„Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni“
Meginatriði 2. Korintubréfs
PÁLL postuli hafði áhyggjur af kristnum mönnum í Korintu. Hvernig myndu þeir taka þeim heilræðum sem hann gaf þeim í fyrra bréfi sínu? Hann var staddur í Makedóníu er Títus kom með þær góðu fréttir að bréfið hefði hryggt Korintumenn til iðrunar. Það gladdi Pál mikið! — 2. Korintubréf 7:8-13.
Páll skrifaði 2. Korintubréf í Makedóníu, sennilega á síðari hluta ársins 55. Í bréfi þessu ræðir hann um skref til að halda söfnuðinum hreinum, hvatti til samskota handa þurfandi trúbræðrum í Júdeu og varði postuladóm sinn. Margt af því sem Páll sagði getur hjálpað okkur að ‚reyna hvort við erum í trúnni.‘ (13:5) Hvaða gullkorn getum við fundið í þessu bréfi?
Þjónn Guðs huggunarinnar
Postulinn benti á að við ættum að hughreysta aðra og biðja fyrir þeim líkt og Guð hughreystir okkur í öllum þrengingum okkar. (1:1-2:11) Þótt Páll og félagar hans hefðu verið undir gífurlegu álagi bjargaði Guð þeim. Korintumenn gátu þó hjálpað með því að biðja fyrir þeim, líkt og við ættum að biðja fyrir öðrum sem tileinka sér sanna trú. En hvað um siðlausa manninn sem nefndur er í 1. Korintubréfi 5. kafla? Ljóst er að hann hafi verið gerður rækur en hafði iðrast. Það hlýtur að hafa verið honum mikil hughreysting er Korintumenn fyrirgáfu honum og tóku hann inn í söfnuðinn á nýjan leik.
Orð Páls geta hjálpað okkur að meta hina kristnu þjónustu betur og styrkja afstöðu okkar til sannrar trúar. (2:12-6:10) Þjónar nýja sáttmálans fá þau sérréttindi að vera í „óslitinni sigurför“ með Guð í fararbroddi! Páll og samverkamenn hans höfðu, vegna þeirrar miskunnar sem þeim var sýnd, metið þjónustuna sem fjársjóð. Smurðir þjónar Guðs nú á tímum hafa með höndum þjónustu sáttargjörðarinnar líkt og þeir. Allir vottar Jehóva ættu þó að auðga aðra með þjónustu sinni.
Fullkominn heilagleiki og örlæti
Páll sýnir okkur fram á að kristnir þjónar orðsins verði að fullkomna heilagleika sinn í ótta Jehóva. (6:11-7:16) Ef við eigum að vera staðföst í trúnni verðum við að forðast það að bindast vantrúuðum og við þurfum að láta hreinsast af holdlegri og andlegri saurgun. Korintumenn gripu til hreinsunaraðgerða með því að gera siðlausan syndara rækan og Páll gladdist yfir því að fyrra bréf hans skyldi hafa hryggt þá þannig að þeir iðruðust til hjálpræðis.
Við lærum líka að guðhræddir þjónar orðsins hljóta umbun örlætis síns. (8:1-9:15) Varðandi samskotin til ‚hinna heilögu‘ sem þurfandi voru, vísaði Páll til hins góða fordæmis Makedóníumanna. Þeir höfðu sýnt örlæti um megn fram og hann vonaðist til að sjá sams konar örlæti hjá Korintumönnum. Gjafir þeirra — og okkar — áttu að vera frá hjartanu því að „Guð elskar glaðan gjafara“ og auðgar þjóna sína til hvers kyns örlætis.
Páll — umhyggjusamur postuli
Er við áorkum einhverju í þjónustu Jehóva skulum við hrósa okkur af honum, ekki sjálfum okkur. (10:1-12:13) Þegar allt kemur til alls er það aðeins með ‚máttugum vopnum Guðs‘ sem við getum brotið niður falskar röksemdir. Hinir stærilátu, ‚stórmiklu postular‘ meðal Korintumanna gátu aldrei orðið jafnokar Páls í þolgæði sem þjónn Krists. En til að hann hrokaðist ekki upp tók Guð ekki frá honum ‚flein holdsins‘ — sem ef til vill var léleg sjón eða þessir falspostular. Páll vildi hvort eð er helst hrósa sér af veikleika sínum þannig að „kraftur Krists“ gæti verið honum skjól líkt og tjald. Hann var staðfastur í trúnni og hafði ekki reynst standa hinum stórmiklu postulum neitt að baki. Korintumenn höfðu séð sannanir fyrir postuladómi Páls í ‚þrautseigju hans, táknum, undrum og kraftaverkum.‘
Sem þjónn orðsins og postuli bar Páll andlegan hag trúbræðra sinna fyrir brjósti. Hið sama ættum við að gera. (12:14-13:14) Hann vildi fúslega ‚leggja sjálfan sig í sölurnar fyrir sálir þeirra.‘ En Páll óttaðist að hann myndi, er hann kæmi til Korintu, komast að raun um að ekki hefðu allir iðrast verka holdsins. Því ráðlagði hann öllum að reyna hvort þeir væru í trúnni og bað þess að þeir ‚gerðu ekki neitt illt.‘ Að lokum hvatti hann þá til að gleðjast og fagna, vera samhuga, samstilltir og lifa í friði. Þetta eru góð ráð til okkar líka!
Höldum áfram að reyna okkur!
Síðara bréf Páls til kristinna manna í Korintu bendir þannig á fjölmargar leiðir til að halda áfram að reyna hvort við erum í trúnni. Orð hans ættu vissulega að hvetja okkur til að hughreysta aðra líkt og Guð hughreystir okkur í öllum þrengingum okkar. Það sem Páll sagði um hina kristnu þjónustu ætti að koma okkur til að inna hana af hendi í trúfesti um leið og við fullkomnum heilagleika okkar í ótta Jehóva.
Heilræði Páls geta hjálpað okkur að sýna meira örlæti og hjálpsemi. Þó ættu þau að hvetja okkur til að hrósa okkur í Jehóva, ekki sjálfum okkur. Þau ættu að auka umhyggju okkar og ást til trúbræðra okkar. Og vissulega geta þessi heilræði og önnur atriði úr 2. Korintubréfi hjálpað okkur að ‚reyna hvort við erum í trúnni.‘
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 20]
ENDURSPEGLUM DÝRÐ JEHÓVA: Er Móse kom niður af Sínaífjalli með sáttmálstöflurnar stafaði geislum af andliti hans vegna þess að Guð hafði talað við hann. (2. Mósebók 34:29, 30) Páll lét þess getið og sagði: „Allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð [Jehóva], ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi [Jehóva].“ (2. Korintubréf 3:7-18) Handspeglar til forna voru gerðir úr málmum svo sem bronsi eða eiri og gljáfægðir til að þeir gæfu góða spegilmynd. Kristnir menn endurspegla dýrð Guðs sem skín á þá frá Jesú Kristi og ‚ummyndast markvisst til þeirrar myndar‘ sem dýrlegur sonur Jehóva sýnir þeim. (2. Korintubréf 4:6; Efesusbréfið 5:1) Fyrir tilstilli heilags anda og Ritningarinnar skapar Guð í þeim ‚nýjan persónuleika,‘ spegilmynd sinna eigin eiginleika. (Efesusbréfið 4:24; Kólossubréfið 3:10) Hvort sem von okkar er himnesk eða jarðnesk skulum við sýna þann persónuleika og meta mikils þau sérréttindi að endurspegla dýrð Guðs í þjónustu okkar.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 21]
‚VOPN RÉTTLÆTISINS‘: Ein leið Páls og félaga hans til að mæla með sjálfum sér sem þjónum Guðs var sú að beita „vopnum réttlætisins til sóknar og varnar.“ (2. Korintubréf 6:3-7) Hægri hönd var notuð til að bregða sverði og sú vinstri til að halda skildinum. Þótt ráðist væri að Páli og félögum hans frá öllum hliðum voru þeir vopnaðir til að heyja andlegan hernað. Sá hernaður var háður gegn falskennurum og ‚stórmiklum postulum‘ þannig að söfnuðurinn í Korintu yrði ekki leiddur burt frá hollustu við Krist. Páll greip ekki til vopna hins synduga holds — undirferli, svika eða pretta. (2. Korintubréf 10:8-10; 11:3, 12-14; 12:11, 16) Þess í stað voru „vopnin,“ sem hann notaði, réttlát verkfæri til að efla málstað sannrar guðsdýrkunar gegn öllum árásum. Vottar Jehóva nota núna slík ‚vopn réttlætisins‘ í sama tilgangi.