem geta reynt á trú okkar.
7. Þrátt fyrir hvaða kringumstæðum í söfnuðinum í Korintu stóðu trúfastir kristnir menn við vígsluheit sitt við Guð?
7 Ímyndaðu þér að þú hefðir tilheyrt söfnuðinum í Korintu á fyrstu öld. Eitt sinn ógnaði sundurlyndi einingu hans, og siðleysi, sem var látið viðgangast, stofnaði hugarfari hans í hættu. (1. Korintubréf 1:10, 11; 5:1-5) Hinir trúuðu drógu hver annan fyrir veraldlega dómstóla og sumir voru að þrátta um ýmis mál. (1. Korintubréf 6:1-8; 8:1-13) Ósætti, öfund, reiði og óreiða gerði lífið erfitt. Sumir drógu jafnvel vald Páls í efa og gerðu lítið úr ræðumennsku hans. (2. Korintubréf 10:10) Þó voru trúfastir einstaklingar í þessum söfnuði sem stóðu við vígsluheit sitt við Guð á þessum reynslutímum.
8, 9. Hvað ættum við að gera ef eitthvað sem reynir á okkur kemur upp í söfnuðinum?
8 Ef upp koma aðstæður sem reyna mjög á okkur þurfum við að halda nánu samfélagi við fólk Guðs. (Samanber Jóhannes 6:66-69.) Verum þolinmóð hvert við annað og gerum okkur ljóst að það getur tekið suma einstaklinga lengri tíma en aðra að íklæðast „hinum nýja persónuleika“ og íklæðast góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Þar sem þjónar Guðs eru sprottnir úr mismunandi jarðvegi þurfum við öll að vera kærleiksrík og fús til að fyrirgefa. — Kólossubréfið 3:10-14, NW.
9 Bróðir nokkur sagði eftir að hafa þjónað Jehóva í mörg ár: „Hafi eitt framar öðru skipt mig mestu máli er það sú stefna mín að halda mér fast við sýnilegt skipulag Jehóva. Fyrri reynsla kenndi mér hve óskynsamlegt það er að reiða sig á mannlega rökfærslu. Eftir að ég hafði gert upp hug minn um það ásetti ég mér að halda mér við þetta trúfasta skipulag. Með hvaða öðrum hætti getum við fengið blessun og velþóknun Guðs?“ Lætur þú þér á svipaðan hátt annt um sérréttindi þín að þjóna Jehóva ásamt glöðum tilbiðjendum hans? (Sálmur 100:2) Ef svo er munt þú ekki láta neitt draga þig burt frá skipulagi Guðs eða eyðileggja samband þitt við þann sem með armi sínum bjargar öllum sem elska hann.
Hjálp þegar við verðum fyrir freistingum
10. (a) Hvernig getur bænin hjálpað þjónum Guðs að standast freistingar? (b) Hvaða fullvissu veitir Páll í 1. Korintubréfi 10:13?
10 Sem trúfastir einstaklingar tengdir skipulagi Guðs njótum við hjálpar hans á reynslustund. Til dæmis hjálpar hann okkur að varðveita ráðvendni þegar við verðum fyrir freistingum. Að sjálfsögðu ættum við að biðja í samræmi við orð Jesú: „Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá hinum vonda,“ Satan djöflinum. (Matteus 6:9-13, neðanmáls) Við erum þá í raun að biðja Guð um að leyfa okkur ekki að láta undan þegar okkar er freistað til að óhlýðnast honum. Hann svarar einnig bænum okkar um visku til að standast prófraunir. (Jakobsbréfið 1:5-8) Og þjónar Jehóva geta reitt sig á hjálp hans, því Páll sagði: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Hvaðan koma slíkar freistingar og hvernig mun Guð sjá um að við fáum staðist?
11, 12. Hvaða freistingum létu Ísraelsmenn undan og hvernig getum við haft gagn af reynslu þeirra?
11 Freistingar koma við aðstæður sem geta tælt okkur til að vera Guði ótrú. Páll sagði: „Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og [Ísraelsmenn] urðu sólgnir í það. Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: ‚Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika.‘ Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi. Freistum ekki heldur [Jehóva], eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum. Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.“ — 1. Korintubréf 10:6-10.
12 Ísraelsmenn urðu sólgnir í það sem illt var þegar þeir freistuðust til að safna og eta áfergjulega lynghænur sem Guð gaf þeim fyrir kraftaverk. (4. Mósebók 11:19, 20, 31-35) Áður höfðu þeir gerst skurðgoðadýrkendur þegar fjarvera Móse freistaði þeirra til kálfadýrkunar. (2. Mósebók 32:1-6) Þúsundir fórust vegna þess að þær létu undan freistingum og drýgðu hór með móabískum konum. (4. Mósebók 25:1-9) Þegar Ísraelsmenn létu freistast og mögluðu yfir eyðingu uppreisnarseggjanna Kóra, Datans, Abírams og fylgismanna þeirra, sendi Guð plágu sem felldi 14.700 manns. (4. Mósebók 16:41-49) Slíkar frásögur geta orðið okkur að gagni ef við gerum okkur ljóst að engin þessara freistinga var svo mikil að Ísraelsmenn hefðu ekki getað staðist hana. Þeir hefðu getað það ef þeir hefðu iðkað trú, verið þakklátir fyrir kærleiksríka umönnun Guðs og kunnað að meta réttmæti lögmáls hans. Þá hefði armur Jehóva getað bjargað þeim alveg eins og hann getur bjargað okkur.
13, 14. Hvernig sér Jehóva um að þjónar hans fái staðist þegar þeir verða fyrir freistingum?
13 Sem kristnir menn fáum við að reyna mannlegar freistingar. Samt getum við haldið áfram að vera Guði trúföst með því að biðja um hjálp hans og leggja okkur fram við að standast freistingar. Guð er trúr og lætur ekki freista okkar um megn fram. Ef við erum trúföst Jehóva mun okkur aldrei finnast ómögulegt að gera vilja hans. Hann sér um að við fáum staðist með því að styrkja okkur í að sporna gegn freistingum. Til dæmis gætum við, værum við ofsótt, freistast til að láta undan í von um að geta umflúið pyndingar eða dauða. En ef við treystum á máttugan arm Jehóva munu freistingar aldrei ná því marki að hann geti ekki brynjað trú okkar og gefið okkur nægan styrk til að varðveita ráðvendni. Eins og Páll postuli sagði: „Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.“ — 2. Korintubréf 4:8, 9.
14 Jehóva heldur þjónum sínum einnig uppi með því að nota anda sinn til að áminna og kenna. Hann kallar fram í hugann biblíulegar frumreglur og hjálpar okkur að sjá hvernig hægt er að nota þær til að standast freistingar. (Jóhannes 14:26) Trúfastir þjónar Jehóva skilja hvað deilumál tengist freistingum og láta ekki lokka sig út á ranga braut. Guð hefur séð um að þeir fái staðist með því að gera þeim kleift að halda út jafnvel allt til dauða án þess að láta undan freistingum. (Opinberunarbókin 2:10) Auk þess að hjálpa þjónum sínum með anda sínum notar Jehóva engla í þágu skipulags síns. — Hebreabréfið 1:14.
Hjálp í persónulegum málum
15. Hvaða persónulega hjálp getum við fundið í Ljóðaljóðunum?
15 Þeir sem tengjast skipulagi Jehóva fá hjálp frá honum í persónulegum málum. Til dæmis gæti einhver verið að leita sér að kristnum maka. (1. Korintubréf 7:39) Ef við verðum fyrir vonbrigðum væri okkur gagnlegt að hugsa um hvað henti Salómon konung í Ísrael. Honum mistókst að vinna hönd stúlkunnar Súlamít vegna þess að hún elskaði óbreittan fjárhirði. Frásögu konungsins af þessu mætti kalla ljóðið um óendurgoldna ást Salómons. Við tárfellum kannski ef viðleitni okkar til að vinna hug ákveðins einstaklings ber engan ávöxt en Salómon lifði af sín vonbrigði, og það getum við líka. Andi Guðs getur stutt okkur í að sýna sjálfstjórn og aðra eiginleika guðrækninnar. Orð hans hjálpar okkur að taka þeirri, oft sársaukafullu, staðreynd að fólk getur ekki orðið ástfangið af hverjum sem er. (Ljóðaljóðin 2:7; 3:5) Samt sýna Ljóðaljóðin að það er mögulegt að finna einstakling sömu trúar sem elskar okkur heitt. Það sem skiptir meira máli er að þessi ‚ljóð ljóðanna‘ uppfyllast á góða hirðinum, Jesú Kristi, ást hans á „brúði“ sinni, 144.000 smurðum fylgjendum sínum. — Ljóðaljóðin 1:1; Opinberunarbókin 14:1-4; 21:2, 9; Jóhannes 10:14.
16. Hvað getur falist í þeirri „þrenging“ sem kristnir menn í hjónabandi geta hlotið „fyrir hold sitt“?
16 Jafnvel þeir sem eignast maka í trúnni hljóta „þrenging . . . fyrir hold sitt.“ (1. Korintubréf 7:28, Bi. 1912) Áhyggjur og kvíði mæta bæði manninum, konunni og börnunum. (1. Korintubréf 7:32-35) Veikindi geta orðið þungbær og þreytandi. Ofsóknir eða efnahagsörðugleikar geta gert kristnum föður erfitt að sjá fjölskyldu sinni farborða. Fangelsun gæti aðskilið börn frá foreldrum sínum og einhver ef til vill verið pyndaður og jafnvel tekinn af lífi. En undir öllum slíkum kringumstæðum getum við staðist þá freistingu að afneita trúnni ef við í raun og veru treystum armi Jehóva til bjargar. — Sálmur 145:14.
17. Hvaða fjölskylduvandamál hjálpaði Guð Ísak og Rebekku að þola?
17 Við gætum þurft að þola erfiðleika um langan tíma. Til dæmis gæti sonur valdið guðhræddum foreldrum sínum hugarangri með því að kvænast vantrúaðri konu. Það gerðist í fjölskyldu ættföðurins Ísaks og eiginkonu hans Rebekku. Hinn fertugi sonur þeirra, Esaú, kvæntist tveimur Hetítakonum, sem „var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun,“ jafnvel svo að „Rebekka mælti við Ísak: ‚Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob [hinn sonur þeirra] tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?‘“ (1. Mósebók 26:34, 35; 27:46) Augljóslega mæddist Rebekka í sinni réttlátu sál út af þessu stöðuga vandamáli. (Samanber 2. Pétursbréf 2:7, 8.) En armur Jehóva studdi Ísak og Rebekku og gerði þeim kleift að halda út þessar þrengingar á meðan þau héldu uppi sterku sambandi við hann.
18. Í gegnum hvaða persónulegar raunir þraukaði C. T. Russell með hjálp Guðs?
18 Það er sárt þegar skírður fjölskyldumeðlimur byrjar að vanrækja þjónustuna við Guð. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:15.) Þó hafa sumir jafnvel þraukað þá andlegu raun að missa maka sinn eins og kom fyrir Charles T. Russell, fyrsta forseta Varðturnsfélagsins. Eiginkona hans sleit tengsl sín við félagið og og fór frá honum árið 1897 eftir nærri 18 ára hjónaband. Hún sótti um lögskilnað árið 1903 og var hann veittur árið 1908. Hryggð bróður Rusells var auðheyrð af því er hann sagði í bréfi til hennar stuttu seinna: „Ég hef beðið einlæglega til Drottins þín vegna. . . . Ég vil ekki íþyngja þér með sögum af harmi mínum, né reyna að vekja hjá þér samúð með því að lýsa tilfinningum mínum þegar ég, endrum og eins, rekst á kjólana þína og aðra muni sem kalla fram ljóslifandi mynd í huga mér hvernig þú varst fyrrum — svo full af ást og samúð og hjálpsemi — af anda Krists. . . . Ég bið þig að íhuga í hjartans einlægni það sem ég ætla að segja. Og ég fullvissa þig um að nístandi sorg mín og sársauki er ekki vegna eigin einmanaleika það sem eftir er ævinnar, heldur hrösun þín, mín kæra, þinn varanlegi missir, að svo miklu leyti sem ég fæ séð.“ Þrátt fyrir hjartasorg sína, hélt Russell út með hjálp Guðs til æviloka. (Sálmur 116:12-15) Jehóva styrkir alltaf trúfasta þjóna sína.
Úr öllum nauðum
19. Hvað ættum við að muna ef við eigum við langvarandi vandamál að stríða?
19 Þjónar Jehóva þekkja hann sem „hjálpræðisguð,“ þann „er ber oss dag eftir dag.“ (Sálmur 68:20, 21) Þess vegna skulum við, vígðir einstaklingar sem tengdir eru jarðnesku skipulagi hans, aldrei örvænta ef örðug vandamál halda áfram að þjaka okkur. Munum að „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.“ (Sálmur 46:2) Traust okkar á honum er alltaf umbunað. „Ég leitaði [Jehóva], og hann svaraði mér,“ sagði Davíð, „frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist. . . . Hér er volaður maður sem hrópaði, og [Jehóva] heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.“ — Sálmur 34:5-7.
20. Hvaða spurning bíður nánari athugunar?
20 Já, okkar himneski faðir frelsar fólk sitt úr öllum nauðum. Hann styður jarðneskt skipulag sitt, sér fyrir hjálp í málefnum safnaða sem einstaklinga. Svo sannarlega mun Jehóva ekki „sleppa hendinni af sínu fólki.“ (Sálmur 94:14, Bi. 1859) En við skulum næst athuga með hvaða öðrum hætti Jehóva hjálpar þjónum sínum sem einstaklingum. Hvernig styrkir himneskur faðir okkar þjóna sína sem eru sjúkir, andlega niðurdregnir, sorgbitnir vegna ástvinamissis eða þjakaðir vegna misgjörða sinna? Eins og við munum sjá höfum við líka í slíkum tilfellum ástæðu til reiða okkur á máttugan arm Jehóva.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig hefur armur Jehóva verið hjálpræði fyrr á tímum?
◻ Hvernig hjálpar Jehóva þjónum sínum í söfnuðinum nú á dögum?
◻ Hvaða hjálp veitir Guð í persónulegum málum
◻ Hvað ættum við að gera ef langvinn vandamál halda áfram að íþyngja okkur?
[Mynd á blaðsíðu 20, 21]
Guð leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi „með upplyftum armi.“