Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.7. bls. 18-22
  • „Vertu ekki hrædd, litla hjörð“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Vertu ekki hrædd, litla hjörð“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Litla hjörðin
  • Talan lækkar
  • „Vertu ekki hrædd“
  • Einstök von
  • „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Hjálpum þeim sem villast frá hjörðinni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • Öldungar, takið alvarlega ábyrgð ykkar sem hirðar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.7. bls. 18-22

„Vertu ekki hrædd, litla hjörð“

„Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ — LÚKAS 12:32.

1. Af hvaða tilefni sagði Jesús orðin: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð“?

„LEITIÐ stöðugt ríkis [Guðs].“ (Lúkas 12:31, NW) Þegar Jesús mælti þessi orð við lærisveina sína var hann að gefa meginreglu sem kristnir menn hafa haft að leiðarljósi allt frá hans dögum fram á okkar dag. Guðsríki verður að að ganga fyrir öllu öðru í lífi okkar. (Matteus 6:33) En í frásögn Lúkasar mælti Jesús mjög hlýleg og uppörvandi orð við vissan hóp kristinna manna. Hann sagði: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ (Lúkas 12:32) Jesús, góði hirðirinn, vissi að erfiðleikatímar væru framundan fyrir nánustu lærisveina hans. En það var engin ástæða fyrir þá að vera óttaslegnir ef þeir leituðu fyrst Guðsríkis. Hvatning Jesú var því ekki hranaleg skipun heldur ástríkt loforð sem jók þeim trúartraust og hugrekki.

2. Hverjir mynda litlu hjörðina og af hverju njóta þeir einstakra sérréttinda?

2 Jesús talaði til lærisveina sinna og kallaði þá „litla hjörð.“ Hann var líka að tala til þeirra sem Jehóva myndi ‚gefa ríkið.‘ Í samanburði við hinn mikla fjölda, sem tæki við Jesú síðar, var þessi hópur sannarlega fámennur. Þeir sem mynduðu hann voru líka álitnir dýrmætir þar sem þeir voru útvaldir til stórkostlegrar framtíðar, til konunglegrar þjónustu. Faðir þeirra, hirðirinn mikli Jehóva, kallar þá til að hljóta himneska arfleifð í tengslum við Messíasarríki Krists.

Litla hjörðin

3. Í hvaða dýrlegri sýn sá Jóhannes litlu hjörðina?

3 Hverjir mynda þá þessa litlu hjörð sem hefur slíkar undursamlegar framtíðarhorfur? Það eru fylgjendur Jesú Krists sem hljóta smurningu heilags anda. (Postulasagan 2:1-4) Jóhannes postuli sá þá syngjandi á himnum með hörpur í höndum. Hann skrifaði: „Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér. Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu. Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.“ — Opinberunarbókin 14:1, 4, 5.

4. Hvaða stöðu hefur litla hjörðin á jörðinni núna?

4 Frá hvítasunnunni árið 33 hafa þessir smurðu og andagetnu menn þjónað sem erindrekar Krists á jörðinni. (2. Korintubréf 5:20) Núna eru aðeins leifar þeirra eftir og þeir þjóna saman sem hinn trúi og hyggni þjónshópur. (Matteus 24:45; Opinberunarbókin 12:17) Einkum frá árinu 1935 hafa þeir fengið „aðra sauði“ í lið með sér, en það eru kristnir menn með jarðneska von sem skipta núna milljónum. Þeir aðstoða hina smurðu við að prédika fagnaðarerindið um alla jörðina. — Jóhannes 10:16.

5. Hver eru viðhorf þeirra sem eftir eru af litlu hjörðinni og af hverju þurfa þeir ekki að vera hræddir?

5 Hver eru viðhorf þeirra sem eftir eru af litlu hjörðinni hér á jörð? Þeir vita að þeir eiga að fá „ríki, sem ekki getur bifast,“ og veita þar af leiðandi heilaga þjónustu með lotningu og ótta. (Hebreabréfið 12:28) Í auðmýkt gera þeir sér ljóst að þeir njóta ómetanlegra sérréttinda sem veita þeim takmarkalausa gleði. Þeir hafa fundið ‚dýrmætu perluna‘ sem Jesús minntist á þegar hann talaði um Guðsríki. (Matteus 13:46) Smurðir þjónar Guðs eru óhræddir er þrengingin mikla nálgast. Þrátt fyrir það sem er rétt í þann mund að koma yfir mannheiminn á ‚hinum mikla og dýrlega degi Jehóva‘ bera þeir engan kvíðboga fyrir framtíðinni. (Postulasagan 2:19-21) Hví skyldu þeir gera það?

Talan lækkar

6, 7. (a) Af hverju eru mjög fáir af litlu hjörðinni eftir á jörðinni núna? (b) Hvernig ætti hver og einn að líta á vonina sem hann ber í brjósti?

6 Á síðustu árum hefur þeim sem eftir eru af litlu hjörðinni fækkað mjög. Það má sjá af minningarhátíðarskýrslunni fyrir 1994. Í um það bil 75.000 söfnuðum fólks Jehóva um heim allan játuðu aðeins 8617 sig tilheyra leifunum með því að taka af brauðinu og víninu. (Matteus 26:26-30) Heildaraðsóknin var hins vegar 12.288.917. Smurðir kristnir menn vita að þessa var að vænta. Jehóva hefur tiltekið takmarkaðan fjölda, 144.000, sem á að mynda litlu hjörðina og hefur verið að safna þeim frá hvítasunnunni árið 33. Rökrétt er að köllun litlu hjarðarinnar taki enda þegar talan er nær fullnuð, og staðreyndir sýna að almennri samansöfnun þeirra, sem hljóta þessa sérstöku blessun, hafi lokið árið 1935. En því var spáð að á endalokatímanum ættu hinir aðrir sauðir að verða „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ Frá 1935 hefur Jehóva fyrst og fremst verið að safna saman þessum mikla múgi, þeim sem vonast eftir eilífu lífi í paradís á jörð. — Opinberunarbókin 7:9; 14:15, 16; Sálmur 37:29.

7 Flestir af litlu hjörðinni, sem enn eru á jörð, eru komnir á áttræðis-, níræðis- eða tíræðisaldur. Fáeinir eru komnir yfir hundraðasta aldursár. Óháð aldri vita þeir allir að um síðir munu þeir sameinast Jesú Kristi með himneskri upprisu og stjórna með honum í dýrlegu ríki hans. Þeir sem mynda múginn mikla verða jarðneskir þegnar konungsins Krists. Við skulum hvert og eitt fagna því sem Jehóva hefur fyrirbúið þeim er elska hann. Það er ekki okkar hlutverk að ákveða hvaða von við eigum að bera í brjósti. Jehóva ákveður það. Báðir hóparnir geta fagnað yfir von sinni um hamingjuríka framtíð, hvort heldur í ríkinu á himnum eða í paradís á jörð undir stjórn þessa ríkis. — Jóhannes 6:44, 65; Efesusbréfið 1:17, 18.

8. Hve langt er innsiglun hinna 144.000 komin og hvað gerist þegar henni er lokið?

8 Litla hjörðin, hinar 144.000, myndar „Ísrael Guðs“ sem er kominn í stað Ísraels að holdinu í tilgangi Guðs. (Galatabréfið 6:16) Þess vegna mynda leifarnar þá sem eftir eru af þessari andlegu þjóð á jörðinni. Verið er að merkja þá með innsigli endanlegrar velþóknunar Jehóva. Jóhannes postuli sá það gerast í sýn og skýrir svo frá: „Ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra, sem gefið var vald til að granda jörðinni og hafinu, og sagði: ‚Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors.‘ Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum [andlegra] Ísraelssona voru merktar innsigli.“ (Opinberunarbókin 7:2-4) Þar sem innsiglun hins andlega Ísraels er greinilega langt komin boðar það að spennandi atburðir séu rétt framundan. Meðal annars hlýtur ‚þrengingin mikla,‘ þegar eyðingarvindunum fjórum verður sleppt yfir jörðina, að vera mjög nærri. — Opinberunarbókin 7:14.

9. Hvernig lítur litla hjörðin á það að múgurinn mikli skuli fara stækkandi?

9 Þeim sem mynda múginn mikla hefur nú þegar verið safnað saman í milljónatali. Það yljar leifunum svo sannarlega um hjartaræturnar! Enda þótt fækki áfram í litlu hjörðinni hefur hún þjálfað og undirbúið hæfa menn af múginum mikla til að taka á sig ábyrgð í tengslum við vaxandi jarðneskt skipulag Guðs. (Jesaja 61:5) Eins og Jesús gaf til kynna mun hópur manna lifa þrenginguna miklu af. — Matteus 24:22.

„Vertu ekki hrædd“

10. (a) Hvaða árás á fólk Guðs er yfirvofandi og til hvers mun hún leiða? (b) Hvaða spurningum er beint til okkar allra?

10 Satan og illir andar hans hafa verið niðurlægðir í nágrenni jarðarinnar. Verið er að koma honum og sveitum hans til að gera allsherjarárás á fólk Jehóva. Þessi árás, sem Biblían segir fyrir, er kölluð árás Gógs frá Magóg. Gegn hverjum beinir djöfullinn spjótum sínum sérstaklega? Er það ekki gegn þeim síðustu af litlu hjörðinni, hinum andlega Ísrael Guðs sem býr friðsamur „á nafla jarðarinnar“? (Esekíel 38:1-12) Jú, en leifar hins trúfasta smurða hóps, ásamt hinum öðrum sauðum sem eru trygglyndir félagar þeirra, verða vitni að því hvernig árás Satans vekur sterk og snögg viðbrögð af hálfu Jehóva Guðs. Hann skerst í leikinn til varnar fólki sínu og það hrindir af stað ‚hinum mikla og ógurlega degi Jehóva.‘ (Jóel 3:4) Núna er hinn trúi og hyggni þjónn að vinna áríðandi björgunarstarf og vara við þessari komandi íhlutun Jehóva. (Malakí 4:5; 1. Tímóteusarbréf 4:16) Styður þú þessa þjónustu með því að taka virkan þátt í að prédika fagnaðarerindið um ríki Jehóva? Ætlar þú að halda því áfram sem hugrakkur boðberi Guðsríkis?

11. Af hverju er nauðsynlegt að vera hugrakkur núna?

11 Í ljósi núverandi heimsástands er sannarlega tímabært fyrir litlu hjörðina að fara eftir orðum Jesú til sín: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð“! Slíkt hugrekki er nauðsynlegt í ljósi alls sem verið er að gera núna í samræmi við tilgang Jehóva. Hver og einn af litlu hjörðinni gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að halda út allt til enda. (Lúkas 21:19) Eins og Jesús Kristur, Drottinn og meistari litlu hjarðarinnar, var þolgóður og reyndist trúfastur uns jarðlífi hans lauk, þarf hver og einn af leifunum að vera þolgóður og trúfastur. — Hebreabréfið 12:1, 2.

12. Hvernig hvatti Páll smurða kristna menn til að vera ekki hræddir, líkt og Jesús hafði gert?

12 Allir hinir smurðu verða að hafa sama viðhorf og Páll postuli. Taktu eftir hvernig orð hans, sem var smurður boðberi upprisunnar, samræmast hvatningu Jesú um að óttast ekki. Páll skrifaði: „Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu. Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað. Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð. Það orð er satt: Ef vér höfum dáið með honum, þá munum vér og lifa með honum. Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss. Þótt vér séum ótrúir, þá verður hann samt trúr, því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:8-13.

13. Hvaða djúpa sannfæringu hafa þeir sem mynda litlu hjörðina og hvað kemur hún þeim til að gera?

13 Þeir sem eftir eru af hinni smurðu litlu hjörð eru, eins og Páll postuli, fúsir til að þola þjáningar þegar þeir boða hinn kröftuga boðskap orðs Guðs. Sannfæring þeirra á sér djúpar rætur er þeir halda sér við loforð Guðs um hjálpræði og það að þeim verði gefin ‚kóróna lífsins‘ ef þeir reynast trúfastir allt til dauða. (Opinberunarbókin 2:10) Með tafarlausri upprisu munu þeir umbreytast og sameinast Kristi til að ríkja með honum sem konungar. Hvílíkur sigur! Þeir hafa varðveitt ráðvendni og sigrað heiminn! — 1. Jóhannesarbréf 5:3, 4.

Einstök von

14, 15. Hvernig er upprisuvon litlu hjarðarinnar einstök?

14 Upprisuvon litlu hjarðarinnar er einstök. Á hvaða vegu? Meðal annars á hún sér stað á undan almennri upprisu ‚réttlátra og ranglátra.‘ (Postulasagan 24:15) Reyndar fer upprisa hinna smurðu fram eftir ákveðinni röð miðað við mikilvægi, eins og kemur greinilega fram í þessum orðum 1. Korintubréfs 15:20, 23: „Nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru. En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.“ Með því að sýna sams konar þolgæði og trú og Jesús veit litla hjörðin hvað bíður hennar þegar hún lýkur jarðnesku lífsskeiði sínu, einkanlega síðan hinn sanni Drottinn kom til musteris síns árið 1918 til að dæma. — Malakí 3:1.

15 Páll færir enn aðra ástæðu fyrir því að líta á þessa upprisu sem einstaka. Hann skrifaði í 1. Korintubréfi 15:51-53: „Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. . . . Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.“ Þessi orð eiga við þá sem tilheyra litlu hjörðinni og deyja á nærverutíma Krists. Þeir þurfa ekki að sofa löngum dauðasvefni heldur eru þeir íklæddir ódauðleika „í einni svipan, á einu augabragði.“

16, 17. Hvernig njóta smurðir kristnir menn nú á tímum sérstakrar blessunar í sambandi við upprisuvon sína?

16 Í ljósi þessa skiljum við orð Jóhannesar postula í Opinberunarbókinni 14:12, 13. Hann skrifaði: „Hér reynir á þolgæði hinna heilögu, þeirra er varðveita boð Guðs og trúna á Jesú. Og ég heyrði rödd af himni, sem sagði: ‚Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim.‘“

17 Þeir sem eftir eru af litlu hjörðinni eiga svo sannarlega einstæða umbun í vændum! Þeir fá skjóta upprisu, strax eftir að þeir sofna dauðasvefni. Hvílík umskipti verða það ekki fyrir leifarnar að taka við verkefni sínu á hinu andlega tilverusviði! Úr því að verið er að gera litlu hjörðina dýrlega núna og svo langt er liðið á uppfyllingu helstu spádóma Biblíunnar þurfa þeir síðustu, sem eftir eru af henni, svo sannarlega ‚ekki að vera hræddir.‘ Og óttaleysi þeirra er hvetjandi fyrir múginn mikla sem ætti að rækta með sér sams konar óttaleysi meðan hann væntir frelsunar úr mestu þrengingu sem komið hefur yfir jörðina.

18, 19. (a) Hvers vegna liggur svo mikið við á okkar tímum? (b) Af hverju ættu hvorki hinir smurðu né hinir aðrir sauðir að vera hræddir?

18 Að virða fyrir sér starf litlu hjarðarinnar hjálpar bæði henni og múginum mikla að halda áfram að óttast hinn sanna Guð. Dómsstund Guðs er runnin upp og tíminn, sem er eftir, er dýrmætur. Aðrir hafa svo sannarlega takmarkaðan tíma til að aðhafast eitthvað. En við óttumst ekki að tilgangur Guðs eigi eftir að bregðast. Það er öruggt að hann nær fram að ganga!

19 Nú þegar hafa sterkar raddir á himni sagt: „Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.“ (Opinberunarbókin 11:15) Svo sannarlega er hirðirinn mikli, Jehóva, að leiða alla sauði sína „um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.“ (Sálmur 23:3) Litla hjörðin er leidd öruggum skrefum í átt til himneskrar umbunar sinnar. Og hinir aðrir sauðir verða frelsaðir heilir á húfi gegnum þrenginguna miklu til að njóta eilífs lífs á jarðnesku yfirráðasvæði hins dýrlega ríkis Guðs undir stjórn Krists Jesú. Jafnvel þótt Jesús hafi verið að ávarpa litlu hjörðina er hann sagði: „Vertu ekki hrædd,“ hafa allir þjónar Guðs á jörð tvímælalaust ástæðu til að hlýða á orð hans.

Geturðu svarað?

◻ Af hverju megum við búast við að þeim sem eftir eru af litlu hjörðinni fari fækkandi?

◻ Í hvaða aðstöðu eru hinar smurðu leifar nú á dögum?

◻ Af hverju ættu kristnir menn ekki að vera hræddir þótt árás Gógs frá Magóg nálgist?

◻ Hvers vegna er upprisuvon hinna 144.000 einstök, sérstaklega nú á tímum?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila