‚Ríflega sáð, ríflega uppskorið‘
„Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, en sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“ — 2. KORINTUBRÉF 9:6.
1. Hvers vegna er Jehóva Guð hamingjusamasti einstaklingur alheimsins?
GUÐ okkar Jehóva er ‚hinn sæli Guð.‘ Vafalaust er ein ástæðan sú að hann er svo örlátur gjafari. Sonur hans, Jesús Kristur, sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Ísl. bi. 1912; Postulasagan 20:35) Enginn hefur gefið meira en Jehóva — allt frá því að hann myndaði eingetinn son sinn, Orðið, fram til okkar tíma. Ekki leikur því minnsti vafi á að hann er hamingjusamasti einstaklingur í alheiminum.
2, 3. (a) Á hvaða vegu hefur Guð sáð ríflega? (b) Hvernig má segja að Jehóva hafi uppskorið og eigi eftir að uppskera ríflega?
2 Áþekk meginregla kemur fram í 2. Korintubréfi 9:6: „Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“ Jehóva Guð hefur sáð ríflega að því er sköpunarverkið varðar! Orð hans segir frá hundruðum milljóna andavera. (Opinberunarbókin 5:11) Mundu líka eftir hinum óteljandi vetrarbrautum himingeimsins sem hver um sig telur þúsundir milljóna stjarna. Á jörðinni er að finna lifandi og lífvana hluti sem Jehóva Guð hefur skapað í óendanlegri fjölbreytni! Sannarlega er ‚jörðin full af því sem hann hefir skapað.‘ (Sálmur 104:24) Og hversu vel gerði hann ekki huga okkar, skilningarvit og líkama úr garði! Sannarlega erum við ‚undursamlega sköpuð.‘ — Sálmur 139:14.
3 Engum blöðum er um það að fletta að Jehóva Guð hefur sáð ríflega, ekki aðeins í sköpunarverkinu heldur líka í samskiptum við hið skapaða hér á jörð. En hefur hann uppskorið ríflega? Já, það hefur hann! Á hvaða hátt? Á þann hátt að hann hefur haft, hefur og mun hafa óteljandi fjölda skynsemigæddra sköpunarvera sem þjóna honum af kærleika. Það gleður hjarta Jehóva, einkum þar sem það sannar lygara djöfulinn sem smánar Guð. — Orðskviðirnir 27:11.
4. Hvernig hefur meginreglan í 2. Korintubréfi 9:6 átt við á öllum tímum, líka okkar?
4 Biblían geymir ríkulegan vitnisburð þess að allt frá því að Orðið var skapað hafa fjölmargir trúfastir þjónar Jehóva Guðs sömuleiðis sáð ríflega og uppskorið ríflega. Þannig á það líka að vera því að meginreglur Jehóva eiga við alla á öllum tímum. Þess vegna getur meginreglan um að sá komið fram í þínu eigin lífi.
5, 6. (a) Hvaða óvinir gera okkur erfitt fyrir að sá ríflega? (b) Hvað þurfum við að vera fús til að gera og á hvaða sviðum helgrar þjónustu okkar?
5 Þótt Ritningin geymi fjölda ástæðna og fordæma um að sá ríflega er það engan veginn auðvelt. Hvers vegna? Vegna þess að við er að etja þrjá öfluga óvini sem berjast gegn því. Fyrst er að nefna meðfædda tilhneigingu sjálfra okkar til eigingirni. Við lesum í 1. Mósebók 8:21: „Hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans.“ Orð Guðs upplýsir okkur líka um að mannshjartað sé svikult. (Jeremía 17:9) Í öðru lagi þurfum við að berjast gegn álagi hins óguðlega heims sem liggur í valdi hins vonda. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Í þriðja lagi eigum við í höggi við djöfulinn sjálfan sem er reiðubúinn að gleypa okkur ef við slökum á verðinum. — 1. Pétursbréf 5:8.
6 Ert þú stöðugt á varðbergi gagnvart þessum þrem óvinum? Sökum þeirra ættum við áköf að ‚hlýða ráðum og taka umvöndun til að við verðum vitur eftirleiðis.‘ (Orðskviðirnir 19:20) Meira að segja verðum við að gera eins og Páll postuli, ‚leika líkama okkar hart og gera hann að þræli okkar‘ til að við bíðum ekki lægri hlut að lokum. (1. Korintubréf 9:27) Sú meginregla að við uppskerum ríflega ef við sáum ríflega á við á öllum þeim fjölbreytilegu sviðum sem heilög þjónusta allra kristinna votta Jehóva nær til. Hvert sem litið er sjáum við að þessi meginregla gildir: í einkanámi okkar, samkomusókn, bænum, formlegum og óformlegum vitnisburði og sambandi innan fjölskyldunnar.
Ríflega sáð í biblíunámi
7, 8. (a) Hvað þurfum við að hafa til að sá ríflega í einkanámi okkar í Biblíunni? (b) Hvaða markmið ættum við að setja okkur og hvernig getum við náð þeim?
7 Til að vera þjónar Jehóva Guðs, sem bera ávöxt, þurfum við fyrst að sá ríflega að því er varðar einkabiblíunám. Við ættum að hafa góða andlega matarlyst, að gera okkur grein fyrir að við lifum ekki á efnislegum hlutum einum saman. Vegna alls þess álags, sem er daglegu lífi samfara, þarf markvissa viðleitni til að bera gott skynbragð á andlega þörf sína. (Matteus 13:19) Það væri gott fyrir okkur hvert og eitt að meta orð Guðs jafnmikils og sálmaritarinn sem sagði: „Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.“ — Sálmur 119:162.
8 Örugg hjálp til að hlýða þessu ráði er að ‚hafa nákvæma gát á hvernig við breytum, ekki sem fávísir heldur sem vísir og nota hverja stund.‘ (Efesusbréfið 5:15, 16) Þú gætir jafnvel þurft að prófa sjálfan þig í þessu efni. Spyrðu: Haga ég málum mínum þannig að ég hafi tíma til að lesa hvert tölublað Varðturnsins og Vaknið! þegar það berst mér? Hvað um Árbókina og hinar mörgu bækur og rit sem við fáum á mótunum? Ekki er víst að allir geti sett til hliðar eina eða tvær stundir í senn til að lesa þær, en með því að halda vöku okkar getum við örugglega af og til sett til hliðar fáeinar mínútur til að lesa kafla í Biblíunni eða grein í tímariti. Fjöldi kristinna manna fer á fætur tíu til fimmtán mínútum fyrr á morgnana en annars þyrfti til að geta lesið þegar hugurinn starfar best. Aðrir komast yfir töluvert lestrarefni þegar þeir ferðast með almennum samgöngutækjum. Hvað um þig?
9. Hvernig getum við uppskorið ríflega í einkanámi okkar í Biblíunni?
9 Með því að sá ríflega á þessa vegu getum við líka vonast til að uppskera ríflega. Hvernig? Á þann hátt að við höfum sterkari trú, bjartari von, og jákvætt, hamingjuríkt hugarfar. Auk þess verðum við betur í stakk búin til að bera vitni fyrir öðrum. Við munum getað stuðlað að uppbyggilegum samræðum og hjálpað bræðrum okkar eftir því sem tækifæri bjóðast. Veittu því athygli í 1. Tímóteusarbréfi 4:15, 16 hvaða árangri það getur skilað.
Ríflega sáð í samkomusókn
10. Hvert ætti að vera viðhorf okkar til samkomanna?
10 Þú spyrð kannski: Á þessi meginregla um að uppskera ríflega ef við sáum ríflega líka við um safnaðarsamkomur? Svo sannarlega! Okkur ætti að vera innanbrjósts eins og sálmaritaranum Davíð sem sagði: „Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: ‚Göngum í hús [Jehóva].‘ “ Já, við ættum að finna fyrir löngun til að koma saman með bræðrum okkar. — Sálmur 122:1.
11, 12. Hvernig getum við sáð og uppskorið ríflega með því að sækja samkomur?
11 Hvað útheimtir það af okkur? Það felur í sér að sækja reglulega og trúfastlega hinar fimm vikulegu samkomur og láta ekki ögn hryssingslegt veður eða smávægilega vanlíðan vera afsökun fyrir því að sitja heima. Hve oft látum við veðrið — heitt eða kalt, vott eða þurrt — trufla samkomusókn? Því meiri hindranir, sem við þurfum að yfirstíga til að sækja samkomu, þeim mun ríkulegri blessun virðist Jehóva veita okkur. Við getum líka sáð ríflega með því að mæta snemma til að eiga uppbyggjandi samræður hvert við annað áður en samkomurnar hefjast, og tefja örlítið eftir samkomurnar í sama tilgangi. Hvernig stendur þú þig í því efni? Ættir þú að reyna að sá ríflegar? Góður undirbúningur fyrir námið með hjálp Varðturnsins og fyrir aðrar samkomur er líka við hæfi. Það stafar af því að við getum sáð ríflega með því að gefa athugasemdir eftir því sem tækifæri leyfa.
12 Á hvaða vegu getum við vonast til að þetta veiti okkur ríflega uppskeru? Við getum ekki gefið hvetjandi athugasemd án þess að finna sjálf til hvatningar; við getum ekki uppörvað þá sem eru niðurdregnir án þess að finna sjálf til uppörvunar. Við getum ekki heldur gefið athugasemd á samkomum án þess að styrkja trú okkar á þau sannindi sem við mælum fram. Málið er einfalt: „Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.“ — Orðskviðirnir 11:25.
Ríflega sáð í bænum okkar
13, 14. Hvernig getum við (a) sáð ríflega, (b) uppskorið ríflega í bænum okkar?
13 Meginregla Biblíunnar um að sá ríflega á líka við um einkabænir okkar. Eru bænir okkar yfirborðslegar, vélrænar, staglsamar eða koma þær í raun frá hjartanu? Gerum við meira en aðeins að biðja Guð um eitthvað? Eru bænir okkar líka lof- og þakkargjörð, og stundum jafnvel áköll? Tökum við í raun alvarlega þau dýrmætu sérréttindi sem bænin er? Úthellum við hjörtum okkar fyrir himneskum föður okkar? Förum við kannski með bænir okkar í fljótheitum og erum stundum jafnvel of upptekin til að biðja? Kristnu Grísku ritningarnar sýna að bæn gegndi þýðingarmiklu hluterki í lífi Jesú Krists og Páls postula. — Lúkas 6:12, 13; Jóhannes 17:1-26; Matteus 26:36-44; Filippíbréfið 1:9-11; Kólossubréfið 1:9-12.
14 Í sama mæli og við sáum ríflega með bænum okkar getum við vænst þess að uppskera ríflega með því að Jehóva svari þeim og að við njótum góðs sambands við hann. Sameiginleg bænargerð fjölskyldunnar eflir náin tengsl annarra í fjölskyldunni við þann sem fer með bænina. Við skulum líka hafa í huga orð Jesú í Matteusi 7:7: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.“
Ríflega sáð í þjónustu okkar
15. Sérstaklega á hvaða sviði er hægt að sá og uppskera ríflega?
15 Líklega birtist meginreglan um að sá og uppskera hvergi betur en í vitnisburði okkar. Augljóst er að því meiri tíma sem við getum helgað þjónustunni, þeim mun líklegra er að við uppskerum í mynd áhugaverðra atvika, endurheimsókna sem skila árangri og biblíunáms sem verður til þess að við eignumst lifandi meðmælabréf. — 2. Korintubréf 3:2.
16, 17. (a) Hvers krefst það af okkur að sá ríflega í þjónustunni á akrinum? (b) Hvaða árangurs getum við vænst af því?
16 Að sá ríflega í þjónustunni á akrinum felst þó ekki aðeins í magni heldur líka gæðum. Við viljum vera „brennandi í andanum“ þegar við tökum þátt í þjónustunni. (Rómverjabréfið 12:11) Við ættum að taka fólk tali með djörfung, með hlýlegu, vingjarnlegu brosi. Það á við hvort heldur við erum að fara hús úr húsi eða störfum á götum úti. Sé hið nýja hjálpargagn Rökrætt út af Ritningunni til á okkar tungu ætti það að hjálpa okkur öllum að ná betri árangri og þar með einnig betri ávexti og uppskeru af þeim tíma og kröftum sem við verjum til þjónustunnar.
17 Það að sá ríflega í þjónustu okkar á akrinum felur líka í sér að skrá samviskusamlega hjá sér þá staði þar sem áhuga verður vart. Nátengt því er það að axla þá ábyrgð að heimsækja þá aftur sem áhuga sýna og rækta þann áhuga að því marki að hægt sé að hefja biblíunám ef mögulegt er. Auk þess verðum við að gæta þess að byggja úr eldtraustum efnum. Það merkir að kenna af sannfæringu en um leið með samúðarskilningi og góðri dómgreind, að draga með lagni fram hvernig biblíunemandinn hugsar um meginreglur Biblíunnar. Aðeins með því að sá ríflega að þessu leyti getum við vænst að til verði kristinn persónuleiki sem getur staðist árásir Satans og heimskerfis hans. — 1. Korintubréf 3:12-15.
Ríflega sáð innan fjölskyldunnar
18. Hvaða ráð ættum við að hafa í huga varðandi fjölskyldu okkar?
18 Sú meginregla að við uppskerum eftir því sem við sáum á líka við innan vébanda fjölskyldunnar. Hér getum við haft í huga orð Jesú í Lúkasi 6:38: „Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“
19. Hvernig geta hjón sáð ríflega og uppskorið í samræmi við það?
19 Hjón hafa ótal tækifæri til að sá ríflega með ástúðlegum verkum, hugulsemi og óeigingirni! Páll postuli gefur góð ráð um það í Efesusbréfinu 5:22-33. Lestu þessi vers og hugleiddu hvernig þú getir sáð enn ríflegar. Í sama mæli og kristin eiginkona er í raun undirgefin, samstarfsfús og styður mann sinn, þannig mun hún líka uppskera ríflega. Í hvaða mynd? Í mynd ástúðar og tilfinninga eiginmanns síns með því að hann finnur hjá sér löngun til að elska hana eins og eigin líkama. Á sama hátt getur kristinn eiginmaður vonast til að uppskera undirgefni og dyggan stuðning konu sinnar í sama mæli og hann leggur sig fram um að sýna henni þá tillitssemi sem hvatt er til í 1. Pétursbréfi 3:7 og þann óeigingjarna kærleika sem undirstrikaður er í Efesusbréfinu 5:28, 29.
20. Hvernig má sá ríflega í sambandi við uppeldi barnanna og með hvaða árangri?
20 Okkur má ekki heldur yfirsjást sú ábyrgð að ala börnin okkar upp í aga og umvöndun Jehóva. (Efesusbréfið 6:4) Reyndar gengur það fyrir öðrum guðræðislegum skyldum og sérréttindum. Því miður láta sumir kristnir foreldrar sér yfirsjást þessa meginreglu. Í annan stað verða foreldrar að vera fúsir til að fórna eigin skemmtun og þægindum vegna tilfinningalegrar og andlegrar velferðar barna sinna, að verja nógum tíma með þeim og ausa yfir þau kærleika. Í hinn stað verða foreldrar að sýna festu. Þeim er ráðlagt: „Aga þú son þinn, þá mun hann láta þig hafa ró og veita unað sálu þinni.“ Sé sáð með þessum hætti munt þú að öllum líkindum uppskera ríflega með því að eiga trúföst börn sem virða þig og eru bundin þér nánum böndum. — Orðskviðirnir 29:17.
Tryggðu að þú uppskerir vel!
21, 22. Á hvaða ýmsa vegu getum við sáð og uppskorið ríflega í sambandi við helga þjónustu okkar og fjölskyldu?
21 Við sjáum því að sú meginregla að við uppskerum í sama mæli og við sáum á við á öllum sviðum kristninnar. Ef við sáum ríflega varðandi einkanám í Biblíunni uppskerum við sterka trú, bjarta von og erum búin undir þjónustuna á akrinum. Ef við sáum ríflega varðandi samkomur okkar mun trú okkar styrkjast og við geta styrkt trú annarra. Ef við sáum ríflega í bænum okkar uppskerum við gott samband við himneskan föður okkar og fáum bænum okkar svarað. Og ef við sáum ríflega í vitnisburði okkar munum við hafa persónulegt gagn af og getum vonast eftir meðmælabréfum um erfiði okkar.
22 Gleymum heldur aldrei að þessi meginregla á við innan vébanda fjölskyldunnar. Með því að sá ríflega í mynd ástar, tillitssemi og óeigingirni getum við sem eiginmenn, eiginkonur, foreldrar og börn vænst þess að uppskera fjölskyldulíf sem veitir okkur gleði og hamingju. Það mun líka vera góður vitnisburður þeim sem standa fyrir utan, meðmæli með þeim lífsháttum sem við höfum valið.
23. Hvaða ráði ættum við að hlýða?
23 Sérhver kristinn vottur Jehóva ætti því að spyrja sig: Hvernig get ég sáð enn ríflegar? Orð Páls í 1. Þessaloníkubréfi 4:1 eiga hér við: „Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.“ Já, við skulum öll reyna að sá enn ríflegar til að við getum uppskorið ríflegar, til heiðurs Jehóva Guði og til blessunar bæði sjálfum okkur og bræðrum okkar.
Til upprifjunar
◻ Hvernig er Jehóva Guð dæmi um þann sannleika sem stendur í 2. Korintubréfi 9:6?
◻ Hvað getur þú gert til að uppskera ríflegar í sambandi við biblíunám og kristnar samkomur?
◻ Hvernig getur þú sáð og uppskorið ríflegar í þjónustunni á akrinum?
◻ Hvaða skref gætu hjálpað fjölskyldu þinni til að sá og uppskera ríflegar?