Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.10. bls. 26-31
  • Hughreysting frá ‚Guði allrar huggunar‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hughreysting frá ‚Guði allrar huggunar‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Jehóva — Guð huggunar
  • Jesús og Páll — meðaumkunarsamir huggarar
  • Að hugga sorgmædda
  • Það sem forðast ber
  • Ritningargreinar sem hugga
  • „Grátið með grátendum“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Huggaðu raunamædda
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Huggum þá sem hryggir eru
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Hvernig veitir Guð huggun?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2016
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.10. bls. 26-31

Hughreysting frá ‚Guði allrar huggunar‘

„Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri.“ — 2. KORINTUBRÉF 1:3, 4.

1, 2. Hvers konar huggunar þarfnast syrgjendur?

SYRGJENDUR þarfnast ósvikinnar huggunar og hughreystingar — ekki innantómra orða. Við höfum heyrt að ‚tíminn lækni öll sár‘ en hvaða huggun er það fyrir harmi lostinn mann fyrst eftir að hann hefur misst ástvin? Kristnir menn vita að Guð hefur heitið upprisu en það kemur ekki í veg fyrir áfallið og sársaukann samfara skyndilegum missi. Og missi maður barn koma önnur eftirlifandi börn ekki í stað þess sem dáið er.

2 Þegar við missum ástvin er okkur mest hjálp í ósvikinni huggun, hughreystingu sem er traustlega byggð á fyrirheitum Guðs. Við þörfnumst líka samúðarskilnings. Það hafa Rúandamenn fengið að reyna, ekki síst þau hundruð fjölskyldna votta Jehóva þar í landi sem misstu ástvini í hinum djöfullegu þjóðernisdrápum sem áttu sér stað þar. Hjá hverjum geta allir syrgjendur leitað huggunar?

Jehóva — Guð huggunar

3. Hvernig hefur Jehóva gefið fordæmið í því að hugga og hughreysta?

3 Jehóva hefur gefið fordæmið í því að veita okkur öllum huggun. Hann sendi eingetinn son sinn, Krist Jesú, til jarðar til að veita okkur varanlega huggun og von. Jesús kenndi: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Hann sagði fylgjendum sínum líka: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:13) Við annað tækifæri sagði hann: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Og Páll sagði: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rómverjabréfið 5:8) Þessar ritningargreinar og margar aðrar hjálpa okkur að skilja kærleika Guðs og Krists Jesú.

4. Af hverju stóð Páll postuli í sérstakri þakkarskuld við Jehóva?

4 Páll postuli gerði sér mjög ljósa grein fyrir óverðskuldaðri góðvild Jehóva. Hann hafði verið frelsaður úr andlegu dauðadái. Hann hafði ofsótt fylgjendur Krists grimmilega en var nú sjálfur ofsóttur kristinn maður. (Efesusbréfið 2:1-5) Hann lýsti reynslu sinni svo: „Ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli, með því að ég ofsótti söfnuð Guðs. En af Guðs náð er ég það sem ég er, og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis, heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég, heldur náð Guðs, sem með mér er.“ — 1. Korintubréf 15:9, 10.

5. Hvað skrifaði Páll um huggun frá Guði?

5 Það var því viðeigandi að Páll skyldi skrifa: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið. Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist. En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum. Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.“ — 2. Korintubréf 1:3-7.

6. Hvað er fólgið í gríska orðinu sem þýtt er „huggun“?

6 Þetta eru hvetjandi orð! Gríska orðið, sem hér er þýtt „huggun,“ er tengt því að „kalla mann að hlið sér.“ Það merkir því að „standa við hlið manns til að uppörva hann þegar hann á í mjög erfiðum raunum.“ (A Linguistic Key to the Greek New Testament) Biblíufræðingur skrifaði: „Orðið . . . merkir alltaf miklu meira en sefandi samúð. . . . Kristin huggun er sú huggun sem veitir hugrekki, sú huggun sem gerir mann færan um að takast á við allt sem lífið getur gert honum.“ Það felur líka í sér hughreystingarorð byggð á traustu fyrirheiti og von — voninni um upprisu dauðra.

Jesús og Páll — meðaumkunarsamir huggarar

7. Hvernig huggaði Páll kristna bræður sína?

7 Páll gaf vissulega gott fordæmi sem huggari og hughreystari! Hann gat skrifað bræðrunum í Þessaloníku: „Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir. Þér vitið, hvernig vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín.“ Eins og ástríkir, umhyggjusamir foreldrar getum við öll deilt hlýju okkar og skilningi með öðrum þegar þeir þarfnast þess. — 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8, 11.

8. Af hverju er kennsla Jesú huggandi fyrir syrgjendur?

8 Með umhyggju sinni og góðvild var Páll einungis að líkja eftir sinni miklu fyrirmynd, Jesú. Mundu eftir hinu hlýlega boði Jesú til allra, sem greint er frá í Matteusi 11:28-30: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Já, kennsla Jesú er ljúf og hressandi af því að hún felur í sér von og fyrirheit — fyrirheitið um upprisuna. Það er vonin og fyrirheitið sem við erum að bjóða fólki, til dæmis þegar við skiljum bæklinginn Þegar ástvinur deyr eftir hjá því. Þessi von getur hjálpað okkur öllum, jafnvel þótt við höfum syrgt lengi.

Að hugga sorgmædda

9. Af hverju ættum við ekki að vera óþolinmóð við syrgjendur?

9 Sorg takmarkast ekki við afmarkað tímabil strax eftir ástvinamissinn. Sumir bera sorgarbyrði sína alla ævi, einkum þeir sem misst hafa börn. Trúföst kristin hjón á Spáni misstu 11 ára son sinn árið 1963 af völdum heilahimnubólgu. Enn þann dag í dag tárfella þau er þau tala um Paquito. Brúðkaups- eða dánarafmæli, myndir og minjagripir geta kallað fram minningar sem gera okkur döpur. Við ættum því aldrei að vera óþolinmóð og hugsa með okkur að fólk ætti nú að vera búið að komast yfir sorgina. Læknarit segir: „Depurð, þunglyndi og skapsveiflur geta staðið í nokkur ár.“ Mundu því að tilfinningaleg ör geta varað ævilangt alveg eins og líkamleg ör.

10. Hvað verðum við að gera til að hjálpa syrgjendum?

10 Hvað er hægt að gera til að hugga syrgjendur í kristna söfnuðinum? Við segjum kannski í fullri einlægni við bróður eða systur sem er huggunarþurfi: „Láttu mig bara vita ef ég get gert eitthvað.“ En hversu oft hringir sá sem misst hefur ástvin til okkar og segir: „Mér datt svolítið í hug sem þú getur gert til að hjálpa mér“? Við þurfum greinilega að taka viðeigandi frumkvæði til að hugga þann sem misst hefur ástvin. Hvernig getum við þá veitt raunhæfa hjálp? Hér fylgja nokkrar tillögur:

11. Hvernig getum við huggað aðra með því að hlusta á þá?

11 Hlustaðu: Eitt það gagnlegasta, sem þú getur gert, er að taka þátt í kvöl syrgjandans með því að hlusta. Þú gætir spurt: „Viltu tala um það?“ Láttu hann ráða því. Kristinn maður sagði um dauða föður síns: „Það hjálpaði mér virkilega þegar aðrir spurðu mig hvað gerst hefði og hlustuðu í raun og veru.“ Eins og Jakob ráðlagði skaltu vera skjótur til að hlusta. (Jakobsbréfið 1:19) Hlustaðu með þolinmæði og samúð. „Grátið með grátendum“ ráðleggur Biblían í Rómverjabréfinu 12:15. Mundu að Jesús grét með Mörtu og Maríu. — Jóhannes 11:35.

12. Hvað getum við fullvissað syrgjendur um?

12 Vertu hughreystandi: Hafðu hugfast að ástvinamissir getur í fyrstu valdið sektarkennd; sú hugmynd getur leitað á að kannski hefði verið hægt að gera meira til að hjálpa. Fullvissaðu syrgjandann um að trúlega hafi verið gert allt sem hægt var (eða hvaðeina annað sem þú veist að er satt og jákvætt). Fullvissaðu hann um að tilfinningar hans séu alls ekki óalgengar. Segðu honum frá öðrum sem þú veist að hafa náð sér eftir áþekkan missi. Með öðrum orðum, vertu næmur og samúðarfullur. Vingjarnleg hjálp okkar er mjög mikils virði! Salómon skrifaði: „Gullepli í skrautlegum silfurskálum — svo eru orð í tíma töluð.“ — Orðskviðirnir 16:24; 25:11; 1. Þessaloníkubréf 5:11, 14.

13. Hvernig getum við hjálpað með því að vera til taks?

13 Vertu til taks: Vertu tiltækur ekki bara nokkra fyrstu dagana þegar margir vinir og ættingjar eru viðstaddir, heldur jafnvel mánuðum seinna ef þörf krefur þegar aðrir hafa snúið sér aftur að dagsins önn. Það er ákaflega einstaklingsbundið hve langur sorgartíminn er. Bróðurlegur áhugi okkar og samúð getur verið óhemjumikils virði hvenær sem þörf er á. Biblían segir að til sé „ástvinur, sem er tryggari en bróðir.“ Við ættum að lifa eftir hinni alkunnu visku að „sá sé vinur sem í raun reynist.“ — Orðskviðirnir 18:24; samanber Postulasöguna 28:15.

14. Hvað getum við talað um til að hugga þá sem misst hafa ástvin?

14 Talaðu um góða eiginleika hins látna: það er önnur verðmæt hjálp sé hún veitt á réttu augnabliki. Segðu frá skemmtilegum atvikum sem þú manst eftir úr lífi hans. Vertu óhræddur að nefna hann með nafni. Hegðaðu þér ekki eins og hinn látni ástvinur hafi aldrei verið til eða hafi engu máli skipt. Það er hughreystandi að vita það sem stendur í riti frá læknadeild Harvardháskóla: „Hinn eftirlifandi hefur náð sér allvel þegar hann getur hugsað um hinn látna án þess að sorgin verði yfirþyrmandi . . . Þegar hann viðurkennir hinn nýja veruleika og lagar sig að honum breytist sorgin í dýrmætar minningar.“ „Dýrmætar minningar“ — hversu hughreystandi er ekki að rifja upp allar þessar dýrmætu stundir sem maður átti með ástvini sínum! Vottur, sem missti föður sinn fyrir nokkrum árum, sagði: „Ég minnist þess sérstaklega að ég las í Biblíunni með pabba skömmu eftir að hann byrjaði að nema sannleikann. Og að við lágum á árbakka og ræddum um sum af vandamálum mínum. Ég sá hann bara þriðja eða fjórða hvert ár þannig að þessar stundir voru mjög dýrmætar.“

15. Hvernig getum við átt frumkvæðið að því að hjálpa?

15 Taktu frumkvæðið þegar það á við: Sumir syrgjendur ráða betur við hlutina en aðrir. Aðstæður ráða því hvenær rétt er að eiga frumkvæðið að því að gera eitthvað til að hjálpa. Kristin kona, sem missti eiginmann sinn, sagði: „Margir sögðu: ‚Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað.‘ En ein kristin systir spurði ekki. Hún fór beint inn í svefnherbergi, tók af rúminu og þvoði óhreinu rúmfötin. Önnur náði sér í fötu, vatn og hreinsiefni og skrúbbaði teppið þar sem maðurinn minn hafði kastað upp. Þetta voru sannir vinir sem ég gleymi aldrei.“ Taktu frumkvæðið þar sem augljóslega er þörf á hjálp — með því kannski að elda mat, aðstoða við ræstingu eða snúast. Við ættum auðvitað að gæta þess að vera ekki uppáþrengjandi þegar syrgjandinn vill vera einn. Við ættum að taka til okkar það sem Páll sagði: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ Góðvild, þolinmæði og kærleikur bregst aldrei. — Kólossubréfið 3:12; 1. Korintubréf 13:4-8.

16. Hvernig getur bréf eða kort verið huggun og hughreysting?

16 Skrifaðu bréf eða sendu hughreystandi kort: Mönnum yfirsést oft hve mikils virði það er að fá fallegt samúðarkort eða bréf. Hverjir eru kostir þess? Það er hægt að lesa það aftur og aftur. Slíkt bréf þarf ekki að vera langt en það ætti að bera vitni um hluttekningu þína og meðaumkun. Það ætti líka að slá á andlega strengi án þess þó að vera í prédikunartón. Ef kjarni bréfsins er sá að við séum tilbúin að styðja syrgjandann er það hughreystandi.

17. Hvernig geta bænir verið til huggunar?

17 Biddu með þeim: Vanmettu ekki gildi þess að biðja fyrir og með kristnum bræðrum sem misst hafa ástvin. Biblían segir í Jakobsbréfinu 5:16: „Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.“ Þegar syrgjendur heyra okkur biðja fyrir þeim hjálpar það þeim að takast á við neikvæðar kenndir svo sem sektarkennd. Þegar við erum niðurbrotin eða veik fyrir reynir Satan að grafa undan trú okkar með ‚vélabrögðum‘ sínum. Það er þá sem við þörfnumst huggunar og stuðnings bænarinnar eins og Páll sagði: „Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.“ — Efesusbréfið 6:11, 18; samanber Jakobsbréfið 5:13-15.

Það sem forðast ber

18, 19. Hvernig getum við sýnt háttvísi í samræðum okkar?

18 Það er líka ýmislegt sem ætti ekki að segja eða gera þegar fólk syrgir ástvin. Orðskviðirnir 12:18 vara við: „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.“ Stundum, án þess að gera okkur grein fyrir því, erum við ekki háttvís. Við gætum til dæmis sagt: „Ég veit hvernig þér líður.“ En veistu það í raun og veru? Hefur þú orðið fyrir nákvæmlega sama missi? Og viðbrögð fólks eru líka misjöfn. Þú brást kannski öðruvísi við en annar syrgjandi. Það gæti verið nær lagi að segja: „Ég finn virkilega til með þér vegna þess að ég varð fyrir sams konar missi þegar . . . dó fyrir nokkru.“

19 Það bæri líka vott um næma tillitssemi að láta ógert að minnast á hvort hinn látni fái upprisu eða ekki. Neikvæðar og vanhugsaðar athugasemdir um framtíðarmöguleika látins maka, sem ekki var í trúnni, hafa stundum sært bræður og systur mjög. Við erum ekki þess umkomin að dæma um hverjir fái upprisu og hverjir ekki. Við megum vera þakklát fyrir að Jehóva, sem sér hjartað, er miklu miskunnsamari en flest okkar myndu nokkurn tíma vera. — Sálmur 86:15; Lúkas 6:35-37.

Ritningargreinar sem hugga

20, 21. Nefndu ritningargreinar sem geta hughreyst syrgjendur.

20 Einhver mesta hjálpin — sé hún veitt á réttum tíma — er sú að íhuga það sem Jehóva hefur heitið að gera fyrir hina dánu. Orð Biblíunnar eru mjög gagnleg hvort sem syrgjandinn er vottur eða einhver sem við hittum í boðunarstarfinu. Hvaða ritningarstaði er hægt að nota? Við vitum að Jehóva er Guð allrar huggunar því að hann sagði: „Ég, ég er sá sem huggar yður.“ Hann sagði einnig: „Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður.“ — Jesaja 51:12; 66:13.

21 Sálmaritarinn skrifaði: „Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda. Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, [Jehóva], og læt huggast. Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.“ Taktu eftir að orðin „huggun“ og „huggast“ eru notuð ítrekað í þessum ritningargreinum. Já, bæði við og aðrir geta hlotið ósvikna huggun með því að leita til orðs Jehóva á raunastund. Það, ásamt kærleika og meðaumkunarsemi bræðranna, getur hjálpað okkur að þrauka og fylla líf okkar aftur gleðilegu starfi í hinni kristnu þjónustu. — Sálmur 119:50, 52, 76.

22. Hvaða framtíðarhorfur höfum við?

22 Við getum líka yfirunnið sorgina að nokkru leyti með því að vera upptekin af að hjálpa öðrum sem eru í nauðum. Þegar við beinum athyglinni að öðrum, sem eru huggunarþurfi, uppskerum við líka þá sönnu hamingju sem fylgir því að gefa andlegar gjafir. (Postulasagan 20:35) Við skulum gleðjast með þeim í upprisuvoninni og hugsa til þess dags er ein kynslóðin af annarri, fólk af öllum fyrrverandi þjóðum, tekur á móti látnum ástvinum sínum upprisnum í nýjum heimi. Hvílík framtíðarvon! Þá munu mörg gleðitár falla því að við vitum að Jehóva „huggar hina beygðu“ svo sannarlega! — 2. Korintubréf 7:6.

Manstu?

◻ Hvernig er Jehóva „Guð allrar huggunar“?

◻ Hvernig hugguðu Jesús og Páll syrgjendur?

◻ Nefndu sumt sem við getum gert til að hugga syrgjendur.

◻ Hvað ættum við að forðast í samskiptum við þá sem hafa orðið fyrir ástvinamissi?

◻ Hvaða ritningarstaði notarðu helst til að hugga þá sem hafa misst ástvin?

[Mynd á blaðsíðu 30]

Eigðu frumkvæðið að því að hjálpa þeim sem syrgja en vertu háttvís.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila