Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.6. bls. 24-29
  • Hirðar og sauðir í Guðveldi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hirðar og sauðir í Guðveldi
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Á hvaða vegu erum við guðræðisleg nú á tímum?
  • Guðveldi nú á tímum
  • Öldungar í guðveldi
  • Þjónað með kristnu hugarfari
  • Sauðir í guðveldinu
  • Hirðar og sauðir vinna saman
  • Vitnisburður um trú
  • Haltu þig fast við Guðveldið
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Jehóva stjórnar – með Guðræði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Hvernig er söfnuðurinn skipulagður?
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
  • „Hafið slíka menn í heiðri“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.6. bls. 24-29

Hirðar og sauðir í Guðveldi

„[Jehóva] er vor dómari, [Jehóva] er vor löggjafi, [Jehóva] er vor konungur, hann mun frelsa oss.“ — JESAJA 33:22.

1. Hvernig er hægt að segja að kristnir menn á fyrstu öld og núna séu guðveldi?

GUÐRÆÐI er stjórn Guðs. Það felur í sér að viðurkenna yfirvald Jehóva og fylgja viðmiðunarreglum hans og fyrirmælum í stórum sem smáum ákvörðunum lífsins. Söfnuðurinn á fyrstu öld var ósvikið guðveldi. Kristnir menn á þeim tíma gátu sagt í hreinskilni: „[Jehóva] er vor dómari, [Jehóva] er vor löggjafi, [Jehóva] er vor konungur.“ (Jesaja 33:22) Skipulag Jehóva Guðs nú á dögum, með hinar smurðu leifar sem kjarna, er á sama hátt raunverulegt guðveldi.

Á hvaða vegu erum við guðræðisleg nú á tímum?

2. Nefndu eina leið fyrir votta Jehóva til að lúta stjórn Jehóva.

2 Hvernig getum við sagt að jarðneskt skipulag Jehóva sé guðveldi? Vegna þess að þeir sem tilheyra því lúta svo sannarlega stjórn Jehóva. Og þeir fylgja forystu Jesú Krists, hans sem Jehóva hefur krýnt sem konung. Til dæmis gefur guðvaldurinn mikli Jesú þessa beinu fyrirskipun á tíma endalokanna: „Ber þú út sigð þína og sker upp, því að komin er stundin til að uppskera, sáðland jarðarinnar er fullþroskað.“ (Opinberunarbókin 14:15) Jesús hlýðir og tekur til við að uppskera á jörðinni. Kristnir menn styðja konung sinn í þessu mikla verki með því að prédika fagnaðarerindið kostgæfilega og gera menn að lærisveinum. (Matteus 28:19; Markús 13:10; Postulasagan 1:8) Með því eru þeir líka samverkamenn Jehóva, guðvaldsins mikla. — 1. Korintubréf 3:9.

3. Hvernig lúta kristnir menn guðræðisstjórn í siðferðismálum?

3 Kristnir menn lúta líka stjórn Guðs í hegðun sinni. Jesús sagði: „Sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“ (Jóhannes 3:21) Nú á dögum er endalaust rökrætt um siðferðisstaðla en slíkar deilur eiga alls ekki heima meðal kristinna manna. Í þeirra augum er það siðlaust sem Jehóva segir að sé siðlaust og þeir forðast það eins og pestina! Þeir annast líka fjölskyldur sínar, hlýða foreldrum sínum og eru undirgefnir yfirvöldum. (Efesusbréfið 5:3-5, 22-33; 6:1-4; 1. Tímóteusarbréf 5:8; Títusarbréfið 3:1) Þannig hegða þeir sér guðræðislega, í samræmi við staðla Guðs.

4. Hvaða röng viðhorf sýndu Adam og Eva og Sál og hvernig sýna kristnir menn ólík viðhorf?

4 Adam og Eva voru rekin úr paradís af því að þau vildu ákveða sjálf hvað væri rétt og hvað væri rangt. Jesús vildi alveg hið gagnstæða. Hann sagði: „Ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ Kristnir menn leita þess sama. (Jóhannes 5:30; Lúkas 22:42; Rómverjabréfið 12:2; Hebreabréfið 10:7) Sál, fyrsti konungur Ísraels, hlýddi Jehóva — en aðeins að hluta. Þess vegna var honum hafnað. Samúel sagði honum: „Hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“ (1. Samúelsbók 15:22) Er það guðræðislegt að hlýða vilja Jehóva að vissu marki, kannski með því að taka reglulega þátt í prédikunarstarfinu eða sækja samkomur reglulega, en gefa svo eftir í siðferðismálum eða á einhvern annan hátt? Auðvitað ekki! Við kappkostum að „gjöra vilja Guðs af heilum huga.“ (Efesusbréfið 6:6; 1. Pétursbréf 4:1, 2) Ólíkt Sál lútum við algerlega yfirráðum Guðs.

Guðveldi nú á tímum

5, 6. Hvernig á Jehóva samskipti við mannkynið nú á dögum og hvaða árangri skilar samvinna við þessa ráðstöfun?

5 Í fortíðinni stjórnaði Jehóva og opinberaði sannleikann fyrir milligöngu einstaklinga svo sem spámanna, konunga og postula. Þannig er það ekki núna því að nú eru engir innblásnir spámenn eða postular. Jesús sagði að á nærverutíma hans sem konungur myndi hann koma auga á trúfastan hóp fylgjenda sinna, ‚trúan og hygginn þjón,‘ og setja hann yfir allar eigur sínar. (Matteus 24:45-47; Jesaja 43:10) Árið 1919 kom í ljós að þessi þjónn var hinar smurðu leifar kristinna manna. Síðan hefur hann verið miðstöð guðræðis á jörðinni og hið stjórnandi ráð er fulltrúi hans. Út um heiminn eru deildarnefndir, farandumsjónarmenn og safnaðaröldungar fulltrúar hins stjórnandi ráðs.

6 Samvinna við guðræðisskipulagið er mikilvægur þáttur í því að lúta guðræðisstjórn. Slík samvinna stuðlar að einingu og reglu í ‚bræðrafélaginu‘ um heim allan. (1. Pétursbréf 2:17) Það er Jehóva þóknanlegt en hann er „ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ — 1. Korintubréf 14:33.

Öldungar í guðveldi

7. Hvers vegna er hægt að segja að kristnir öldungar séu útnefndir guðræðislega?

7 Allir útnefndir öldungar uppfylla hæfniskröfurnar sem Biblían gerir til umsjónarmanna eða öldunga, hver svo sem ábyrgðarstaða þeirra er. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Orð Páls til öldunganna í Efesus eiga auk þess við alla öldunga: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju.“ (Postulasagan 20:28) Já, öldungarnir eru útnefndir af heilögum anda sem kemur frá Jehóva Guði. (Jóhannes 14:26) Útnefning þeirra er guðræðisleg. Enn fremur gæta þeir hjarðar Guðs. Hjörðin tilheyrir Jehóva, ekki öldungunum. Skipulag Guðs er guðveldi.

8. Hver er almenn ábyrgð öldunga nú á tímum?

8 Í bréfi sínu til Efesusmanna lýsti Páll postuli í grófum dráttum almennri ábyrgð öldunga og sagði: „Frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar.“ (Efesusbréfið 4:11, 12) Postular og spámenn hurfu af sjónarsviðinu er söfnuðurinn, ‚líkami Krists,‘ sleit barnsskónum. (Samanber 1. Korintubréf 13:8.) En öldungar eru enn önnum kafnir við að boða fagnaðarerindið, gæta hjarðarinnar og kenna. — 2. Tímóteusarbréf 4:2; Títusarbréfið 1:9.

9. Hvernig ættu öldungar að búa sig undir að setja vilja Guðs skýrt fram í söfnuðinum?

9 Þar eð guðræði er stjórn Guðs eru duglegir öldungar gagnkunnugir vilja Guðs. Jósúa var fyrirskipað að lesa lögmálið daglega. Öldungar þurfa líka að nema og kanna reglulega hvað Ritningin segir og vera gagnkunnugir biblíuritum sem hinn trúi og hyggni þjónn gefur út. (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Þar eru meðtalin tímaritin Varðturninn og Vaknið! og önnur rit sem sýna hvernig meginreglur Biblíunnar eiga við ákveðnar aðstæður.a En þótt mikilvægt sé fyrir öldung að þekkja og fylgja þeim viðmiðunarreglum, sem birtar eru í ritum Varðturnsfélagsins, ætti hann líka að vera gagnkunnugur þeim meginreglum Ritningarinnar sem þær eru byggðar á. Þá er hann fær um að beita viðmiðunarreglum Ritningarinnar með skilningi og samkennd. — Samanber Míka 6:8.

Þjónað með kristnu hugarfari

10. Hvaða slæm viðhorf ættu öldungar að varast og hvernig?

10 Páll postuli skrifaði fyrra bréf sitt til safnaðarins í Korintu um árið 55. Eitt af vandamálunum, sem hann tók á, tengdist vissum mönnum sem vildu láta á sér bera í söfnuðinum. Páll skrifaði: „Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!“ (1. Korintubréf 4:8) Á fyrstu öld okkar tímatals höfðu allir kristnir menn von um að ríkja sem himneskir konungar og prestar með Jesú. (Opinberunarbókin 20:4, 6) Svo er að sjá sem sumir í Korintu hafi hins vegar gleymt því að á jörðinni eru engir konungar í hinu kristna guðveldi. Í stað þess að hegða sér eins og konungar þessa heims rækta kristnir hirðar lítillæti, eiginleika sem þóknast Jehóva. — Sálmur 138:6; Lúkas 22:25-27.

11. (a) Nefndu framúrskarandi dæmi um lítillæti. (b) Hvernig ættu öldungar og allir aðrir kristnir menn að líta á sjálfa sig?

11 Er lítillæti veikleiki? Alls ekki! Jehóva er sjálfum lýst sem svo að hann sé lítillátur. (Sálmur 18:36) Konungar Ísraels leiddu heri til bardaga og stjórnuðu þjóðinni í umboði Jehóva. Hver og einn varð þó að gæta þess að ‚ofmetnast eigi í hjarta sínu yfir bræður sína.‘ (5. Mósebók 17:20) Hinn upprisni Jesús er himneskur konungur. Þegar hann var á jörðinni þvoði hann hins vegar fætur lærisveinanna. Hvílíkt lítillæti! Og til að sýna að hann vildi að postular hans sýndu áþekka auðmýkt sagði hann: „Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur.“ (Jóhannes 13:14; Filippíbréfið 2:5-8) Öll dýrð og heiður á að beinast að Jehóva, ekki nokkrum manni. (Opinberunarbókin 4:11) Allir kristnir menn, hvort heldur öldungar eða ekki, ættu að hugsa um sjálfa sig í ljósi orða Jesú: „Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.“ (Lúkas 17:10) Öll önnur viðhorf eru óguðræðisleg.

12. Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir kristna öldunga að rækta með sér kærleika?

12 Auk lítillætis rækta kristnir öldungar með sér kærleika. Jóhannes postuli sýndi fram á mikilvægi kærleikans er hann sagði: „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Kærleikslausir einstaklingar eru ekki guðræðislegir. Þeir þekkja ekki Jehóva. Biblían segir um son Guðs: „Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk.“ (Jóhannes 13:1) Jesús sagði við þá 11 menn sem áttu að verða hluti af hinu stjórnandi ráði kristna safnaðarins: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“ (Jóhannes 15:12) Kærleikur er aðalsmerki sannrar kristni. Hann laðar að þá sem hafa sundurmarið hjarta, syrgjendur og þá sem eru í andlegri ánauð en þrá frelsi. (Jesaja 61:1, 2; Jóhannes 13:35) Öldungar verða að vera til fyrirmyndar í því að sýna hann.

13. Hvernig geta afskipti öldungs verið til góðs við allar aðstæður, þótt vandamál nútímans geti verið erfið?

13 Nú á tímum eru öldungar oft beðnir að hjálpa til við að leysa margþætt vandamál. Hjónaerjur geta verið rótgrónar og þrálátar. Ungt fólk þarf að glíma við ýmislegt sem fullorðnir geta átt erfitt með að skilja. Veilur, sem eiga sér tilfinningalegar rætur, eru oft torskildir. Öldungur, sem stendur frammi fyrir slíku, kann að vera í vafa um hvað gera skuli. En hann getur treyst því að afskipti hans verði til góðs, jafnvel við erfiðustu aðstæður, ef hann reiðir sig á visku Guðs og leitar til hans í bæn, ef hann kannar hvað Biblían hefur um málið að segja og þær upplýsingar sem hinn trúi og hyggni þjónn hefur gefið út og ef hann er auðmjúkur og kærleiksríkur í samskiptum við sauðina.

14, 15. Hvað hafa sumir sagt sem sýnir að Jehóva hefur blessað fólk sitt með mörgum góðum öldungum.

14 Jehóva hefur blessað skipulag sitt ríkulega með ‚gjöfum í mönnum.‘ (Efesusbréfið 4:8, NW) Af og til fær Varðturnsfélagið hlýleg bréf sem bera vitni um kærleika auðmjúkra öldunga er gæta sauða Guðs með umhyggju. Til dæmis skrifar safnaðaröldungur: „Ég man ekki eftir nokkurri annarri farandhirðisheimsókn sem hafði meiri áhrif á mig eða er enn minnst á í söfnuðinum. Farandhirðirinn hjálpaði mér að sjá mikilvægi þess að hafa jákvæð viðhorf í samskiptum við bræðurna og leggja áherslu á það að hrósa.“

15 Systir, sem þurfti að ferðast langar leiðir til að fá læknismeðferð, skrifar: „Það var mjög hughreystandi að hitta öldung fyrsta kvöldið sem ég lá áhyggjufull á spítalanum, óralangt að heiman! Hann og aðrir bræður vörðu miklum tíma með mér. Jafnvel fólk í heiminum, er þekkti til þess sem ég var að ganga í gegnum, áleit að ég hefði aldrei lifað það af án hughreystingar, umhyggju og bæna þessara kærleiksríku og tryggu bræðra.“ Önnur systir skrifar: „Ég er á lífi núna af því að öldungaráðið studdi mig með þolinmæði gegnum baráttu mína við alvarlegt þunglyndi. . . . Bróðir og kona hans vissu ekki hvað þau áttu að segja við mig. . . . En það sem snerti mig mest var að jafnvel þótt þau skildu ekki fyllilega hvað ég var að ganga í gegnum sýndu þau mér kærleiksríka umhyggju.“

16. Hvaða hvatningu gefur Pétur öldungum?

16 Já, margir öldungar fara eftir hvatningu Péturs postula: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pétursbréf 5:1-3) Slíkir guðræðislegir öldungar eru mikil blessun!

Sauðir í guðveldinu

17. Nefndu nokkra eiginleika sem allir meðlimir safnaðarins ættu að rækta með sér.

17 En í guðveldi eru ekki aðeins öldungar. Ef öldungarnir verða að vera guðræðislegir verða sauðirnir að vera það líka. Á hvaða vegu? Nú, sauðirnir verða að hafa sömu meginreglur og hirðarnir til leiðsagnar. Allir kristnir menn, ekki bara öldungarnir, verða að vera auðmjúkir til að hljóta blessun Jehóva. (Jakobsbréfið 4:6) Allir verða að rækta með sér kærleika vegna þess að án hans hefur Jehóva ekki velþóknun á fórnum okkar. (1. Korintubréf 13:1-3) Og við ættum öll, ekki bara öldungarnir, að „fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans.“ — Kólossubréfið 1:9.

18. (a) Hvers vegna er yfirborðsþekking á sannleikanum ekki nóg? (b) Hvernig getum við öll fyllst nákvæmri þekkingu?

18 Jafnt ungir sem aldnir standa sífellt frammi fyrir erfiðum ákvörðunum þegar þeir leitast við að vera trúfastir þrátt fyrir það að þeir búa í heimi Satans. Tískustraumar heimsins í klæðaburði, tónlist, kvikmyndum og bókmenntum reyna á andlegt hugarfar sumra. Yfirborðsþekking á sannleikanum er ekki nóg til að hjálpa okkur að halda jafnvægi okkar. Til að vera örugg um að varðveita trúfesti verðum við að vera full af nákvæmri þekkingu. Við þurfum að hafa þá dómgreind og visku sem aðeins orð Guðs getur gefið okkur. (Orðskviðirnir 2:1-5) Það þýðir að við þurfum að temja okkur góðar námsvenjur, hugleiða það sem við lærum og fara eftir því. (Sálmur 1:1-3; Opinberunarbókin 1:3) Páll var að tala til allra kristinna manna, ekki bara öldunganna, þegar hann skrifaði: „Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ — Hebreabréfið 5:14.

Hirðar og sauðir vinna saman

19, 20. Hvaða hvatningu fáum við öll til að vera samvinnufús við öldungana og hvers vegna?

19 Loks er rétt að taka fram að þeir sem eru samvinnuþýðir við öldungana sýna sannarlega guðræðislegt hugarfar. Páll skrifaði Tímóteusi: „Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.“ (1. Tímóteusarbréf 5:17; 1. Pétursbréf 5:5, 6) Það eru mikil sérréttindi að vera öldungur en flestir öldungar eru fjölskyldumenn sem stunda veraldlega vinnu á hverjum degi og eiga eiginkonu og börn til að annast. Þótt þeir þjóni með ánægju í söfnuðinum er þjónusta þeirra auðveldari og umbunarríkari þegar söfnuðurinn styður þá og er ekki gagnrýninn eða kröfuharður um of. — Hebreabréfið 13:17.

20 Páll postuli sagði: „Minnist þeirra sem taka forystuna á meðal ykkar, sem hafa talað orð Guðs til ykkar, og líkið eftir trú þeirra um leið og þið ígrundið hvernig þeim farnast.“ (Hebreabréfið 13:7, NW) Nei, Páll hvatti ekki bræðurna til að gerast fylgismenn öldunganna. (1. Korintubréf 1:12) Það er ekki guðræðislegt að vera fylgismaður annars manns. En það er tvímælalaust viturlegt að líkja eftir prófreyndri trú guðræðislegs öldungs sem er ötull í boðunarstarfinu, sækir samkomur reglulega og er auðmjúkur og kærleiksríkur í samskiptum við söfnuðinn.

Vitnisburður um trú

21. Hvernig sýna kristnir menn sterka trú líkt og Móse?

21 Það að til skuli vera guðræðisskipulag núna á mestu spillingartímum mannkynssögunnar ber sannarlega vitni um mátt guðvaldsins mikla. (Jesaja 2:2-5) Það ber líka vitni um trú nálega fimm milljóna kristinna karla, kvenna og barna sem berjast við vandamál daglegs lífs en gleyma aldrei að Jehóva er stjórnandi þeirra. Líkt og hinn trúfasti Móse „var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega“ hafa kristnir nútímamenn sams konar sterka trú. (Hebreabréfið 11:27) Þeir hafa þau sérréttindi að lifa í guðveldi og þakka Jehóva það daglega. (Sálmur 100:4, 5) Þegar þeir finna fyrir frelsunarmætti Jehóva er þeim fagnaðarefni að geta sagt: „[Jehóva] er vor dómari, [Jehóva] er vor löggjafi, [Jehóva] er vor konungur, hann mun frelsa oss.“ — Jesaja 33:22.

[Neðanmáls]

a Meðal slíkra rita er bókin „Pay Attention to Yourselves and to All the Flock“ („Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni“) sem inniheldur viðmiðunarreglur frá Biblíunni og er látin útnefndum umsjónarmönnum safnaðarins, öldungunum, í té.

Hvað sýnir Biblían?

◻ Hvernig lúta kristnir menn guðræðisstjórn?

◻ Hvernig er guðveldi nútímans skipulagt?

◻ Á hvaða vegu ættu öldungar að búa sig undir að rækja ábyrgð sína?

◻ Hvaða kristna eiginleika er nauðsynlegt fyrir öldunga að rækta og sýna?

◻ Hvaða samband ætti að vera milli sauðanna og hirðanna í guðveldinu?

[Mynd á blaðsíðu 25]

Adam og Eva voru rekin úr paradís vegna þess að þau vildu ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Ef öldungur er auðmjúkur og kærleiksríkur í samskiptum við sauðina eru afskipti hans alltaf til góðs.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila