Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Stuðlar þú að uppbyggilegum samkomum?
    Varðturninn – 2010 | 15. október
    • Samkomur „til uppbyggingar, hvatningar og huggunar“

      13. (a) Hvaða áhrif ættu samkomurnar að hafa á viðstadda? (b) Hvað ætti öldungum að vera sérstaklega umhugað um?

      13 Páll segir að samkomurnar gegni meðal annars því mikilvæga hlutverki að vera viðstöddum „til uppbyggingar, hvatningar og huggunar“.c (1. Kor. 14:3.) Hvernig geta safnaðaröldungar gætt þess að samkomurnar séu örugglega hvetjandi og hughreystandi fyrir bræður og systur? Til að svara því skulum við kynna okkur samkomu sem Jesús hélt skömmu eftir að hann var reistur upp frá dauðum.

      14. (a) Hvaða atburðir áttu sér stað áður en Jesús mælti sér mót við postulana? (b) Af hverju hlýtur postulunum að hafa létt þegar Jesús „kom til þeirra [og] talaði við þá“?

      14 Við skulum byrja á að rifja upp atburði sem áttu sér stað áður en samkoman var haldin. Rétt áður en Jesús var líflátinn yfirgáfu allir postularnir hann og flýðu og þeir ,tvístruðust hver til sín‘. (Mark. 14:50; Jóh. 16:32) Eftir að Jesús var upprisinn mælti hann sér mót við niðurdregna postulana.d „Lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til.“ Hann „kom til þeirra [og] talaði við þá“ þegar þeir komu á staðinn. (Matt. 28:10, 16, 18) Hugsaðu þér hve postulunum hlýtur að hafa létt við það að Jesús skyldi ávarpa þá að fyrra bragði. Hvað ræddi Jesús við þá?

      15. (a) Hvað ræddi Jesús við postulana en hvað lét hann ósagt? (b) Hvaða áhrif hafði þessi samkoma á postulana?

      15 Jesús byrjaði á því að gefa yfirlýsingu: „Allt vald er mér gefið.“ Síðan fól hann þeim verkefni: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ Að síðustu gaf hann þeim hlýlegt loforð: „Ég er með yður alla daga.“ (Matt. 28:18-20) En tókstu eftir hvað Jesús gerði ekki? Hann ávítaði ekki postulana. Hann notaði ekki samkomuna til að véfengja hvatir þeirra eða ýta undir sektarkenndina með því að minnast á að þeir hefðu nú verið veikir í trúnni um stund. Þess í stað fól hann þeim ábyrgðarmikið verkefni. Þannig fullvissaði hann þá um að hann og faðir hans elskuðu þá. Hvaða áhrif hafði þessi aðferð Jesú á postulana? Jesús hafði verið svo uppbyggjandi, hvetjandi og huggandi að stuttu síðar voru þeir farnir að „kenna . . . og boða fagnaðarerindið“ á nýjan leik. — Post. 5:42.

      16. Hvernig líkja safnaðaröldungar eftir Jesú þegar þeir eru með verkefni á samkomum?

      16 Safnaðaröldungar líkja eftir Jesú og líta á samkomurnar sem tækifæri til að fullvissa trúsystkini sín um að Jehóva elski þau og bregðist þeim aldrei. (Rómv. 8:38, 39) Þegar öldungar eru með verkefni á samkomum leggja þeir áherslu á styrkleika trúsystkina sinna en ekki veikleika. Þeir véfengja ekki hvatir bræðra sinna og systra. Með orðum sínum láta þeir í ljós að þeir trúi að bræður þeirra og systur elski Jehóva og vilji gera það sem er rétt. (1. Þess. 4:1, 9-12) Stundum geta öldungar auðvitað þurft að leiðrétta söfnuðinn í heild, en ef þarf aðeins að áminna fáeina einstaklinga er yfirleitt best að gera það einslega. (Gal. 6:1; 2. Tím. 2:24-26) Þegar öldungar ávarpa söfnuðinn í heild reyna þeir alltaf að hrósa þegar það á við. (Jes. 32:2) Þeir leggja sig fram um að tala með þeim hætti að allir séu hressir og endurnærðir að samkomunni lokinni. — Matt. 11:28; Post. 15:32.

  • Stuðlar þú að uppbyggilegum samkomum?
    Varðturninn – 2010 | 15. október
    • c Muninum á orðunum ,hvatning‘ og ,huggun‘ er lýst í Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words. Þar kemur fram að gríska orðið, sem er þýtt ,huggun‘, lýsi meiri blíðu en orðið sem er þýtt ,hvatning‘. — Samanber Jóhannes 11:19.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila