Haltu þig fast við Guðveldið
„[Jehóva] er vor dómari, [Jehóva] er vor löggjafi, [Jehóva] er vor konungur.“ — JESAJA 33:22.
1. Af hverju skiptir stjórnarfar miklu máli fyrir flesta?
STJÓRNARFAR skiptir alla miklu máli. Góð stjórn stuðlar að friði og velmegun. Biblían segir: „Konungurinn eflir landið með rétti,“ það er að segja réttvísi. (Orðskviðirnir 29:4) Óstjórn hefur hins vegar í för með sér ranglæti, spillingu og kúgun. „Þegar óguðlegir drottna, andvarpar þjóðin.“ (Orðskviðirnir 29:2) Frá því að sögur hófust hafa menn reynt alls konar stjórnir. Því miður hafa þeir oft ‚andvarpað‘ undan kúgun valdhafanna. (Prédikarinn 8:9) Er til eitthvert stjórnarform sem getur veitt þegnum sínum varanlega lífshamingju?
2. Af hverju er orðið „guðræði“ góð lýsing á stjórn Forn-Ísraels?
2 Sagnaritarinn Jósefus minntist á einstakt stjórnarfar er hann sagði: „Sumar þjóðir hafa falið konungi æðsta stjórnvald, sumar fámennum hópi manna og sumar fjöldanum. Löggjafi okkar [Móse] aðhylltist hins vegar enga af þessum stjórnarháttum heldur batt í stjórnarskrá það sem kalla mætti ‚guðræði‘ — ef teygja má orð til hins ítrasta — með því að leggja allt vald og yfirráð í hendur Guðs.“ (Against Apion, II, 164-5) Orðabækur skilgreina guðræði meðal annars sem „stjórn í höndum Guðs“ og guðveldi sem stjórnarfar ríkis undir slíkri stjórn. Orðið stendur ekki í Biblíunni en lýsir vel stjórn Ísraels til forna. Þótt Ísraelsmenn eignuðust sýnilegan konung var Jehóva raunverulegur stjórnandi þeirra. Ísraelski spámaðurinn Jesaja sagði: „[Jehóva] er vor dómari, [Jehóva] er vor löggjafi, [Jehóva] er vor konungur.“ — Jesaja 33:22.
Hvað er raunverulegt guðræði?
3, 4. (a) Hvað er raunverulegt guðræði? (b) Hvaða blessun á guðræði eftir að færa öllu mannkyni innan skamms?
3 Ófá ríki hafa verið kölluð guðveldi síðan Jósefus smíðaði hugtakið guðræði. Sum þeirra reyndust umburðarlaus, ofstækisfull, grimm og kúgunargjörn. Var stjórnarfar þeirra raunverulegt guðræði? Ekki í þeim skilningi sem Jósefus notaði orðið. Merking orðsins „guðræði“ hefur nefnilega verið víkkuð. Alfræðibókin World Book Encyclopedia skilgreinir það sem „stjórnarfar þar sem prestur eða prestar fara með völd og menn af prestastétt fara með borgaraleg og trúarleg yfirráð.“ Raunverulegt guðræði er hins vegar ekki stjórn í höndum presta. Það er stjórn Guðs, stjórn í höndum skapara alheimsins, Jehóva Guðs.
4 Í náinni framtíð verður öll jörðin undir guðræðisstjórn og það verður mikil blessun. „Guð sjálfur mun vera hjá [mönnunum], Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Engin prestastjórn í höndum ófullkominna manna getur haft slíka hamingju í för með sér. Aðeins stjórn Guðs getur það. Þess vegna reyna sannkristnir menn ekki að koma á guðræði með pólitískum aðgerðum. Þeir bíða þolinmóðir eftir að Guð komi á guðræðisstjórn um heim allan á þeim tíma sem hann hefur ákveðið og á þann hátt sem hann vill. — Daníel 2:44.
5. Hvar ríkir raunverulegt guðræði nú á tímum og hvaða spurninga er spurt um það?
5 En ósvikið guðræði ríkir engu að síður uns það gerist. Hvar? Meðal þeirra sem beygja sig fúslega undir stjórn Guðs og vinna saman að því að gera vilja hans. Þessum trúföstu mönnum hefur verið safnað saman í andlega „þjóð“ sem býr í andlegu ‚landi‘ um heim allan. Þetta eru þeir sem eftir eru af „Ísrael Guðs“ ásamt rösklega fimm og hálfri milljón kristinna félaga sinna. (Jesaja 66:8; Galatabréfið 6:16) Þeir eru þegnar Jesú Krists en hann er himneskur konungur sem Jehóva Guð, ‚konungur eilífðar,‘ hefur sett í hásæti. (1. Tímóteusarbréf 1:17; Opinberunarbókin 11:15) Í hvaða skilningi er þetta skipulag guðræðislegt? Hvernig líta þegnar þess á yfirráð veraldlegra stjórnvalda? Og hvernig er meginreglunni um guðræði haldið uppi af mönnum sem fara með yfirráð innan andlegu þjóðarinnar?
Guðræðisskipulag
6. Hvernig getur sýnilegt, mennskt skipulag lotið stjórn Guðs?
6 Hvernig getur Jehóva, sem býr ósýnilegur á himnum, stjórnað mennsku skipulagi? (Sálmur 103:19) Á þann hátt að þeir sem tilheyra skipulaginu fylgja þessum innblásnu ráðum: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ (Orðskviðirnir 2:6; 3:5) Þeir leyfa Guði að stjórna sér, halda „lögmál Krists“ og fara eftir innblásnum meginreglum Biblíunnar í daglegu lífi. (Galatabréfið 6:2; 1. Korintubréf 9:21; 2. Tímóteusarbréf 3:16; sjá Matteus 5:22, 28, 39; 6:24, 33; 7:12, 21.) Til að gera það þurfa þeir að vera biblíunemendur. (Sálmur 1:1-3) Þeir fylgja ekki mönnum frekar en hinir ‚veglyndu‘ Berojumenn til forna heldur nota Biblíuna stöðugt til að sannreyna það sem þeir eru að læra. (Postulasagan 17:10, 11; Sálmur 119:33-36) Þeir biðja eins og sálmaritarinn: „Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.“ — Sálmur 119:66.
7. Í hvaða röð er yfirráðum skipað í guðveldinu?
7 Í hverju skipulagi þarf einhver að fara með yfirráð eða forystu. Vottar Jehóva eru engin undantekning frá því og þeir fylgja því yfirráðafyrirkomulagi sem Páll postuli lýsir: „Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Það er í samræmi við þetta sem einungis hæfir karlmenn gegna öldungsstarfi í söfnuðunum. Og enda þótt Jesús — „höfuð sérhvers manns“ — sé á himnum eru sumir af smurðum bræðrum hans enn á jörðinni. Þeir eiga sér þá von að ríkja með honum á himnum. (Opinberunarbókin 12:17; 20:6) Þeir mynda hinn samsetta ‚trúa og hyggna þjón.‘ Kristnir menn sýna undirgefni sína við Jesú, og þar með við Jehóva, höfuð Jesú, með því að lúta umsjón þessa ‚þjóns.‘ (Matteus 24:45-47; 25:40) Guðræðið er því reglufast. „Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ — 1. Korintubréf 14:33.
8. Hvernig styðja kristnir öldungar guðræðismeginregluna?
8 Kristnir öldungar styðja guðræðismeginregluna vegna þess að þeim er ljóst að þeir verða að standa Jehóva reikningsskap af því hvernig þeir beita yfirráðum sínum þótt takmörkuð séu. (Hebreabréfið 13:17) Og þeir byggja ákvarðanir sínar á visku Guðs, ekki sinni eigin. Þar fylgja þeir fordæmi Jesú. Hann er vitrasti maður sem uppi hefur verið. (Matteus 12:42) Samt sagði hann Gyðingum: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra.“ (Jóhannes 5:19) Öldungar hugsa líkt og Davíð konungur. Þótt hann gegndi mikilli ábyrgðarstöðu í guðveldinu vildi hann fylgja vegi Jehóva, ekki sínum eigin. Hann bað: „Vísa mér veg þinn, [Jehóva], leið mig um slétta braut.“ — Sálmur 27:11.
9. Hvaða öfgalaust sjónarmið hafa vígðir kristnir menn til ólíkrar vonar og ólíkra þjónustusérréttinda innan guðveldisins?
9 Sumir hafa véfengt að það sé réttmætt að einungis karlmenn fari með yfirráð í söfnuðinum og finna að því að sumir skuli hafa himneska von en aðrir jarðneska. (Sálmur 37:29; Filippíbréfið 3:20) En vígðum kristnum mönnum er ljóst að það er orð Guðs sem leggur línurnar að þessu fyrirkomulagi. Það er guðræðislegt. Ef einhverjir draga réttmæti þess í efa eru það yfirleitt þeir sem þekkja ekki meginreglur Biblíunnar. Auk þess vita kristnir menn að karlar og konur standa jafnfætis frammi fyrir Jehóva hvað hjálpræði varðar. (Galatabréfið 3:28) Að tilbiðja alvald alheimsins eru mestu sérréttindi sem hugsast geta í augum sannkristinna manna, og þeir gegna fúslega hverju því hlutverki sem Jehóva ætlar þeim. (Sálmur 31:24; 84:11; 1. Korintubréf 12:12, 13, 18) Og vonin um eilíft líf er stórkostleg, hvort heldur það verður á himnum eða í paradís á jörð.
10. (a) Hvaða góð viðhorf sýndi Jónatan? (b) Hvernig sýna kristnir menn nú á tímum sams konar viðhorf og Jónatan?
10 Vottar Jehóva líkjast því Jónatan, guðhræddum syni Sáls konungs. Jónatan hefði trúlega orðið afbragðskonungur. En sökum ótrúmennsku Sáls valdi Jehóva Davíð sem annan konung Ísraels. Varð Jónatan bitur út af því? Nei, hann varð góður vinur Davíðs og verndaði hann meira að segja fyrir Sál. (1. Samúelsbók 18:1; 20:1-42) Þeir sem hafa jarðneska von öfunda ekki heldur þá sem hafa himneska von. Og sannkristnir menn öfunda ekki þá sem fara með guðræðisleg yfirráð í söfnuðinum heldur auðsýna þeim „sérstaka virðingu og kærleika.“ Þeir virða erfiði þeirra í þágu andlegra bræðra sinna og systra. — 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13.
Guðræðisleg afstaða til veraldlegrar stjórnar
11. Hvernig líta kristnir menn undir guðræðisstjórn á veraldleg yfirvöld?
11 Hvernig líta vottar Jehóva á valdhafa þjóðanna fyrst þeir eru undir guðræðisstjórn? Jesús sagði að fylgjendur sínir ættu ekki að vera „af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Samt sem áður viðurkenna kristnir menn skuld sína við ‚keisarann‘ eða veraldleg yfirvöld. Jesús sagði að þeir ættu að ‚gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.‘ (Matteus 22:21) Að sögn Biblíunnar eru mennsk stjórnvöld „skipuð af Guði.“ Jehóva, uppspretta allra yfirráða, leyfir tilvist þessara stjórna og ætlast til að þær geri þegnum sínum gott. Í því hlutverki eru þær „þjónn Guðs.“ Kristnir menn eru undirgefnir stjórnvöldum þess lands, sem þeir búa í, „vegna samviskunnar.“ (Rómverjabréfið 13:1-7) En auðvitað hlýða kristnir menn ‚Guði framar en mönnum‘ ef ríkið krefst einhvers sem stangast á við lög hans. — Postulasagan 5:29.
12. Hvaða fordæmi fylgja kristnir menn þegar yfirvöld ofsækja þá?
12 Hvað þá ef stjórnvöld ofsækja sannkristna menn? Þá fylgja þeir fordæmi frumkristinna manna sem stóðu af sér miklar ofsóknaröldur. (Postulasagan 8:1; 13:50) Þessar trúarprófraunir komu ekki á óvart því að Jesús hafði varað við þeim. (Matteus 5:10-12; Markús 4:17) En frumkristnir menn svöruðu ofsækjendunum ekki í sömu mynt og trú þeirra bilaði ekki þegar á hana reyndi. Þeir fylgdu fordæmi Jesú: „Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ (1. Pétursbréf 2:21-23) Já, kristnar meginreglur reyndust sterkari en áreitni Satans. — Rómverjabréfið 12:21.
13. Hvernig hafa vottar Jehóva brugðist við ofsóknum og rógsherferðum á hendur sér?
13 Eins er það núna. Á þessari öld hafa vottar Jehóva þjáðst mikið af völdum grimmra einræðisherra — eins og Jesús spáði. (Matteus 24:9, 13) Sums staðar er dreift villandi upplýsingum og lygum til að þrýsta á yfirvöld að beita sér gegn einlægum kristnum mönnum. En þrátt fyrir slíkt ‚last‘ sýna vottarnir með góðri hegðun sinni að þeir eru þjónar Guðs. (2. Korintubréf 6:4, 8) Þegar hægt er leggja þeir mál sín fyrir embættismenn og dómstóla í þeim tilgangi að sýna fram á að þeir hafi ekki aðhafst neitt rangt. Þeir nota hvaða leiðir sem færar eru til að verja fagnaðarerindið opinberlega. (Filippíbréfið 1:7) En eftir að þeir hafa gert allt sem hægt er innan ramma laganna leggja þeir málið í hendur Jehóva. (Sálmur 5:9-13; Orðskviðirnir 20:22) Þeir eru ekki hræddir við að þjást vegna réttlætisins ef þörf krefur, líkt og frumkristnir menn gerðu. — 1. Pétursbréf 3:14-17; 4:12-14, 16.
Láttu vegsemd Guðs ganga fyrir
14, 15. (a) Hvað gengur fyrir hjá þeim sem styðja guðræðismeginregluna? (b) Hvernig sýndi Salómon mikla auðmýkt þótt hann gegndi umsjónarstöðu?
14 Þegar Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja nefndi hann fyrst að nafn Guðs yrði helgað. (Matteus 6:9) Þeir sem búa við guðræðisstjórn breyta samkvæmt því og leitast við að vegsama Guð, ekki sjálfa sig. (Sálmur 29:1, 2) Biblían segir að sumir hafi neitað að fylgja Jesú á fyrstu öldinni af því að þeir hnutu um þetta. „Þeir kusu heldur heiður manna“ og höfðu yndi af því að láta menn skjalla sig. (Jóhannes 12:42, 43) Það þarf auðmýkt til að setja Jehóva ofar eigin upphefð.
15 Salómon sýndi gott hugarfar í þessu efni. Berðu saman orð hans við vígslu hins mikilfenglega musteris sem hann byggði, og orð Nebúkadnesars um byggingarframkvæmdir sínar. Nebúkadnesar var að springa úr hroka þegar hann sagði: „Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?“ (Daníel 4:30) Salómon var hins vegar hógvær og gerði lítið úr afrekum sínum: „Mun Guð í sannleika búa með mönnum á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist.“ (2. Kroníkubók 6:14, 15, 18; Sálmur 127:1) Salómon upphóf ekki sjálfan sig. Hann vissi að hann var aðeins fulltrúi Jehóva og skrifaði: „Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska.“ — Orðskviðirnir 11:2.
16. Hvernig hafa öldungar reynst mikil blessun með því að upphefja ekki sjálfa sig?
16 Kristnir öldungar upphefja líka Jehóva, ekki sjálfa sig. Þeir fylgja ráðum Péturs: „Sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist.“ (1. Pétursbréf 4:11) Páll postuli sagði að umsjónarmannsstarf væri „fagurt hlutverk“ en ekki tignar- og virðingarstaða. (1. Tímóteusarbréf 3:1) Öldungar eru útnefndir til að þjóna, ekki stjórna. Þeir eru kennarar og hirðar hjarðar Guðs. (Postulasagan 20:28; Jakobsbréfið 3:1) Auðmjúkir, fórnfúsir öldungar eru hverjum söfnuði til mikillar blessunar. (1. Pétursbréf 5:2, 3) „Hafið slíka menn í heiðri“ og þakkið Jehóva fyrir að hann skuli hafa séð fyrir svona mörgum hæfum öldungum til að styðja guðveldið á hinum „síðustu dögum.“ — Filippíbréfið 2:29; 2. Tímóteusarbréf 3:1.
‚Verðið eftirbreytendur Guðs‘
17. Hvernig líkja þegnar guðveldisins eftir Guði?
17 Páll postuli hvatti: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 5:1) Þeir sem lúta guðræðinu reyna að líkjast Guði eins vel og hægt er fyrir ófullkomna menn. Biblían segir til dæmis um Jehóva: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:3, 4) Til að líkjast Guði að þessu leyti gera kristnir menn sér far um að vera trúfastir, réttvísir og hafa öfgalausa réttlætisvitund. (Míka 6:8; 1. Þessaloníkubréf 3:6; 1. Jóhannesarbréf 3:7) Þeir forðast margt sem heimurinn sættir sig við, svo sem siðleysi, ágirnd og græðgi. (Efesusbréfið 5:5) Þar eð þjónar Jehóva fylgja stöðlum hans en ekki manna er skipulag hans guðræðislegt, hreint og heilbrigt.
18. Hver er æðsti eiginleiki Guðs og hvernig endurspegla kristnir menn þennan eiginleika?
18 Kærleikur er æðsti eiginleiki Jehóva Guðs. „Guð er kærleikur,“ segir Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þar eð guðræði merkir stjórn Guðs er guðræði stjórn kærleikans. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Guðræðisskipulagið hefur sýnt einstakan kærleika á þessum erfiðu síðustu dögum. Í þjóðarmorðunum í Afríku sýndu vottar Jehóva öllum kærleika, óháð því hvaða þjóðarbroti þeir tilheyrðu. Í stríðinu í fyrrverandi Júgóslavíu hjálpuðu vottar Jehóva alls staðar í landinu hver öðrum meðan önnur trúfélög tóku þátt í svokölluðum þjóðernishreinsunum. Vottar Jehóva reyna hver og einn að fylgja ráði Páls: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ — Efesusbréfið 4:31, 32.
19. Hvaða blessun hljóta þeir sem lúta guðræðisstjórn, bæði núna og í framtíðinni?
19 Þeir sem lúta guðræðisstjórn njóta mikillar blessunar. Þeir eiga frið við Guð og kristna bræður sína. (Hebreabréfið 12:14; Jakobsbréfið 3:17) Þeir hafa tilgang í lífinu. (Prédikarinn 12:13) Þeir búa við andlegt öryggi og óbrigðula framtíðarvon. (Sálmur 59:10) Þeir fá forsmekkinn af því hvernig ástandið verður þegar allt mannkynið verður undir guðræðisstjórn. Þá, segir Biblían, munu menn ekki „illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Það verður stórkostlegur tími. Megum við öll tryggja okkur stað í þessari framtíðarparadís með því að halda okkur fast við guðveldið núna.
Geturðu svarað?
◻ Hvað er raunverulegt guðræði og hvar er það að finna nú á dögum?
◻ Hvernig lúta menn guðræðisstjórn?
◻ Á hvaða vegu láta allir, sem eru undir guðræðisstjórn, vegsemd Guðs ganga fyrir eigin upphefð?
◻ Nefndu nokkra eiginleika Guðs sem þegnar guðveldisins sýna.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Salómon lét vegsemd Guðs ganga fyrir sinni eigin.