Leitaðu huggunar hjá Jehóva
„Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 15:5.
1. Hvers vegna eykst huggunar- og hughreystingarþörfin dag frá degi?
MEÐ hverjum deginum sem líður höfum við ríkari þörf fyrir huggun og hughreystingu. Eins og biblíuritari sagði fyrir meira en 1900 árum ‚stynur öll sköpunin og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.‘ (Rómverjabréfið 8:22) ‚Stunurnar og hríðirnar‘ hafa verið meiri á þessari öld en nokkurn tíma áður. Frá því að fyrri heimsstyrjöldin braust út hefur mannkynið mátt þola hörmung á hörmung ofan í mynd styrjalda, glæpa og náttúruhamfara sem oft stafa af óstjórn og eyðileggingu jarðar. — Opinberunarbókin 11:18.
2. (a) Hver ber fyrst og fremst sök á núverandi hörmungum mannkyns? (b) Hvaða staðreynd er okkur til huggunar?
2 Hvers vegna hefur mannkynið mátt þola svona miklar þjáningar á okkar dögum? Biblían svarar því er hún lýsir hvernig Satan var kastað niður af himnum eftir fæðingu Guðsríkis árið 1914: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Uppfylltir biblíuspádómar sýna greinilega að ill stjórn Satans er næstum á enda. Það er mjög hughreystandi að vita að lífið á jörðinni verður bráðlega jafnfriðsælt og það var áður en Satan eggjaði fyrstu foreldra okkar til uppreisnar!
3. Hvenær þörfnuðust menn ekki huggunar?
3 Í upphafi gaf skaparinn fyrstu mannhjónunum fagran lystigarð fyrir heimili. Hann var á svæði sem kallaðist Eden, en það merkir „unaður“ eða „yndi.“ (1. Mósebók 2:8, NW Ref. Bi., neðanmáls) Og Adam og Eva voru fullkomlega heilbrigð og áttu í vændum að deyja aldrei. Hugsaðu þér bara á hve mörgum sviðum þau hefðu getað þroskað hæfileika sína — í garðyrkju, listum, byggingarlist og tónlist. Hugsaðu þér líka öll þau sköpunarverk sem þau hefðu getað skoðað er þau önnuðust það verk sitt að gera jörðina sér undirgefna og breyta henni í paradís. (1. Mósebók 1:28) Líf Adams og Evu hefði getað verið fullt af yndi og unaði en ekki stunum og sársaukahríðum. Ljóst er að þá hefðu þau ekki þarfnast huggunar og hughreystingar.
4, 5. (a) Hvers vegna stóðust Adam og Eva ekki hlýðniprófið? (b) Hvernig atvikaðist það að mannkynið þarfnaðist huggunar?
4 En Adam og Eva þurftu að þroska með sér djúpan kærleika og þakklæti til hins góða föður síns á himnum. Slíkur kærleikur hefði hvatt þau til að hlýða Guði undir öllum kringumstæðum. (Samanber Jóhannes 14:31.) Því miður brugðust báðir foreldrar mannkyns réttmætum Drottni sínum, Jehóva. Þau leyfðu föllnum engli, Satan djöflinum, að hneppa sig í fjötra illrar stjórnar sinnar. Það var Satan sem freistaði Evu til að syndga og borða af forboðna ávextinum. Síðan syndgaði Adam með því að borða líka af ávexti trésins sem Guð hafði varað þau greinilega við að gera: „Jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ — 1. Mósebók 2:17.
5 Þar með byrjuðu hin syndugu hjón að deyja. Þegar Guð felldi dauðadóminn sagði hann líka við Adam: „Jörðin [sé] bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar.“ (1. Mósebók 3:17, 18) Þannig glötuðu Adam og Eva þeirri framtíðarsýn að breyta hinni óræktuðu jörð í paradís. Þau voru rekin úr Eden og með erfiðismunum yrkjuðu þau jörðina sem nú var bölvuð. Afkomendur þeirra erfðu frá þeim synd og dauða og voru því mjög hughreystingar- og huggunarþurfi. — Rómverjabréfið 5:12.
Hughreystandi loforð uppfyllt
6. (a) Hvaða hughreystandi fyrirheit gaf Guð eftir syndafall mannkynsins? (b) Hverju spáði Lamek um huggun?
6 Jehóva reyndist vera ‚Guð sem veitir huggunina‘ þegar hann dæmdi frumkvöðulinn að uppreisn mannsins. (Rómverjabréfið 15:5) Hann gerði það með því að lofa að senda ‚sæði‘ sem myndi síðar frelsa afkomendur Adams undan hrikalegum afleiðingum uppreisnar hans. (1. Mósebók 3:15) Er fram liðu stundir gaf Guð líka forsmekk að þessari frelsun. Til dæmis innblés hann Lamek, fjarskyldum afkomanda Adams í ættlegg sonarins Sets, að spá því hvað sonur Lameks skyldi gera: „Þessi mun hugga oss í erfiði voru og striti handa vorra, er jörðin, sem [Jehóva] bölvaði, bakar oss.“ (1. Mósebók 5:29) Í samræmi við þetta loforð var drengurinn nefndur Nói sem talið er merkja „hvíld“ eða „huggun.“
7, 8. (a) Hvaða ástand olli því að Jehóva iðraði þess að hafa skapað manninn og hvað ákvað hann að gera? (b) Hvernig reis Nói undir nafni?
7 Meðan þessu fór fram var Satan að afla sér fylgjenda meðal englanna á himnum. Þeir holdguðust sem menn og tóku sér fríðar konur af Adamsætt fyrir eiginkonur. Þessi óeðlilegu hjónabönd spilltu mannlegu samfélagi enn frekar og ávöxtur þeirra varð hið óguðlega Nefílím-kyn, „risarnir“ sem fylltu jörðina ofbeldi og glæpaverkum. (1. Mósebók 6:1, 2, 4, 11; Júdasarbréfið 6) „Er [Jehóva] sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni . . . þá iðraðist [Jehóva] þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.“ — 1. Mósebók 6:5, 6.
8 Jehóva ákvað að eyða þessum illa heimi í flóði, en fyrst lét hann Nóa smíða örk til lífsbjargar. Þannig bjargaðist mannkynið og dýrategundirnar. Nóa og fjölskyldu hans hlýtur að hafa létt stórum eftir flóðið þegar þau stigu út úr örkinni á hreinsaða jörð! Það hlýtur að hafa verið mjög hughreystandi fyrir þau að uppgötva að bölvuninni hafði verið létt af jörðinni þannig að akuryrkja varð miklum mun auðveldari en áður! Spádómur Lameks rættist sannarlega og Nói reis undir nafni. (1. Mósebók 8:21) Nói var trúfastur þjónn Guðs sem hann notaði til að veita mannkyninu vissa ‚huggun.‘ En illum áhrifum Satans og djöflaengla hans linnti ekki með flóðinu, og mannkynið stynur enn undan byrði syndar, sjúkdóma og dauða.
Meiri en Nói
9. Hvernig hefur Jesús Kristur reynst hjálpari og huggari iðrunarfullra manna?
9 Fyrirheitna sæðið birtist loksins eftir um 4000 ára sögu mannkyns. Vegna mikils kærleika síns til mannkyns sendi Jehóva Guð eingetinn son sinn til jarðar til að deyja sem lausnargjald fyrir syndugt mannkyn. (Jóhannes 3:16) Jesús Kristur veitir iðrunarfullum syndurum, sem trúa á fórnardauða hans, mikla huggun og hughreystingu. Allir sem vígjast Jehóva og verða skírðir lærisveinar sonar hans hljóta varanlega hressingu og hughreystingu. (Matteus 11:28-30; 16:24) Þrátt fyrir ófullkomleika sinn hafa þeir mikla gleði af því að þjóna Guði með hreinni samvisku. Það er hughreystandi fyrir þá að vita að þeim verður umbunað með eilífu lífi ef þeir halda áfram að trúa á Jesú! (Jóhannes 3:36; Hebreabréfið 5:9) Ef þeir drýgja alvarlega synd sökum veikleika eiga þeir sér hinn upprisna Drottin Jesú Krist sem hjálpara eða huggara. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Það er þeim huggun og léttir að játa slíka synd og gera biblíulegar ráðstafanir til að þeir fari ekki að endurtaka syndina, og þeir vita að Guð er ‚trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur þeim.‘ — 1. Jóhannesarbréf 1:9; 3:6, NW; Orðskviðirnir 28:13.
10. Hvað lærum við af kraftaverkum Jesú þegar hann var á jörðinni?
10 Meðan Jesús var á jörðinni hressti hann fólk einnig með því að leysa úr fjötrum þá sem haldnir voru illum öndum, með því að lækna menn af hvers kyns sjúkdómum og með því að reisa látna ástvini manna aftur til lífs. Slík kraftaverk gerðu að vísu aðeins tímabundið gagn því að þeir sem hlutu slíka blessun hrörnuðu síðar og dóu. En með þessu benti Jesús á hina varanlegu framtíðarblessun sem hann á eftir að úthella yfir allt mannkyn. Núna er hann voldugur konungur á himni og gerir bráðlega miklu meira en aðeins að reka út illa anda. Hann fjötrar þá í undirdjúpi aðgerðarleysis ásamt forsprakka þeirra, Satan. Þá hefst hin dýrlega þúsund ára stjórn Krists. — Lúkas 8:30, 31; Opinberunarbókin 20:1, 2, 6.
11. Hvers vegna kallaði Jesús sig „herra hvíldardagsins“?
11 Jesús sagðist vera „herra hvíldardagsins“ og oft læknaði hann á hvíldardegi. (Matteus 12:8-13; Lúkas 13:14-17; Jóhannes 5:15, 16; 9:14) Hvers vegna gerði hann það? Hvíldardagsákvæðin voru hluti af lögmáli Guðs til Ísraels og þar af leiðandi ‚skuggi hins góða sem var í vændum.‘ (Hebreabréfið 10:1) Virku dagarnir sex minna okkur á þrælkun mannsins síðastliðin 6000 ár undir kúgunarstjórn Satans. Hvíldardagurinn í lok vikunnar minnir á huggunina og hvíldina sem mannkynið hlýtur undir þúsund ára stjórn hins meiri Nóa, Jesú Krists. — Samanber 2. Pétursbréf 3:8.
12. Hvaða huggunar getum við hlakkað til?
12 Það verður mikill léttir fyrir jarðneska þegna stjórnar Krists þegar þeir losna loksins algerlega undan illum áhrifum Satans! Þeir fá enn meiri huggun þegar þeir fá bót líkamlegra, tilfinningalegra og geðrænna meina sinna. (Jesaja 65:17) Og hugsaðu þér ofsagleði þeirra þegar þeir fara að taka á móti ástvinum sínum upprisnum frá dauðum! Þannig mun Guð „þerra hvert tár af augum þeirra.“ (Opinberunarbókin 21:4) Hlýðnir þegnar Guðsríkis öðlast fullkomleika þegar fórn Jesú er beitt markvisst í þeirra þágu, og þeir losna algerlega við öll hin vondu áhrif af synd Adams. (Opinberunarbókin 22:1-5) Þá verður Satan sleppt lausum „um stuttan tíma.“ (Opinberunarbókin 20:3, 7) Öllum mönnum, sem styðja réttmætt drottinvald Jehóva í trúfesti, verður umbunað með eilífu lífi. Reyndu að ímynda þér þá ólýsanlegu gleði og létti sem fylgir því að losna alveg úr „ánauð forgengileikans“! Þannig öðlast hlýðið mannkyn ‚dýrðarfrelsi Guðs barna.‘ — Rómverjabréfið 8:21.
13. Hvers vegna þarfnast allir sannkristnir menn þeirrar huggunar sem Guð veitir?
13 Þangað til þurfum við að þola þær stunur og sársaukahríðir sem eru hlutskipti allra í illu heimskerfi Satans. Líkamlegir sjúkdómar og tilfinningaleg og geðræn vandamál færast í aukana og eru hlutskipti allra, þeirra á meðal trúfastra kristinna manna. (Filippíbréfið 2:25-27; 1. Þessaloníkubréf 5:14, NW) Auk þess erum við oft að ósekju höfð að spotti og sætum ofsóknum af hendi Satans af því að við ‚hlýðum Guði framar en mönnum.‘ (Postulasagan 5:29) Ef við viljum gera vilja Guðs þolgóð allt til þess er heimur Satans tekur enda, þá þörfnumst við þeirrar huggunar, hughreystingar, hjálpar og styrks sem hann veitir.
Þar sem huggun er að fá
14. (a) Hverju lofaði Jesús kvöldið fyrir dauða sinn? (b) Hvað er nauðsynlegt til að við höfum fullt gagn af huggun og hughreystingu heilags anda Guðs?
14 Kvöldið fyrir dauða sinn tók Jesús skýrt fram við trúfasta postula sína að hann yfirgæfi þá bráðlega og sneri aftur til föður síns. Það hryggði þá og skelfdi. (Jóhannes 13:33, 36; 14:27-31) Jesús vissi að þeir þörfnuðust áframhaldandi huggunar og hét þeim: „Eg mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan huggara, til þess að hann sé hjá yður eilíflega.“ (Jóhannes 14:16, Biblían 1912) Með þessum orðum átti Jesús við heilagan anda Guðs sem var úthellt yfir lærisveinana 50 dögum eftir upprisu hans.a Andi Guðs hughreysti þá meðal annars í prófraunum þeirra og styrkti þá til að halda áfram að gera vilja Guðs. (Postulasagan 4:31) En við ættum ekki að líta svo á að við fáum slíka hjálp sjálfkrafa. Til að hafa fullt gagn af henni þarf hver einstakur kristinn maður að halda áfram að biðja um þá huggun og hjálp sem Guð veitir fyrir atbeina heilags anda síns. — Lúkas 11:13.
15. Hvaða leiðir notar Jehóva meðal annars til að hugga okkur og hughreysta?
15 Guð huggar og hughreystir líka með hjálp Biblíunnar. Páll skrifaði: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Þetta sýnir að við þurfum að staðaldri að rannsaka og hugleiða það sem skrifað stendur í Biblíunni og biblíutengdum ritum. Við þurfum líka að sækja kristnar samkomur reglulega þar sem miðlað er hughreystandi efni frá orði Guðs. Einn helsti tilgangurinn með slíkum samkomum er sá að hvetja og uppörva hvert annað. — Hebreabréfið 10:25.
16. Hvað ættu huggunarráðstafanir Guðs að hvetja okkur til að gera?
16 Bréf Páls til Rómverja sýnir svo fram á þann góða árangur sem fylgir því að notfæra sér huggunarráðstafanir Guðs. Páll skrifaði: „Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú, til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.“ (Rómverjabréfið 15:5, 6) Já, ef við notfærum okkur huggunarráðstafanir Guðs til fullnustu líkjumst við æ meir hugrökkum leiðtoga okkar, Jesú Kristi. Það hvetur okkur síðan til að nota munninn til að vegsama Guð í boðunarstarfi okkar, á samkomum okkar, í einkasamtölum við trúsystkini okkar og í bænum okkar.
Í erfiðum prófraunum
17. Hvernig hughreysti Jehóva son sinn og með hvaða árangri?
17 Djúpa „hryggð og angist“ setti að Jesú nóttina áður en hann dó kvalafullum dauða. (Matteus 26:37, 38) Hann gekk því ögn afsíðis frá lærisveinunum og bað föður sinn um hjálp. Hann „fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ (Hebreabréfið 5:7) Biblían segir að ‚engill af himni hafi birst Jesú og styrkt hann.‘ (Lúkas 22:43) Hugrekki Jesú og karlmennska er hann gekk á vit óvina sinna ber því vitni að Guð hafi styrkt og hughreyst son sinn með mjög svo áhrifaríkum hætti. — Jóhannes 18:3-8, 33-38.
18. (a) Hvaða tímabil í lífi Páls postula var sérstaklega erfitt? (b) Hvernig getum við stutt iðjusama og meðaumkunarsama öldunga?
18 Páll postuli gekk líka gegnum erfiðar prófraunir. Til dæmis einkenndist þjónusta hans í Efesus af ‚tárum og raunum sem að honum steðjuðu af launráðum Gyðinga.‘ (Postulasagan 20:17-20) Að lokum fór Páll frá Efesus eftir að dýrkendur gyðjunnar Artemisar höfðu komið borginni í uppnám út af prédikun hans. (Postulasagan 19:23-29; 20:1) Er Páll hélt norður til borgarinnar Tróas hvíldi annað þungt á huga hans. Einhvern tíma fyrir lætin í Efesus höfðu honum borist uggvænlegar fréttir. Hinn ungi Korintusöfnuður var sundraður og umbar saurlifnað. Páll hafði því sent alvarlegt áminningarbréf frá Efesus í von um að geta bætt þar úr. Það var ekki auðvelt fyrir hann. „Af mikilli þrengingu og hjartans trega skrifaði ég yður með mörgum tárum,“ sagði hann í öðru bréfi til þeirra. (2. Korintubréf 2:4) Meðaumkunarsamir öldungar eiga ekki auðvelt, frekar en Páll, með að leiðrétta og áminna, meðfram vegna þess að þeir gera sér grein fyrir eigin veikleikum. (Galatabréfið 6:1) Styðjum því þá sem fara með forystuna meðal okkar, með því að bregðast fúslega við kærleiksríkum ráðum byggðum á Biblíunni. — Hebreabréfið 13:17.
19. Hvers vegna fór Páll frá Tróas til Makedóníu, og hvernig létti honum að lokum?
19 Páll lét sér ekki nægja að skrifa bræðrunum í Korintu meðan hann var í Efesus heldur sendi líka Títus til að aðstoða þá. Títus átti síðan að skýra honum frá viðbrögðum þeirra við bréfinu. Páll vonaðist til að leiðir þeirra Títusar lægju saman í Tróas. Þar fékk Páll ágætis tækifæri til að gera menn að lærisveinum. Hins vegar dró það ekki úr áhyggjum hans því að Títus var ókominn. (2. Korintubréf 2:12, 13) Hann hélt því til Makedóníu þar sem hann vonaðist til að hitta Títus. Hörð andstaða gegn þjónustu Páls jók enn á áhyggjur hans. „Því var og það, er vér komum til Makedóníu,“ segir hann, „að vér höfðum enga eirð, heldur vorum vér á alla vegu aðþrengdir, barátta hið ytra, ótti hið innra. En Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss með komu Títusar.“ (2. Korintubréf 7:5, 6) Hvílík hughreysting er Títus kom loksins og færði Páli fréttir af góðum viðbrögðum Korintumanna við bréfi hans!
20. (a) Á hvaða annan mikilvægan hátt huggar og hughreystir Jehóva eins og sýndi sig hjá Páli? (b) Hvað er fjallað um í næstu grein?
20 Reynsla Páls er huggun og hughreysting fyrir þjóna Guðs nú á tímum, því að margir þeirra eiga líka í prófraunum sem valda því að þeir eru ‚beygðir‘ eða ‚niðurdregnir.‘ (Phillips) Já, ‚Guð sem veitir huggunina‘ þekkir þarfir okkar hvers og eins, og hann getur notað okkur til að hugga og hughreysta hvert annað alveg eins og fregnirnar, sem Títus færði af iðrunarhug Korintumanna, voru Páli til huggunar og hughreystingar. (2. Korintubréf 7:11-13) Í næstu grein fjöllum við um hlýlegt bréf Páls til Korintumanna og hvernig það getur hjálpað okkur að veita öðrum huggun og hughreystingu Guðs nú á dögum.
[Neðanmáls]
a Eitt það helsta sem andi Guðs gerði í þágu kristinna manna á fyrstu öld, var að smyrja þá sem andlega kjörsyni Guðs og bræður Jesú. (2. Korintubréf 1:21, 22) Þessi smurning er aðeins veitt 144.000 af lærisveinum Krists. (Opinberunarbókin 14:1, 3) Núna hefur yfirgnæfandi meirihluta kristinna manna verið veitt von um eilíft líf í paradís á jörð. Þótt þeir séu ekki smurðir fá þeir líka hjálp og huggun heilags anda Guðs.
Geturðu svarað?
◻ Hvernig bar það til að mannkynið þarfnaðist huggunar?
◻ Hvernig hefur Jesús reynst meiri en Nói?
◻ Hvers vegna kallaði Jesús sig „herra hvíldardagsins“?
◻ Hvernig huggar og hughreystir Guð nú á tímum?
[Kort/Mynd á blaðsíðu 24]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
Fregnirnar, sem Títus færði Páli af Korintu- mönnum, voru honum mikil huggun og hughreysting.
MAKEDÓNÍA
Filippí
GRIKKLAND
Korinta
ASÍA
Tróas
Efesus