Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.10. bls. 23-27
  • Hafðu megnan viðbjóð á svívirðilegu hátterni heimsins

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hafðu megnan viðbjóð á svívirðilegu hátterni heimsins
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Líttu ekki um öxl
  • Illskan er mikil á „síðustu dögum“
  • Láttu ekki röksemdir heimsins festa þig í snöru
  • Við uppskerum það sem við sáum
  • Hve ólíkur ert þú heiminum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Baráttan að gera það sem rétt er
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.10. bls. 23-27

Hafðu megnan viðbjóð á svívirðilegu hátterni heimsins

„Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:4.

1. Hvernig lýsir Biblían fyrrverandi breytni margra sem tekið höfðu kristna trú?

„SPILLINGARDÍKI.“ Þannig lýsti Pétur postuli hinu svívirðilega ástandi margra á fyrstu öld áður en þeir gerðust kristnir. Aðrar biblíuþýðingar tala um það sem „siðspillingarfen,“ (The New American Bible) eða „ólifnaðarbæli“ (The New Testament eftir Kleist og Lilly). Hvert var þetta spillingardíki? Postulinn nefnir sérstaklega saurlifnað, girndir, ofdrykkju, óhóf, samdrykkjur og svívirðilega skurðgoðadýrkun. — 1. Pétursbréf 4:3, 4.

2. Hvers vegna eiga kristnir nútímamenn hrós skilið?

2 Það er mikill munur á þessum heimi og hinum sannkristna söfnuði! Pétur postuli hrósaði hlýlega þeim kristnu mönnum, sem hann skrifaði, fyrir að hlaupa ekki með sínum fyrri, veraldlegu félögum í gegnum þetta fen eða díki illskunnar. Það er okkur mikið gleðiefni að hrósa kristnum nútímamönnum með sama hætti þegar ástandið er enn verra en það var á fyrstu öld. Vottar Jehóva leggja sig kostgæfilega fram um að iðka þá hreinu og flekklausu guðsdýrkun sem Guð okkar og faðir hefur velþóknun á, en hún felur meðal annars í sér að „varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ (Jakobsbréfið 1:27) Hið háleita siðferði þeirra er nafni Jehóva til mikils heiðurs.

3. Hvað var Páli hryggðarefni og hvað er okkur einnig hryggðarefni?

3 Til að viðhalda sínum háa staðli sem hreint skipulag verða þjónar Guðs þó stundum að áminna eða jafnvel gera ræka þá tiltölulega fáu sem leyfa sér að lokkast út í hinar siðspilltu athafnir þessa heims. Það er vissulega hryggilegt og okkur er innanbrjósts eins og Páli postula þegar hann sá eitthvað svipað gerast á fyrstu öld. Hann skrifaði: „Margir breyta — ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi — , eins og óvinir kross Krists. Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi af skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum.“ (Filippíbréfið 3:18, 19) Hvernig getum við sem einstaklingar forðast að slíkt hendi okkur? Með því að læra að líkja eftir Jesú í því að elska hinn háleita réttlætisstaðal Jehóva og með því að hata óhreinleika þessa heims. — Hebreabréfið 1:9.

Líttu ekki um öxl

4. (a) Hvers vegna er möguleiki á að við látum tælast til að snúa aftur til spilltra athafna þessa heims? (b) Hvað hjálpar okkur að koma í veg fyrir að röng löngun vaxi með okkur?

4 Gættu þess að vanmeta aldrei mátt syndarinnar. Það er margt í þessum heimi sem er lokkandi og aðdráttarafl þess er sterkt; djöfullinn er slóttugur og illskeyttur og mannshjartað svikult. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17; 1. Pétursbréf 5:8; Jeremía 17:9) Þegar hjartað verður staðráðið í löngun sinni í eitthvað hlustar það oft ekki á röksemdir. Þess vegna fáum við svo margar áminningar í orði Guðs til að hjálpa okkur að halda hjörtunum heilum gagnvart Jehóva og því að gera vilja hans. Það er afar þýðingarmikið að láta ekki ranga löngun einu sinni byrja að byggjast upp í hjörtum okkar. (Jakobsbréfið 1:14, 15; Matteus 5:27-30) Við verðum að halda áfram að efla hjörtu okkar með rökum fyrir því hvers vegna við ættum að elska það sem er rétt og hafa megnan viðbjóð á og hafna saurugum vegum þessa heims. Páll postuli dró það saman með þessum orðum: „Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.“ — Rómverjabréfið 12:9.

5. Hvers vegna er hyggilegt að grandskoða áhugahvatir okkar og langanir?

5 Í ljósi þeirrar hættu að víkja út af kristinni lífsbraut er hyggilegt af sérhverju okkar að skoða stöðuglega áhugahvatir okkar, langanir og markmið. Ert þú sjálfur líkur þeim kristnu mönnum sem Pétur gat hrósað fyrir að snúa ekki aftur út í þetta sama „spillingardíki“? Lætur þú stundum í ljós sömu viðhorf og kona Lots sem horfði löngunaraugum um öxl á það sem hún hafði verið frelsuð frá? — 1. Mósebók 19:26; Lúkas 17:31-33.

Illskan er mikil á „síðustu dögum“

6, 7. (a) Hvaða viðhorf til skemmtanalífs segir Biblían munu einkenna ‚síðustu daga‘? (b) Hvernig flaggar fólkið í heiminum óhreinni hugsun sinni og hátterni?

6 Hugleiddu stundarkorn hvernig sá heimur er sem við búum í nú við lok 20. aldarinnar. Illska hans á öllum sviðum er yfirþyrmandi! Eins og Páll postuli sagði fyrir ‚elska menn og konur munaðarlífið meira en Guð.‘ Svo sannarlega ‚magnast vondir menn og svikarar í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 4, 13.

7 Hjúskaparbrot, saurlifnaður, kynvilla karla og kvenna og fóstureyðingar — þessi málefni ber oft á góma í þjóðfélagi nútímans. Oft er talað opinskátt og með velþóknun um slíka hluti í útvarpi og sjónvarpi og innan áhugamannahópa um trúmál, kennslu- og uppeldismál. Klámiðnaðurinn er stór í sniðum og klámfengið efni aðgengilegt fyrir alla. Sumar vinsælustu kvikmyndirnar, leikhúsverkin og sápuóperurnar í sjónvarpinu eru á einn eða annan hátt spunnar í kringum siðleysi af einhverju tagi. Sannarlega erum við þakklát að tilheyra ekki þessu! En við þurfum að heyja harða baráttu til að tryggja að slíkur lævís áróður hafi ekki áhrif á hjörtu okkar!

8. Hvað segir Biblían að við ættum að gera og hvað ekki gagnvart siðlausum athöfnum þessa heims?

8 Hyggilegt er af kristnum mönnum að fara eftir aðvörun Páls: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. . . . Metið rétt, hvað Drottni þóknast . . . Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.“ Páll sagði að við ættum þess í stað að hugsa um það sem er satt, rétt, hreint, elskuvert og göfugt. — Efesusbréfið 5:3-16; Filippíbréfið 4:8.

9. Hvað getur hæglega gerst ef við veljum okkur vafasama skemmtun?

9 Gætir þú þess vandlega að hafa þessi heilbrigðu ráð í huga þegar þú velur þér skemmtun? Mundu að því meira sem við hlustum á það sem spillt er, þeim mun aðgengilegri fara okkur að finnast lífshættir heimsins, reyndar alls ekkert svo slæmir. Við gætum jafnvel í laumi byrjað að dást að eða líkja eftir þeim sem ber á í íþróttum eða skemmtanaiðnaðinum og stunda slíkt. Vertu á verði gagnvart sérhverri slíkri tilhneigingu.

Láttu ekki röksemdir heimsins festa þig í snöru

10. Hvaða lífsspeki fylgdu Epíkúringar á fyrstu öld?

10 Margir samtíðarmenn Páls aðhylltust heimspeki Epíkúringa sem lifðu fyrir munað og skemmtun til að fullnægja skilningarvitunum. Þegar dauðinn gengur í garð, sögðu þeir, er allt búið hvað þig varðar. Hví ekki að hafa alla þá skemmtun sem hugsast getur út úr lífinu meðan þú lifir, því að á morgun gætir þú dáið.

11. Hvernig líkja margir nútímamenn eftir Epíkúringum í hugsun og hegðun?

11 Margir nútímamenn hafa sama viðhorf. Óskammfeilnir sökkva þeir sér niður í hvers kyns skemmtun og munað og hugsa lítið um hvaða áhrif hegðun þeirra hefur á aðra. Í þeirra hugum er Guð ekki til eða, ef hann er til, þá sýnir hann engin merki þess að hafa áhuga á athöfnum mannanna. Úr því að maðurinn er afsprengi þróunar — eins og þeir fullyrða — þá þurfa þeir í rauninni ekki að standa neinum nema sjálfum sér og þjóðfélaginu sem þeir búa í reikningsskap gerða sinna. Þeir finna jafnvel afsökun fyrir því að hegða sér eins og skepnurnar. Ef þær siðlausu athafnir, sem Biblían fordæmir, veita skilningarvitunum unað ber svo sannarlega ekki að fordæma þær. Hvers vegna að lifa í sjálfsafneitun og skapraun, hugsa slíkir menn, þegar við endum öll á sama stað — í gröfinni?

12, 13. (a) Hvaða hætta er á ferðum ef kristnir menn gera sig berskjaldaða fyrir veraldlegri hugsun? (b) Hver var undirrót vandans í Korintu? (c) Hvað ætti að gera til að koma í veg fyrir að eigingjörn lífsviðhorf nái tökum á okkur?

12 Athyglisvert er að sumir kristnir menn í Korintu virðast hafa látið slíkan hugsunarhátt hafa áhrif á sig. Þegar Páll skrifaði söfnuðinum þar viðurkenndi hann að ‚ef dauðir risu ekki upp‘ gætu verið viss rök fyrir algengu orðtaki þeirra tíma: „Etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!“ En hann flettir samstundis ofan af þessari villandi röksemdafærslu: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum. Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.“ — 1. Korintubréf 15:32-34.

13 Tökum eftir að Páll beinir athygli sinni að undirrót vandans hjá þessum kristnu mönnum í Korintu. Rangur hugsunarháttur þeirra stafaði af slæmum félagsskap. Við getum dregið lærdóm af því. Ef við erum ekki gætin getum við byrjað að hugsa sem svo að við ættum að smakka einhverja af hinni forboðnu skemmtun áður en við verðum of gömul til að njóta hennar eða áður en við deyjum. Ef við höfum einhverja tilhneigingu til að hugsa þannig þurfum við sem skjótast að breyta um hugsunarhátt. Hvernig? Mundu að þetta eigingjarna viðhorf virðir réttláta staðla Guðs að vettugi. Það ber vott um trúarskort á hin öruggu fyrirheit Guðs, þeirra á meðal upprisuvonina. Jafnvel frá hagsýnissjónarmiði leiða þeir sem lifa spilltu lífi yfir sig margs konar sorgir og erfiðleika. Til að sjá hlutina í réttu ljósi þurfa þeir að ‚vakna fyrir alvöru.‘ Þeir geta ekki hugsað rétt og skýrt ef þeir „hafa enga þekkingu á Guði.“

14. Hverjir munu ekki erfa blessun Guðsríkis en hvað viðurkenndi Páll um fyrrverandi líferni sumra?

14 Fyrr í bréfi sínu til kristinna manna sýndi Páll fram á að saurlífismenn, hjúskaparbrotsmenn, skurðgoðadýrkendur, kynvillingar, þjófar, ágjarnir, drykkjumenn, ræningjar og lastmálir, sem nóg var til af í Korintu, myndu ekki tilheyra ríki Guðs. Hann bætti við: „Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir.“ Að þeir skyldu vera hreinsaðir með þessum hætti sýndi fram á mátt orðs Guðs og upprisuvonarinnar. (1. Korintubréf 6:9-11) Það að snúa aftur út í óhreinleika hins gamla heims væri vissulega hámark heimskunnar!

15. Á hvaða kjarnmiklu máli lýsir Pétur aðstöðu þeirra sem snúa aftur til saurugra athafna þessa heims?

15 Pétur sagði: „Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra. Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: ‚Hundur snýr aftur til spýju sinnar,‘ og: ‚Þvegið svín veltir sér í sama saur.‘“ (2. Pétursbréf 2:20, 22) Hér er fast að orði kveðið! Kröftug orð eru þó stundum nauðsynleg til að undirstrika við okkur alvöru þeirra ráða sem verið er að gefa. Þessi aðvörun, sem gefin var kristnum mönnum á fyrstu öld, á enn meira erindi til okkar núna.

Við uppskerum það sem við sáum

16. Á hvaða vegu ‚uppskera menn eins og þeir sá‘ þegar þeir lifa spilltu lífi?

16 Kristnir menn sjá sannanir allt í kringum sig fyrir því að siðspillt og svallsamt líferni þessa heims sé skaðlegt, banvænt. (Rómverjabréfið 1:18-32) Hugsaðu um, aðeins á sviði kynferðismála, þær sorgir og þjáningar sem fylgja því þegar ekki er borin virðing fyrir lögum Guðs um siðferði: sundruð heimili, þunganir utan hjónabands, fóstureyðingar, nauðganir, kynferðisleg misnotkun barna og samræðissjúkdómar, svo aðeins sé stiklað á stóru. Þá er að nefna þau heilsuvandamál sem fylgja því þegar líkamanum er misþyrmt með óhófi í mat og drykk og neyslu fíkniefna. Láti menn ágirndina ná tökum á sér leiðir það oft til þjófnaðar og fjársvika. Það er tæplega til nokkurt brot á lögum Guðs sem hefur ekki í för með sér eitthvert líkamlegt eða tilfinningalegt tjón fyrir þann sem það gerir. Það er eins og Páll postuli minnti kristna menn á: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.“ — Galatabréfið 6:7, 8.

17. Hvers vegna ætti kristinn maður að láta áhugahvatir sínar koma sér til að lifa eftir réttlátum stöðlum Guðs?

17 Ritningin gefur okkur á hinn bóginn mjög veigamikil rök fyrir því að halda staðla Guðs. Orð Guðs segir réttilega: „Áreiðanlegur maður blessast ríkulega“! (Orðskviðirnir 28:20) Þeir sem hafa viðbjóð á svívirðilegu hátterni þessa heims umflýja hinar hræðilegu afleiðingar sem spillt líferni hefur. Þeir eiga hreint samband við bræður sína og systur og Guð sinn, Jehóva. Enn fremur hafa þeir hina dýrlegu von að hljóta að launum eilíft líf í nýjum heimi Guðs. Núna, þegar langt er liðið á endalokatíma þessa heimskerfis, hafa hinir ‚aðrir sauðir‘ jafnvel þá sérstöku von að lifa í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ og þurfa aldrei að deyja. Þeir hafa óbilandi trú á loforð Guðs þess efnis að reisa upp alla þá sem hvíla í minningargröfunum, ef dauðinn skyldi koma yfir þá fyrir þann tíma. (Jóhannes 5:28, 29; 10:16; Opinberunarbókin 7:14) Í ljósi alls þessa, hvers vegna skyldi nokkur maður einu sinni láta sér detta í hug eitt andartak að flækja sig í svívirðilegu hátterni þessa heims? — Rómverjabréfið 6:19-23; 1. Pétursbréf 4:1-3.

18. (a) Hvernig mun Jehóva fullnægja dómi sínum á ‚óguðlegum mönnum‘ í ‚þrengingunni miklu‘? (b) Hvernig lætur Jehóva í ljós dóm sinn í síðustu skráðum orðum sínum í Biblíunni?

18 Biblían sýnir greinilega að við lifum síðasta hluta þess sem hún kallar ‚enda veraldar,‘ eða endalok þessa heimskerfis. (Matteus 24:3) Pétur sagði að ‚þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymist eldinum og varðveitist til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.‘ (2. Pétursbréf 3:7) Þegar þessi langþráði reikningsskiladagur rennur upp mun sú staðhæfing að maðurinn geti farið sínu fram óháður Guði og að þessi siðlausa, ofbeldisfulla hegðun sé aðeins afsprengi þróunar, þyrlast burt eins og reykur í vindi. (Kólossubréfið 3:5, 6) Hlýddu á hvernig Guð lýsir sjálfur, í síðustu skráðum orðum í Biblíunni, hvernig fer fyrir þeim sem þjóna honum og þeim sem gera það ekki: „Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. . . . Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina. Úti gista hundarnir og töframennirnir og frillulífismennirnir og manndrápararnir og skurðgoðadýrkendurnir og hver sem elskar og iðkar lygi.“ — Opinberunarbókin 22:12-15.

19. Hver ætti að vera ásetningur okkar þegar við horfum til framtíðarinnar?

19 Um leið og siðferði þessa heims hrakar skalt þú vera einráðinn í að þóknast Jehóva með því að gera það sem er hreint, heiðvirt og rétt. Haltu áfram að keppa að þeim launum sem lífið er. Neitaðu að láta sogast út í „spillingardíki“ þessa heims sem er díki dauðans. Þú getur sigrað í baráttunni gegn spilltri hugsun ef þú hefur megnan viðbjóð á svívirðilegu hátterni heimsins!

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna er hættulegt að flækjast í svívirðilegu hátterni þessa heims?

◻ Hvers vegna þurfum við að vera mjög gætin í vali okkar á skemmtiefni?

◻ Hvaða banvænar röksemdir geta auðveldlega haft áhrif á okkur ef við leggjum lag okkar við Epíkúringa nútímans?

◻ Hver er dómur Jehóva yfir þeim sem snúa aftur iðrunarlausir út í svívirðilegt hátterni heimsins?

◻ Hvaða blessun eiga þeir í vændum sem halda sér hreinum af svívirðilegu hátterni þessa heims?

[Mynd á blaðsíðu 24]

Megn viðbjóður á svívirðilegu hátterni þessa heims hjálpar þjónum Guðs að fá inngöngu í nýjan heim réttlætisins.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Svívirðileg skemmtun heimsins getur fest kristinn mann í snöru ef hann gætir ekki að sér.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila